Þegar ég hitti Don Carlo....

Mánudagurinn 31. ágúst 2014

Þessa dagana er Íslenska óperan að auglýsa frumsýningu og sýningar á óperunni Don Carlo. Þó ég sé alls ekki mikill óperuunnandi get ég nú samt sagt mér til frægðar að hafa séð þessa merki óperu - og það í fullri lengd!

Sögunni af því ætla ég að deila hér. Fyrir um 10 árum var ég á nokkra daga stórri ráðstefnu í Vínarborg. Það er svosem ekkert sérstaklega í frásögur færandi nema það að við vorum 3-4 saman af um 15-20 Íslendingum á ráðstefnunni, sem vorum nú á því að gerast menningarleg og fara á óperusýningu víst maður væri nú staddur í þessari miklu borg menninga og lista. Verkið sjálft var ekki aðalmálið heldur bara að fá að koma inn í hið glæsilega aðalóperuhús borgarinnar (Wiener Staatsoper) og sjá sýningu þar. Eftir að hafa skoðað sýningar í boði þá daga sem við dvöldum í borginni, kom í ljós að sýningar voru kl 20 á kvöldin nema einn daginn, þá var hægt að fara á sýningu sem byrjaði kl 17. Án þess að skoða málið neitt sérstaklega voru keyptir miðar á þessa seinniparts-sýningu svo við yrðum búin snemma og gætum hitt hina Íslendingana í sameiginlegum kvöldverði um kvöldið og notið kvöldsins með þeim.

Eftir að hafa mætt snemma og skoðað hið glæsilega og íburðamikla óperuhús voru við ekki fyrr sest í tignarleg stúkusæti (húsið er allt meira og minna í litlum stúkum) en stjórandi óperuhússisns steig á svið og bauð fólk hjartanlega velkomið á þessa sérstöku viðhafnarsýningu af óperunni Don Carlo - í fullri lengd!  Ef ég man söguna rétt þá var þetta svona:

Hið ítalska stórskáld, Verdi, samdi þessa metnaðarfullu óperu árið 1867 og þá á frönsku. Eftir frumsýninguna fékk verkið ekki góða dóma og skáldið móðgaðist eitthvað og tók óperuna strax úr sýningu. Hann gerði svo stytta útgáfu á ítölsku sem frumsýnd var stuttu seinna og fékk mun betri dóma. Sú útgáfa er einmitt útgáfan af Don Carlo sem óperuhús um allan heim hafa sýnt síðan þá. Nema þarna fyrir þessum 10 árum eða svo, þá datt Vínaróperunni semsagt í hug að setja upp frumútgáfuna á frönsku, í fullri lengd í fyrsta skipti í rúm 100 ár og vildi svo "skemmtilega" til að ég var staddur á einni slíkri "hátíðarsýningu". Þar var komin skýringin á því hvers vegna sýningin byrjaði kl 17 en ekki kl 20 eins og hina dagana. Þetta var semsagt ekki alveg planið að fá nánast tvöfalda sýningu beint í æð. Við hlógum samt mikið þegar þetta uppgötvaðist og ákváðum í einhverju þrjóskukasti að klára pakkan og sitja allan tímann víst við værum mætt. Það krafðist hins vegar mikillar þolinmæði því að lítil textavél fyrir framan mig í sætinu (sýndi enskan texta á því sem fram fór) bilaði fljótlega eftir að sýningin hófst og ég skil ekki orð í frönsku. Auk þess voru 3 eða 4 hlé í sýningunni og engin matur í boði nema þú hefðir pantað hann fyrirfram. Eftir að hafa borða allan súkkulaðilagerinn á barnum í álmunni þar sem við vorum, sent öllum hugsanlegum vinum og vandamönnum SMS og heyrt hvað væri að frétta af þeim (þetta er fyrir daga facebook og nets í símum) og löngu búinn að missa þráðinn í sýningunni, sluppum við út frá Don Carlo rétt fyrir miðnætti og náðum að taka einn drykk með öðrum Íslendingum á ráðstefnunni, sem rétt eins við - hlógu mikið af þessari svaðilför.

Verði ég spurður hvort ég ætli að sjá Don Carlo hjá Íslensku óperunni mun ég sjálfsagt slá um mig og segja að ég sé ekki alveg viss, þar sem ég sé einn af fáum Íslendingum sem hafi séð hana í fullri lengd á frönsku og hafi af því áhyggjur hvort íslenska útgáfan verði bara ekki vonbrigði eftir þá minningu SmileSmileSmile

don carlo

Mynd dagsins er fengin að láni úr netheimum og er úr ríkissóperunni í Vínarborg sem ég dvaldi í drykklangastund fyrir nokkrum árum og naut þess að sjá hina miklu óperu Verdis, Don Carlo Cool sem Íslenska óperan ætlar að setja upp á næstunni. Það er alveg lífreysla og hreint magnað að koma inn í þetta hús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband