Afmæli á bæjarhátíð!

Laugardagurinn 30. ágúst 2104.

Í dag er bæjarhátíð Mosfellsbæjar, "Í túninu heima", í algleymi. Það stendur því mikið til en auk hefðbundinnar dagskrár verður götugrill hjá okkur. Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að húsfreyjan á heimilinu, á afmæli í dag þó hún sér reyndar að vinna frá kl 8-20.

Dagurinn hófst reyndar mjög snemma eða kl 04:15. Þá var afmælisbarnið vakið af öðrum fjölskyldumeðlimum með söng, gjöfum, afmælisköku og blómum. Við höfum þann skemmtilega fjölskyldusið að þeir sem eiga afmæli eru alltaf vaktir af hinum fjölskyldumeðlimunum með söng, gjöfum, kertum og kökum. Ástæðan fyrir þessum ókristilega vakningatíma í dag var sú að ég tók að mér að skutla fumburðinum, Ágústi Loga, og Arnari vini hans út á flugvöll þar sem þeir héldu af stað í 4 daga ævintýraferð til Kaupmannahafnar. Afmælissöngurinn tókst vel og meðan við feðgar reyndum til Keflavíkur sofnuðu aðrir fjölskyldumeðlimir vært aftur.

Þegar leið á daginn fór ég með Magnúsi Árna og Svandísi Erlu að kíkja á nokkra dagskrárliði bæjarhátíðarinnar, meðal annars að smakka nokkra kjúklingarétti. Við vorum svo komin heim í götuna seinni partinn en þá komu nágrannarnir saman og héldu götugrill í blíðunni með miklum glans. Búið að var að setja upp tjald yfir borðhaldið en auk þess var börnunum boðið upp á risa hoppukastala og kandíflosvél var á staðnum. Þetta tókst allt ljómandi vel og gaman var að hitta nágrannana.

Um kvöldið var svo afmælisbarnið komið heim aftur og þá var haldið á glæsilega stónleika á bæjartorginu hér í Mosó þar sem Pollapönk, Páll Óskar, Diddu, Jógvan og Kaleo komu fram ásamt fleirum. Þar sem Magnús Árni var frekar slappur eftir brot gærdagsins (sjá færslu gærdagsins) og Svandís Erla hafði mestan áhuga á að sjá Pollapönk (burtu-með-fordóma-mennina) fórum við snemma heim af tónleiknum og nutum afmæliskvöldsins í rólegheitum.

INga afmæli 

Mynd dagsins er af Ingu afmælisbarni dagsins með Svandísi Erlu í fanginu. Þarna eru við á stórtónleikum á bæjartorginu í tilefni af bæjarhátíðinni "Í túninu heima" sem fram fór um helgina. Svo verður auðvitað að hafa eina mynd úr götunni en þarna er verið að undirbúa götugrillveislu dagsins sem fram fór í blíðskaparveðri. Skemmtilegur dagur Cool 

Götugrill 


Magnús meiðir sig!

Föstudagurinn 29. ágúst 2014

Í dag og morgun er bæjarhátíðin í Mosfellsbæ, "Í túninu heima" í fullum gangi. Spennandi dagskrá í boði en einnig stendur mikið til í götunni okkar. Síðasta haust fluttum við fjölskyldan milli hverfa hér í Mosó og því erum við flutt úr "gula hverfinu" yfir í "bleika hverfið". 

Inga tók að sér að skreyta húsið í tilheyrandi litum í dag. Hún var rétt byrjuð þegar símtal barst frá skólanum um að Magnús Árni hefði aðeins slasast í fótbolta í frímínútum. Eftir að hafa sótt piltinn var ákveðið að heimsækja slysó og þá kom í ljós að brot var í beini á hægri hendi. Magnús var því gifsaður. Hann var pínu svekktur að ekki var til bleikt gifs (í stíl við hverfislitinn á bæjarhátíðinni) en úr var að hann valdi rautt gifs í staðinn. Þar sem Magnús var nokkuð slappur eftir þetta alltsaman var pöntuð pizza og fjölskyldan tók kvöldið rólega heima í stað þess að skunda í Ullarpartý bæjarhátíðarinnar eins og stefnt hafði verið að. 

 Magnús brotinn

Mynd dagsins er "selfie" sem Magnús Árni tók af sér með gifsið á hendinni eftir ferð á slysó í dag. Hann var í fótbolta og datt illa en vonandi verður hann bara fljótur að ná sér! 


Guðdómlegt góðgæti!

Fimmtudagurinn 28. ágúst 2014

Eftir nokkra vikna nammibindindi er ég nú byrjaður í sælgætinu aftur. Held ég sé þó ekki kominn nærri nálægt því daglega magni sem ég var í áður en ég hóf bindindið. Vonandi næg ég að hófstilla mig vel í þessu þrátt fyrir að vera ekki alveg til í að gefa allt sælgæti frá mér til langtíma, sérstaklega ekki súkkulaði.

Í dag áskotnaðist mér ein pakkning af uppáhalds sælgætinu mínu en það eru rauðar Lindt-kúlur. Ég var hreint alveg búinn að gleyma hvað þetta er alveg svakalega gott. Enda verður að viðurkennast að eftir að ég var búinn að stinga upp í mig fyrstu kúlunni var ekki aftur snúið og margar lágu hratt og vel í valnum þegar kvöldinu var lokið.

Lindt-kúlur eru framleiddar af samnefndu svissnesku súkkulaðifyrirtæki sem stofnað var 1845. Það framleiðir ýmsar súkkulaði tengundir sem fáanlegar eru hér á landi. Rauðu kúlurnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og verð ég nú bara að viðurkenna að hin síðari ár hef ég nú bara ekki fundið neitt jafngott. Fyrst keypti ég þetta alltaf í fríhöfninni en fyrir nokkru var þetta komið í sölu í helstu stórmörkuðum. Það skal hins vegar upplýst að rauðu kúlurnar bera af að mínu mati en í þeim er alveg dásamlega guðdómleg fylling. Svo eru til bláar kúlur úr dökku súkkulaði og nokkrir aðrir litir en það eru semsagt þessar rauðu sem bera höfuð og herðar yfir hinar.

Lindt 

Mynd dagsins er að rauðum Lindt súkkulaði kúlum sem ég rifjaði upp kynnin af í dag. Hrieint guðdómlegt góðgæti sem ég held að verði bara ekki toppað Cool 


Kynning á Krikaskóla

Miðvikudagurinn 27. ágúst 2014

Nú í kvöld fórum við Inga á kynningarfund fyrir foreldra í Krikaskóla. Eins og fram hefur komið hér, byrjaði prinsessan á heimilinu, Svandís Erla, í Krikaskóla hér í Mosfellsbænum nú fyrr í mánuðinum. Það var því gaman og fróðlegt að mæta á okkar fyrsta foreldrafund í þessum nýja skóla.

foreldrafundur Krikaskóla

Mynd dagsins er frá foreldrafundinum sem fram fór í Krikaskóla nú í kvöld. Mjög gaman að kynnast starfinu í þessum spennandi skóla sem er hér rétt við húsið hjá okkur og Svandís Erla mun að öllum líkindum dvelja í næstu 8 árin og jafnvel lengur


Gamli fer í golf!

Þriðjudagurinn 26. ágúst 2014

Það gerist nánast aldrei, eða varla einu sinni á ári að ég spila golf á alvöru golfvelli. Vinnu minnar vegna þarf ég stundum að taka þátt í spennandi púttmótum en að fara í alvöru golf geri ég sem sagt mjög sjaldan.

Í dag var ég þó plataður í einn golfhring með nokkrum góðum félögum. Lenti í blíðskaparsveðri en haldið var á Hamarsvöll við Borgarnes. Þar sem ég kann ekkert í golfi er ég yfirleitt bara mjög ánægður ef ég hitti kúluna sem gerðist nú öðru hverju. Golf er í raun og veru mjög skemmtileg íþrótt en það sem heldur mig frá golfi er tíminn sem fer í sportið. Ég hef því aldrei stundað golf eða gefið mér tíma í að prófa þetta almennilega. Líklega kemur nú að því einn daginn að ég helli mér að alvöru í golfið en það verður ekki alveg strax.

Hamarsvöllur

Mynd dagsins er frá golfvellinum Hamarsvelli við Borgarnes sem líklega er frægastur fyrir að þar er stærsta kókdós á Íslandi. Þarna var ég í dag og brá mér aðeins í golf en það geri ég mjög sjaldan - en mjög gaman Smile 


Jóga!

Mánudagurinn 25. ágúst 2014

Já - þá er maður byrjaður í jóga! Í nokkur ár hefur verið á dagskrá hjá mér að fara að stunda jóga. Síðasta vetur prófaði ég aðeins en nú er ég kominn á formlegt námskeið hjá jógastöðinni Heilsubót. Fyrsti tíminn var einmitt í kvöld og næstu 8 vikurnar verð ég einu sinni í viku. Svo er hægt að gera heimaæfingar af netinu.

Tilgangur er jú - að læra tækni sem stuðlar að betri líkamlegri heilsu, kyrrir hugann og kemur jafnvægi á tilfinningar með því markmiði að ná fullkomnu jafnvægi á líkama og sál í daglegu lífi. Ég er nú ekki mikill sérfræðingur í jóga-fræðum en þar eru ýmsar tengundir eða afbrigði. Hjá mér, er nú markmiðið (amk til að byrja með) að tengja saman öndun og hreyfingar til að ná betri stýringu á huganum og dýpka innri skynjun. Göfugt markmið sem gaman verður að glíma við!

Jóga

Mynd dagsins er að undirrituðum komnum í jóga en í kvöld byrjaði ég á spenndi námskeiði til að kynnast þessum fræðum aðeins en ég hef lengi stefnt að því.  


Bloggfærslur 2. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband