Hlaupið fyrir Dag Kára

Þriðjudagurinn 12. ágúst 2014

Þá er ekki aftur snúið. Í kvöld skráði ég mig loksins til þáttöku í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer 23. ágúst n.k. Vegalengdin verður hálft maraþon (21,1 km) og markmiðið verður að vera á undir 1 klst og 45 min. Ég hef ekki tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu síðan 2011 en það ár, rétt eins og árið 2010, lét ég gossa í heilt maraþon og komst lifandi í mark í bæði skiptin.

Í fyrsta skipti ætla ég að taka þátt í áheitasöfnun í þessu hlaupi. Þar er úr mörgum mjög góðum málefnum að velja, þó ég sé nú alveg á síðustu metrunum í þessu þar sem svo stutt er í hlaupið. Ég hef reyndar fengið nokkrar góðar tillögur og væri til í að hjálpa mörgum - en á endanum var það Eva Dögg, samstarfskona mín á Hrafnistu, sem fékk mig til að taka þátt í að styrkja ungan dreng sem heitir Dagur Kári.

Í kynningartexta um Dag - styrktarfélags Dags Kára segir: Dagur Kári Kristinsson er lífsglaður 7 ára strákur. Hann er með CP sem í hans tilfelli lýsir sér í mjög lágri vöðvaspennu og þroskaskerðingu, auk flogaveiki. Dagur Kári situr ekki uppréttur og á erfitt með að halda höfði, hann talar ekki og tjáir sig lítið nema með svipum og hljóðum. Hann fer ferða sinna utandyra í hjólastól fjölskyldunnar. Markmið félagsins er að safna fé til að kaupa þau hjálpartæki sem létta líf hans, en Tryggingastofnun tekur ekki þátt í. Fyrsta verkefnið er að fjármagna undirvagnslyftu á fjölskyldubílinn til að auðvelda honum bílferðir með fjölskyldunni.

Ekki slæmt að leggja þessu góða máli lið og ekki spillir fyrir að faðir drengsins er af Skaganum og móðirsystir hans og amma vinna báðar á Hrafnistu. Vonandi næ ég að leggja eitthvað örlítið í púkkið. Þeir vilja gera það líka fara inn á hlaupastyrkur.is og velja nafnið mitt eða slóðina www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=23137

 

 dagur Kári

Mynd dagsins er tekin á hlaupaæfingu kvöldsins hér í Mosfellsbænum en þarna er ég að hlaupa eftir Skarhólabrautinni sem er hér rétt við húsið. Í Mosó er að finna fjöldan allan af góðum og skemmtilegum hlaupaleiðum þannig að þegar veðriði er gott er engin afsökun fyrir að fara ekki út að hlaupa. Reykjavíkurmaraþonið er framundan og vonandi næ ég að láta eitthvað smávegis gott af mér leiða í leiðinni Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband