Færsluflokkur: Bloggar
2.1.2010 | 21:59
Tvöföld skötuveisla á heilögum Þorlák
Miðvikudagurinn 23. desember 2009
Ég held ég hafi upplifað einhverja ánægjulegustu Þorláksmessu í lífi mínu í dag. Þá ferðaðist ég um Hrafnistuheimilin, vinnustað minni, og óskaði fólki gleðilegra jóla. Með mér í för var 16 ára nágranni minn, Margeir Alex, sem spilar undurblítt á saxfón og hafði verið ráðinn í aukavinnu í dag. Á hverjum stað sem við stoppuðum á, spilaði hann 2-3 jólalög fyrir þá sem við hittum. Eftir 7 tíma ferðalag vorum við búin að hitta vel yfir 500 manns í litlum hópum og Margeir náði að spila yfir 90 jólalög (reyndar sömu lögin oft). Í hádeginu gæddi ég mér svo á gómsætri skötu á Hrafnistu en Margeir vildi frekar KFC, hann lærir á skötuna síðar. Seinni partinn, að loknum þessum óvenjulega en skemmtilega vinnudegi, lá leiðin upp á Akranes þar sem við Magnús Árni sonur minn gæddum okkur á gómsætri skötu hjá mömmu í hennar árlegu skötuveislu. Eldri sonurinn, Ágúst Logi, lá veikur heima og húsfreyjan, Inga, var mjög sátt við að vera heima að hlú að syninum og sleppa þannig við skötuveisluna - sem er einhverra hluta vegna ekki uppáhaldsmaturinn hennar. Ágúst Logi hefur hins vegar borðað skötu með bestu lyst frá unga aldri og var sársvekktur með að missa af skötunni.
Mynd dagsins er tekin við eldhúsborðið hjá mömmu á Akranesi seinni partinn í dag þar sem verið er að gæða sér á velkæstri skötu, í annað skiptið hjá mér í dag. Á myndinni eru frá vinstri: pabbi, mamma, Bryndís frænka, Anna og Ingimar tengdó og Magnús Árni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2009 | 00:28
Viltu í nefið vinur minn?
Þriðjudagur 22. desember 2009
Þó ég verði með þeim síðustu til að hvetja börnin mín eða aðra til tóbaksneyslu verð ég að fá að hafa þessa skemmtilegu mynd sem mynd dagsins í dag. Kringum jól eiga margir það til að staldra aðeins við og hugsa um lífið og tilveruna. Í þessum þönkum reikar hugurinn ósjaldan til samferðarfólksins og oft ekki síst þeirra sem maður hittir ekki á hverjum degi. Og þá drífur maður sig í heimsókn. Einn þessara aðila, sem tengist okkur í fjölskyldunni, er hestamaðurinn mikli Haukur Daðason sem lengst af bjó Bergholti í Biskupstungum. Haukur er einmitt einn þessara manna sem gefur lífinu lit en við hittum allt of sjaldan. Inga hefur þekkt hann alla tíð en sjálfur hef ég bara kynnst honum hin síðari ár. Strákunum finnst alltaf spennandi að hitta kappann og iðulega býður hann okkur í nefnið. Magnús Árni (6 ára) lét í fyrsta skipti þessa manndómsraun yfir sig ganga en Ágúst er öllu reyndari enda oftar komið í heimsókn til Hauks. Og auðvitað var hnerrað vel
Mynd dagsins sýnir synina ásamt Hauki Daðasyni þar sem hann er að gefa piltunum í nefið. Þeir stóðust báðir þessa manndómsraun með mikilli reisn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2009 | 23:57
Ævintýraveröld Avatar
Mánudagur 21. desember 2009
Þremur klukkutímum af þessum styðsta degi ársins ákvað ég að verja í bíó. Ágúst Logi sonur minn og frænkan Anna Dagbjört (sjá færslu gærdagsins) ákáðu að fara saman í bíó og sjá stórmyndina AVATAR. Anna Dagbjört og bróðir hennar Kristinn Þór, eru annars í tveggja daga heimsókn hjá okkur hér í Mosfellsbænum. Þegar ég frétti af bíóferð Ágústar og Önnu ákvað ég að "kúpla" mig út úr jólaundirbúningi og raunveruleikanum og skella mér með þeim í bíó. Kvikmyndin Avatar hefur fengið mikla umfjöllun undanfarið en hún er mikið sjónarspil og "augnkonfekt". Kvikmyndin gerist í framtíðinni á litlu tungli sem heitir Pandóra. Þar býr ættbálkur sem nefnast Na´vi en það eru 3 metra háir frumbyggjar bláir að lit sem hafa skýr einkenni mannfólks. Við mennirnir eigum í strýði við ættbálkinn og inn í þetta fléttast svo falleg ástarsaga. Myndin er sýnd í þrívídd og er gríðarlegt sjónarspil lita og hljóða fyrir augu og eyru - einstakt í kvikmyndasögunni segja margir og ég held bara að ég sé sammála því. Söguþráðurinn er í sjálfu sér ekki merkilegur en að horfa svona á myndina í þægilegu sæti í þrívídd og góðu hljóðkerfi er alveg hreint mögunuð upplifun. Mæli með því að þeir sem ætla á annað borð að sjá myndina sjá hana í þrívídd og góðu hljóðkerfi.
Mynd dagsins er fengin af láni og sýnir tvær aðalpersónur kvikmyndarinnar AVATAR sem ég fór að sjá í dag með Ágústi Loga og Önnu Dagbjörtu - mjög skemmtileg bíó-upplifun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2009 | 23:26
Laufabrauðsbakstur
Sunnudagur 20. desember 2009
Um hádegið brunaði stórfjölskyldan á Flúðir eða nánar tiltekið í Unnarholtskot, rétt utan við Flúðir þar sem Kristín mágkona býr ásamt fjölskyldu. Þar var heimasætan í kotinu, Anna Dagbjört, að halda upp á 12 ára afmælið sitt með fullt að kökum og flottheitum. Eftir skemmtilega afmælisveislu var haldið í Reykholt í Biskupstungunum þar sem Anna og Ingimar, tengdaforeldrar mínir eiga íbúð sem þau nota mikið. Í Reykholti var fjölmenni úr fjölskyldunni og tíminn seinni part dagsins og fram á kvöld notaður í laufabrauðsbakstur. Þetta er siður sem við Inga höfum um árabil stundað með tengdaforeldrunum fyrir jólin en misjafnt hverjir aðrir hafa bæst í hópinn. Venjulega hefur þessi athöfn farið fram á föstudagskvöldi á Hvanneyri þar sem tengdó bjuggu lengi en sökum þess að þau eru nú flutt í Borgarnes var ákveðið að prófa að hafa bakstur í Reykholti þetta árið. Útskurður og bakstur gengu gríðarlega vel. Mitt hlutverk hefur venjulega verið í "steikingum" og gekk það bara ágætlega þetta árið þó ég segi sjálfur frá Aðalatriðið þar er að hafa rétt hitastig á feitinni sem steikt er upp úr þannig að hárréttur litur verði á laufabrauðinu. Á því sviði hafa Inga og tengdamamma mjög ólíkar skoðanir og þá verður auðvitað að passa sig að koma á móts við óskir allra. Við vorum svo komin heim upp úr kl. 10 þannig að hægt væri að fara snemma í bólið fyrir síðustu vinnudagana fyrir jól.
Mynd dagins er tekin í laufabrauðsbakstri stórfjölskyldunnar í Reykholti í dag. Það var afmælisbarnið Anna Dagbjört sem átti án efa "flottasta" skurð dagsins á laufabrauðinu þegar hún skar út þetta skemmtilega andlit úr einni kökunni. Myndin er tekin ofan í steikingapottinn og sýnir laufabrauðið í steikingu. Mjög skemmtilegur dagur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2009 | 23:26
Kíkt á Keflavíkurflugvöll
Laugardagur 19. desember 2009
Dagurinn í dag fór auðvitað í alls konar útréttingar vegna jólanna, enda í mörg horn að líta. Um miðjan dag brugðum við feðgar þó undir okkur betri fætinum og smelltum okkur í stuttan túr á Keflavíkurflugvöll. Þar vorum við að sækja Guðrún mágkonu sem býr í Þýskalandi. Guðrún er að koma til landsins nú um jólin og ætlar að dvelja hjá okkur meira og minna þann tíma. Guðrún komst heilu og höldnu til landsins þrátt fyrir nokkrar tafir á flugi og samgöngum í Evrópunni vegna snjóföls og kulda. Það voru fangaðarfundir þegar Guðrún kom út enda alltaf fjör að fá hana í heimsókn.
Mynd dagins er tekin í Leifsstöð í dag þar sem við feðgarnir sóttum Guðrúnu mágkonu sem var að koma til landsins frá Stuttgart í langþráð jólafrí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2009 | 23:26
Litlu jólin...
Föstudagur 18. desember 2009
Í dag er ábyggilega hápunktur jólahlaðborða og litlu jóla á vinnustöðum. Ég held að mér hafi ekki verið boðið í nema fjögur slík í dag þó ég hafi ekki geta sótt þau öll. Byrjaði þó daginn á að fara í "villibráðarhlaðborð" hjá Gísla Páli félaga mínum en stundin var einnig notuð til fundarhalda í leiðinni. Í dag bauð svo Hrafnista, vinnustaður minn, öllu starfsfólki upp á jólamáltíð í hádeginu og það nýttu sér margir. Fyrirfram hafði starfsfólk verið hvatt til að mæta í einhverjum rauðum klæðnaði og margir urðu við því. Sjálfur setti ég upp fagurrautt jólasveinahálsbindi í tilefni dagsins. Í Laugarásnum þar sem ég var mest í dag, var hópurinn glæsilegur yfir að líta í rauða þemanu og gaman að taka þátt. Jafnframt höfðu öll Hrafnistuheimilin og starfsfólk allra deilda verið hvatt til að halda "litlu jól" og það gerðu því margir - með mjög mismunandi hætti sem er auðvitað bara hið besta mál. Seinni partinn héldum við sem vinnum á skrifstofum Hrafnistu, okkar litlu jól - fengum okkur ljúffengt rauðvín og osta og áttum skemmtilega stund áður en haldið var heim eftir langan dag.
Mynd dagsins er tekin á Hrafnistu, vinnustað mínum, seinni partinn í dag, þar sem við sem vinnum á skrifstofum Hrafnistu héldum upp á litlum jólin saman og áttum góða stund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 23:01
Þeir sem trúa á jólasveinana fá auðvitað í skóinn!!!
Fimmtudagur 17. desember 2009
Mér hefur orðið tíðrætt í þessum pistlum mínum um þann skemmtilega íslenska jólasið að þeir sem trúi á jólasveinana setji skóinn út í glugga á kvöldin og fái fyrir það gjöf. Þetta er auðvitað mikið rætt á mínu heimili þar sem Magnús Árni (6 ára) spáir mikið í lífið og tilveruna hvað þetta varðar. Ég hef margoft bent honum á að þeir sem trúa á jólaveinana fái í skóinn. Aðspurður segi ég jafnan að "auðvitað trúi ég á jólasveininn" og máli mínu til stuðnings set ég oftast skóinn út í glugga og fæ eitthvað í hann. Í nótt kom Askasleikir sjálfur og færði mér mandarínu að góðum og gömlum sið. Þetta þótt Magnúsi Árna mjög merkilegt því tveimur kvöldum áður hafði ég skrifað Pottasleiki bréf og beðið um að hann myndi gefa mér nammi í skóinn. Pottasleikir skrifaði mér mjög bjagaðri rithönd til baka að það væri ekki góð hugmynd því að ég yrði bara feitur á að borða nammi. Þar sem ég hefði verið góður strákur um daginn gaf hann mér samt einn mola í skóinn það kvöldið Ágústi Loga, eldri syni okkar er enn í fersku mynni þegar ég fékk kartöflu í skóinn fyrir nokkrum árum en þann dag hafði ég verið frekar latur við uppvaskið og að hjálpa til við hússtörfin, að mati húsfreyjunnar. Hún er greinlega fljót að láta jólasveinana vita hvernig ég stend mig í heimilisstörfunum þannig að ég er undir töluverðri "pressu" að standa mig vel
Mynd dagsins tók Magnús Árni í morgun. Þarna er ég að skoða skóinn minn sem var út í glugga og mandarínuna sem Askasleikir færði mér í nótt. Þeir sem trúa á jólasveinana fá auðvitað í skóinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 22:39
Jólahlaðborð á Lækjarbrekku
Miðvikudagurinn 16. desember 2009
Mmmmmmmm!!! Jólamatur er nokkuð fyrirferðamikill í lífi mínu þessa dagana. Í hádeginu í dag var ég í jólahlaðborði á veitingastaðnum Lækjarbrekku. Þar voru að hittast gamlir skólafélagar úr Háskóla Reykjavíkur en þar stundaði ég MBA-nám árin 2002-2004 (sjá færslu 5. júní 2009). Bekkurinn minn, sem í voru 28 manns, reynir að hittast nokkru sinnum á ári og í desember höfum við haft þann skemmtilega sið að fara í jólahlaborð saman. Lækjabrekka er sjálfsagt farin að tilheyra eldri veitingastöðum landsins enda ekki furða því hlaðborðið í dag var hreint glæsilegt. Það mættu líka um 20 af 28 manna hópnum og það var því gaman að fá nýjar fréttir af fólkinu og rifja upp gamla tíma.
Mynd dagsins er tekin í jólahlaðborðinu á Lækjarbrekku í dag. Með mér á myndinni eru Borgar, mannauðsstjóri Veðurstofunnar (hann lofar góðu jólaveðri) og bankamærinn Anna Dagmar sem m.a. sagði okkur þær skemmtilegu fréttir að hún væri með barni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 20:36
Magnús Árni fær í skóinn
Þriðjudagurinn 15. desember 2009
Nú eru jólasveinarnir óðum að tínast til byggða, hver á fætur öðrum. Í nótt var það Þvörusleikir sem mætti á svæðið og gaf öllum prúðum og stiltum börnum í skóinn - þ.e. öllum börnum á öllum aldri sem ennþá vilja trúa á jólasveinana. Magnús Árni er gríðarspenntur þessa dagana; sofnar snemma til að fá eitthvað flott og auðvitað vaknar snemma vegna spennunar hvað hafi komið í skóinn. Í morgun var það forláta gríma sem Þvörusleikir færði honum og Magnús Árni var bara hinn ánægðasti með gjöfina, sem hann mun án efa nota til að hræða líftóruna úr foreldrum sínum og öðrum gestum á heimilinum
Mynd dagsins er af Magnúsi Árna nú í morgunsárið að kíkja á afrakstur næturinnar sem var forláta gríma sem Þvörusleikir færði honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 20:10
Fjölgað í hópi efnilegra knattspyrnumanna í Mosfellsbæ
Mánudagur 14. desember 2009
Þó ég sé tiltölulega nýbúin að skrifa um Ungmennafélagið Aftureldingu hér í Mosfellsbænum, ætla ég líka að láta daginn í dag tengjast félaginu. Seinni partinn í dag var mér boðið á ángæjulegan fund hjá Knattspyrnudeild Aftureldingar. Eins og komið hefur fram í nokkrum færlsum fyrr á árinu var ég formaður Knattspyrnudeildarinnar um tíma, en lét þar af störfum í byrjun þessa árs. Á fundinum í dag var gengið frá leikmannasamningum við vænan hóp leikmanna meistaraflokks karla. Jafnframt var skrifað undir samninga við nokkra leikmenn félagsins í yngri flokkum og þónokkra veigamikla styrktaraðila. Það er knattspyrnudeild mikið fagnaðarefni að gera samninga við þessa efnilegu knattspyrnumenn en meistaraflokkur er nú að mestu skipaður uppöldum leikmönnum úr Mosfellsbæ.
Mynd dagsins er fengin að láni af heimasíðu Aftureldingar, afturelding.is og sýnir nokkra af þeim knattspyrnumönnum sem skrifuðu undir samninga við Aftureldingu í dag - þar sem ég var viðstaddur á ánægjulegum fundi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)