Færsluflokkur: Bloggar

Snafsalaus á Snaps - en samt gaman!

Mánudagurinn 9. júní 2014

 

Í hádeginu í dag hitti ég tvo gamla vini - þá Guðjón og Eirík. Við mæltum okkur mót á tiltölulega nýjum (að ég held) veitingastað, Snaps bistro bar, sem staðsettur er á Þórsgötu, í sama húsi og hótel Óðinsvé. Þetta er bara hinn flottasti staður og maturinn var mjög fínn. Fyrir 20 árum hefðum við félagarnir örugglega prófað alla "snafsa" sem þarna eru í boði en í dag vorum við aðeins rólegri í tíðinni þó við höfum setið í dágóðan tíma í þessu fína umhverfi.

Það er alltaf gaman að hitta góða félaga; rifja upp gamlar sögur og segja nýjar, fá uppfærslu um stöðu mála hjá hverjum og einum, fara yfir helsta slúðrið og margt fleira. Við Guðjón höfum alltaf náð að hittast reglulega gegnum árin þó hann hafi bæði prófað að búa í Danmörku og Svíþjóð en Eirík hef ég hitt mun sjaldnar enda er flutti hann til landsins með fjölskylduna til landsins fyrir rúmu ári eftir um 10 ára samfellda dvöl í Svíþjóð. 

snaps 

Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum Snaps í hádeginu í dag þar sem ég átti góða stundu með gömlum félögum - þeim Guðjóni og Eríki. Þó borðhaldið hafi verið alveg snafsalaust að þessu sinni var samt mjög gaman hjá okkur félögunum Tounge


Hvítasunnuhangikjötið

Sunnudagur 8. júní 2014

 

Á sumum heimilum er engin stórhátíð nema borðað sé hangikjöt. Það gildir að minnsta kosti hjá tengdapabba og því bauð hann til veislu í dag. Ingimar tengdapabbi býr í Reykholti í Biskupstungum og því voru hæg heimatökin að heimækja hann þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti í Úthlíð yfir nóttina. Þar sem Inga gat ekki borðað með okkur voru foreldrar mínir drifinir með í átið "svo einhver með viti gæti útbúið jafninginn" eins og það var orðað. En jafningurinn er auðvitað alveg ómissandi með hátíðarhangikjötinu. Veislan heppnaðist vel og tóku veislugestir vel til matar síns að sögn staðkunnugra eða bara eins og góðri hangikjötsveislu sæmir. 

hvítasunnuhangikjöt  

Mynd dagsins er tekin í hádeginu í dag hjá Ingimar tengdapabba þar sem við snæddum með honum Hvítasunnuhangikjötið með öllu tilheyrandi. Tók reyndar ekki eftir að það er ansi lítið af hangikjöti á myndinni, en það er einfaldlega vegna þess að veislugestir tóku vel á því. Fyrir þá sem lítið til þekkja en vilja vita, eru á myndinni frá vinstri: undirritaður, Ingimar, Mamma, Magnús Árni, pabbi, Ágúst Logi og Svandís Erla. Þetta er jafnframt fyrsta myndin hér í ljósmyndadagbókinni þar sem öll afkvæmi okkar Ingu sjást á sömu myndinni Smile


Í bústað hjá ömmu og afa

Laugardagurinn 7. júní 2014

 

Það var verið að benda mér á að það væri ekki ennþá komin mynd af prinsessunni á heimilinu í ljósmyndadagbókina þannig að það verður að gera bragarbót á því. Hún heitir semsagt Svandís Erla og er fædd í mars 2011. Hún var því ekki komin til sögunnar þegar ljósmyndadagbókin var í gangi á árunum 2009-2010.

Seinni partinn í dag fórum við í heimsókn til mömmu og pabba í sumarbústaðinn þeirra í Úthlíð. Þar er alltaf gaman að koma og líf og fjör var að vanda. Grillið var dregið fram og lambakjöt snætt með öllu tilheyrandi. Þegar allir voru sofnaðir enduðum við pabbi á að skella okkur í pottinn eftir góðan dag og ræddum þar lífið og tilveruna.

með ömmu og afa 

Mynd dagsins er tekin í sumarbústað mömmu og pabba þar sem við áttum góða kvöldstund. Þarna er Svandís Erla með ömmu og afa. 


Þar sem Skagamenn koma saman...

Föstudagur 6. júní 2014

 

Sumarið kom í dag. Veðrið var hreinlega frábært  og má því með sanni segja að sumarið sé formlega búið að stimpla sig inn. Þar sem ég var í fríi var ekki annað hægt en að vera úti og sinna ýmsum störfum í garðinum. Seinni partinn fór svo hluti fjölskyldunnar á Akranes, þar sem mamma og pabbi búa. Þar var einnig rjómablíða og margt afrekað í garðinum þar eins og heima hjá okkur fyrr um daginn. Og ekki spillir svo fyrir kvöldverður að hætti mömmu.

Mér finnst alltaf gaman að koma á Skagann og hitta kunningja og vini. Besta leiðin til að gera það er að fara á völlinn (lesist knattspyrnuvöllinn) þegar það er heimaleikur. Ég reyni því að gera það af og til enda hægt að sameina þar tvö skemmtileg áhugamál: fótbolta og að hitta skemmtilegt fólk. Knattspyrnuliðið má reyndar muna fífil sinn fegurri þar sem liðið hefur verið meira og minna í 1. deild (næst efstu deild) síðstu ár, en engu að síður heldur fjöldi Skagamanna tryggð við liðið og mætir á þessi skemmtilegu mannamót Skagamanna.

Skagavöllur 

Mynd dagsins er tekin á íþróttavellinum á Akranesi í kvöld. Sólin skein í heiði þegar heimamenn léku við HK úr Kópavogi. Til að smella af myndinni steig eitt skref afturábak og náði þannig að mynda "stæðið" sem ég stóð í og útsýnið mitt, milli félaga minna Ástþórs og Gurra sem má sjá glitta í bakhlutan á. Skemmtilegur seinni partur og kvöldstund á Skaganum í kvöld og ekki spillir fyrir að ÍA vann leikinn 2-0 Smile


Opnað á Neyzluna

Fimmtudagur 5. júní 2014

 

Með árunum eru saga, menning og lifnaðarhættir - bæði hér heima og erlendis - sífellt að verða stærra og stærra áhugamál hjá mér.  Kom því aðeins við á Árbæjarsafni í dag þar sem ég var viðstaddur opnun á nýrri sýningu sem þar hefur verið sett upp og er að mér skilst önnur sýningin sem hið nýja Borgarsögusafn opnar. Þessi sýning ber nafnið Neyzlan - Reykjavík á 20. öld. Þetta er ansi hreint skemmtileg sýning en eins og segir í kynningatexta sýningarinnar þá var eitt af megin einkennum 20. aldarinnar (umfram önnur tímabil) aukin framleiðsla og neyzla. Hér á Íslandi þróaðist samfélagið úr sjálfsþurftarbúskap til tæknivædds markaðsbúskapar á nokkrum áratugum. Og auðvitað hafði þetta gríðarleg áhrif á daglegt líf fólks.

Nýja sýningin er mjög áhugaverð hvað þetta varðar og sýnir hvernig neyzluþjóðfélagið verður smá saman til. Uppsetningin er mjög smart en skemmtilegast er auðvitað að skoða gamlar neyzluvörur frá fyrri tíð sem maður man eftir, en hefur kannski ekki séð áratugum saman.

Neyzla 

Mynd dagsins er frá sýningunni Neyzlan - Reykjavík á 20. öld, sem opnaði í dag. Ég stóðst ekki mátið og smellti mynd af gömlu góðu mjólkurfernunum. Þessar hef ég ekki séð mjög lengi en hver man ekki eftir þeim? Eða er ég kannski orðinn svona gamall? Cool 

 


Útskrift úr 5. bekk

Miðvikudagurinn 4. júní 2014

 

Í morgun vorum við Inga viðstödd skólaslit 5. bekkjar í Lágafellsskóla hér í Mosó. Þar var yngri sonurinn (Magnús Árni) að útskriftast út í sumarið úr 5. bekk. Þetta var stut en falleg athöfn. Eftir ræðu skólastjórans og deildarstjóra miðstigs á sal, fóru allir bekkirnir í sínar stofur þar sem umsjónarkennarar afhentu vitnisburði vetrarins og föðmuðu krakkanna í þakklætisskyni fyrir veturinn. Magnús hefur verið hjá mjög fínum kennara í vetur, henni Maríu Leu, sem hefur staðið sig með mikill prýði í alla staði. Skólastlit eru alltaf skemmtileg og mikil eftirvænting fyrir sumrinu var greinilega í hópnum.

 skólaslit 

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna sem fagnar hér vel að vera útskrifaður út í sumarið úr 5. bekk Lágafellsskóla.


Jómfrúarsláttur

Þriðjudagur 3. júní 2014

 

Í blíðviðrinu í dag fór fram söguleg stund þegar nýja sláttuvél fjölskyldunnar fór sína fyrstu ferð um tún heimilisins. Því miður fór það svo að gamla rafmagnssláttuvél fjöldskyldunnar sem þjónað hefur okkur vel frá árinu 2005 gaf upp öndina á dögunum (með svörtum reyk segir húsfreyjan). Það var því ákvðið að fjárfesta í nýrri bensínsláttuvél og í kvöld fór hún sína jómfrúarferð um iða grænar grundir.

sláttuvél 

Mynd dagsins er því að nýju sláttuvélinni sem er þarna örlítið sveitt og þreytt eftir jómfrúarferð sína um grasbala heimilisins Cool


Af hetjum Game of Thrones

Mánudagur 2. júní 2014

 

Þó ég horfi ekki mikið á sjónvarp gerist það einstaka sinnum. Einn af mínum uppáhaldsþáttum þessi misserin er Game of Thrones. Nú er í gangi fjórða serían af þessum vinsæla myndaflokki víða um heim. Þættirnir hafa að hluta til verið teknir upp hér á landi síðustu ár - t.d. á Þingvöllum og í Dimmuborgum.

Fyrir þá sem ekki til þekkja, þá fjalla þessir þættir, í stuttu máli, um mannlegt eðli í óskilgreindum heimi miðalda þar sem ættir og bandalög berjast um landsvæði, peninga og völd. Litríkar persónur eru auðvitað mikilvægar, ástir og svik - og atburðarrásin bara oftast spennandi þó þættirnir þyki nú frekar "brútal".

Það er alltaf gaman þegar Ísland kemur við sögu í erlendum stórmyndum og sjónvarpsþáttum og ákveðið hámark í því sambandi var einmitt í þætti kvöldsins, þegar "íslenska hetja" þáttanna - persónan "the Mountain" - sem leikinn er af kraftajötninum Hafþóri Júlíusi Björnssyni sem er rúmir tveir metrar á hæð, þarf að heygja eitt magnaðast einvígi þáttaraðarinnar. 

The-Mountain-That-Pies 

Mynd dagsins er fengin að láni úr netheimum og er af kraftajötninum Hafþóri Júlíusi Björnssyni í einu af atriðum hans í Game of Thrones. 


Sjómannadagurinn hefst í Fossvoginum

Sunnudagur 1. júní 2014

 Í dag er Sjomanndagurinn sjálfur. Þá er jafnan mikið um að vera hjá mér enda vinn ég hjá Sjómannadagsráði sem einmitt var stofnað á sínum tíma til að koma á fót Sjómannadeginum sem haldinn hefur verið hátíðlegur óslitið síðan árið 1938.

unnamed 

Mynd dagsins er tekin í Fossvogskirkjugarði við Minningaröldur Sómanna. Á þennan minnisvarða eru letruð nöfn sjómanna sem hafa drukknað og týnst á hafi úti. Þarna byrjar jafnan Sjómannadagurinn hjá mér en kl 10 að morgni ár hvert fer fram stutt minningarathöfn þar sem fulltrúar Sjómannadagsráðs, Landhelgisgæslu og fleiri aðila eru viðstaddir. Á miðri mynd má sjá sr Hjálmar Jónsson dómkirkjuprest sem stýrir athöfninni sem er í sjálfu sér mjög einföld en nokkuð mögnuð að upplifa.


Ljósmyndadagbókin aftur í gang - Kjördagur!

Laugardagurinn 31. maí 2014

 

Ef að hafa verið í pásu í rúm 4 ár er ætlunin að setja hér ljósmyndadagbókina mína í gang aftur. Tilgangur ljósmyndadagbókarinnar er að minna mig á (og kannski aðra) hvað lífið er skemmtilegt. Ljósmyndadagbókin gengur þannig fyrir sig að ég set inn eina mynd um jákvæðan og skemmtilegan atburð í lífi mínu á degi hverjum og skrifa stuttan texta um myndina.

Eftir að hafa byrjað vorið 2009 hélt ég út í um 11 mánuði áður en ég tók gott hlé sem er semsagt að enda núna. Markmiðið núna er að endast í 4 mánuði og sjá svo til.

Rétt eins og þegar dagbókin byrjaði vorið 2009, byrja ég aftur á mynd af mér á kjördegi. Auk þess finnst mér vel við hæfi á hefja þetta aftur á afmælisdegi Önnu tengdamóður minnar heitinnar en hún átti einmitt afmæli á þessum degi.

kosningar 

Mynd dagsins er tekin í kjördeild 6 í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum þar sem ég er einmitt að troða atkvæðaseðlinum mínum ofan í kjörkassan. Að sjálfsögðu kaus ég rétt Smile 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband