Færsluflokkur: Bloggar

Félagsmálaráðherra í heimsókn

Föstudagur 13. nóvember 2009

Í dag var skemmtilegur dagur í vinnunni minni. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra heimsótti þá mig og samstarfsfólk minn á einn af vinnustöðum mínum, Hrafnistu í Reykjavík. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun taka við málaflokknum öldrunarmál um næstu áramót og því mikilvægt að ég og mitt fólk séum í góðum tengslum við ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins.
Í heimsókninni var Árni Páll fyrst og fremst funda með yfirstjórn Hrafnistu en auðvitað var honum boðið í skoðunarferð um húsið þar sem hann m.a. heilsaðu upp á heimilisfólk. Ráðherra virtist bara nokkuð ánægður með okkar störf og það sem við höfðum fram að færa, þannig að þetta var hinn ánægjulegasti dagur.

felagsmalaradherra

Mynd dagsins er tekin á Hrafnistu í Reykjavík í dag, einum af vinnustöðum mínum. Þarna er ég ásamt Árna Páli félags- og tryggingarmálaráðherra að skoða eitt af herbergjunum á Hrafnistu.


Gengur þú til rjúpna?

Fimmtudagur 12. nóvember 2009

Seinni partinn í dag fékk ég merkilegt símtal. Í mig hringdi maður og þegar hann var búinn að kynna sig spurði hann mig hvort ég gengi til rjúpna. Ég sagði svo ekki vera en væri meira fyrir að borða rjúpur og annan fiðurfénað. Erindi þessa ágæta manns var að upplýsa mig um að hann hefði verið í rjúpnaleiðangri á Lyngdalsheiði og nágrenni og gengið þar fram á farsímann minn þar lengst upp á fjalli. Þessum ágæta síma tapaði ég í gönguferð sem ég var í þann 17. október s.l. (sjá nánar í færslu um þann dag). Hið ótrúlega gerðist, að ekki einungis er merkilegt að maðurinn hafi gengið fram á símann sem er svartur og nokkuð samlitur umhverfinu heldur hafði líka kviknað á honum þegar það var athugað. Maðurinn ágæti, er Jón Árni heitir, fann svo í skrá símanns símanúmerið "heima" og með hjálp ja.is fann hann út hver ég væri. Það er hreint ótrúlegt að sími sem legið hefur í heilan mánuð upp á fjalli í roki, rigningu og snjó sé bara í fínasta lagi. Ég þakkaði Jóni Árna kærlega fyrir og færði honum lítinn konfektkassa í þakklætisskyni enda kostar síminn töluverða fjárupphæð. Ekki var síður mikilvægt fyrir mig að endurheimta öll símanúmerinn sem geymd voru í minni símans.

IMG_6269[1]

Mynd dagsins er af fundvísa manninum, Jóni Árna, sem fann símann minn á Kálfatindum við Lyngdalsheiði þar sem síminn hafði legið í heilan mánuð í öllum mögulegum veðrum - en var í finu lagi eftir volkið Cool


Lestrarhestur á heimilinu

Miðvikudagur 11. nóvember 2009

Það er kominn lestrarhestur á heimilið. Á mánudaginn fékk Magnús Árni í fyrsta skipti, lestrarbækur heim með sér úr skólanum. Hann er í fyrsta bekk í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum og undanfarið hefur hann verið að læra starfina. Nú er hins vegar komið að stóru stundinni - að byrja að lesa. Magnús Árni var hins vegar orðinn læs þegar hann byrjaði í skólanum. Hann fær því alltaf tvær bækur með sér heim úr skólanum; sú fyrri er "lestrarbókin" sem byggir á einföldum lestraræfingum en svo fær hann líka að lesa aukalega í venjulegri bók. Það er ekkert slegið slöku við hjá drengnum því á hverjum degi fær hann nýja "lestrarbók" og hverja bók les hann þrisvar yfir. Það er því nóg að gera á heimilinu í kringum kvöldmatartímann þessa dagana þegar Magnús Árni les um Sísí og Lóló fyrir okkur foreldrana - þrisvar sinnum Smile

IMG_6281[1]

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna lestrarhesti. Í dag var það bókin "Í vali" sem við feðgar lásum og það mjög vel!


Fiskikvöld hjá strákunum

Þriðjudagur 10. nóvember 2009

Inga var ekki heima í kvöldmatnum. Þau kvöld þegar frúin er ekki heima höfum við strákarnir oft fisk í matinn og það var einnig svo í kvöld. Fyrir valinu var að fara í fiskbúðina hér í Mosfellsbænum en hún er aldeilis glæsileg, og í raun frábært fyrir okkur bæjarbúa að hafa fiskbúð í bænum okkar. Magnús Árni fékk að velja og valdi ýsu í raspi = steiktan fisk með karöflum og remolaði. Ágúst Logi kom svo um kvöldmatarleitið og var bara ansi hreint liðtækur í eldamennskunni. Kvöldverðurinn rann ljúflega niður.

IMG_6266[1]

Mynd dagsins er af Ágústi Loga matreiðslumeistara þar sem hann er í óða önn að steikja fisk fyrir strákakvöldið okkar nú í kvöld. Bara efnilegur kokkur drengurinn Smile


Snúið á svínaflensuna

Mánudagur 9. nóvember 2009

Í dag lét ég bólusetja mig við svínaflensunni. Ég er nú ekki vanur að taka upp flensur eða aðrar pestir sem ganga (sjö, níu, þrettán...) en allur er varinn góður. Það var Hildur samstarfskona mín sem fékk að njóta þess að stinga nálinni í mig en ég bar mig vel á meðan Smile Því miður var myndavélin ekki til taks þegar ósköpin gengu yfir.

svinaflensa

Mynd dagsins er af svínaflensunni CoolCoolCool samkvæmt fjölpósti sem gengur á netinu getur maður litið svona út eftir að hafa fengið svínaflensuna Tounge


Synirnir gerast eplabændur

Sunnudagur 8. nóvember 2009

Í dag var komið að kveðjustund fjölskyldunnar í Danmörku þar sem við höfum dvalið síðustu daga hjjá Siggu móðursystur minni og Steen manni hennar. Rétt fyrir hádegi skutlaði Sigga frænka okkur út á Kastrup flugvöll þar sem við notuðum síðustu dönsku krónurnar okkar. Við lentum svo í Keflavík um kaffileitið og vorum komin heim fljótlega eftir það eftir stutta en mjög skemmtilega Danmerkurferð.

 

IMG_6174[1]

Mynd dagsins er tekin í garðinum hjá Siggu og Steen. Í garðinum eru tvær tegundir af eplatrjám og nú er eplatínslutímabilið í hámarki. Önnur eplategundin er ætluð til að borða beint en hin eru súrari og meira hugsuð til matargerðar. Rétt áður en við komum til Danmerkur var heilmikið rok og þá féllu ansi mörg epli niður af trjánum. Strákarnir voru því drifnir út í garð að tína eplin áður en ormar og aðrir garðbúar náðu til þeirra. Þetta var mjög gaman Grin


Að ganga í takt...

Laugardagur 7. nóvember 2009

Í dag erum við fjölskyldan ennþá í Danmörku. Við tókum daginn snemma og fórum í bæinn. Kíktum á "Strikið", röltum í Nýhöfn og fleira skemmtilegt. Svo lá leiðin í Dýragarðinn þar sem við skoðuðum ísbirni, ljón, úlfa, ýmsar tegundir af öpum og margt fleira. Í sumar var svo opnað nýtt húsnæði fyrir fílana og það var mjög flott að skoða það. Um kvöldið var okkur svo boðið í ekta heima-svínasteik með brúnuðum kartölfum hjá Aase, mömmu Steen - hrikalega gott.

lifvördur

Mynd dagsins er tekin Amalíuborg í dag en það er heimili drottningarinnar. Það hefur löngum verið vinsælt að fylgjast með lífvörðum drottningar sem gæta hallarinnar og hafa gerta með svipuðum hætti í árhundruð. Sérstaklega fannst strákunum athyglisvert að horfa á vaktaskipti lífvarðanna sem eru mikil athöfn þar sem aðalatriðið er að ganga í takt, jafnvel þó það sé á staðnum. Myndin sýnir Ágúst Loga og Magnús Árna með einum af líffvörðum Danadrottningar í fullum skrúða.


Áströlsk nautasteik á hinu danska "hótel Holte"

Föstudagur 6. nóvember 2009

Í dag erum við fjölskyldan stödd í Holte við Kaupmannahöfn, hjá Siggu móðursystur minni og Steen eiginmanni hennar. Venju samkvæmt var dekrað við okkur í dag - í mat, drykk og öllu öðru. Seinni partinn kom Inga yfir til okkar frá Malmö þar sem hún hefur verið á ráðstefnu síðustu daga. Í kvöld var svo slegið upp veislu þar sem meistarakokkurinn Steen sýndi allar sýnar bestu hliðar og gaf kokkunum á hinu íslenska hótel Holti ekkert eftir. Alveg frábær máltíð í lok á góðum degi.

IMG_6194[1]

Mynd dagsins er tekin í kvöld hjá Siggu og Steen í Holte, þar sem bornar voru fram ástralskar nautasteikur og meðlæt en eldamennskan gefur hinu íslenska hótel Holti ekkert eftir Smile


Í skógarferð í Danmörku

Fimmdagurinn 5. nóvember 2009

Dagurinn í dag hófst snemma eða kl. 4:45. Þá vöknuðum við feðgar því í dag var stefnan sett á að fljúga til Danmerkur. Við vorum mættir út á flugvöll upp úr kl. 6 og þá var skoðað í nokkrar búðir áður en við fengum okkur í svanginn og fórum út í vél. Við lentum heilu og höldnu á Kastrup í hádeginu eftir mjög þægilega ferð, alveg ótrúlegur munur að fljúga með krakka eftir að nýju sætin með sjónvarpsskjáunum komu í vélarnar. Steen, eiginmaður Siggu frænku, kom og sótti okkur á flugvöllin og fór með okkur heim til þeirra hjóna þar sem ætlunin er að dvelja. Við tókum svo daginn bara rólega enda urðum við allir frekar þreyttir og syfjaðir þegar leið á daginn. Í kvöldmat var boðið uppp á þjóðlegan danskan rétt "fríkadellur" (íslensk stafsetning) eða steiktar kjötbollur sem slógu alveg í gegn.

IMG_6181[1]

Mynd dagsins er tekin í skóginum við Holte í Danmörku þar sem við feðgarnir ætlum að dveljast næstu dagana. Fyrir utan húsið þeirra er þessi skemmtilegi skógur ásamt stöðuvötnum og fjölbreyttu dýralífi Það eru flottir haustlitir í skóginum núna og mikið af laufblöðum. Steen tók þessa skemmtilegu mynd af okkur feðgum ásamt Siggu frænku.


Pakkað niður fyrir Köben

Miðvikudagur 4. nóvember 2009

Á morgun stendur mikið til því þá ætla ég til Danmerkur ásamt strákunum, í langa helgarferð. Við munum dvelja fram á sunnudag hjá Siggu, systur mömmu og Steen manni hennar. Þau búa í Holte, sem er í útjaðri Kaupmannahafnar. Inga fór til Svíþjóðar í morgun þar sem hún verður á ráðstefnu næstu tvo daga en svo mun hún koma yfir til okkar og eyða með okkur helginni. Í kvöld vorum við feðgarnir því að pakka niður. Þó við ætlum aðeins að vera í fjóra daga þarf ýmislegt að taka með sér og í kvöld pökkuðum við niður dótinu okkar - vorum í raun ekki lengi að því. Þótt ótrúlegt sé sofnuðu drengirnir bara tiltölulega snemma.

IMG_6257[1]

Mynd dagsins er af Magnús Árna að "pakka" fyrir Danmerkurferðina í fyrramálið. Hann var mjög æstur að fá að pakka sjálfum sér í töskuna en eftir stuttar samningaviðræður náðist samkomulag um að fötin og dótin færu í töskuna, en ekki hann sjálfurCool


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband