Færsluflokkur: Bloggar
8.12.2009 | 22:38
Þvörusleikir hin þykki
Fimmtudagur 3. desember 2009
Ein af mörgum skemmtilegum hefðum við jólin er jólabaksturinn. Ég verð þó að viðurkenna að gegnum tíðina hef ég ekkert verið sérlega duglegur á því sviði - en þó tekið þátt, yfirleitt eitthvað tilneyddur. Þó verður að geta þess að alla tíð hefur sérsvið mitt í þessum jólabakstri verið að bregða mér í hlutverk jólasveinsins "Þvörusleikis" og sleikja sleifar og skálar. Alveg hrikalega gott Það sem hefur hins vegar breyst, er að hin síðari ár hef ég passað verr og verr í hlutverk hins þvengmjóa Þvörusleikis (eins og honum er líst í kvæði Jóhannesar úr Kötlum) og stundum fegið uppnefnið "Þvörusleikir hinn þykki" hér á heimilinu. Mynd dagsins var tekin nú seinni partinn þegar ég kom heim úr vinnunni og greip aðeins í að "sleikja" þegar húsfreyjan stóð í bakstri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 22:38
Amma flytur á Hrafnistu
Miðvikudagur 2. desember 2009
Stundum er heimurinn lítill. Á dögunum gerðist það að hún amma, sem fagnaði 100 ára afmæli í sumar (sjá færslu 26. júní 2009), flutti tímabundið inn á Hrafnistu í Reykjavík - en það er eins og áður hefur komið fram, vinnustaður minn. Amma hefur frá stríðsárum búið í Laugarnesinu og nú síðustu 10 ár á Dalbraut í íbúðum fyrir aldraðra. Hún hefur ekki lengur heilsu til að búa þar og því dvelur hún nú í 6 vikur í hvíldarrými á Hrafnistu - auðvitað kom ekkert annað til greina en Hrafnistan í Laugarásnum. Ég reyni því að kíkja til hennar, öðru hverju, þegar stund gefst í lok vinnudags og í dag var amma alveg mjög hress - við spjölluðum um Vestfirði og ég las fyrir hana nokkur ljóð.
Mynd dagsins er tekin þegar pabbi varð 70 ára árið 2005. Myndin sýnir ömmu í góðum hópi; með langömmudrengjunum Magnúsi Árna og Ágústi Loga, mér og pabba (syni sínum).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2009 | 18:52
Fyrsta bekkjarkvöld Magnúsar Árna
Þriðjudagur 1. desember 2009
Seinni partinn í dag var söguleg stund í líf Magnúsar Árna en þá fór fram fyrsta "bekkjarkvöldið" sem hann tekur þátt í Þrír foreldrar úr bekknum eru bekkjarfulltrúar og þeir þurfa að skipuleggja 2-3 uppákomur yfir veturinn þar sem reynt er fá krakkana til að hittast og eiga góða stund saman utan hefðbundinnar kennslu. Í dag var semsagt komið að fyrstu uppákomunni sem var "bekkjarkvöld" sem haldið var í skólanum frá kl. 17:30-19:00. Bekkjkarkvöldið var haldið í skólastofu krakkanna og allir áttu að koma með smávegis framlag á hlaðborð. Eftir nokkrar leiki var borðað og svo var farið í fleiri leiki áður en haldið var heim. Magnúsi Árna fannst alveg rosalega gaman og bíður nú spenntur eftir næsta bekkjarkvöldi!
Mynd dagins er tekin á bekkjarkvöld 1. HS í Lágafellsskóla nú í kvöld. Þarna er Inga (sem er ein bekkjarfulltrúanna úr hópi foreldra) að stjórna leikjum. Mikið fjör!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2009 | 18:40
Jólaföndur í 1. bekk
Mánudagur 30. nóvember 2009
Dagur í dag hófst á því að ég fylgdi Magnúsi Árna í skólann en hann stundar nám í 1. bekk í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum. Í dag var jólaföndurdagur þar sem foreldrum var boðið að koma með og föndra með börnunum. Við Magnús Árni vorum saman og gátum flakkað á milli "föndurstöðva" í skólanum þar sem mismunandi föndur var í boði. M.a. máluðum plastbakka sem er þessi fína gluggaskreyting og gerðum jólapoka. Það var mikið líf og fjör í föndrinum og ekki var verra þegar gert var hlé til að borða piparkökur og fleira. Ég var svo mættur í vinnuna um kl 9:30 eftir stórskemmtilega föndurstund með 1. bekk
Mynd dagsins er tekin í stórskemmtilegri föndurstund hjá 1. bekk í Lágafellsskóla í morgun. Magnús Árni föndrari er hér í forgrunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2009 | 18:29
Fyrsta aðventukaffið
Sunnudagur 29. nóvember 2009
Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu. Dagurinn fór því að mestu leiti í ýmsan undirbúning fyrir jólin - leyta að skreytingum og reyna koma þeim upp. Inga tók svo vasklega rispu í jólabakstrinum og afgreiddi 2-3 sortir á stuttum tíma. Að sjálfsögðu var aðventukaffi og kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransinum. Bryndís frænka kíkti í heimsókn og var að sjálfsögðu boðið í aðventukaffið. Alveg hreint fínasti dagur og jólastemningin byrjuð að láta á sér kræla.
Mynd dagsins er frá aðventukaffi fjölskyldunnar í dag þegar kveikt var að fyrsta kertinu á aðventukransinum. Á myndinni eru Ágúst Logi, Inga, Magnús Árni og Bryndís frænka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 23:25
Kaffi- og piparkökusölumenn
Laugardagur 28. nóvember 2009
Það var ýmislegt brasað í fjölskyldunni í dag og kvöld þannig að dagurin leið hratt. Milli fjögur og sex í dag vorum við Magnús Árni að aðstoða Ágúst Loga við mikla manndómsraun. Knattspyrnudeild Aftureldingar, þar sem Ágúst stundar æfingar, er í fjáröflunarskyni að selja piparkökur og kaffi nú fyrir jólin. Um helgina var ákveðið að vörurnar yrðu boðnar til sölu í sölubás sem staðsettur var framan við verlsun Bónus hér í Mosfellbænum. Og semsagt - við feðgar tókum að okkur eina vakt á sölubásnum. Manndómsraun Ágústar Loga fólst í því að ganga milli fólks, sem var á ferðinni framan við verslunina og bjóða því piparkökur og kaffi til kaups. Það má alveg segja í hreinskilni að yfir 90% aðspurðra afþökkuðu þessar frábæruvörur þannig óharnaður unglingurinn þurfti smá hvatningu öðru hvoru. Hins vegar gekk þetta bara nokkuð vel hjá Ágústi og mikilvæg atvinnureynsla safnaðist í sarpinn hjá piltinum. Við Inga ákváðum að verðlauna hann fyrir þessi góðu störf með því að leyfa honum að velja kvöldmatinn - sem var pítsa frá Eldhúsinu hér í Mosfellsbænum.
Mynd dagsins er tekin við kaffi- og piparkökusölubásinn framan við Bónus, hér í Mosfellsbænum. Þarna er sölumaðurinn Ágúst Logi á ferð og þrátt fyrir mörg "nei" náði hann að selja þónokkuð af pökkum og safna mikilli reynslu í sölumennsku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 23:11
Skákmót á Skaganum
Föstudagur 27. nóvember 2009
Inga þurfti að vinna langt fram á kvöld þannig að við feðgarnir brugðum undir okkur betri fætinum, nú seinni partinn, og skelltum okkur í heimsókn til mömmu og pabba á Skaganum. Þar var að sjálfsögðu dekrað við okkur. Ljúffengur kvöldmatur borin fram og ís á eftir - sem sló heldur betur í gegn. Svo áttum við mjög góða stund. Meðal annars var gripið í tafl og fleira. Fer ekki mörgum orðum að úrslitum þeirra skáka enda ríkti ungmennafélagsandinn yfir vötnum - aðalmálið er ekki að vinna heldur að vera með.
Mynd dagsins er tekin í heimsókn hjá mömmu og pabba á Akranesi nú í kvöld. Þarna sitjum við feðgarnir ásamt pabba en hörkuspennandi skákmót fór meðal annars fram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 22:53
Og þá eru það jólaseríurnar...
Fimmtudagurinn 26. nóvember 2009
Á sunnudaginn hefst aðventan með tilheyrandi hátíðarhöldum. Vegna þessa hef ég fengið mjög skýr skilaboð frá frúnni að útijólaseríur heimilisins séu ekki komnar upp. Í kvöld tók ég mig til og byrjaði að undirbúa þetta gríðar umfangsmikla verkefni - að græja jólaseríur heimilsins.
Mynd dagsins er tekin í bílskúrnum í kvöld þar sem ég er að reyna að komast til botns í jólaseríumálum heimilisins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 22:33
Beðið eftir Klæng sniðuga
Miðvikudagur 25. nóvember 2009
Í dag fórum við Magnús Árni í Krónuna. Erindið var að kaupa jóladagatal Sjónvarpsins sem hefst næsta þriðjudag, fyrsta desember. Jóladagatal Sjónvarpsins verður að þessu sinni ævintýrið um Klæng sniðuga og vini hans. Þetta jóladagatal er eftir spaugarana Stein Ármann og Davíð Þór Jónsson. Dagatalið var fyrst frumsýnt fyrir jólin 1997 og hefur notið miklla vinsælda í fjölskyldunni. Fyrir þá sem hafa stúderað jóladagatölin síðustu ár þykir þetta dagatal vera með því besta sem framleitt hefur verið af RÚV ásamt sögunni af englunum Pú og Pa, en það dagatal hefur verið sýnt 3-4 sinnum hin síðari ár. En allveganna, bíður Magnús Árni mjög spenntur eftir að kynnast sögunni um Klæng sniðuga, Harald íkorna, Grálúðuna geðvondu og Lovísu með lærin þykku sem við hin í fjölskyldunni höfum oft vísað til síðustu árin.
Mynd dagsins er af Magnús Árna sem er hér sigri hrósandi komið með Jóladagatal sjónvarpsins 2009 í hendurnar - söguna af Klæng sniðuga. Nú er bara að telja niður dagana fram að fyrsta demsember þegar sagan hefst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 22:12
Pípur í planinu
Þriðjudagur 24. nóvember 2009
Nú er mikið að gerast í heimilishaldinu hér í Hrafnshöfðanum. Hér fyrir utan hefur öll innkeyrslan verið grafin upp en vösk sveit manna er hér að helluleggja innkeyrsluna með hitalögnum og tilheyrandi. Sonunum stóð ekki á sama þegar þeir komu heim úr skólanum í dag, þegar grafa sem var nokkrar mannhæðir að stærð var búin að moka upp úr lóðinni okkar. Fljótlega kom þó nýr jarðvegur og sandur og seinni partinn var kominn pípulagningamaður að leggja snjóbræðslukerfi. Ef veðrið verður þokkalegt mun framkvæmdin taka 2-3 vikur - amk er búið að ræða mjög vel að þetta brölt verði búið vel fyrir jól og verður aldeilis gaman þegar þetta verk verður tilbúið
Mynd dagsins er af planinu okkar hér í Hrafnshöfðanum þar sem bláarpípur ráða nú ríkjum. Fjölskyldan bíður spennt eftir að verkið klárist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)