Færsluflokkur: Bloggar

Þegar allir leggja sitt af mörkum...

Þriðjudagur 3. nóvember 2009

Í dag lenti ég í þeirri lífsreynslu að vera fyrstur á vettfang í alvarlegu bílslysi. Ég var að keyra ásamt nokkrum félögum mínum eftir vinstri akrein á Reykjanesbrautinni, á móts við Smáralind, þegar keyrt var á gangandi mann á vinstri akreininni í gagnstæða átt við okkur. Ekki veit ég forsöguna en mér er skyndilega litið til vinstri yfir að Smáralindinni og sé þá dökka þúst snúast í loftköstum og lenda á götunni. Það tók mig einhver sekúndubrot að átta mig á að þessi dökka þúst var maður. Ósjálfráð viðbrögð mín voru að drífa bílinn upp á umferðareyju og rjúka út að manninum. Á leiðinni hringdi ég í 112 og fékk aðstoð vegna fyrstu viðbragða. Ég sá fljótt að maðurinn andaði en var ekki með meðvitund. Eftir smá stund hreyfðust augun og svo komst smá saman til meðvitundar. Lögreglan var komin eftir 5-10 min og sjúkrabíll nokkru síðar. Það sem er nú merkilegast við þetta er hve margir voru hjálpsamir á þessari stundu. Oft heyrir maður talað um að Íslendingar séu lítið að skipta sér að öðrum og hjálpi ekki náunganum en það var nú ekki í þessu tilviki. Fljótlega á eftir mér kom fleira fólk til aðstoðar, einhver kom með teppi en aðrir byrjuðu að stjórna umferð enda lá maðurinn inn á fjölfarinni hraðbraut. Ég tók líka eftir að nokkrir fóru að hlúa að ökumanninum og farþegum hans enda var bíllinn þeirra stórskemmdur. Það var alveg ljóst þegar ég kom að manninum að hann var töluvert slasaður (ætla ekki að lýsa því nánar) en þó leið mér mjög vel að sjá þegar hann komst til meðvitundar. Ánægjulegt var að sjá allt þetta fólk leggja sitt af mörkum og lögreglan og sjúkrabíllinn voru komnir ótrúlega fljótt á vettfang. Eftir aðeins 15 mín frá því að slysið gerðist gekk ég aftur í bílinn minn og var því bara örlítið seinn á fundinn sem ég var að fara á. Ég vona að maðurinn nái sér eftir þetta þó það taki örugglega dálítinn tíma en ekki síður vona ég að ökumaðurinn jafni sig fljótt - örugglega ansi mikið sjokk fyrir hann.

mbl slys
Mynd dagins er fengin að láni frá mbl.is en hún fylgdi með frétt um slysið sem ég kom að í dag. Nokkuð mögnuð upplifun en gott ef ég kom að einhverju gagni og aðallega jákvætt við þennan atburð dagsins að sjá hvað við Íslendingar getum lagt okkar af mörkum ef eitthvað bjátar á. Hér er svo textinn úr fréttinni:
"Á leið í aðgerð eftir bílslys. Eldri karlmaður sem varð fyrir bifreið á Reykjanesbraut á móts við Smáralind um kl. 13 í dag liggur alvarlega slasaður á gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi. Að sögn vakthafandi læknis er maðurinn á leiðinni í aðgerð. Lögreglan þurfti að loka akbrautinni sem liggur til suðurs og beina umferð inn á eystri akbrautina. Umferð var hins vegar hleypt á akbrautina síðdegis." 

Twister!

Mánudagur 2. nóvember 2009

Nú undir kvöld fórum við Magnús Árni í skemmtilegt spil eða leik sem heitir "Twister". Þessi leikur er mjög skemmtilegur og reyndir aldeilis á liðleika, styrk og úthald. Keppendur gera til skiptist og þurfa að færa hönd eða fót milli litaðra bletta á "leikvellinum". Sá sem dettur fyrr tapar. Mjög skemmtilegt!

IMG_6147[1]

Mynd dagsins er af okkur Magnúsi Árna að leika hin skemmtilega leik "Twister".


Hannes frændi sjötugur

Sunnudagur 1. nóvember 2009

Ég vaknaði um 10-leitið í morgun á ferðaþjónustubýlinu Steinstöðum í Skagafirði (sjá færslu gærdagsins). Eftir að við höfðum gætt okkur á morgunverðarhlaðborði voru félagarnir kvaddir og faðmaðir og brunað af stað í Mosfellsbæinn. Við stoppuðum nú reyndar tvisvar örstutt á leiðinni. Fyrst hjá Önnu tengdamömmu í Borgarnesi og svo líka hjá mömmu og pabba á Akranesi þar sem við sóttum Magnús Árna. Um klukkan fjögur var öll fjölskyldan komin heim og búin að klæða sig í sparifötin. Þá var haldið í sjötugsafmæli frænda míns Hannesar Wöhler sem bauð til teitis heima hjá sér í Fossvoginum. Þar var boðið upp á ljúffengar veitingar og hápunktur veislunnar var þegar börn afmælisbarnsins komu pabba sínum á óvart með því að fá dægurlagasöngvarann Ragga Bjarna til að taka nokkur lög og koma veislugestum í stuð. Það tókst mjög vel hjá Ragga og afmælið var alveg hin fínasta skemmtun.

IMG_6143[1] 

Mynd dagsins er úr sjötíu ára afmæli Hannesar frænda í dag. Ég smellti einni mynd þegar stórsöngvarinn Raggi Bjarna heilsaði upp á Hannes. Flottir karlar og flott afmæli!


Undir bláhimni skemmta Hvatberar sér!

Laugardagur 31. október 2009

Í dag erum við Inga ásamt Ágústi Loga, stödd á ferðaþjónustubýlinu Steinstöðum í Skagafirði. Þar er gönguhópur okkar, sem heitir "Hvatberar", að hittast á sínu árlega mynda- og skemmtikvöldi sem stendur nú reyndar yfir allan daginn og fram á næsta dag. Magnús Árni fór hins vegar í heimsókn til ömmu og afa á Akranesi þar sem hann er ennþá of ungur til að vera með okkur í gönguferðunum. 36 Hvatberar voru mættir í gærkvöldi en þá var engin formleg dagskrá. Eftir morgunverð nú í morgun var farið í skoðunarferð um nágrennið og kíkt við á safninu í Glaumbæ. Þar var mættur heimamaður, Sigurður Hansen, sem jós úr viskubrunni sínum ýmsum góðum sögum af svæðinu. Seinni partinn fóru flestir í sund en á Steinstöðum er fín sundlaug og heitur pottur. Maður var vel soðinn eftir rúmlega klukkustundar setu í pottinum en í góðum hóp líður tíminn hratt. Myndakvöldið, sem reyndar er ein samfeld risaveisla, hófst svo stundvíslega klukkan 19:30. Borin var fram þrírétta máltið undir þemanu íslensk náttúra en Sigríður Bergvinsdóttir, vinkona okkar, sem hefur verið í nokkrum færslum hér áður, var yfirmatselja ásamt því að skipuleggja helgina og í rauninn flest allt það sem Hvatberar gera. Milli rétta var svo fjöldi skemmtiatriða þar sem ýmsir stigu á stokk endag fjöldi hæfileikafólks í hópnum. Einnig var líka sungið hátt og mikið þar sem tveir öflugir hljóðfæraleikarar eru í hópnum. Auðvitað var svo myndasýning frá ferðinni okkar sem farin var s.l. sumar á Rauðsand (sjá færslur 26.-28. júní 2009). Myndasýninginn var í minni umsjón en nokkrir úr hópnum höfðu sent mér góðar myndir úr ferðinni og gat ég því valið um fjölda góðra mynda á hverjum göngudegi. Eftir að ferð næsta árs, Norðurstrandir, hafði verið kynnt og samþykkt með lófaklappi, var formlegri dagskrá slitð um kl. 23:30. Þá tók við fjöldasöngur, dans og spjall fram á rauða nótt. Þeir síðustu fóru að sofa rúmlega fjögur. Þetta var alveg frábær stund í frábærum hóp Smile 

IMG_6139[1]

Mynd dagsins er tekin um miðnættið og sýnir veisluna okkar í algleymi. Þarna er verið að dansa "kokkinn" sem er auðvitað mikið fjör. Í baksýn má sjá grilla í hljóðfæraleikaranna okkar, þá Gulla gítarleikara og Ingimar tengdapabba með harmonikkuna. Aldeilis rosalega skemmtilegur dagur og vel heppnað kvöld SmileGrinGrinGrinGrinSmile


Tveir kokdillar fyrir Skagafjarðarferð

Föstudagur 30. október 2009

Það var mikið um að vera hjá okkur Ingu seinni partinn í dag. Í kvöld var ætlunin að fara í Skagafjörð en fram að þeim tíma þurfum við að mæta í tvo kokteilpartý eða kokdilla. Klukkan fimm vorum við mætt í þann fyrri og um hálfsjö í þann síðari. Sá síðari tengist vinnu minni en það var kveðjuhóf fyrir Ásgeir Guðnason, sem er að hætta í stjórn Sjómannadagsráðs sem er eigandi Hrafnistuheimilanna þar sem ég starfa. Við Ásgeir höfum átt mikið og gott samstarf þannig að hans verður saknað. Ég vildi því endilega vera með í kveðja hann og áttum við ánægjulega stund. Um kl. 21:30 vorum við Inga komin heim í Hrafnshöfðann þar sem lokið var við að pakka fyrir ferð helgarinnar í Skagafjörð en um það verður fjallað í færslu morgundagsins. Við fórum seint að sofa því við vorum ekki kominn á áfangastað fyrr en um kl. 2 að nóttu.

IMG_6008[1]

Mynd dagsins er tekin í kokdilli í kvöld og sýnir okkur Ingu ásamt Mæju, eiginkonu Guðmundar Hallvarðssonar stjórnarformanns Sjómannadagsráðs sem er eigandi vinnustaðar míns, Hrafnistuheimilanna.


Flott Frida!

Fimmtudagur 29. október 2009

Inga bauð mér í leikhús í kvöld. Við fórum í Þjóðleikhúsið og sáum leikritið Frida -viva la vida. Þetta er íslenskt verk um líf mexíkósku listakonunnar Fridu Kahlo. Frida var ein af forvitnilegustu myndlistarmönnum 20. aldarinnar og er í miklu uppáhaldi hjá Ingu. Brynhildur Guðjónsdóttir leikur Fridu. Á heimasíðu þjóðleikhússins segir um verkið: "Sýningin er ferðalag um einstæða veröld þessarar tilfinningaríku konu, sem í gegnum sorgir og þjáningar orti hið undursamlega ljóð eigin lífs á striga - átakanlegt en fagurt, hávaðasamt en friðsælt. Það elska engar tvær manneskjur eins, og svo sannarlega engin eins og Frida Kahlo. Ögrandi verk um litina í lífinu og ástinni, þá mildu og þá sterku, þá heitu og djúpu, þá sem trylla og sefa, þá sem blasa við augum allra og þá sem bara sumir sjá." Ég skemmti mér ágætlega í leikhúsinu en get nú ekki sagt að þetta leikrit flokkist með mestu meistarastykkjum sem ég hef séð. Það vantaði eitthvað en þetta var þó gaman.

frida
 

Mynd dagins er kynningarmynd leikritsins um Fridu sem við Inga sáum í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Myndin sýnir aðalleikarana Brynhildi Guðjónsdóttur og Ólaf Darra Ólafsson. Sýningin var ágæt en eitthvað vantaði til að hægt sé að flokka þetta sem meistarastykki!


Skólafrí að byrja!

Miðvikudagur 28. október 2009

Það var mikill spenningur hjá sonunum í dag því dagurinn er síðasti dagur fyrir skólafrí hjá þeim. Þá fá þeir piltar frí í skólanum fram á næsta þriðjudag og einhverra hluta vegna þykir þeim þetta ekki leiðinlegt. Undir kvöld fór Ágúst í samkomuhúsið Hlégarð hér í Mosfellsbænum þar sem haldin var árshátíði félagsmiðstöðvarinnar Bólsins, sem hann sækir oft. Þar var dansað fram undir miðnætti. Á meðan fékk Magnús að vaka langt fram á kvöld.

IMG_6146[1]

Mynd dagsins er af sonunum, Ágústi Loga og Magnúsi Árna að fagna því að skólafríið sé byrjað!


Kynning hjá Kiwanis

Þriðjudagur 27. október 2009

Í kvöld var ég staddur á sveitakránni Ásláki hér í Mosfellsbænum þar sem fram fór Kiwanisfundur. Ég var beðinn að segja frá starfi mínu og starfsemi Hrafnistuheimilanna en einstaka sinnum er ég fenginn á ýmsa fundi til að segja fram starfseminni. Ég var með nokkrar glærur í power-point sem ég nota við þessi tækifæri og þetta gekk allt saman mjög vel þó þeir sem á hlýddu séu sjálfsagt misáhugasamir um öldrunarmál.

aslákur

Mynd dagsins er af sveitakránni Ásláki í Mosfellsbæ þar sem ég flutti erindi nú í kvöld.


Rigningardagur í Hveragerði

Mánudagur 26. október 2009

Dagurinn í dag fór nær allur í vinnu. Í mörg horn var að líta; fundir og ýmis verkefni sem þurfti að leysa úr. Helst bar til tíðinda að í hádeginu skaust ég til Hveragerðis þar sem ég þurfti að vera á fundi. Það var þoka á Hellisheiðinni og úrhellisrigning allan tímann sem ég dvaldi í Hveragerði. Í smellit af einni mynd þegar ég keyrði upp Kambana til baka í bæinn. Mynd dagsins sýnir hinn ágæta bæ, Hveragerði i rigningunni í dag Smile

IMG_5996[1]

Kaffi, gestagangur og fyrirsætumús

Sunnudagur 25. október 2009

Það var gestkvæmt hjá okkur í Hrafnshöfðanum í dag. Fyrir utan að vera með 5 næturgesti sem þurfti að næra (sjá færslur síðustu tvo daga), komu mamma og pabbi í kvöldmat. Fyrr um daginn höfðum við Ágúst Logi farið í messu í Mosfellskirkju sem liður í fermingaundirbúningi piltsins. Í kvöld fengum við svo góða gesti í heimsókn þegar Sigga (sjá færslu 18.  október 2009) og Ívar kíktu í kaffi (sjá færslu 20. september 2009). Við þrjú erum í undirbúningsnefnd vegna gönguferðar gönguhóps okkar, Hvatbera, sem fara á í á Strandir næsta sumar. Við vorum að leggja lokahönd á undirbúning á skipulagninguferðarinnar því um næstu helgi hittist gönguhópurinn og þá þarf ferðin okkar að vera orðinn klár. Þetta var því bara hinn skemmtilegasti dagur!

IMG_6057[1]

Mynd dagsins er ein skemmtilegasta mynd sem á sem tengist kaffi. Myndin er tekin í Glaumbæ í Skagafirði og sýnir hendurnar á Ívari (sem fjallað er um hér að ofan) taka mynd af lítilli, sætri mús sem var að laumast inni á safninu. Hún stillti sér upp eins og ljósmyndafyrirsæta og leyfði okkur að taka myndir af sér þó hún hafi sjálfsagt verið óboðinn gestur á kaffihúsi safnsins Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband