30.9.2014 | 21:28
Dagbókin í frí!!
Þá er nokkuð liðið inn í september og hér með fer ljósmyndadagbókin aftur í frí.
Þessi lota hófst þann 31. maí s.l. og markmiðið var að ná allt að 4 mánuðum í þetta skiptið. Ég er bara mjög ánægður með afraksturinn en tilgangurinn er eins og kemur annars staðar fram á síðunni að birta á degi hverjum eina mynd af einhverju jákvæðu sem gerðist þann daginn. Þegar maður leitar að slíku er alltaf að nógu að taka.
Þetta er hins vegar orðið ágætt í bili en ómögulegt er að segja hvenær dagbókin fer í gang aftur.
Njótið lífsins og munið að það er alltaf fullt af jákvæðum og skemmtilegum hlutum í kringum okkur - við þurfum bara að vilja sjá þá
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2014 | 23:28
Vísiterað í Vatnshelli
Laugardagurinn 6. september 2014
Í dag fór ég í mjög skemmtilega ferð um Snæfellsnes, en ferðin var sameignleg ferð Starfsmannafélaga Hrafnistu í Reykjavík og Kópavogi.
Leiðin lá fyrst á Hellnar þar sem hópnum var skipt upp. Sumir kusu að hafa það gott á Hellnum, meðan aðrir fengu sér göngutúr frá Arnarstapa að Hellnum (um 3 km) og enn aðrir fóru í hellaskoðun í Vatnshelli sem er þarna skammt frá.
Sjálfur valdi ég að fara að skoða Vatnshelli. Ég hef reyndar komið í hann áður, fljótlega eftir opnun, en þetta er mjög gaman. Vatnshellir er hraunhellir yst á Snæfellsnesi, alveg við þjóðveginn. Hraunið og hellirinn eru talin vera 7-8 þúsund ára gömul. Hellirinn er um 200 metra langur á nokkrum hæðum og komið hefur verið fyrir tveimur hringstigum á milli þeirra þannig að auðvelt er að ferðast um. Dýpstur er hellirinn um 35 metrar og búið er að hreinsa gólfið nokkuð sem gerir gönguna um hellinn auðveldari. Það má þó aðeins fara í hellinn í fylgd með leiðsögumönnum og gerir það ferðina bara miklu fróðlegri því leiðsögumaður okkar í dag var mikill viskubrunnur um jarðsögu, jarðlög, eldgos og ýmsar hamfarir Íslandssögunnar.
Eftir hellaskoðun voru Djúpalónssandur og Dritvík heimsótt en útivera í ferðinni varð nú í minna mæli en áætlað var vegna verðurs (rigning og þoka). Það varð því úr að keyrt var fyrir Snæfellsnesið og alveg yfir í Stykkishólm þar sem snæddur var kvöldverður áður en keyrt var í höfuðborgina aftur með hópinn.
Mynd dagsins er tekin í hellaskoðunarferð í Vatnshelli á Snæfellsnesi í dag en þar var ég í skemmtilegu ferðalagi. Ég var nú ekki með neina spes myndavél til hellamyndatöku en vonandi skilar þetta samt aðeins stemningunni sem var. Þarna erum við komin niður á um 35 metra dýpi og auðvitað er kolniðamyrkur. Allir fá hjálm og ljós sem gerir þetta allt ákveðið spennandi en þó gaman sé að glápa um allan helli þarf maður að passa vel hvar maður stígur þar sem maður er jú inn í helli en ekki á gangstétt. Skoðunarferð í Vatnshelli er mjög skemmtileg fyrir alla fjölskylduna og hreint magnað ævintýri að koma þarna niður
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2014 | 23:13
Hvalstöðin í Hvalfirði
Föstudagurinn 5. september 2014
Af ýmsu skemmtilegu sem ég gæti skrifað um í dag held ég að staðið hafi upp úr að seinni partinn í dag fórum við Inga inn í Hvalfjörð og nýttum okkur heimboð sem við áttum þar. Það var að fá að skoða starfsemi Hvalstöðvarinnar sem þar hefur verið í áratugi.
Í gamla daga þótti sjálfsagt að ferðalangar um Hvalfjörð stoppuðu í Hvalstöðinni ef verið var að draga hval á land og fylgdust með vinnslu hans. Eftir að hvalveiðibann var hér í 22 ár er reyndin önnur og svæði Hvals hf. í Hvalfirði er alveg girt af og öll umferð bönnuð. Þó ég muni eitthvað eftir að hafa sem barn fylgst með í Hvalstöðinni þegar hvalur var dreginn að landi, var mjög spennandi að þiggja boð um að fá að fylgjast með því gerast nú eftir að maður fullorðnaðist.
Eftir því sem mér skilst er nú leyfi til að veiða 150 hvali og eru afurðirnar seldar til Japans. Vertíðin er í um 100 daga og þá er mikið líf og fjör í Hvalfirðinum. Fjöldi fólks starfar á vöktum allan sólarhringinn við veiðar og vinnslu alla vertíðina og er þetta allt umfangsmeira en mér hafði nokkurn tímann dottið í hug. Vinnsla á nýveiddum hval var í fullum gangi þegar við komum og mjög forvitnilegt var að fylgjast með vinnslunni á ýmsum stigum og sjá þá nýju og gömlu tækni sem notuð er. Starfsemin er með eigin hitaveitu og margt fróðlegt bar þarna á góma í dag; allt frá veiðarfærum og verbúðum yfir í vinnslu og smökkun.
Mynd dagsins er af Hvalstöðinni í Hvalfirði sem við Inga skoðuðum í dag. Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á hvalveiðum var mjög skemmtilegt og fróðlegt að fá að kynnast þeirri miklu starfsemi sem þarna fer fram en fæstir vita af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2014 | 22:59
Bæjarstjórnin bökuð!
Fimmtudagurinn 4. september 2014
Eftir hádegið í dag tók ég þátt í skemmtilegum viðburði í vinnunni. Þá fór fram árlegt púttmót milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og heimilisfólks á Hrafnistu í Hafnarfirði. Keppt er um farandbikar og skemmst er frá því að segja að mitt fólk hefur alltaf unnið.
Þrátt fyrir að ný bæjarstórn hafi verið kosinn í Fjörðinn í vor og hún hafi mætt með nýjan bæjarstjóra fremstan í flokki til þessarar keppni (eitt hans allra fyrsta embættisverk) urðu engin óvænt úrslit nema þá helst að sigur Hrafnistu hafi verið óvenju stór þetta árið. Við áttum nefnilega þrjú efstu sætin í bæði karla- og kvennaflokki og þar með farandbikarinn vísan en eitt árið.
Dagurinn var hins vegar hinn ánægjulegasti og veðrið var ljómandi fínt. Auðvitað er þetta allt til gamans gert og allir skemmtu sér vel.
Mynd dagsins er af undirrituðum og Haraldi, nýjum bæjarstjóra Hafnarfjarðar, að takast á um farandbikarinn sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar og heimilsfólk Hrafnistu keppa um árlega í púttmóti. Venju samkvæmt var bæjarstjórnin bökuð í þessri keppni og bikarinn er enn eitt árið geymdur á Hrafnistu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 11:59
Þorláksbúð!
Miðvikudagurinn 3. september 2014
Rétt eins og seinni hluta gærdagsins, varði ég fyrri hluta dagsins í dag í Skálholti (sjá færslu gærdagsins). Eitt umdeildasta mannvirki á Íslandi hin síðari ár er svokölluð Þorláksbúð, sem lokið var við að reisa árið 2012 í Skálholti.
Ekki veit ég forsöguna vel en Þorláksbúð virðist upprunalega hafa verið skemma á Skálholtssvæðinu líklega reist um kringum árið 1600. Þetta mannvirki hefur ekki verið skoðað nákvæmlega af fornleifafræðingum og er því eitt af þeim gömlu mannvirkjum á Skálholtsvæðinu sem eftir á að rannsaka. Fyrir nokkrum árum tók félagsskapur sem nefnist Þorláksbúðarfélagið, sig til og reisti tilgátuhús sem kallað er Þorláksbúð í landi Skálholts, rétt við Skálholtsdómkirkjuna.
Það sem er líklega sérstakt við þetta er að afar fáir kannast við að leyfi hafið verið gefið út til byggingarinnar og fjölmargir eru mjög ósáttir við þessa framkvæmd. Þar í flokki eru arkitektar, fornleifafræðingar og fjöldi aðila innan kirkjunnar. Gagnrýnin beinist bæði að staðsetningu Þorláksbúðarinnar sem ýmsum þykir eyðileggja heildarmyndina á Skálholtssvæðinu og núverandi staðsetning er ofan á töluverðum fjölda grafa sem ennþá á eftir að rannska. Ekki síður er húsið sjálft gagnrýnt þar sem sumir vilja meina að það líkist hýbýlum höfðingja frá 13. öld frekar en skemmu á 16. öld. Fjöldi aðila hefur komið að þessum deilum og margar blaðagreinar verið ritaðar sem ekki sér fyrir endan á ennþá.
Ekki ætla ég að blanda mér í þessar deilur eða taka afstöðu i því máli. En ennþá stendur nú Þorláksbúðin sjálf á sínum stað og þar sem ég var staddur í Skálholti fannst mér tilvalið að skoða þetta fræga mannvirki.
Mynd dagsins er af Þorláksbúð, hinu umdeilda mannvirki í Skálholti. Ég var þar á fundi í Skálholti fyrri hluta dagsins og gat ekki sleppt því að kíkja á Þoláksbúðina, sérsaktlega ef það verður búið að rífa hana þegar ég kem næst í Skálholt. Ég stend þarna fyrir framan Þorláksbúðina og til hægri má sjá í Skáholtskirkjuna. Gaman að skoða þetta þó ég hafi ekki neinn sérstakan áhuga að kynna mér til hlýtar þær deilur sem um þetta hafa staðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 11:27
Friðsældin í Skálholti
Þriðjudagurinn 2. september 2014
Eftir hádegið í dag fór ég á skemmtilegan fund tengdan vinnu minni sem fram fór í Skálholti. Skálholt er auðvitað merkisstaður í Íslandssögunni og hægt að skrifa langan pistil um það.
Hins vegar er magnað hvað það er sérstakt andrúmsloft á þessum stað. Ég hef komið þarna u.þ.b. einu sinni á ári í nokkur ár til þessa sama fundar og alltaf upplifir maður þetta sérstaka andrúmsloft. Það fellst kannski helst í óvenjulegri ró og kyrrð og einstakri friðsæld, sem einhvern veginn skapast þarna. Alla vega fyrir mig sem er alltaf á fullu og alltaf að flýta mér, er alveg einstakt að koma í friðsældina í Skálholti og drekka í mig kyrrðina.
Mynd dagsins er fengin að látni af fréttavef Suðurlands og sýnir Skálholtsvæðið. Kirkjan (til hægri á myndinni) er auðvitað helsta kennileitið en húsþyrpingin til vinstri er Skálholtsskóli. Þar er meðal annars að finna fundarsal, setustofur, borðsal og eldhús en auk þess er gisting þarna fyrir 40-50 manns í tveggja manna herbergjum. Í dag var ég þarna á fínum fund í friðsældinni í Skálholti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 11:12
Aftur í rútínuna...
Mánudagurinn 1. september 2014
Í dag er komin september og þá má kannski formlega segja að sumarið sé búið. Að minnsta kosti var ákveðið hjá mér að dagurinn í dag markaði upphafið að því að koma vetrarrútinunni í gang aftur. Síðustu ár hef ég reynt að halda mér í þeim síð að koma mér í rúmið ekki seinna en kl 23 á virkum dögum. Það er svo ég getið vaknað snemma (rétt fyrir kl 6), skellt mér í ræktina og verið kominn heim um kl 7:30 þegar aðrir heimilismenn eru að vakna. Þetta tekst auðvitað misvel en virðist - amk fyrir mig - vera eina ráðið til að ég mæti skipulega og reglulega í ræktina. Auðvitað tekst þetta ekki alltaf en þá daga sem þetta gengur upp finn ég mikinn mun á mér; er miklu ferskari og hressari á daginn ef ég hef náð smá morgunhreyfingu.
Á sumrin, fer þetta hins vegar allt í vitleysu af ýmsum orsökum og því byrjaði sem sagt vetrarrútínan i dag. Mynd dagsins er þessu skemmtilega klukkuspili sem minnir mann á að lífð er að komast aftur í vetrarrútínuna og það er líka bara mjög gott
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 11:00
Þegar ég hitti Don Carlo....
Mánudagurinn 31. ágúst 2014
Þessa dagana er Íslenska óperan að auglýsa frumsýningu og sýningar á óperunni Don Carlo. Þó ég sé alls ekki mikill óperuunnandi get ég nú samt sagt mér til frægðar að hafa séð þessa merki óperu - og það í fullri lengd!
Sögunni af því ætla ég að deila hér. Fyrir um 10 árum var ég á nokkra daga stórri ráðstefnu í Vínarborg. Það er svosem ekkert sérstaklega í frásögur færandi nema það að við vorum 3-4 saman af um 15-20 Íslendingum á ráðstefnunni, sem vorum nú á því að gerast menningarleg og fara á óperusýningu víst maður væri nú staddur í þessari miklu borg menninga og lista. Verkið sjálft var ekki aðalmálið heldur bara að fá að koma inn í hið glæsilega aðalóperuhús borgarinnar (Wiener Staatsoper) og sjá sýningu þar. Eftir að hafa skoðað sýningar í boði þá daga sem við dvöldum í borginni, kom í ljós að sýningar voru kl 20 á kvöldin nema einn daginn, þá var hægt að fara á sýningu sem byrjaði kl 17. Án þess að skoða málið neitt sérstaklega voru keyptir miðar á þessa seinniparts-sýningu svo við yrðum búin snemma og gætum hitt hina Íslendingana í sameiginlegum kvöldverði um kvöldið og notið kvöldsins með þeim.
Eftir að hafa mætt snemma og skoðað hið glæsilega og íburðamikla óperuhús voru við ekki fyrr sest í tignarleg stúkusæti (húsið er allt meira og minna í litlum stúkum) en stjórandi óperuhússisns steig á svið og bauð fólk hjartanlega velkomið á þessa sérstöku viðhafnarsýningu af óperunni Don Carlo - í fullri lengd! Ef ég man söguna rétt þá var þetta svona:
Hið ítalska stórskáld, Verdi, samdi þessa metnaðarfullu óperu árið 1867 og þá á frönsku. Eftir frumsýninguna fékk verkið ekki góða dóma og skáldið móðgaðist eitthvað og tók óperuna strax úr sýningu. Hann gerði svo stytta útgáfu á ítölsku sem frumsýnd var stuttu seinna og fékk mun betri dóma. Sú útgáfa er einmitt útgáfan af Don Carlo sem óperuhús um allan heim hafa sýnt síðan þá. Nema þarna fyrir þessum 10 árum eða svo, þá datt Vínaróperunni semsagt í hug að setja upp frumútgáfuna á frönsku, í fullri lengd í fyrsta skipti í rúm 100 ár og vildi svo "skemmtilega" til að ég var staddur á einni slíkri "hátíðarsýningu". Þar var komin skýringin á því hvers vegna sýningin byrjaði kl 17 en ekki kl 20 eins og hina dagana. Þetta var semsagt ekki alveg planið að fá nánast tvöfalda sýningu beint í æð. Við hlógum samt mikið þegar þetta uppgötvaðist og ákváðum í einhverju þrjóskukasti að klára pakkan og sitja allan tímann víst við værum mætt. Það krafðist hins vegar mikillar þolinmæði því að lítil textavél fyrir framan mig í sætinu (sýndi enskan texta á því sem fram fór) bilaði fljótlega eftir að sýningin hófst og ég skil ekki orð í frönsku. Auk þess voru 3 eða 4 hlé í sýningunni og engin matur í boði nema þú hefðir pantað hann fyrirfram. Eftir að hafa borða allan súkkulaðilagerinn á barnum í álmunni þar sem við vorum, sent öllum hugsanlegum vinum og vandamönnum SMS og heyrt hvað væri að frétta af þeim (þetta er fyrir daga facebook og nets í símum) og löngu búinn að missa þráðinn í sýningunni, sluppum við út frá Don Carlo rétt fyrir miðnætti og náðum að taka einn drykk með öðrum Íslendingum á ráðstefnunni, sem rétt eins við - hlógu mikið af þessari svaðilför.
Verði ég spurður hvort ég ætli að sjá Don Carlo hjá Íslensku óperunni mun ég sjálfsagt slá um mig og segja að ég sé ekki alveg viss, þar sem ég sé einn af fáum Íslendingum sem hafi séð hana í fullri lengd á frönsku og hafi af því áhyggjur hvort íslenska útgáfan verði bara ekki vonbrigði eftir þá minningu
Mynd dagsins er fengin að láni úr netheimum og er úr ríkissóperunni í Vínarborg sem ég dvaldi í drykklangastund fyrir nokkrum árum og naut þess að sjá hina miklu óperu Verdis, Don Carlo sem Íslenska óperan ætlar að setja upp á næstunni. Það er alveg lífreysla og hreint magnað að koma inn í þetta hús.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2014 | 22:24
Afmæli á bæjarhátíð!
Laugardagurinn 30. ágúst 2104.
Í dag er bæjarhátíð Mosfellsbæjar, "Í túninu heima", í algleymi. Það stendur því mikið til en auk hefðbundinnar dagskrár verður götugrill hjá okkur. Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að húsfreyjan á heimilinu, á afmæli í dag þó hún sér reyndar að vinna frá kl 8-20.
Dagurinn hófst reyndar mjög snemma eða kl 04:15. Þá var afmælisbarnið vakið af öðrum fjölskyldumeðlimum með söng, gjöfum, afmælisköku og blómum. Við höfum þann skemmtilega fjölskyldusið að þeir sem eiga afmæli eru alltaf vaktir af hinum fjölskyldumeðlimunum með söng, gjöfum, kertum og kökum. Ástæðan fyrir þessum ókristilega vakningatíma í dag var sú að ég tók að mér að skutla fumburðinum, Ágústi Loga, og Arnari vini hans út á flugvöll þar sem þeir héldu af stað í 4 daga ævintýraferð til Kaupmannahafnar. Afmælissöngurinn tókst vel og meðan við feðgar reyndum til Keflavíkur sofnuðu aðrir fjölskyldumeðlimir vært aftur.
Þegar leið á daginn fór ég með Magnúsi Árna og Svandísi Erlu að kíkja á nokkra dagskrárliði bæjarhátíðarinnar, meðal annars að smakka nokkra kjúklingarétti. Við vorum svo komin heim í götuna seinni partinn en þá komu nágrannarnir saman og héldu götugrill í blíðunni með miklum glans. Búið að var að setja upp tjald yfir borðhaldið en auk þess var börnunum boðið upp á risa hoppukastala og kandíflosvél var á staðnum. Þetta tókst allt ljómandi vel og gaman var að hitta nágrannana.
Um kvöldið var svo afmælisbarnið komið heim aftur og þá var haldið á glæsilega stónleika á bæjartorginu hér í Mosó þar sem Pollapönk, Páll Óskar, Diddu, Jógvan og Kaleo komu fram ásamt fleirum. Þar sem Magnús Árni var frekar slappur eftir brot gærdagsins (sjá færslu gærdagsins) og Svandís Erla hafði mestan áhuga á að sjá Pollapönk (burtu-með-fordóma-mennina) fórum við snemma heim af tónleiknum og nutum afmæliskvöldsins í rólegheitum.
Mynd dagsins er af Ingu afmælisbarni dagsins með Svandísi Erlu í fanginu. Þarna eru við á stórtónleikum á bæjartorginu í tilefni af bæjarhátíðinni "Í túninu heima" sem fram fór um helgina. Svo verður auðvitað að hafa eina mynd úr götunni en þarna er verið að undirbúa götugrillveislu dagsins sem fram fór í blíðskaparveðri. Skemmtilegur dagur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2014 | 21:48
Magnús meiðir sig!
Föstudagurinn 29. ágúst 2014
Í dag og morgun er bæjarhátíðin í Mosfellsbæ, "Í túninu heima" í fullum gangi. Spennandi dagskrá í boði en einnig stendur mikið til í götunni okkar. Síðasta haust fluttum við fjölskyldan milli hverfa hér í Mosó og því erum við flutt úr "gula hverfinu" yfir í "bleika hverfið".
Inga tók að sér að skreyta húsið í tilheyrandi litum í dag. Hún var rétt byrjuð þegar símtal barst frá skólanum um að Magnús Árni hefði aðeins slasast í fótbolta í frímínútum. Eftir að hafa sótt piltinn var ákveðið að heimsækja slysó og þá kom í ljós að brot var í beini á hægri hendi. Magnús var því gifsaður. Hann var pínu svekktur að ekki var til bleikt gifs (í stíl við hverfislitinn á bæjarhátíðinni) en úr var að hann valdi rautt gifs í staðinn. Þar sem Magnús var nokkuð slappur eftir þetta alltsaman var pöntuð pizza og fjölskyldan tók kvöldið rólega heima í stað þess að skunda í Ullarpartý bæjarhátíðarinnar eins og stefnt hafði verið að.
Mynd dagsins er "selfie" sem Magnús Árni tók af sér með gifsið á hendinni eftir ferð á slysó í dag. Hann var í fótbolta og datt illa en vonandi verður hann bara fljótur að ná sér!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)