Færsluflokkur: Bloggar

Jólaferð í Hafnarfjörð

Sunnudagur 13. desember 2009

Eftir að fjölskyldan hafði átt latan en góðan "morgunlúr", voru fjölskyldumeðlimir drifnir af stað í jólaferð í Hafnarfjörð. Í hádeginu áttum við heimboð í Hafnarfjarðarleikhúsið þar þar sem Felix Bergsson var að sýna leikrit sitt, Augastein, sem byggt er á samnefndri barnabók. Þetta var mjög skemmtilegt leikrit sem kemur öllum í jólaskap. Við fengum okkur svo snarl og að því loknu fórum við í góðan göngutúr um jólaþorp þeirra Hafnfirðinga og nágrennið. Veðrið var mjög gott, ekkert sérstaklega jólalegt en hentaði vel til útiveru. Á leiðinni til baka var svo kíkt við í nokkrum verslunum eins og Húsasmiðjunni/Blómavali og Rúmfatalagernum, sonunum til mikillar gleði. Það er ótrúlega margt sem þarf að gera fyrir jólin. Kvöldið áttum við svo í rólegheitum við ýmislegt stúss.

IMG_6461[1]

Mynd dagsins er af Ingu og er tekin í jólaþorpi Hafnfirðinga í dag í jólaferð fjölskyldunnar í Hafnarfjörð sem var hin skemmtilegasta!

 


Stekkjastaur og mínímóarnir

Laugardagur 12. desember 2009

Í nótt kom fyrsti jólasveinn, Stekkjastaur, til byggða ef það hefur farið framhjá einhverjum. Magnús Árni (6 ára) var vaknaður "mjög snemma" og kominn upp í rúm til okkar foreldrana til að sýna okkur framlag Stekkjastaurs um nóttina. Það er glæsileg Spider-man bók sem þegar hefur verið skírð leynibók Magnúsar Árna. Það var nokkur undrun hjá sumum þegar kom í ljós að ég hafði sjálfur gleymt að setja skóinn út í glugga og þar af leiðandi ekki fengið neitt. "Pabbi, hvernig er hægt að gleyma að setja skóinn út í glugga?!?" Ég hef nefnilega á síðustu árum stundum sett skóinn minn út í glugga, þó hann sé nr. 45. Yfirleitt hef fengið eitthvað í hann enda er ég ótruglega oft duglegur og stilltur og trúi auðvitað á jólasveinana. Úr þessu verður að bæta strax í kvöld. Deginum eyddum við fjöskyldan í ýmislegt jólastúss og vorum bara mjög ánægð að eiga einu sinni laugardagskvöld saman í rólegheitum. Við Magnús fórum þó í bíó í dag ásamt Elísabetu vinkonu hans þar sem við sáum myndina Arthúr og mínímóarnir númer 2. Þau skemmtu sér vel þó persónulega hafi mér mynd númer eitt verið töluvert betri.

IMG_6456[1]

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna og Elísabetu vinkonu hans, tekin í bíó í dag þar sem við sáum myndina Arthúr og mínímóarnir númer 2 Cool


Jólahlaðborð á Grandhótel

Föstudagurinn 11. desember 2009

Í kvöld skelltum við Inga okkur á jólahlaðborð á Grandhótel í góðra vina hópi, alls 20 saman. Hlaðborðið var alveg glæsilegt og mjög ljúffengt - hver rétturinn á fætur öðrum og maður náði ekki nærri því að smakka á öllu sem var í boði. Mikill metnaður er greinlega settur í framsetningu og útliti réttanna þannig að kræsingarnar náði vel að tæla augu okkar hlaðborðsgesta. Maður gerði samt sitt besta til að ofbjóða ekki maganum þannig þrátt fyrir mikla "mettun" passaði ég mig á að vera ekki alveg að springaSmile Á miðju kvöldi gengu fallegar blómarósir á milli borða og sungu jólalög. Yfir desertunum kom enginn annar en stórsöngvarinn Helgi Björnsson og tók nokkur jólalög og klassískar dægurperlur sem "klöppuðu kviðnum mjúklega" eins og söngvarinn sjálfur orðaði það. Að loknu borðhaldi var svo stuðdansleikur með hljómsveitinni Hafrót. Það er nú reyndar ekki uppáhaldshljómsveitt okkar hjónanna en við fengum okkur þó góðan snúning á dansgóflinu ásamt hópnum okkar áður en haldið var heim um miðnæturbil. Alveg ljómandi kvöld og ljómandi undirbúnngur fyrir jólin!

 

helgibjörns

Eitthvað er mér farið að förlast varðandi myndir dagins og eins og oft áður upp á síðkastið gleymdist myndavélin. Tók þó þessa mynd af Helga Björns á símann minn sem verður að duga sem mynd dagsins þegar ég fór á frábært jólahlaðborð á Grand hótel.


Dagrenningur - aldarsaga Aftureldingar

Fimmtudagur 10. desember 2009

Nú í kvöld kom ég við í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum. Þar var mér boðið í útgáfuhóf í tilefni af útkomu nýrrar bókar sem heitir Dagrenning - aldarsagar Aftureldingar. Afturelding  er íþróttafélagið hér í Mosfellsbænum en félagið hefur verið að fagna 100 ára afmæli á þessu ári með ýmsum hætti. Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður var ég í þrjú ár formaður Knattspyrnudeildar Aftureldingar þannig að maður tengist þessari merkissögu þó það hafi ekki varað lengi (ennþá amk). Bókin er mikið og glæsilegt rit en höfundar eru Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson. Ég er mjög ánægður með uppsetninguna á bókinni en textinn er mikið brotinn upp með myndum og stuttum köflum.

dagrenning

Mynd dagsins af kápu nýju bókarinnar, Dagrenningur ásamt boði á útgáfukvöldvöku bókarinnar. Bókin er flott og skemmtilegt framtak!


Áhugaverð ráðstefna um öryggismörk

Miðvikudagurinn 9. nóvember 2009

Það var nóg um að vera hjá mér í dag. Þó verður hápunktur dagsins líklega að teljast mjög áhugaverð ráðstefna sem ég sótti í dag um öryggismörk í heilbrigðisþjónustu. Ég er fulltrúi Hrafnistuheimilanna (vinnustaðar míns) i stjórn Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og er þar reyndar varaformaður. Eitt af markmiðum samtakanna er að halda uppi umærði í þjóðfélaginu um hagsmunamál aðildarfélaga samtakanna. Í haust tók ég að mér, ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum samtakanna, að sjá um að halda ráðstefnu um öryggismörk í heilbrigðisþjónustu og sem sagt,  sú ráðstefna fór fram eftir hádegi í dag. Það er þó nokkur undirbúningur fyrir svona ráðstefnu. Við vorum nokkuð vongóð um góða mætingu enda málefnið mjög ofarlega á baugi þessi misserin vegna efnahagsástandsins og einnig auglýstum við þetta vel. Enda kom á daginn að húsið var troðfullt - sæti voru fyrir 120 manns og eitthvað var bætt við af stólum í viðbót. Á mælendaskrá voru meðal annars tveir ráðherrar og ráðstefnustjóri var Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona (Útsvar/Kastljós). Ráðstefnan gekk bara mjög vel og almenn ánægja meðal þátttakenda. Ég ætla nú ekki að fara rekja efni erindanna hér eða umræður Smile - en amk fór ég mjög sáttur heim eftir daginn. Um kvöldið var svo ágætisfrétt um ráðstefnuna í Sjónvarpinu og niðurstöður hennar.

IMG_6449[1]

Mynd dagsins er tekin í dag á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um Öryggismörk í heilbrigðisþjónustu. Á myndinni má sjá fyrirlesara í pallborði og eru frá vinstri: Pétur Blöndal alþingismaður, Eva Þengilsdóttir varaformaður samtakanna Almannaheill, Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra, Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Gísli Páll Pálsson formaður Samtaka Fyrirtækja í heilbrigðistjónustu.


"Plokkarinn" klikkar aldrei!

Þriðjudagurinn 8. desember 2009

Í hádeginu í dag fór ég á veitingastaðinn Þrjá frakka á Baldursgötunni. Síðustu ár hef ég ásamt þremur félögum mínum haldið í þá hefð að hittast þar í hádeginu, 2-3svar á  ári. Við erum allir gamlir félagar úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þó ég heyri í og hitti Sævar vin minn reglulega eru það hinir tveir, Kristinn golfari með meiru og Borgnesingurinn Jón Guðmundur, sem ég er ekki í eins miklu sambandi  við. Hádegið er þvi mjög fljótt að klárast þegar við hittumst því margt þarf að spjalla og fara yfir "stöðuna" á hverjum og einum síðan síðast. Í dag vorum við sem sagt að hittast og var glatt á hjalla. Ekki spillti svo fyrir að plokkfisturinn á Þremur frökkum klikkar aldrei svo að þátttaka i þessum hópi ásamt plokkfiskunum, er uppskrift sem klikkar aldrei. Mynd dagsins er af plokkfiskáti okkar félaganna á Þremur frökkum, reyndar ekki mjög mikil gæði á myndinni: Frá vinstri: Sævar, Jón G., Kiddi og ég.

plokkfiskur 2

Ágúst Logi Hendrix?

Mánudagur 7. desember 2009

Ég var nú bara eitthvað hálfslappur í vinnunni í dag. Ekki beint með hita en eitthvað lympulegur og hóstaði mikið. Þegar ég kom heim skreið ég bara beint undir sæng og tók það bara rólega. Sængin sem fyrir valinu varð, var hins vegar ekki mín sæng heldur fór ég inn í herbergi unglingsins á heimilinu og stalst upp í rúmið hans. Kom mér svo þægilega þar fyrir undir sænginni og spilaði Playstation meðan líkaminn fékk að vinna á kvillunum sem voru að hrjá mig. Eigandi herbergisins var nokkuð hissa á þessari innrás enda þó ég sé oft gestur í herberginu er það nú mjög sjaldgæft að ég leggist upp í rúmið. Meðan ég lá þarna og lét mér batna dró sonurinn fram rafmagnsgítar og magnara en síðan í fyrra hefur hann verið að læra á gripinn. Ég hlustaði því nokkuð stoltur á gítaræfinguna þó að samkomulagi hafi orðið eftir nokkra stund að drengurinn tengdi heyrnatól við magnarann til að minnka hávaðan.

gítar

Mynd dagins er tekin frá sjónarhorninu úr rúminu hans Ágústar Loga nú í kvöld þar sem ég lá dágóða stund nú í kvöld - spilaði playstation og hafði það huggulegt. Þarna er kappinn að æfa sig á rafmagnsgítarinn og aldrei að vita nema hann verði kallaður "Hendrix" í framtíðinni í höfuðið á gítarhetjunni frægu!


Þegar piparkökur bakast...

Sunnudagur 6. desember 2009

Einn af föstum jólasiðum fjölskyldunnar er að baka saman piparkökur fyrir jólin - og auðvitað skreyta þær. Í dag var piparkökudagurinn mikli. Eftir að hafa farið með piparkökusöngin um hádegisbilið, flatt út degið og búið til alls konar karla, kerlingar og hjörtu úr deginum var seinni partinum varið í að skreyta piparkökurnar (og auðvitað aðeins að smakka). Þetta er alltaf hluti af jólastemningunni; við hlustum á jólalög og höfum það huggulegt. Mjög fínt að halda svona upp á annan sunnudag í aðventu!

IMG_6441[1]

Mynd dagsins er sýnishorn af afrakstri dagsins í piparkökubakstri og skreytingum fjölskyldunnar. Spurning hvað Mikki refur myndi segja við þessu?!?


Grettukeppni í jólaös

Laugardagur 5. desember 2009

Það var nóg um að vera í dag hjá mér. Eftir að hafa vaknað snemma og skellt mér í ræktina var í mörg horn að líta við jólaundirbúninginn. Eftir hádegið skaust ég í vinnuna þar sem ég þurfti að ljúka nokkrum mikilvægum verkefnum og svo var verið að"jólast" þegar heim var komið. Um kvöldið fórum við Inga svo og hittum góða félaga þar sem við áttum frábært kvöld við (of)át í góðra vina hópi fram á nótt.

IMG_6364[1]

Þó nóg hafi verið að snúast í dag gáfum við Magnús Árni okkur tíma til að fara í smá grettukeppni. Mynd dagsins er staðfesting á því að Magnús er mjög efnilegur í þessari íþrótt. Enda á hann ekki langt að sækja hæfileikanna. Okkur fjölskyldunni er ennþá í fersku minni þegar Guðrún mágkona var plötuð í grettu-keppni um verslunarmannahelgina á Flúðum fyrir nokkrum árum - og sigraði með yfirburðum og náði meðal annars að rata í aðalfréttatíma Sjónvarpsins fyrir framtakið Tounge


Bingó - bingó

Föstudagur 4. desember 2009

Í kvöld fór ég á árlegt jólabingó Starfsmannafélags Hrafnistu í Reykjavík. Það er löng hefð fyrir þessu kvöldi - sem að mér skilst - er alltaf með svipuðu sniði. Tæplega 200 manns voru saman komin í Breiðfirðingabúð við Skeifuna, þar sem borin var fram dýrindis kvöldverður; sjávarréttasúpa og purusteik með tilheyrandi meðlæti. Margir tóku sig nú til og skoluðu þessu niður með rauðvíni eða öðrum afsprengjum Bakkusar. Að lokinni máltíð var tekið til við að spila bingó og margir glæsilegir vinningar í boði. Þrátt fyrir ágætis ásetning reið ég nú ekki feitum hesti frá þessu bingói - en átti hins vegar mjög skemmtilega stund með góðu fólki. Eftir bingóið gat fólk svo tjúttað og þegar ég fór heim upp úr kl. 23 var dansgólfið ennþá iðandi að brosmildum bingóspilurum.

bingo

 

Því miður gleymdist myndavélin í kvöld þannig að ég á enga mynd frá bingó-kvöldinu. Hins vegar rakst ég að þessa fínu bingómynd á netinu sem verður bara að duga sem mynd dagsins í dag Smile

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband