Færsluflokkur: Bloggar

Dagur ljósmyndaranna

Laugardagur 2. janúar 2010

Dagurinn í dag hlýtur að vera dagur ljósmyndara. Þvílík veðurblíða og fegurð í náttúrunni! Við fjölskyldan höfðum fyrir löngu ákveðið að dagurinn í dag yrði "kósí"-dagur hjá fjölskyldunni þar sem ekkert hafði verið sett á dagskrá. Eftir rólegan morgun skelltum við okkur í gönguferð eftir hádegið. Við fórum um nágrennið en mestum tíma vörðum við þó í Leirvoginum sem er hér rétt fyrir neðan húsið okkar. Við eigum mjög flotta myndavél sem við notum allt of sjáldan. Hún var með í för og á leiðinni spreytti Inga sig á alls konar stillingum og uppstillingum enda ekki annað hægt en að draga fram vélarnar, fyrir þá sem áhuga hafa á ljósmyndun. Í sumar fjallaði ég hér um Leirvoginn en það sem er mjög gaman við voginn er að mjög mikill munur er á flóði og fjöru. Sögur segja að í gamla daga hafi skip jafnan siglt langt inn í voginn á flóði en á fjöru var og er ennþá nánast hægt að ganga yfir voginn þveran og endilegan. Í dag var fjara og þó við værum bara á gönguskóm gátum við farið víða um voginn.

Picture 173

Mynd dagsins er tekin í gönguferð fjölskyldunnar í dag í alveg ekta póstkorta og dagatalsveðri, en vil ég nú kalla daginn dag ljósmyndaranna. Inga tók þessa mynd af okkur Magnúsi Árna (erum fyrir miðri mynd) í Leirvoginum í dag á háfjöru með Esjuna í baksýn - Inga er nú bara nokkuð efnilegur ljósmyndari Smile


Og þá er það árið 2010!

Föstudagur 1. janúar 2010

Fjölskyldan náði nú að sofa alveg framundir hádegi á þessum fyrsta degi ársins eftir að hafa farið tiltölulega seint að sofa. Dagurinn var gríðarlega fallegur, aldeilis glæsilegt veður. Um kaffileitið var ég þó búinn að fara í nýársbaðið og klæða mig í mitt fínasta púss. Undanfarin ár hefur mér verið boðið í móttöku hjá sjálfum forsetanum á Bessastöðum á þessum degi og til heiðurs þessa æðsta embætti landsins finnst mér nú ekki annað hægt en að mæta - það er nú líka bara mjög gaman. Ýmsum forkólfum úr þjóðfélaginu er boðið þarna í stutta mótttöku, líklega í nokkrum hópum sem mæta á mismunandi tíma. Bessastaðir skörtuðu sínu fegursta í veðurblíðunni og ekki var hægt að sjá annað en Ólafur Ragnar gerði slíkt hið sama þrátt fyrir að hafa fengið ýmis skot á sig í Skaupinu kvöldið áður. Því miður var boðið ekkert í líkingu við það sem Skaupið kvöldið áður, hafði gefið til kynna um partýin á Bessastöðum - en mjög skemmtileg þó. Eftir að boðinu lauk fórum við fjölskyldan í heimsókn til mömmu og pabba á Akranes þar sem við snæddum gómsæta nýársmáltíð!

bessastadir
 

Mynd dagsins er af Bessastöðum sem skörtuðu sínu fegursta í dag. Þar kíkti ég við seinni partinn í dag í árlegt nýárshóf forsetaembættisins. Ekki var nein myndavél með í för en þessi fallega mynd er fengin að láni á "google"


Síðustu metrarnir af 2009...

Fimmtudagur 31. desember 2009

Jæja, þá er komið að síðasta degi ársins. Í morgun þurfti ég að kíkja í vinnuna en var kominn heim á hádegi. Stundvísilega kl. 13:14 var ég svo kominn yfir götuna, nánar tiltekið í Hrafnshöfða 2, hér í Mosfellsbænum. Þar var að hefjast árlegt gamlársdagspartý okkar karlanna í götunni. Þar er jafnan boðið upp á graflax, nýbakað rúgbrauð, ákavíti og fleira góðgæti. Alltaf er ætlunin að boðið sé búið um kl. 15:30 en það hefur nú ekki alltaf tekist að reka endahnútinn þáCool Ég var þó kominn heim upp úr klukkan fjögur eftir skemmtilegar stundir með nágrönnunum og var mikið hlegið eins og vera ber. Það var tæplega 6 kílóa kalkúnn í gamlársdagsmatinn en hjá okkur fjölskyldunni var Guðrún mágkona í mat. Fyrir skaupið höfðu mamma og pabbi bæst í hópinn og rétt fyrir miðnættið kom svo Bryndís frænka í heimsókn. Það var algert blíðskaparveður rétt fyrir miðnættið þegar við fjölskyldan hófum okkar hluta af stærstu flugeldasýningu í heimi. Nágrannarnir voru einnig nokkuð öflugir og um miðnættið höfðu systurnar Guðrún og Inga hellt kampavín í glös og fært okkur "skotmönnum" fjölskyldunnar. Við skáluðum því fyrir nýju ári úti á götu með fjölskyldunni og nágrönnunm sem var skemmtileg upplifun. Hið mjög svo fína og flotta ár 2009 var liðið en hið spennandi ár 2010 tekið við!

IMG_6763[1]

Mynd dagins er tekin nú rétt fyrir miðnættið. Þar sem veðrið var svo gott fögnuðum við fjölskyldan nýju ári útifyrir. Systurnar Inga og Guðrún mættu með kampavínið út á götu en hér eru þær ásamt Bryndís frænku á leiðinni út úr húsinu með áramótadrykkinn góða! Flott ár liðið og ennþá betra ár framundan!


Flugeldakaup!

Miðvikudagur 30. desember 2009

Þó ég hafi þurft að vinna langt fram á kvöld nú í dag þá gafst samt tími til að sinna mikilvægu erindi nú fyrir áramótin - að kaupa flugelda. Við feðgar fórum á stúfana og heimsóttum Björunarsveitina Kyndil hér í Mosfellsbænum þar sem úrvalið að slíkum gersemum virðist vera óendanlegt. Ég tel mig bara hafa sloppið nokkuð vel út aftur, amk var alveg hægt að bera afrakstur ferðarinnar í einni ferð út í bíl. Þó húsfreyjunni Ingu, finnist flugeldarnir nánast vera óþarfi á áramótum get ég nú sjálfur ekki hugsað mér áramótin nema sprengja gamla árið hressilega upp. Um kvöldið fóru svo synirnir ásamt frændsystkinum sínum á söngleikinn "Óliver" sem var jólgjöfin frá Guðrúnu frænku.

flugeldar

Mynd dagins er tekin í dag við flugeldakaup okkar feðganna. Þarna er Magnús Árni í söluskúr björgunarsveitarinnar Kyndils sem vonandi fær gott rekstrarfé út úr flugeldasölu þessa árs.


Frábær "Fjölskylda"!!!

Þriðjudagur 29. desember 2009

Í kvöld fórum við Inga í Borgarleikhúsið og sáum sýninguna "Fjölskyldan". Við vorum í för með systrum Ingu, þeim Guðrúnu og Jónu ásamt 8 öðrum. Sýningin, sem er í lengri kantinum, hófst klukkan sjö og inniheldur tvö hlé. Þessi tímalengd er þó alls ekki að trufla þessa mögnuðu sýningu. Á heimasíðu Borgarleikhússins er söguþræðinum lýst eftirfarandi: "Ættfaðirinn hverfur sporlaust og fjölskyldan safnast saman á óðalinu. Smám saman tekur hvarfið á sig skýrari mynd en um leið leita gömul leyndarmál og heitar ástríður upp á yfirborðið. Fjölskyldumeðlimir hafa hver sinn djöful að draga og við svo eldfimar aðstæður tekur atburðarásin óvænta stefnu." Ég hef svo sem engu við þessa lýsingu á söguþræðinum að bæta en get alveg staðfest að þessi leiksýning er alveg mögnuð! Þó sjálfsagt eigi að flokka þessa sýningu sem heilmikið "drama" enda eru fjölskyldumeðlimirnir að lenda í mögnuðum og grafalvarlegum hremmingum, þá getur maður mjög víða leyft sér að hlægja dátt að aðstæðum fjölskyldunnar. Fyrir þá sem þola örlítð flóknari leiksýningar en létta farsa er þetta sýning sem svíkur ekki, alveg hreint frábært stykki - fimm stjörnu sýning. Þar sem færsla gærdagsins fjallaði um ferð á kvikmyndina Bjarnferðarson þar sem Bjarnferður sjálf (móðir Georgs) gegnir veigamiklu hlutverki, tók það mig smá tíma að kúpla aðlstjörnu "fjölskyldunnar", nefnilega henni Bjarnfreði í rétt samhengi. Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona, sem leikur hina umtöluðu Bjarnfreði, er nefnilega hér í aðalhlutverki sem ættmóðir fjölskyldunnar og gerir það alveg ótrúlega vel.

fjolskyldan

Mynd dagins er fengin að láni á vef Borgarleikhúsins og sýnir "fjölskylduna" í samnefnduleikrit sem ég sá þar í kvöld. Semsagt - alveg frábær leikhúsferð í kvöld á hið magnaða leikrit "Fjölskyldan" í Borgarleikhúsinu!


Hr. Bjarnfreðarson

Mánudagur 28. desember 2009

Í kvöld var heilmikil bíóferð á dagskrá og ekki ómerkari mynd en "Bjarnferðarson" sem berja átti augum. Inga fór þá í bíó ásamt systrum sínum Guðrúnu og Jónu. Ég fékk að koma með en einnig voru drifinir í bíó þeir Magnús Árni og Ágúst Logi ásamt Rúnari Inga syni Jónu. Við vorum öll tiltölulega nýbúin að horfa á alla þætti "Fangavaktarinnar" og jafnframt allir í hópnum búnir að horfa á Næturvaktina og Dagvaktina. Að auki leikur Anna Dagbjört, dóttir fjórðu systurinnar, lítið aukahlutverk í myndinni. Öll skemmtum við okkur konunglega á myndinni sem að mínu mati er ágætis lokauppfjör á þáttaröðunum þremur. Átti þó kannski von á að þetta væri eins og langur þáttur að fangavaktinni eða eitthvað slíkt en myndinni er bara hin besta skemmtun fyrir aðdáendur þáttaraðanna þannig að bíóferðin okkar heppnaðist bara mjög vel!

IMG_6694[1]

Mynd dagsins er tekin fyrir utan Bíóhöllina við Álfabakka nú í kvöld þar sem verið er að fara að sjá kvikmyndina Bjarnfreðarson sem var hin fínasta skemmtun. Á myndinni eru:


Jólaboð, jólaboð...

Sunnudagur 27. desember 2009

Eftir hádegið í dag héldum við fjölskyldan á Skagann til mömmu og pabba sem héldu þar í dag sitt árlega jólaboð. Fyrir tæpu 40 árum tókum þau skötuhjú þá merkilegu ákvörðun að flytja upp á Akranes en bæði eru þau uppalinn í Reykjavík. Allar götur síðan hefur það verið "kvöð" (vonandi þó skemmtileg Smile) á fjölskyldum þeirra beggja að koma amk einu sinni á ári á Skagann, í jólaboð! Þetta jólaboð var sem sagt í dag. Þessi jólaboð er mjög eftirminnileg í minningunni. Oftast voru ættingjarnir að koma með Akraborginni í jólaboðið, stundum var brjálað í sjóinn og allir mættu hálfveikir í jólaboðið og gátu lítið borðað. Eitt árið gerði svo vont veður þegar leið á daginn að allir urðu veðurtepptir á Skaganum. Sjálfsagt var líka fínt veður sum ár. Að minnsta kosti hefur fátt margvert gerst í ferðalögumættingjanna síðan að Hvalfjarðargöngin komu til sögunnar og boðin núorðið ganga eins og í sögu. Við fjölskyldan áttum því fínan dag með ættingjum sem maður hittir auðvitað allt of sjaldan.

jólaboð Akranes

Mynd dagins er tekin á Skaganum á heimili mömmu og pabba í dag. Þar fór fram árlegt jólaboð fjölskyldunnar þar sem borgarbúar í fjölskyldunni bregða undir sig betri fætinum og fara í sína árlegu heimsókn á Akranes. Mamma og pabbi standa við veisluborðið en þegar þarna er komið við sögu er búið að bera fram eftirréttina og kaffið að verða klárt.


Náttfatadagur fjölskyldunnar

Laugardagur 26. desember 2009

Í dag var sannkallaður náttfatadagur fjölskyldunnar. Það var ekkert jólaboð á dagsrá í dag þannig að við fjölskyldan ákváðum að hafa kærkominn letidag í dag. Byrjuðum á að horfa á íslensku kvikmyndina Jóhannes sem kom upp úr einum jólapakkanum. Fórum varla úr náttfötunum í dag en vorum bara að dúlla okkur við lestur, púsl og fleira. Synirnir gátu þá ekki verið alveg rólegir, þurftu aðeins að fara út að viðra sig með vinum en við Inga vorum nokkuð föst í okkar náttfatadegi. Það er alveg hrikalega gott að eiga svona dag öðru hverju. Við hjónin vorum nú ekki hæf til myndatöku í dag en tókum þess í stað mynd af púsli sem við fengum í sérstaka aðventugjöf og byrjuðum aðeins að spreyta okkur á í dag. Púslið er með mynd af einhverjum flottasta kastala heims, Neuschwanstein í Þýskalandi en við fjölskyldan skoðuðum kastalann í Þýskalandsferð okkar árið 2006. Alveg ótrúlegt mannvirki!

IMG_6775[1]

Jólaboð og hangikjet!

Föstudagur 25. desember 2009

Eftir að fjölskyldan hafði sofið út var tekið til við að undirbúa árlegt Jóladagsboð fjölskyldunnar. Síðustu 10 ár eða svo höfum við Inga haldið jólaboð fyrir foreldra okkar systkini og nokkra ættingja ca 15-20 manns. Venju samkvæmt er boðið upp á jólahangikjöt með öllu tilheyrandi. Þetta árið var bæði jólahangikjöt frá Kjarnafæði en einnig kom Jóna mágkona með tvíreykt kjet af veturgömlum sauð, ættað úr Þistilfirði - þetta bragðaðist allt ljómandi vel. Í eftirrétt er venju samkvæmt möndluís og eru jafnan glæsileg verðlaun í boði fyrir þann sem hreppir möndluna. Að þessu sinni var það Kristinn Þór, sonur Krístínar mágkonu sem fékk möndluna við mikil fagnaðarlæti. Í okkar jolaboðum er jafnan farið í nokkra skemmtilega samkvæmisleiki þar sem ungir sem aldnir þurfa að spreyta sig á ýmsum þrautum og þrekraunum. Alltaf jafngaman hjá krökkunum að sjá hina fullorðnu keppa sín á milliCool og ýmsir hæfileikar koma í ljós. Jólaboðið gekk mjög vel og þegar flestir voru farnir var DVD-diski með þáttunum úr Fangavaktinni skellt í tækið - og glápt og hlegið fram á nótt!

IMG_6619

Mynd dagins er tekin í jólaboði fjölskyldunnar í dag. Þarna er ég að skera möndluísinn en þeir sem yngri eru eiga það til að verða nokkuð æstir þegar ísinn er borinn á borð þannig að einhver "reyndur" þarf að skera niður og skammta ísinn. Það vandasama verkefni féll í minn hlut í dag. Á myndinni er Rúnar Ingi sonur Jónu mágkonu að fá sína sneið en hann fékk einmitt möndluna í fyrra. Það skal tekið fram að húsfreyjan á allan heiðurinn að veitingunum í jólaboðinu Smile


Gleðileg jól!

Fimmtudagur 24. desember 2009

Við Inga vorum bæði í fríi í vinnunni í dag þannig að við gátum átt afslappaðan aðfangadag. Alveg síðan við fluttum í Mosfellsbæ, árið 1999 höfum við náð að halda þeim skemmtilega jólasið að fá einhvern jólasveinna í heimsókn á þessum degi. Sú venja brást ekki í dag en upp úr kl. 10 var útidyrahurðinni hrundið upp og Kertasníkir sjálfur stóð inni á miðju gólfi. Synirnir báðir lágu þá ennþá upp í rúmi en voru ekki seinir að spretta fram úr rúmunum þegar þeir urðu varir við gestinn. Kertasníkir dró upp forláta jólagjafir handa þeim og meira að segja færði mér einaSmile Eftir að hafa kannað kertastöðu heimilisins og þukklað aðeins á pökkunum undir jólatrénu hélt Kertasníkir leið sína enda í mörg horn að líta hjá kappanum á þessum mikla degi. Um hádegið fórum við Magnús Árni í árlegan jólaleiðangur okkar sem fer fram á þessum degi ár hvert, en rétt eins og í gær var Ágúst Logi heimavið. Kl. 18 var svo fjölskyldan mætt í Lágafellskirkju en við höfum jafnan haft þann sið að hefja jólin á því að fara í messu með alla fjölskylduna. Að lokinni messu var borinn fram hefðbundinn jólamatur - hamborgarahryggur með öllu tilheyrandi eftir laxatvennuforrétt að hætti Ingu. Guðrún mágkona slóst í hópinn með okkur í jólamáltíðinni og þegar LOKSINS kom að opnun pakkanna var Jóna mágkona mætt á svæðið ásamt Rúnari Inga syni sínum en þau höfðu borðað jólamáltíðina í Borgarnesi hjá tengdaforeldrum mínum (en komu til okkar að opna pakkana). Þetta var mjög ánægjulegt aðfangadagskvöld sem við fjölskyldan áttum. Allir sofnuðu með sælubros á vör þegar gengið var til hvílu nokkru eftir miðnættið að lokinni jólakorta- og pakkaopnun, símtölum og tilheyrandi jólaspjalli.

IMG_6568

Mynd dagins er tekin að morgni aðfangadags þegar Kertasníkir sjálfur heimsótti fjölskylduna. Þó mikið hafi verið að gera hjá kappanum í dag gat hann nú samt gefið sér tíma til að stilla sér upp við jólatréð með sonunum. Þetta var sannarlega skemmtileg byrjun á gleðilegum aðfangadegi! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband