Færsluflokkur: Bloggar
1.12.2009 | 21:56
Heilsubælið í Gervahverfi
Mánudagur 23. nóvember 2009
Það vinsælasta á heimilinu þessa dagana er DVD-diskur sem barst hingað á dögunum - Heilsubælið í Gervahverfi. Heilsubælið eða Heilsubælið í Gervahverfi er íslensk þáttasería sem framleidd var fyrir Stöð 2 árið 1987. Þættirnir fjalla um líf starfsfólks Heilsubælisins og baráttu þeirra við sjúklingana. Gert er grín að sjúkrahúslífinu eins og mögulegt er og fara Laddi, Pálmi Gests og Edda Björgvins á kostum. Synirnir báðir og vinir hlægja mikið en ekki síður höfum við Inga mjög gaman að rifja upp þessa þætti og hlægja að gömlum, góðum og klassískum bröndurum.
Mynd dagsins er kynningarmynd fyrir Heilsubælið í Gervahverfi - þessa gömlu góðu þáttaseríu sem nú er komin á DVD og hefur algerlega slegið í gegn hjá yngri kynslóðinni á heimilinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 22:39
Jólabingó Lágafellsskóla
Sunnudagur 22. nóvember 2009
Eftir hádegi í dag fór ég með sonunum, þeim Magnúsi Árna og Ágústi Loga, á jólabingó foreldrafélags Lágafellskóla hér í Mosó. Þeir bræður stunda báðir nám í skólanum og voru báðir spenntir að fara. Stóri salurinn í Lágafellsskóla var troðfullur af krökkum og foreldrum (400 manns) og spjöldin runnu út eins og heitar lummur. Ágúst hvarf fljótlega frá okkur og fór í hóp félaga sinna en við Magnús settumst hjá Elísabetu vinkonu hans og Halla pabba hennar. Fjöldi fyrirtækja gefur vinninga á bingóið sem haldið hefur verið árlega í mörgár og er alltaf vinsælt, sérstaklega meðal þeirra yngri. Þeir bræður hafa oft verið lunknir bingóspilarar og krækt í vinninga. Þetta bingó var enginn undantekning. Eftir nokkrar umferðir öskraði Magnús "bingó" og rauk upp á svið. Hann var reyndar í hópi nokkurra annara sem höfðu fengið bingó á sama tíma. Honum var alveg sama þó hann fengi ekki vinning umferðarinnar heldur kom sigri hrósandi til baka með nammi-dagatal sem var aukavinningur. Í næst síðustu umferðinni var það svo Ágúst Logi sem fékk fystur bingó í salnum og fékk í vinning poka með ýmsum glaðningi: mánaðarkort í World-class, gjafabréf fyrir 5 kg kalkúna, vandað ullarteppi frá Álafossi, fótboltasokkar o.fl. þeir bræður komu því báðir hinir ánægðustu heim.
Mynd dagsins er tekin á jólabingói Lágafellskóla í dag. Á myndinni sjást glaðbeittir bingóspilarar og í forgrunni eru Magnús Árni, Elísabet vinkona hans og Halli pabbi hennar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2009 | 23:18
Kátt í Kotinu!
Laugardagur 21. nóvember 2009
Þrátt fyrir að hafa verið í skemmtilegri veislu í gærkvöld var ég kominn á fætur kl. 7 í morgun og mættur í Knattspyrnuhöllina í Reykjanesbæ kl. 8:15. Þar var Ágúst Logi sonur minn að keppa á fótboltamóti. Við vorum komnir heim upp úr hádegi. Seinni partinn fórum við fjölskyldan til Kristínar mágkonu minnar og hennar fjölskyldu í Unnarholtskoti við Flúðir. Það var kátt í kotinu - krakkar léku saman og við fullorðna fólkið spjölluðum. Svo þurfti líka að borða góðan mat saman en við vorum samt bara komin snemma heim aftur. Bara stutt en skemmtileg heimsókn í þetta skiptið!
Mynd dagsins er tekin hjá Kristínu mágkonu og fjölskyldu, í Unnarholtskoti í kvöld. Það var kátt í Kotinu en þarna erum við að borða saman. Á myndinni eru frá vinstri: Magnús Árni, Kristín Erla, Inga, Ágúst Logi, Kristinn Þór, Anna tengdó, Anna Dagbjört, Styrmir og Þorsteinn litli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2009 | 23:04
Heimsókn í Ölgerðina
Föstudagur 20. nóvember 2009
Nú í kvöld var með boðið að skoða Ölgerðina ásamt góðum hópi fólks. Ölgerðin er eitt af elstu fyrirtækjum landsins, en hún náði 95 ára aldri árið 2008. Nú er Ölgerðin í að framleiða, flytja inn, dreifa og selja matvæli og sérvöru af ýmsum toga. Í september opnaði Ölgerðin nýtt og glæsilegt húsnæði. Byrjað var á að bjóða okkur inn á "bar" fyrirtækisins þar sem við fengum hressingu og farið var yfir sögu fyrirtækisins á skemmtilegan hátt. Svo fórum við í skoðunarferð þar sem okkur var m.a. sýnd bjórbruggun fyrirtækisins á öllum stigum og ýmislegt fleira. Eftir skoðunaferðina fór ég svo í mjög skemmtilega veislu þannig að kvöldið var hið ánægjulegasta í alla staði!
Mynd dagsins er líklega af frægustu vöru Ölgerðarinnar - appelsíninu. Það var mjög gaman og forvitnilegt að skoða Ölgerðina nú í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2009 | 01:01
Guðdómlegar kótilettur!!!
Fimmtudagur 19. nóvember 2009
Í kvöld var ég staddur á haustfundi Sjómannadagsráðs, en ráðið er meðal annars eigandi vinnustaðar míns, Hrafnistuheimilanna. Fundur sjálfur er svo sem aukaatriði hér en hins vegar er ein dásamlega skemmtilegt hefð tengd haustfundinum. Í lok fundar er fundarmönnum ætíð boðið til kvöldverðar og það er alltaf það sama í matinn: kótilettur í raspi með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rauðkáli. Þetta er alveg guðdómlega gott og eitt það besta sem ég fæ (enda mjög óhollt) enda er þessi fæða ekki víða á boðstólnum lengur. Þrátt fyrir að ég væri að fara í fótbolta síðar í kvöld borðaði ég mig alveg pakksaddan enda ekki á hverjum degi sem maður fær svona gamaldags kótilettur!
Mynd dagsins er af mér með kótiletturnar á haustfundi Sjómannadagsráðs í kvöld - alveg guðdómlega gott
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2009 | 00:50
Bragðgott bókmenntahlaðborð
Miðvikudagur 18. nóvember 2009
Í kvöld fórum við Inga á árlegt Bókmenntakvöld Bóksafns Mosfellsæjar, sem kallast "Bókmenntahlaðborð". Síðustu ár hefur bókasafnið boðið bæjarbúum á bókmenntakvöld þar sem nokkrir íslenskir höfundar hafa komið og lesið úr verkum sínum fyrir gesti, sem sitja vítt og breitt um safnið við kertaljós og fá rauðvínsglas og piparkökur. Í kvöld var fullt út úr dyrum þegar við Inga mættum enda fimm spennandi höfundar að lesa. Þetta voru Huldar Breiðfjörð (Færeyskur dansur), Kristín Marja Baldursdóttir (Karlsvagninn), Stefán Máni (Hyldýpi), Steinunn Sigurðardóttir (Góði elskhuginn) og síðast, en ekki síst heimamaðurinn Jón Kalman Stefánsson (Harmur englanna). Á eftir voru svo pallborðsumræður höfundanna undir stjórn Katrín Jakobsdóttur bókmenntafræðings og menntamálaráðherra. Það verður nú bara að segjast eins og er að þetta kvöld var hið fínasta skemmtun - og höfundarnir voru bara hver öðrum betri og heppnaðst bara mjög vel að láta höfundana lesa sjálfa. Umræðurnar voru líka skemmtilegar þannig að kvöldið var hið ánægjulegasta.
Mynd dagsins er frá bókmenntahlaðborðinu á Bókasafni Mosfellsbæjar í kvöld. Rithöfundarnir eru við langborðið og eru frá vinstri: Huldar Breiðfjörð, Stefán Máni, Steinunn Siguðardóttir (standandi), í hvarfi við hana er svo Kristín Marja Baldursdóttir, Jón Kalman Stefánsson og á endanum er stjórnandi kvöldsins, Katrín Jakobsdóttir - mjög skemmtilegt og bragðgott bókmenntahlaðborð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 21:56
Afmælisboð hjá pabba!
Þriðjudagur 17. nóvember 2009
Í dag á pabbi afmæli - er 74 ára í dag kappinn! Í tilefni þess fórum við fjölskyldan nú í kvöld í heimsókn á Skagann til pabba og mömmu og fengum gómsætan kvöldmat. Pabbi fékk auðvitað að velja afmælismatinn og fyrir valinu varð lambalæri með brúnuðum karöflum. Það fór vel ofan í afmælisgestina og í eftirrétt fengum við nýbakaðar pönnukökur með rjóma að hætti mömmu
Mynd dagins er úr afmælisveislu pabba nú í kvöld - til hamingju með daginn!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 21:34
Fundahöld í Hvalfirði
Mánudagur 16. nóvember 2009
Eftir hádegi í dag var ég staddur á hótelinu Glymur í Hvalfirði, tengt vinnu minni. Þar var ég vinnufundi á þessu skemmtilega hóteli. Það var skítakuldi og góður trekkur í Hvalfirðinum í dag en sól, þannig að fjörðurinn skartaði sínu fegursta. Ég hef aðeins örsjaldan komið inn í Hvalfjörð síðan Hvalfjarðargöngin opnuð 1998 en fram að því hafði ég nú verið amk vikulegur "gestur" í firðinum. Hvalfjörður er hins vegar mjög fallegur og nú hinn síðari ár er maður virkilega farinn að njóta hans sem slíks.
Mynd dagsins er tekin á fundinum á hótel Glym þar sem ég var staddur í dag. Á myndinni eru Harpa og Alma samstarfskonur mínar. Alveg hið fínasta hótel í gríðarlegum fallegum firði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 21:14
Heimsendirinn 2012!
Sunnudagur 15. nóvember 2009
Nú í kvöld fór ég í bíó með Ágústi Loga syni mínum. Fyrir valinu varð stórslysamyndin 2012 sem nýbúið er að frumsýna hér á landi. Þetta er sannkölluð stórmynd. Söguþráðurinn er á þá leið að vísindamenn reikna það út að vegna sérstakrar stöðu himintunglanna 21. desember 2012 muni jarðskorpan bráðna meira og minna bráðna sem þýðir auðvitað að endalok jarðarinnar eins og við þekkjum hana í dag. Svo fylgjumst við með aðalhetjunum reyna að lifa af þegar heilu stórborgirnar hverfa í iður jarðar og risastórar fljóðbylgjur ferðast um heiminn. Þó söguþráðurinn hafi sína galla verð ég nú bara að viðurkenna að ég skemmti mér konunglega. Myndin hefur að geyma einhverjar flottustu tæknibrellur sem ég hef séð og í góðu hljóðkerfi nær maður virkilega að vera spenntur meira og minna alla myndina því hvert stóratriðið rekur annað þá tvo og hálfan tíma sem myndin tekur í sýningu.
Mynd dagsins er auglýsingin af myndinni 2012 sem við Ágúst Logi sáum í kvöld. Hún gefur til kynna þvílíkar hamfarir kvikmyndin bíður uppá - alveg hin fínasta skemmtun og við feðgar skemmtum okkur vel!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 20:53
Fótbolti í 12 klukkutíma!
Laugardagur 14. nóvember 2009
Í hádeginu í dag var ég mættur í íþróttahúsið að Varmá, hér í Mosfellsbænum. Þar var Ágúst Logi sonur minn að fara að spila fótbolta-maraþon ásamt félögunum sínum í 4. flokki Aftureldingar. Í vikunni höfðu strákarnir gengið í hús í bænum og safnað áheitum en ætlun piltanna var að spila fótbolta í 12 klukkustundir samfellt. Það var vaskur hópur drengja sem mætti og auðvitað stóðu þeir við stóru orðin. Margir voru reyndar orðnir ansi þreyttir um miðnættið þegar síðasti leikurinn endaði en dagurinn var örugglega mikið ævintýri fyrir þá.
Mynd dagsins er af hinum vaska hóp strákanna í 4. flokki Aftureldingar sem spiluðu fótbolta-maraþon í 12 klukkkutíma í dag til að safna fyrir keppnisferð næsta sumar - flott hjá þeim!!! Ágúst Logi er í svörtum bol merktum "Carlsberg", fjórði frá hægri í miðröðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)