Færsluflokkur: Bloggar
2.6.2014 | 23:02
Pása í 4 ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2010 | 22:30
Fagurt útsýni úr Fljótshlíðinni
Föstudagur 2. apríl 2010
Vegna fermingar Ágústar Loga um síðustu helgi ákáðum við fjölskyldan að vera einstaklega róleg í tíðinni yfir páskahátíðarnar. Oft höfum við farið norður til Akureyrar þessa daga, en núna var dvalið sunnan heiða. Seinni partinn í dag fórum við þó í bíltúr inn í Fljótshlíð til að skoða eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Í Fljótshlíðinni voru mjög margir á ferðinni, örugglega 500-1000 bílar. Þrátt fyrir gott veður sáum við nú ekki mikið af gosinu í dagsbirtunni, en um leið og fór að rökkva sást appelsínuguli liturinn í gosinu betur. Við stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni og fórum alveg inn að fjallinu sérstaka og skemmtilega - Einhyrningi. Best var útsýnið á gosið til móts við Þórsmörk og Húsadal. Þetta var mjög tilkomumikið og við náðum nokkrum góðum myndum. Á leiðinni til baka lentum við í miklum umferðartöfum við að komast út úr Fljótshlíðinni, enda mikill fjöldi bíla á svæðinu og vegirnir ekki gerðir fyrir mikla umferð í báðar áttir. Allt tókst þetta nú að lokum. Við héldum nú reyndar ekki heim á leið eftir eldgosaskoðunina heldur var farið í bústað foreldra minna í Úthlíð þar sem gistum um nóttina.
Mynd dagsins er tekin innst í Fljótshlíðinni nú í kvöld og sýnir eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Inga smellti af þessari skemmtilegu mynd rökkri en góðu veðri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2010 | 22:12
Vorverkin hafin í garðinum
Fimmtudagur 1. apríl 2010
Fljótlega eftir að við fjölskyldan vorum komin á ról í morgun náði Inga að láta mig hlaupa 1. apríl með sama hætti og í fyrra. Það var að fara eldsnemma yfir til nágrananna til að sækja eitthvað sem okkur vantaði. Þau voru öll steinsofandi þegar ég kom og skildu ekkert í framtaksemi minni - ég vona að þetta sýni bara hvað ég er fús til að vera hjálplegur við frúnna . Eftir hádegið brá ég mér í út garð og hóf svo vorverkin í garðinum - á þessum árstíma eru það trjáklippingar. Ég fór semsagt með rafmagnsklippurnar í garðinn í dag enda ekki seinna vænna þar sem gróðurinn er allur að koma til. Reyndar er það mikið af trjágróðri hér í garðinum að ég er eiginlega frekar að stunda skógarhögg en smávægilegar trjáklippingar. En þetta gekk allt vel og kláraðist fyrir kvöldmatinn. Bara gaman að drífa sig í vorverkin.
Mynd dagsins er tekin úti í garði í dag og þarna er ég að klippa trén og snyrta fyrir sumarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 22:52
Fræðslukvöld um Fimmvörðuháls
Miðvikudagur 31. mars 2010
Í kvöld fórum við Inga á fræðslu- og myndakvöld hjá Ferðafélagi Íslands þar sem fjallað var um eldgosið á Fimmvörðuhálsi sem hófst á dögunum. Þar voru um 200-300 manns samankomnir til að hlusta á Harald Sigurðsson eldfjallafræðing og Steinunn Jakobsdóttir jarðeðlisfræðing skýra í máli og myndum frá eldgosinu, þróun þess og líklegri framvindu. Haraldur er heimsþekktur eldfjallafræðingur sem hefur á langri starfsævi unnið að rannsóknum á eldfjöllum víða um heiminn. Erindi hans var mjög skemmilegt og fróðlegt. Steinunn Jakobsdóttir verkefnastjóri jarðváreftirlits á Veðurstofu Íslands en sú stofnun vakir yfir öllum eldfjöllum Íslands og sagði hún frá því starfi. Dagskráin hófst reyndar á því að jarðeðlisfræðingur sem staddur var í Þórsmörk lýsti í gegnum síma fyrir viðstöddum þegar ný gossprunga var að opnast á Fimmvörðuhálsinum en það var bara að rétt að gerast á sama tíma og kvöldið hófst. Það var ansi tilkomumikið. Fróðlegt og skemmtilegt kvöld - nú verður maður bara að fara að drífa sig á gosstöðvarnar.
Mynd dagsins er fengin af láni og sýnir eldsumbrotin á Fimmvörðuhálsi. Við Inga vorum á mjög fróðlegu og skemmtilegur fræðslukvöldi um eldgosið nú í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 22:39
Fartölva hjá fermingardrengnum
Þriðjudagur 30. mars 2010
Síðustu 2-3 dagar hafa farið mikið í það að spá og spukulera um fartölvur. Eins og fram kemur hér í nokkuð mörgum færslum, fermdist eldri sonurinn á heimilinu síðast liðinn sunnudag. Hann helsta óska var að eignast fartölvu ef fermingarpeningarnir dyggðu til þess og veittum við foreldranir samþykki til þess. Hann fékk nægan pening í gjafir fyrir fartölvu og höfum við í gær og dag verið að þræða hinar ýmsu tölvubúðir; fá ráð og bæklinga til að bera saman bækur okkar. Það er ennþá alveg ótrúlega hröð þróun í þessum tölvuheimi og nánast daglega kemur fram ný fartalva sem er aðeins betri en sú síðasta. Það er því í mörg horn að líta þegar að kemur að vali á fartölvu. Til að gera langa sögu stutta komist við feðgar að niðurstöðu í dag og rétt fyrir klukkan 19 fjárfesti pilturinn í nýrri fartölvu að Toshiba-gerð í ELKO (undirtegund og raðnúmerum öllum er ég löngu búin að gleyma en tölvan á að vera mjög góð).
Mynd dagsins er fermingardrengnum með nýju fartölvuna sem hann keypti í dag - svakalega ánægður með kaupin enda má hann bara vera það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 22:26
Sequense
Mánudagur 29. mars 2010
Eitt það skemmtilegasta sem yngri sonurinn á heimilinu, Magnús Árni, gerir þessa dagana er að spila spilið Seguence. Þetta er skemmtilegt fjölskylduspil fyrir 2-3 leikmenn þar sem heppni og útsjónarsemi fara saman. Notaðir eru tveir spilastokkar og skífum er raðað á sérstakt spilaborð með það að markmiði að raða 5 skífum í sama lit í röð. Eftir baðferð Magnúsar nú í kvöld tókum við eitt spil og þá tók ég mynd dagsins sem er af Magnúsi Árna að spila sequense
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 13:54
Ferming Ágústar Loga
Sunnudagur 28. mars 2010
Í dag er fermingardagur frumburðarins á heimilinu, Ágústar Loga. Við fórum snemma á fætur og við feðgar drifum okkur í sund hér í Lágafellslaug í Mosfellsbænum. Við slökuðum vel á í heita pottinum og náðum góðu baði fyrir stóra daginn. Það var líka ágætt að létta aðeins á áganginum á baðherberginu heima fyrir. Eftir heimkomu var farið í sparifötin og fermingardrengur keyrður til kirkju þar sem hann var mættur kl. 9:45 eða þremur korterum fyrir athöfnina. Við fjölskyldan vorum svo mætt í kirkjuna tímanlega og fengum sæti á fremsta bekk í fermingarguðþjónustunni. Veðrið var hið fegursta. Athöfnin gekk mjög vel og var falleg en alls voru 15 börn fermd í Lágafellskirkju nú í morgun. Eftir athöfnina héldum við í félagsheimilið Hlégarð hér í Mosfellsbænum þar sem um 70 ættingjum og vinum var boðið til veislu. Veislan hófst kl. 13 og var boðið upp á hlaðborð en á eftir fylgdu heimabökuð kransaka og fermingarterta úr Mosfellsbakaríi. Veislan tókst mjög vel í alla stað og við foreldrarnir og fermingardrengurinn voru gríðarlega ánægð með daginn. Um fimm-leitið voru gestirnir farnir og þá héldum við fjölskyldan ásamt ömmum, öfum og nokkrum öðrum góðum gestum heim á leið þar sem við áttum góða stund saman við að opna fermingargjafir og skoða skeyti sem drengurinn fékk. Flestar gjafirnir voru reyndar peningar en fyrirfram hafði Ágúst gefið út að hann vildi reyna safna sér fyrir góðri myndavél og fartölvu og þau markmið náðust.
Mynd dagsins er reyndar frá ljósmyndatökunni á föstudaginn og sýnir fermingardrenginn Ágúst Loga fagna því að vera búinn að fermast. Glæsilegur dagur dagurinn í alla staði og við fjölskyldan eru gríðarlega ánægð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 13:52
Lokaundirbúningur fyrir ferminguna
Laugardagur 27. mars 2010
Í dag er lokaundirbúningur fyrir fermingarveislu Ágústar Loga, sem er á morgun. Allt er á fullu og í mörg horn að líta. Í gærkvöldi komu Jóna systir Ingu frá Akureyri og synir hennar Rúnar og Arnar ásamt Hildi kærustu Arnars. Þær systur voru svo í dag að leggja lokahönd á kransakökur og fleiri skreytingar sem notaðar verða. Annars sleppum við nú frekar vel þar sem veislan verður haldin í félagsheimilinu Hlégarði hér í Mosfellsbænum og starfsfólkið þar sér um mat og grunnskreytingar . Sjálfur var ég í mestallan dag að undirbúa myndasýningu sem notuð verðuð í veislunni á morgun. Ég skannaði inn myndir af Ágústi Loga frá fyrstu árunum en það var í kringum 2002 sem við fjölskyldan fengum okkur stafræna myndavél. Árin eftir það eru öll til í tölvu (þ.e. myndir frá öllum helstu viðburðum fjölskyldunnar). Hins vegar tók drjúgan tíma að fara í gengum þetta allt en eftir daginn standa rúmlega 100 skemmtilegar myndir úr lífshlaupi fermingadrengsins sem sýndar verða á vegg í fermingarveislunni á morgun. Nokkrar þeirra valdi ég svo í sérstakt Slide-show sem ég ætla að tala sérstaklega um og segja frá í veislunni. Annars er bara allt orðið klárt og skemmtilegur dagur er framundan. Við pöntuðum svo heilu stæðurnar af pizzum ofan í mannskapinn sem kvöldmat nú í kvöld og það var mikið fjör.
Mynd dagsins er tekin í eldhúsinu hjá okkur í dag og sýnir systurnar Ingu og Jónu sem eru þarna á fullu að undirbúa kransakökur og fleiri kræsingar fyrir fermingu morgundagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 13:50
Fermingarmyndatakan
Föstudagurinn 26. mars 2010
Eins og fram hefur komið áður á þessari síðu er frumburður fjölskyldunnar, Ágúst Logi, að fara að fermast á sunnudaginn (28. mars). Við foreldranir vorum bæði í fríi í vinnunni í dag enda er í mörg horn að líta svona rétt fyrir fermingu. Það er nú ekki ástæða til að rekja það allt hér en hápunktur dagsins var án efa um kaffileitið þegar fermingarmyndatakan fór fram. Við ákáðum að fara í fjölskyldumyndatöku í leiðinni þannig að allir fjölskyldumeðlimir drifu sig í sitt fínasta púss. Fermingarmyndatökur hafa nú aldeilis breyst með tímanum. Ólína Margeirsdóttir ljósmyndari vildi endilega fá drenginn með hluti sem tengjast áhugamálum hans og úr varð að hann tók með sér fótboltagalla, gítar og snjóbretti í myndatökuna. Myndirnar voru mjög glæsilegar margar hverjar og heppnuðust vel. Einhverjar verðum við búnar að fá á diski til að sína í fermingarveislunni sjálfri. En það var mikið hlegið í myndatökunni og skemmtileg stund fyrir okkur í fjölskyldunni en við höfum ekki farið fjögur saman áður í svona formlega myndatöku.
Mynd dagsins smellti ég af í myndatökum fjölskyldunnar í dag. Þarna er verið að mynda bræðurna, Magnús og Ágúst, en Inga er að laga þá til. Skemmtilegur dagur og spennan magnast fyrir ferminguna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 13:48
Íslandsferð hjá Siggu, Steen og Aase
Fimmtudagur 25. mars 2010
Í kvöld brá ég mér í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þangað fór ég til að sækja Siggu móðursystur mína, Steen manninn hennar og Aase móður hans, en þau voru öll að koma í Íslandsferð frá Danmörku þar sem þau búa. Það er alltaf gaman að fá þau til landsins en þau koma hingað 2-3svar á ári. Aðaltilefnið núna er nú ferming Ágústar Loga sonar míns, n.k. sunnudag. Það var ágætis veður í Leifsstöð þegar þau komu en aðalumræðuefnið á leiðinni til baka var eldgosið á Fimmvörðuhálsi sem hófst s.l. laugardag. Við fjölskyldan færðum þeim íslensk páskaegg og á mynd dagsins eru þær Sigga og Aase glaðbeittar með eggin sín í fanginu ásamt Ágústi Loga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)