Hvalstöðin í Hvalfirði

Föstudagurinn 5. september 2014

Af ýmsu skemmtilegu sem ég gæti skrifað um í dag held ég að staðið hafi upp úr að seinni partinn í dag fórum við Inga inn í Hvalfjörð og nýttum okkur heimboð sem við áttum þar. Það var að fá að skoða starfsemi Hvalstöðvarinnar sem þar hefur verið í áratugi. 

Í gamla daga þótti sjálfsagt að ferðalangar um Hvalfjörð stoppuðu í Hvalstöðinni ef verið var að draga hval á land og fylgdust með vinnslu hans. Eftir að hvalveiðibann var hér í 22 ár er reyndin önnur og svæði Hvals hf. í Hvalfirði er alveg girt af og öll umferð bönnuð. Þó ég muni eitthvað eftir að hafa sem barn fylgst með í Hvalstöðinni þegar hvalur var dreginn að landi, var mjög spennandi að þiggja boð um að fá að fylgjast með því gerast nú eftir að maður fullorðnaðist.

Eftir því sem mér skilst er nú leyfi til að veiða 150 hvali og eru afurðirnar seldar til Japans. Vertíðin er í um 100 daga og þá er mikið líf og fjör í Hvalfirðinum. Fjöldi fólks starfar á vöktum allan sólarhringinn við veiðar og vinnslu alla vertíðina og er þetta allt umfangsmeira en mér hafði nokkurn tímann dottið í hug. Vinnsla á nýveiddum hval var í fullum gangi þegar við komum og mjög forvitnilegt var að fylgjast með vinnslunni á ýmsum stigum og sjá þá nýju og gömlu tækni sem notuð er. Starfsemin er með eigin hitaveitu og margt fróðlegt bar þarna á góma í dag; allt frá veiðarfærum og verbúðum yfir í vinnslu og smökkun.

Hvalfjörður 

Mynd dagsins er af Hvalstöðinni í Hvalfirði sem við Inga skoðuðum í dag. Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á hvalveiðum var mjög skemmtilegt og fróðlegt að fá að kynnast þeirri miklu starfsemi sem þarna fer fram en fæstir vita af. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband