Færsluflokkur: Bloggar

Valdís á Kvennadaginn!

Fimmtudagurinn 19. júní 2014

 

Þó það hafi verið grenjandi rigning seinni partinn í dag og í allt kvöld, ákváðum við Magnús Árni samt að heimsækja flottustu ísbúð bæjarins, Valdísi, sem er út á Grandagarði.

Mig minnir að þessi ágæta ísbúð hafi opnað fyrir um ári síðan og í þessi 2-3 skipti sem ég hef komið þarna hefur verið fullt út úr dyrum (óháð veðri). Amk tvisvar höfum við nú hætt við að versla þarna þar sem númerakerfið hefur látið mann vita að það séu um 50 manns að bíða á undan manni í röðinni. Í rigningunni í kvöld voru ekki nema 10 á undan okkur í röðinni (og búðin hélt áfram að fyllast eftir að við komum inn) svo við létum okkur hafa það að bíða núna enda gengur afgreiðslan tiltölulega hratt. Þessi skemmtilega ísbúð hefur þá sérstöðu að gera ísinn sjálf í ýmsum bragðtegundum og ekki síður bakar hún brauðin undir ísinn á staðnum. Þó ísinn sé mjög góður finnst mér nú brauðið vera punkturinn yfir i-ið hjá þeim, þau eru alveg svakalega góð.

valdís

Mynd dagsins er tekin í Ísbúðinni Valdísi á Grandagarðinum í kvöld. Við Magnús Árni áttum leið þarna hjá og stóðumst ekki mátið að fá okkur aðeins næringu í tilefni Kvennadagsins sem var góður ís í ennþá betra brauði. Mjög gaman að koma þarna. 


Ævintýraheimar Hrafnsaugans...

Miðvikudagur 19. júní 2014

Við Magnús Árni lesum yfirleitt saman spennandi bækur á kvöldin (í um 10-15 min á kvöldi). Þessa dagana erum við að ljúka við að lesa mjög spennandi íslenska bók sem heitir Hrafnsauga - þriggja heima saga.

Bókin Hrafnsauga er eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, sem ég veit svo sem ekki deili á. Bókin kom út árið 2012 og fékk sama ár bæði Íslensku barnabókverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sem besta íslenska táningabókin. Á bókarkápu kemur fram að bókin sé sú fyrsta í þríleik. Umfjöllunarefnið eru þrír unglingar sem þurfa að spjara sig í vel úthugsuðum og flóknum ævintýraheimum þar sem alls konar forynjur, galdrar og leyndardómar eru í aðalhlutverki. Ég veit ekki hvort að sagan minni mig sterklega á eitthvað sérstakt en hún er sannarlega eitthvað sambland af Hringadróttinssögu, Hobbitanum, Harry potter og fleiri slíkum ævintýrum. Höfundarnir hafa greinlega lagt mikla vinnu í að skapa þennan ævintýraheim enda er allt úthugsað og textinn er vel læsilegur og aðgengilegur. Fyrir þá sem gaman hafa af fyrrnefndum sögum er þessi bók alveg skyldulesning.

Hrafnsauga_01 

Mynd dagsins er fengin af láni í netheimum og sýnir forsíðu bókarinnar Hrafnsauga sem við Magnús Árni erum að klára að lesa saman þessa dagana. Mjög skemmileg bók sem má alveg mæla með Smile 


MA stúdentar setja upp hvíta kolla!

Þriðjudagurinn 17. júní 2014

Við fjölskyldan áttum flottan og ánægjulegan Þjóðhátíðardag í dag. Sá dagur fór fram á Akureyri í tilefni þess að Rúnar Ingi, systursonur Ingu (sonur Jónu) var að útskrifast í dag sem stúdent úr Menntaskólanum á Akureyri.

Það var rjómablíða á Akureyri í dag. Sólin skein og örugglega yfir 20 gráðu hiti. Alveg frábær dagur fyrir útskriftarveislu. Við tókum daginn snemma og skelltum okkur með í íþróttahöllina á Akureyri þar sem útskriftarathöfnin fór fram. MA byggir mikið á venjum og hefðum og það var mjög gaman að fá fylgjast aðeins með þeim. Þetta var mjög hátiðleg stund og eftir ræðu Skólameistarans og fulltrúa eldri stúdenta gekk vel að útskrifa alla nýstúdentana sem gengu svo fylltu liði út í "Stefánslund" til hefðbundinnar útskriftarmyndatöku. 

Rúnar Ingi bauð svo upp á glæsilega veislu að útskriftarathöfninni lokinni þar sem vinir og vandamenn röðuðu í sig kökum og ýmsum krásum. Í kvöld er svo mikil hátíð í íþróttahöllinni fyrir nýstúdentana og gesti þeirra sem án efa er frábær skemmtun.

 stúdentar

Mynd dagsins  er í fyrsta skipt tvískipt. Hún er tekin við útskrift frá Menntaskólanum á Akureyri í dag en þarna eru nýstúdentarnir 179 að stilla sér upp fyrir myndatöku að lokinni glæsilegri útskriftarathöfn - og auðvitað allir komnir með hvíta kolla. Ég brá mér upp á nálægar svalir og smellti af nokkrum fínum myndum af hópnum en einnig þessari sem vonandi nær að fanga þá skemmtilegu stemningu sem var kringum myndatökuna þó hún sýni aðeins brot af öllu því fólki sem fylgdist með myndatökunni. Sannarlega gaman að fá að vera með Rúnar Inga og fjölskyldu í dag. Rúnar Ingi verður svo að fá eina flotta mynd af sér og hér er hann með mömmu sinni (Jónu) og Ingu.

Rúnar Ingi stúdent 


Fjör hjá frændsystkinum

Mánudagur 16. júní 2014

Í dag erum við fjölskyldan stödd á Akureyri í stuttu stoppi vegna útskriftar á Þjóðhátíðardaginn (sjá færslu 17. júní). Dagurinn fór að mestu í undirbúning fyrir morgundaginn en einnig brugðum við okkur nú í sund, skoðuðum Kjarnaskóg og fleira.

Undir kvöld fórum við í heimsókn til Guðna frænda og fjölskyldu hans sem býr á Akureyri. Dóttir Guðna og Hrafnhildar, Eva Guðný fermdist um páskana en því miður áttum við ekki heimangegnt í veisluna þá. Því var á stefnuskránni að gera bragarbót á þeim málum og heilsa upp á fermingarbarnið og fjölskylduna við fyrsta tækifæri sem var einmitt núna. Við áttum hjá þeim góða stund bæði inni og úti en veðrið var ljómandi fínt langt fram á kvöld.

frændsystkin

Mynd dagsins er tekin á Akureyri nú undir kvöld. Þarna eru frændsystkinin Svandís Erla og Leifur Ingi (sonur Guðna og Hrafnhildar) að leika sér í sandkassanum hans Leifs og þar var mikið fjör eins og sjá má á myndinni.


Þrjár kynslóðir Skógarmanna

Sunnudagur 15. júní 2014.

 

Þá er Magnús Árni orðinn formlegur Skógarmaður. Í dag fórum við fjölskyldan upp í Vatnaskóg og sóttum Magnús Árna sem dvalið hefur þar í miklu fjöri síðan á þiðjudag, ásamt vinum sínum (sjá færslu 10. júní). Við buðum pabba með en hann var "foringi" í Vatnaskógi í mörg ár, hér árum áður en það orð er notað um leiðbeinendur á staðnum.

Sjálfur hef ég ekki komið í sumarbúðirnar í  Vatnaskógi í um 30 ár og eitthvað svipað langt síðan pabbi kom þar síðast. Okkur fannst því báðum mjög gaman að koma á staðinn. Þarna er auðvitað allt í grunninn eins og var en þó eru alltaf smávægilegar breytingar sem eðlilega hafa verið gerðar. Helsta breytingin er þó (fyrir þá sem til þekkja) að búið er að rífa gömlu Laufskálana og byggja nýtt og glæsilegt hús í staðin - Birkiskála - þar sem flestir strákana gista í dag. Við fengum okkur góðan göngutúr um staðinn og fengum að skoða allt hátt og lágt. Þetta rifjaði upp margar og góðar minningar og Magnús Arni hafði gaman að segja okkur frá.

Magnús Árni var hinni ánægðasti með dvölina ásamt félögum sínum. Mikið búið að brasa síðustu daga en í Vatnaskógi er hægt að fara út á báta (eða hoppa í vatnið), leika sér í skóginn, vera í íþróttum (inni og úti), skemmtilegar kvöldvökur og margt fleira. Ekki spillti fyrir ánægjunni að "borðið" hans Magnúsar fékk "hegðunarbikarinn", sem eru líklegast merkilegustu verðlaunin á svæðinu. Þau eru gefin fyrir hegðun og umgengni á dvalartímanum. Heiðursgestur á lokakvöldvökunni var svo Jón Gnarr borgarstjóri og það fannst strákunum hreint ekki leiðinlegt.

 Skógarmenn

Mynd dagsins er tekin í Vatnaskógi í dag. Myndin er að sjálfsögðu tekin á tröppunum á "Gamla skála" sem vígður var 1943 en er ennþá notaður fyrir kvöldvökur og einhverja gistingu. Þarna eru margar frægar myndir úr sögu Vatnaskógar einmitt teknar. Á myndinni má sjá okkur Magnús Árna ásamt pabba, og þarna eru samankomnar þrjár kynslóðir Skógarmanna. Til að geta talist fullgildur Skógarmaður þarf maður að dvelja í Vatnaskógi í amk 2 nætur í "flokki" ef ég man skilgreininguna rétt. Vatnaskógur er mjög skemmtilegur staður. 


Magnaðir Móskarðshnjúkar!

Laugardagurinn 14. júní 2014

 Þó ég hafi vaknað tiltölulega snemma í morgun, farið í ræktina og verið duglegur frameftir degi í garðinum að slá, slípa og mála, var ég samt dreginn í fjallgöngu þegar degi tók að halla. Við Inga smelltum okkur í blíðunni í ljómandi fínan göngutúr á Móskarðshnjúka sem eru ekki svo langt frá okkur hér í Mosfellsbænum. Þegar heim var komið skelltum við lambafile á grillið og opnuðum rauðvín þannig að dagurinn og kvöldið varð alveg hreint ljómandi.

Það er mjög skemmtilegt að ganga á Móskarðshnjúka. Þeir eru staðsettir við Esjuna (til hægri, í átt að Þingvöllum) en áður en komið er að Skálafelli og hafa þeir yfir sér sérstakan blæ með þar sem þeir eru ljósari á litinnn en önnur fjöll í kring. Vegna þessa virðist oft sem að sólin skíni skært á þessa tinda umfram aðra nálæga tinda. Fyrir þá sem fara oft á Esjuna eru Móskarðshnjúkarnir fín tilbreyting og ekki síðri gönguleið. Hæðin er svipuð en gangan heldur lengri þar sem hægt er að ganga á þrjá tinda. Neðri hluti leiðarinnar er ekki ólíkur Esjunni en þegar í efri hlutan er komið breytist landslagið í ljósar líparít-skriður. Fyrir þá sem þekkja til í Landmannalaugum er þessi hluti leiðarinnar ekki ósvipaður og að ganga á Brennisteinsöldu (sem er líklega þekktasta fjallið þar). Hæsti tindurinn, sem er fjærst Esjunni, minnir reyndar bara mjög mikið á Brennisteinsölduna, meira að segja hár og dökkur klettadrangur til hægri við stíginn ofarlega í fjallinu. Útsýnið er svo frábært til allra átta og ótrúlegt að maður sé staðsettur á höfuðborgarsvæðinu.

 Móskarðshnjúkar

Mynd dagsins er tekin á tindi Móskarðshnjúka (þeim hæsta, sem er fjærst Esjunni). Þetta er "selfie" af okkur Ingu og í baksýni má sjá annan tind hnjúkana, Esjuna og efst til vinstri er Höfuðborgarsvæðið. Frábær gönguferð í frábæru veðri seinni partinn í dag! 

 


Litli listamaðurinn...

Föstudagurinn 13. júní 2014

 

Undanfarnar vikur hefur Svandís Erla verið að afhjúpa listamannshæfileika sína með fjölda teikninga. Þetta er auðvitað bara frábært þó einn sé stór ljóður á. Hann er sá að listaverkin eru ekki alveg á réttum stað. Ef hún finnur penna eða blýant er hún mjög snögg að byrja teikna og er þá óspör á að nota hvíta veggi hér innanhúss. Hún hefur náð að teikna ansi víða á veggina og þrátt fyrir alvarlegar ábendingar af hálfu foreldranna virðist þessu lítið vera að linna.

Það verður að segja að það er heilmikið mál að ná þessu af veggjunum svo vel sé (öðru vísi en að mála upp á nýtt) en húsfreyjan er nú komin upp á lag með að gera það með þolanlegum hætti. Auðvitað er mikilvægast að passa vel alla penna þessa dagana.

 

litamaður 

Mynd dagsins er að litla listamanninum Svandísi Erlu sem er dugleg að gera listaverk - en á óheppilega staði. Hér er hún við listaverk dagsins en var (kannski því miður) stöðvuð áður en hún komst lengra með verkið að þessu sinni. Prakkarasvipurinn leynir sé ekki Tounge 


HM veislan hafin!

Fimmtudagur 12. júní 2014

 

Þá er HM veislan hafin. Það er þá ekki verið að tala um að verið sé að opna H&M verslun á Íslandi heldur erum við að tala um heimsmeistaramótið í fótbolta sem fram fer í Brasilíu. Þetta er alltaf mjög skemmtilegur tími og spennandi fyrir okkur fótboltaáhugamenn en veislan stendur yfir næsta mánuðinn.

Í kvöld fór semsagt fram opnunarleikur mótsins þar sem heimamenn í Brasilíu sigruðu Króatíu 3-1. Það er auðvitað pínulítið beiskt fyrir okkur Íslendinga að horfa á Króatíu í opnunarleiknum en Króatía sló einmitt Ísland út í umspilsleikjum um laust sæti í keppninni í Brasilíu. Ef Ísland hefði unnið einvígið hefðu okkar menn verið að spila opnunarleikinn í kvöld. Við Ágúst Logi (frumburðurinn á heimilinu) skelltum okkur í smá veislu í kvöld til að horfa á leikinn en ný verslun Samsungs-setursins bauð til opnunarveislu í kvöld þar sem hægt var að horfa á leikinn í um 50 mismunandi sjónvarpstækjum, allt upp í 70 tommur í ótrúlegum súpergæðum og gæða sér á ljúffengum veitingum á meðan. Ótrúlegt hvað sjónvarpstæknin flýgur áfram.

HM veislan 

Mynd dagins er af eldri syninum, Ágústi Loga, þar sem hann er að drekka í sig upphafsdropana af HM-veislunni sem hófst í kvöld. Við horfðum á leikinn í endurbættri verslun Samsung-setursins og þar má segja að hægt hafi verið að fá opnunarleikinn beint í æð, bæði hvað varðar ótrúleg myndgæði og myndastærð. Í bakgrunni má svo sjá aðalstjörnu kvöldsins, hinn brasilíska Neymar, sem skoraði tvö mörk í kvöld í skemmtilegum opnunarleik HM 2014. 


Kvennahlaupi þjófstartað

Miðvikudagurinn 11. júní 2014

 

Það eru mörg og vandasöm verk sem ég þarf að taka að mér í vinnunni. Í dag fór fram Kvennahlaupið á Hrafnistu í Reykjavík þar sem hátt í 100 konur (og nokkrir karlar) fóru út í sólina til að taka þátt. Ég fékk það skemmtilega en vandasama verkefni að hengja verðlaunapeninga um hálsinn á þátttakendum þegar komið var í mark og tókst það að mestu leiti bara ágætlega þó ég segi sjálfur frá Smile

Kvennahlaupið er annars skemmtilegt framtak sem fagnar 25 ára afmælið í ár. Ein af upphafskonum hlaupsins, Lovísa Einarsdóttir, var einmitt samstarfskona mín á Hrafnistu í nokkur ár, áður en hún lést fyrir aldur fram. Á síðustu árum hefur skapast sá skemmtilegi siður á Hrafnistuheimilunum að hvert heimili heldur sitt eigið kvennahlaup rétt eins og ýmsir kaupstaðir og þorp úti á landi. Þar sem Hrafnistufólk er mjög dugmikið, þurfum við alltaf að vera á undan aðal-hlaupdeginum (sem er á laugardaginn). Hlaupið fór því fram á Hrafnistu í Reykjavík í dag, verður á Hrafnistu í Kópavogi á morgun og Hrafnistu Hafnarfirði á föstudag.

kvennahlaup 

Mynd dagsins er tekin fyrir utan Hrafnistu í Reykjavík í dag þar sem árlegt kvennahlaup fór fram í blíðskaparveðri. Við þjófstörtuðum hlaupinu aðeins þar sem formlegur dagur hlaupsins er næsta laugardag. Þarna er ég að byrja að hengja verðlaunapeninga á þátttakendur en til hliðar má sjá alla verðlaunapeningana og samstarfsfólk mitt (Böðvar með harmonikkuna og Sigrúnu forstöðumann) ásamt heimilisfólki. Tekið var á móti þreyttum hlaupurum með harmonikkuleik, ávöxtum og svaladrykkjum. Þetta var því mjög ánægjuleg stund og gaman að fá að hjálpa til. 


Vertu nú með upp í Vatnaskóg...

Þriðjudagurinn 10. júní 2014

 

Það var líf og fjör fyrir utan félagsheimili KFUM og KFUK við Holtaveg í morgun. Þá voru um 100 drengir að leggja í hann til tæplega vikudvalar í sumarbúðunum í Vatnaskógi. Þar á meðal var yngri sonurinn á heimilinu, Magnús Árni. Magnús Árni var að fara í fyrsta sinn í Vatnaskóg en í vetur ákváðu fimm vinir að fara saman og nú var stóra stundin runnin upp. Þetta verður án efa mikið ævintýri og reynsla fyrir þá alla sem skilur eftir góðar minningar sem einhverjar geymast án efa alla ævi. Það hlýtur að vera holt fyrir alla að komast burtu í nokkra daga frá sjónvarpi, tölvum, símum og sælgæti Cool

Sjálfur fór ég þrisvar í Vatnaskóg (ef mig minnir rétt) og þetta var þvílíkt ævintýri í hvert skipti. Maður á ótrúlega margar góðar minningar frá þessum tima. Ég hef eitthvað verið að rifja þetta upp með Magnúsi síðustu daga en uppgötvaði fljótt að sjálfsagt væri þetta eitthvað breytt þar sem það eru rúm 30 ár síðan ég var þarna strákur! Engu að síður höfum við geta spjallað marg og sjálfsagt er starfsemin þarna í grunnin alltaf sú sama. Held að allir komi til baka sem betri og þroskaðri einstaklingar eftir dvöld í sumarbúðunum í Vatnaskógi.

Vatnaskógur 

Mynd dagsins er tekin í rútunni rétt fyrir brottför pilta í 2. flokki í Vatnaskóg nú í morgun. Það var mikil spennan í loftinu hjá Magnúsi Árna og vinum hans áður en lagt var af stað og ég náði aðeins að fanga stemminguna hjá piltunum. Á myndinni eru frá vinstri: Anton, Óli, Dagur (fyrir aftan), Eyþór og Magnús Árni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband