Færsluflokkur: Bloggar

Guðdómlegt góðgæti!

Fimmtudagurinn 28. ágúst 2014

Eftir nokkra vikna nammibindindi er ég nú byrjaður í sælgætinu aftur. Held ég sé þó ekki kominn nærri nálægt því daglega magni sem ég var í áður en ég hóf bindindið. Vonandi næg ég að hófstilla mig vel í þessu þrátt fyrir að vera ekki alveg til í að gefa allt sælgæti frá mér til langtíma, sérstaklega ekki súkkulaði.

Í dag áskotnaðist mér ein pakkning af uppáhalds sælgætinu mínu en það eru rauðar Lindt-kúlur. Ég var hreint alveg búinn að gleyma hvað þetta er alveg svakalega gott. Enda verður að viðurkennast að eftir að ég var búinn að stinga upp í mig fyrstu kúlunni var ekki aftur snúið og margar lágu hratt og vel í valnum þegar kvöldinu var lokið.

Lindt-kúlur eru framleiddar af samnefndu svissnesku súkkulaðifyrirtæki sem stofnað var 1845. Það framleiðir ýmsar súkkulaði tengundir sem fáanlegar eru hér á landi. Rauðu kúlurnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og verð ég nú bara að viðurkenna að hin síðari ár hef ég nú bara ekki fundið neitt jafngott. Fyrst keypti ég þetta alltaf í fríhöfninni en fyrir nokkru var þetta komið í sölu í helstu stórmörkuðum. Það skal hins vegar upplýst að rauðu kúlurnar bera af að mínu mati en í þeim er alveg dásamlega guðdómleg fylling. Svo eru til bláar kúlur úr dökku súkkulaði og nokkrir aðrir litir en það eru semsagt þessar rauðu sem bera höfuð og herðar yfir hinar.

Lindt 

Mynd dagsins er að rauðum Lindt súkkulaði kúlum sem ég rifjaði upp kynnin af í dag. Hrieint guðdómlegt góðgæti sem ég held að verði bara ekki toppað Cool 


Kynning á Krikaskóla

Miðvikudagurinn 27. ágúst 2014

Nú í kvöld fórum við Inga á kynningarfund fyrir foreldra í Krikaskóla. Eins og fram hefur komið hér, byrjaði prinsessan á heimilinu, Svandís Erla, í Krikaskóla hér í Mosfellsbænum nú fyrr í mánuðinum. Það var því gaman og fróðlegt að mæta á okkar fyrsta foreldrafund í þessum nýja skóla.

foreldrafundur Krikaskóla

Mynd dagsins er frá foreldrafundinum sem fram fór í Krikaskóla nú í kvöld. Mjög gaman að kynnast starfinu í þessum spennandi skóla sem er hér rétt við húsið hjá okkur og Svandís Erla mun að öllum líkindum dvelja í næstu 8 árin og jafnvel lengur


Gamli fer í golf!

Þriðjudagurinn 26. ágúst 2014

Það gerist nánast aldrei, eða varla einu sinni á ári að ég spila golf á alvöru golfvelli. Vinnu minnar vegna þarf ég stundum að taka þátt í spennandi púttmótum en að fara í alvöru golf geri ég sem sagt mjög sjaldan.

Í dag var ég þó plataður í einn golfhring með nokkrum góðum félögum. Lenti í blíðskaparsveðri en haldið var á Hamarsvöll við Borgarnes. Þar sem ég kann ekkert í golfi er ég yfirleitt bara mjög ánægður ef ég hitti kúluna sem gerðist nú öðru hverju. Golf er í raun og veru mjög skemmtileg íþrótt en það sem heldur mig frá golfi er tíminn sem fer í sportið. Ég hef því aldrei stundað golf eða gefið mér tíma í að prófa þetta almennilega. Líklega kemur nú að því einn daginn að ég helli mér að alvöru í golfið en það verður ekki alveg strax.

Hamarsvöllur

Mynd dagsins er frá golfvellinum Hamarsvelli við Borgarnes sem líklega er frægastur fyrir að þar er stærsta kókdós á Íslandi. Þarna var ég í dag og brá mér aðeins í golf en það geri ég mjög sjaldan - en mjög gaman Smile 


Jóga!

Mánudagurinn 25. ágúst 2014

Já - þá er maður byrjaður í jóga! Í nokkur ár hefur verið á dagskrá hjá mér að fara að stunda jóga. Síðasta vetur prófaði ég aðeins en nú er ég kominn á formlegt námskeið hjá jógastöðinni Heilsubót. Fyrsti tíminn var einmitt í kvöld og næstu 8 vikurnar verð ég einu sinni í viku. Svo er hægt að gera heimaæfingar af netinu.

Tilgangur er jú - að læra tækni sem stuðlar að betri líkamlegri heilsu, kyrrir hugann og kemur jafnvægi á tilfinningar með því markmiði að ná fullkomnu jafnvægi á líkama og sál í daglegu lífi. Ég er nú ekki mikill sérfræðingur í jóga-fræðum en þar eru ýmsar tengundir eða afbrigði. Hjá mér, er nú markmiðið (amk til að byrja með) að tengja saman öndun og hreyfingar til að ná betri stýringu á huganum og dýpka innri skynjun. Göfugt markmið sem gaman verður að glíma við!

Jóga

Mynd dagsins er að undirrituðum komnum í jóga en í kvöld byrjaði ég á spenndi námskeiði til að kynnast þessum fræðum aðeins en ég hef lengi stefnt að því.  


Djei Tí and mí - og 17.000 aðrir....

Sunnudagurinn 24. ágúst 2014

Það er ekki hægt að segja annað en að hápunktur dagsins hafi verið feðgaferð á tónleika stórstjörnunnar Justin Timberlake í Kórnum í Kópavogi í kvöld. Þá fór ég ásamt sonunum Magnúsi og Ágústi og ca 17.000 öðrum til að sjá stórstjörnuna dansa og syngja. Það er ekki oft sem erlendar poppstjörnu koma til Íslands á hátindi ferilsins en Justin Timberlake er einmitt í þeim sporum svo ákveðið var að við feðgar myndum slá til og taka þátt í veislunni.

Samkvæmt fréttum eru þetta með stærri tónleikum sem haldnir hafa verið á Íslandi og voru bara hin ágætasta skemmtun. Ég get ekki sagt að ég þekki feril kappans til hlítar en þónokkur lög þekkir maður ágætlega. Maðurinn er greinilega mikill fagmaður og yfirvegaður. Hann mætti á svið á slaginu kl 21 og hinn hressasti - samt alveg laus við hroka eins og sumir popparar vilja verða. Justin er líka mjög fjölhæfur því fyrir utan að syngja er hann afbragðsdansari og getur spilað á píanó og gítar. Með honum var fjöldi flottra hljóðfæraleikara og dansara þannig að úr varð ágætis sýning án þess að verða einhver vitleysa.

DSC01957

Mynd dagsins er tekin á tónleikum Justin Timberlake í Kórnum í kvöld þar sem við feðgarnir áttum flotta stund ásamt um 17.000 öðrum. Justin, sem notar skammstöfunina JT nokkuð mikið, var með flotta tónleika þannig að úr varð mjög skemmtileg og eftirminnileg skemmtun. Við náðum nokkrum fínum myndum (sjá facebook) og þetta er ein þeirra sem vonandi gefur innsýn í fjör kvöldsins Smile


Menningarnótt og maraþon!

Laugardagurinn 23. ágúst 2014

Þá er það stóri dagurinn, menningarnótt í höfðuborginni! Það var nóg að gera hjá okkur í fjölskyldunni í dag, fyrir utan að vera með nokkra góð gesti í næsturgistingu um helgina.

Við Inga vorum vökuð upp úr 6:30 til að byrja borða, en markmið dagsins hjá okkur var að klára 21,1 km hlaup (hálf-maraþon) í Reykjavíkurmaraþoninu sem hófst kl 8:40. Hlaupaveðrið var frábært og bæði kláruðum við hlaupið með stæl og náðum við okkar tímamarkmiðum. Systur Ingu, þær Guðrún og Jóna, hlupu báðar 10 km og Magnús Árni tók þátt í 3 km hlaupinu.

Eftir að hafa baðað okkur vel og rækilega eftir hlaupin var farið í bæinn og þar áttum við góðan tíma langt fram á kvöld, þó aðaltíminn hafi farið í að rölta um, sýna sig og sjá aðra.

 DSC01838

Mynd dagins er af okkur Ingu þar sem við erum komin í mark eftir flott og skemmtilegt hálf-maraþon. Svo fylgja aukamyndir af Magnús Árna sem komin er í mark í sínu hlaupi, Svandísi og Magnúsi að fá sér svaladrykk á Laugaveginum og loks systrum Guðrúnu, Ingu og Jónu í Hljómskálagarðinum. Mjög skemmtilegur dagur og kvöld Grin 

DSC01852 DSC01868DSC01889


Tumi smíðar hús!

Föstudagurinn 22. ágúst 2014

Það er ótrúlega gaman að sjá hvað ótrúlegustu bókamenntaverk geta orðið klassík. Þegar ég var pínulítill gaf bókaútgáfan Iðunn út nokkrar stuttar og einfaldar barnabækur eftir sænska rithöfundinn Gunillu Wolde. Þessar bækur voru mjög vinsælar hjá allra yngstu kynslóðinni en þar voru helstu hetjurnar Tumi og Emma sem voru að gera eitthvað skemmtilegt í hverri bók.

Þessar bækur eru alls ekki dauðar úr öllum æðum því hér á heimilinu hafa þessar gömlu bækur verið í miklum metum hjá heimasætunni, Svandísi Erlu, en Svandís er svo heppinn að báðir foreldrarnir komu með nokkrar af þessum bókum í heimanmund. Ég man að "Tumi smíðar hús" og "Tumi fer til læknis" voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Emma er þó vinsælust hjá Svandísi og eru bækurnar "Emma fer í leikskóla" og "Emma og litli bróðir" langmest lesnar.

emma

Mynd dagsins er af Svandís Erlu með uppáldsbækurnar sínar um þessar mundir - sem eru bækurnar um Tuma og Emmu eftir sænska rithöfundin Gunillu Wolde. Þessar bækur voru vinsælar fyrir um 40 árum og virðast ennþá halda sínum sjarma -eru því orðnar klassík Smile


"Týndi" sonurinn kominn heim!

Fimmtudagurinn 21. ágúst 2014

Í blíðunni í kvöld héldum við mikla grillveislu hér á heimilinu. Tilefnið var ekki bara það að Guðrún mágkona var í heimsókn, heldur var líka von á Ingimar tengdapabba í mat og ekki síður Rúnari Inga (syni Jónu mágkonu) og Örnu kærustunni hans, en Rúnar er nú fluttur í höfuðborgina til að hefja nám í Háskóla Íslands. Rúsínan í pylsuendanum var svo heimkoma frumburðarins á heimilinu, Ágústar Loga, sem nánast flutti að heiman í sumar þar sem hann var að vinna út á landi.

Í dag var semsagt síðasti vinnudagur Ágústar í sumarvinnunni en hann hefur starfað í sumar í blómarækunarstöðinni Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum. Espiflöt er ein af stærstu (ef ekki sú stærsta) blómaræktunarstöðvum landsins. Vegna þessa hefur Ágúst búið hjá Ingimar afa sínum í sumar en hann býr einmitt í Reyholti. Sambúðin hefur gengið mjög vel að sögn þeirra beggja en þó hefur Ágúst verið duglegur að koma heim um helgar og einstaka kvöld til að hitta fjölskyldu og vini.

Eins og sönnum herramanni sæmir færði Ágúst Logi mömmu sinni auðvitað blómvönd við heimkomuna og það var glatt á hjalla í grillveislu kvöldsins. Skólinn hefst svo hjá dregnum strax í fyrramálið.

blómadrengur

Mynd dagins er af blómadreng heimilisins nú í kvöld með blómvöndinn sem hann færði mömmu sinni. Vegna vinnu sinnar í blómræktunarstöðinni Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum, þurfti Ágúst Logi nánast að flytja að heiman í sumar. Í dag var síðast vinnudagurinn og skólinn byrjar á morgun. Dregurinn flutti því heim aftur í dag og því var fagnað með flottri grillveislu og góðum gestum Cool

 


Stjörnuskinið ekki nógu skært

Miðvikudagurinn 20. ágúst 2014

Í kvöld var stór dagur í knattspyrnusögu okkar Íslendinga þegar stórlið Inter Mílanó mætti á Laugardagsvöll til að etja kappi við lið Stjörnunar úr Garðabæ. Þar sem ég er nú mikill áhugamaður um knattspyrnu var ég nokkuð spenntur að fara á þenna leik en þar sem uppselt varð á leikinn á stuttum tíma varð ekkert af því. Í staðinn fór ég með Magnúsi Árna á sport-barinn hér í Mosfellsbænum, Hvíta riddarann. Þar var fullt út úr dyrum eins og oftast er þegar stórleikir í knattspyrnu fara fram því þarna er hægt að horfa á leiki á breiðtjöldum í öllum hornum og borða og/eða drekka eitthvað gott með.

Eins og við var að búast var leikurinn mjög erfiður fyrir Garðbæingana sem hreinlega mættu þarna ofjörlum sínum á knattspyrnusviðinu. Það er svo sem enginn skömm, því Inter Milan er eitt að stærstu liðum í Evrópu og ætti að hafa heimsklassa leikmenn í hverri stöðu. Þrátt fyrir 0-3 tap stóð Stjarnan sig vel í leiknum og er aldeilis búin að standa sig vel í Evrópuleikja-törnininni sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Til hamingju með flottan árangur Stjörnumenn!

Það er ekki oft sem stórlið knattspyrnunnar koma til Íslands. Við þennan leik rifjast upp mjög eftirminnilegur leikur Skagamanna gegn hollenska liðinu Feyenord sem fram fór á Laugardagsvellinum 1993. Þá stóðu Skagamennirnir heldur betur í Hollensku snillingunum og voru bara betri í leiknum ef eitthvað var. Það fór líka svo að okkar menn sigruðu 1-0 með eftirminnilegu marki frá jaxlinum Óla Þórðar. Eftir þennan sigur greip um sig mikið æði og hátt í 1.000 Íslendingar mætti á seinni leikinn í Hollandi. Sjálfur fór ég í eftirminnilega sólahringsferð á leikinn þar sem flugvél var fyllt af íslenskum fótboltaáhugamönnum sem flugu til Hollands snemma að morgni, áttu gott bæjarrölt yfir daginn, fóru á leikinn um kvöldið og svo var flogið heim upp úr miðnætti. Því miður áttu okkar menn lítinn séns í seinni leiknum og töpuðu. En stemningin í ferðinni og vellinum var engu lík. Mér er til efs að nokkru sinni hafi verið sungið jafn mikið á íslenskum fótboltaleik en á svæðinu sem ég sat á var stór hópur fólks sem söng allan tíman ýmis íslensk lög; rétt eins og maður væri staddur á Brekkusöngnum í Eyjum á Þjóðhátíð. 

Stjarnan

Mynd dagsins er tekin á veitingahúsinu Hvíta riddaranum hér í Mosfellbænum í kvöld þar sem við Magnús Árni fórum og horfðum á merkilegan knattspyrnuleik Stjörnunar úr Garðabæ við stórliðið Inter Milan sem fram fór á Laugardagsvellinum. Mílanóbúarnir voru því miður einhverjum númerum of stórir fyrir Garðbæingana en engu að síður var leikur bara hin ágætasta skemmtun. 


Ísland sigrar Spán!

Þriðjudagurinn 19. ágúst 2014

Undanfarna daga höfum við verið með tvo skemmtilega gesti á heimilinu. Það eru annars vegar Guðrún, systir Ingu sem býr í Þýskalandi, og hins vegar spænskur vinur hennar sem heitir Severo. Severo hefur dvalið á Íslandi í rúma viku og er hér á landi í fyrsta skipti.

Severo kvaddi okkur í dag og hélt til síns heima í aðeins meiri hita en við gátum boðið honum upp á í Íslandsferðinni (hann er frá Alicante) Cool Hann er þrátt fyrir það hinn ánægðasti með land og þjóð og segist aldrei verða "samur" eftir að hafa verið út í íslensku náttúrunni.

Severo er mikill borðtenniskappi og var auðvitað settur í að spila borðtennis við ýmsa fjölskyldumeðlimi meðan á dvöl hans stóð. Hann kenndi Magnús Árna ýmsa snúninga og trix sem ekki hafa sést hér í húsinu áður. Líklega fyrir kurteisis sakir leyfði hann borðtennismeistara heimilisins, Ingu, að vinna sig í óopinberum landsleik í borðtennis milli Íslands og Spánar. 

DSC01816

Mynd dagins er tekin í óopinberum borðtennislandsleik Íslands og Spánar sem fram fór í dag. Þarna eru Inga (Ísland) og Severo (Spánn) á fullu að keppa en Guðrún systir Ingu og Magnús Árni fylgjast kampakát með - og auðvitað vann Ísland (minnir okkur) Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband