Færsluflokkur: Bloggar

Afmælisnefnd Vífilsstaða stofnuð

Þriðjudagur 12. janúar 2010

Seinni partinn í dag tók ég þátt í skemmtilegum fundi. Forsagan er sú  að hið sögufræga hús, Vífilsstaðaspítali, sem upprunalega var kallað Vífilsstaðahæli, fagnar 100 ára afmæli í september á þessu ári. Vífilsstaðir voru upprunalega byggðir sem spítali fyrir berklasjúklinga en berklar, sem stundum hafa verið kallaður "Hvíti dauðinn", voru þá með illvígustu sjúkdómum sem fundust hér á landi. Upp úr miðri síðustu öld byrjuðu að koma fram lyf við berklum og í dag er sjúkdómurinn ekki vandamál hér á landi. Hlutverk Vífilsstaða hefur því verið að breytast. Hrafnista, vinnustaður minn, rekur nú  hjúkrunarheimili í húsinu og hefur gert síðustu 6 ár eftir viðamiklar breytingar á húsinu. Þó Hrafnista hafi því aðeins komið að sögu þessa merka staðar 6 ár af öllum 100 árunum viljum við gjarnan standa fyrir því að þessa afmælis verði minnst með viðeigandi hætti enda skipar saga Vífilsstaða merkilegan sess í sögu þjóðarinnar. Vegna þessa stóðum við í dag að stofnun afmælisnefndar í samvinnu við helstu aðila sem að sögu hússins hafa komið gegnum tíðina. Allir tóku vel í að vera með í afmælisnefndinni eins og SÍBS (B-ið stendur nefnilega fyrir berkla), Oddfellow-reglan sem stóð að byggingu hússins á sínum tíma, Garðabær, Landspítali og ýmsir áhugamenn um sögu staðarins. Við áttum fínan fund og ég varð margs fróðari um sögu þessa merkilega staðar. Það var mikill hugur í fólki og því er ljóst að 100 ára afmælis Vífilsstaða verður minnst með glæsibrag - bara gaman að taka þátt í því.

Vífilsstaðir

Mynd dagsins er af Vífilsstöðum. Þarna var reist glæsilegt hús undir spítala, læknisbústaður, fjós og fleira. Vífilsstaðir fagna 100 ára afmæli í haust og í dag var ég á fundi afmælisnefndar.

 

 


Ættingjar láta gott af sér leiða

Mánudagur 11. janúar 2010

Það var nóg að gera í vinnunni hjá mér í dag og í raun fram á kvöld. Í kvöld var ég gestur á stjórnarfundi Ættingjabandsins en það er ættingja- og vinasamband heimilisfólks á Hrafnistu í Reykjavík, eins af vinnustöðum mínum. Markmiðið er að stuðla að vellíðan heimilisfólksins á sem flestan hátt og geta að allir sem eiga ættingja og eða vini á Hrafnistu eru sjálfkrafa meðlimir sambandsins. Ættingjabandið stendur árlega fyrir ýmsum uppákomum s.s. aðventukvöld og skemmti- og fræðslukvöld fyrir heimilisfólk og gesti. Á sumrin hefur svo Ættingjabandið tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd sumarferðar heimilisfólksins á Hrafnistu þannig að þetta er stórmerkur og góður félagsskapur. Í kvöld var semsag fyrsti stjórnarfundur Ættingjabandsins á þessu ári en stjórnin hittist reglulega til þess að skipuleggja og undirbúa þau verkefni sem framundan eru. Það var því gaman að hitta þau nú í kvöld og heyra um það göfuga og skemmtilega starf sem framundan er. Mynd dagsins er fengin að láni af heimasíðu Hrafnistu og sýnir hörkustuð á einni af skemmtunum ættingjabandsins fyrir heimilisfólkið.

hrafnista

Þetta er hann KISS

Sunnudagur 10. janúar 2010

Eftir rólegan dag fórum við fjölskyldan saman í sund núna seinni partinn. Það var Lágafellslaugin hér í nágrenninu sem varð fyrir valinu eins og oft áður. Eftir ljómandi góðan þvott á allri fjölskyldunni fengu piltarnir að velja kvöldmatinn og fyrir valinu varð að fara á veitingastaðinn American Style við Bíldshöfða. Þar eru ljómandi góðir borgarar í boði fyrir okkur strákana og húsfreyjan fékk hollustu-sallad. Á veggjum vetingastaðarins eru myndir af ýmsum helstu stórmennum tónlistarsögunnar. Við tókum eftir að á einum veggnum var þessi líka fína mynd af hljómsveitnni KISS í öllu sínu veldi. Þessi hljómsveit var eftirlætishljómsveitin mín í mörg ár þegar ég var yngri. Fyrir utan að spila kröftugt og fjörugt rokk gerir hljómsveitin (sem ennþá er starfandi) mikið út á sviðsframkomu og eru til dæmis allir meðlimirnir málaðir sérstaklega í framan - alltaf á sama hátt og hafði hver meðlimur sveitarinnar eigin útfærslu sem gerir alla meðlimina auðþekkjanlega.  Hefur þetta haldið sér ennþá fram á daginn í dag. Kiss var ein vinsælasta hljómsveitin þegar ég var í skóla og andlitsmálningin gerði það að verkum að tiltölulega auðvelt var að teikna meðlimi hljómsveitarinnar. Hljómsveitarmeðlimir urðu því oft fyrir valinu þegar maður var í teikningu og myndlist í skólanum. Eftirminnilegt atvik átti sér stað þegar ég var í 10 eða 11 ára bekk í teikningu þegar margir okkar strákana völdu að teikna okkar uppáhaldsmeðlim í hljómsveitinni. Einn var þó ekki alveg með á nótunum en vildi þó falla í hópinn og teiknaði einn meðlim sveitarinnar. Það varð þó mikill hlátur í bekknum þegar myndlistarmaðurinn hafði ritað undir myndina: "Þetta er hann KISS".

 

IMG_6808[1]

Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum American style við Bíldshöfða þar sem við fjölskyldan fengum okkur í svanginn nú í kvöld eftir sundferð dagsins. Á veitingastaðnum eru myndir af ýmsum frægum tónlistarfólki rokk- og poppsögunnar og þarna hef ég stillt mér upp við myndina af hljómsveitinni KISS.


Kósý laugardagur

Laugardagur 9. janúar 2010

Í dag var ákveðið að hafa bara rólegheit á dagskrá fjölskyldunnar en það er nú stundum alveg dásamlegt að hafa ekkert sérstakt á dagskránni. Seinni partinn, þegar drengirnir voru komnir heim eftir að hafa leikið með vinum, drógum við fjölskyldan fram spil og spiluðum spilið "Sequence" sem er ágætlega skemmtilegt fjölskylduspil. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Magnús Árni (6 ára), gaf okkur hinum eldri ekkert eftir við spilamennskuna en spilið reynir nokkuð á útsjónarsemi. Held ég reyni ekkert að að útskýra spilareglurnar hér. Inga tók sig svo til og eldaði alveg ljómandi ljúffengan kjúklingarétt í kvöldmatinn. Mamma og pabbi kíktu við en þau voru að koma af Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar og snæddu með okkur kvöldmatinn. Bara ljúfur og rólegur dagur þar sem hægt var að hafa það svolítið kósý.

IMG_6798[1]

Mynd dagins er tekin við kvöldmatarborðið í kvöld þar sem snæddur var kjúklingaréttur að hætti Ingu.


Föstudagskvöld í tölvulandi

Föstudagur 8. janúar 2010

Í kvöld var aldrei þessu vant ekkert sérstakt á dagskránni. Við fjölskyldan vorum því bara heima í rólegheitum í kvöld. Fljótlega beindist þó athygli mín af playstation-tölvu sonanna. Þar var eldri pilturinn að spila ægilegan tölvuleik sem heitir Call of Duty 4. Þetta er svona "1. persónu" byssuleikur og bannaður börnum. Einhvers konar "bófaleikur" eins og maður lék í gamla daga nema nú í tölvunni. Einhverra hluta vegna drógst ég inn í þessa veröld þar sem breskir og bandarískir sérsveitarmenn þurfa að brjóast framhjá ýmsum þrjótum sem ógna heiminum víðvegar um lönd - á sjó, inn í borgum og úti í sveit. Leikinn er hægt að spila á netinu, bæði í liði með og gegn öðrum spilurum víðsvegar um heiminn. Það fór nú svo að kvöldið fór meira og minna í spila þennan leik og heyra útskýringar sonarins hvernig hitt og þetta gengur fyrir sig i þessum heimi. Miðað við árangurinn minn í leiknum er ljóst að mér er ætlað annað hlutverk í lífinu en að vera sérsveitarmaður.  Maður skemmti nú bara konunglega í þessu og adrenalínið flæddi, þó tilgangur leiksins sé ekki mjög fallegur, og svo fór að komið var fram yfir miðnættið þegar leik var hætt - þá hæst hann stendur.

call_of_duty_4_modern_warfare-1940

Mynd dagins er af tölvuleiknum Call of Duty 4 sem við feðgar vorum að spila saman í "Playstation" í kvöld. Alveg ótrúlega magnað fyrirbæri að spila þennan leik þó hann hafi ekki beint fallegt uppeldislegt gildi og ég hafi ekki náð sérstaklega góðum árangri sem sérsveitarmaður.


Jólin tekin niður

Fimmtudagur 7. janúar 2010

Í kvöld byrjuðum við fjölskyldan að taka niður jólin. Þetta er ansi vænn skammtur af jólaskrauti sem heimilið okkar hefur innihaldið yfir hátíðarnar en það er jú mikilvægur hluti af því að gera jólin hátíðleg og skemmtileg. Það skal alveg viðurkennast að húsfreyjan, Inga, á eiginlega allan heiður af því að velja skrautið, koma því upp og taka niður - ég er bara sérlegur aðstoðarmaður í ferlinuSmile Alls eru 10-12 pappakassar í stærri kantinum sem er notaðir undir skrautið en þeir búa jafnan á háaloftinu hjá okkur. Þá eru ótaldið ýmsar öskjur og dósir undir smákökur og fleira sem ekki er sett í pappakassana. Ekki má heldur gleyma útijólaseríunum sem eru glærar en við ætlum að leyfa þeim að loga út janúar að minnsta kosti. Jólatréð okkar var ansi tómlegt þegar búið var að taka af því allt skrautið en þessi mynd af jólatrénu okkar, alveg "allsberu", hef ég valið sem mynd dagins í dag til heiðurs þess að við vorum að taka niður jólin.

IMG_6801

Þrettándagleði í Mosfellsbænum

Miðvikudagur 6. janúar 2010

Í dag er síðasti dagur jóla og jólin verður að kveðja með stæl. Síðan við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 1999 höfum við haft þann sið að fara hér á þrettándabrennu enda er hún jafnan ein sú glæsilegasta á landinu. Í för með okkur Ingu í kvöld voru synirnir, Ágúst Logi og Magnús Árni, ásamt mömmu og pabba og Guðrúnu mágkonu. Venju samkvæmt lögðum við upp frá Bryndísi frænku sem býr í Arnartanganum eða bara rétt við brennuna. Veður fyrir Þrettándabrennur var með allra besta móti. Fallegur jólasnjór yfir öllu, ekkert mjög kalt en algert logn. Gott veður hefur greinilega sitt að segja því um 5.000 manns mættu á brennuna þar sem var sungið og spjallað áður en Björgunarsveitin Kyndill hér í Mosó bauð upp á mjög glæsilega flugeldasýningu - þar var nú engin "kreppusýning" á ferðinni heldur þvert á móti - alveg ótrúlega flott flugeldasýning! Að lokinni brennu og flugeldasýningu fórum við fjölskyldan í árlegt Þrettándaboð Bryndísar frænku þar sem maður hitti fullt af skemmilegu fólki og gat gætt sér á heitu súkkulaði, ís, kökum og fleira gúmmolaði.  Upp úr kl. 11 þorðum við nú ekki öðru en að fara heim þar sem Magnús Árni (6 ára) var orðinn nokkuð þreyttur og allir þurftu að vakna snemma daginn eftir. Þetta var sannarlega glæsilegur endir á frábærum jólum!!!

IMG_6795[1]

Mynd dagins er tekin á glæsilegri Þrettándabrennunni í Mosfellsbænum nú í kvöld. Á myndinni eru frá vinstri: Ágúst Logi, mamma, pabbi, Bryndís frænka og Guðrún mágkona.


Að föndra "gogga"...

Þriðjudagurinn 5. janúar 2010

Dagurinn í dag verður án efa talinn mjög sögulegur en forsetinn var algerlega maður dagsins í dag. En þetta er semsagt dagurinn þegar Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir "æseif". Þar sem í síðustu færslum hefur verið fjallað nokkuð um forseta og Bessastaði ætla ég að gefa því frí. Seinni partinn í dag átti ég nefnilega ágæta stund með syni mínum Magnúsi Árna og Elísabetu vinkonu hans þar sem við vorum að föndra "gogga" sem er vinsælt sport hjá þessum aldri. Í gogginn eru svo skrifaðar tölur sem maður velur sér og undir tölunum er svo "spádómur" um persónuleika manns Tounge Eftir að hafa valið þrisvar sinnum tölur úr "goggi" eigandans kemur úrskurðurinn og í dag var ég ýmist "tveggja ára" eða "önd". Líklega nokkuð mikið til í þessu í báðum tilvikum Cool

IMG_6796[2]

Mynd dagins er tekin hér heima seinni partinn þar sem ég föndraði "gogga" með Magnús Árna og Elísabetu vinkonu hans!


Forsetinn Vigdís

Mánudagur 4. janúar 2010

Nú í kvöld lauk ég við að lesa nýju bókina um Vigdísi sem kom út fyrir jólin: Vigdís - kona verður forseti. Bókin er eftir Pál Valsson og lýsir lífshlaupi Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta. Lífshlaup Vigdísar er auðvitað mjög áhugavert og fróðlegt að lesa ýmislegt um þessa merku konu. Sérstaklega finnst mér nú mjög skemmtilegur en rosalega "íslenskur" aðdragandinn að ákvörðuninni um að fara í framboð. Þó bókin sé heldur löng fyrir minn smekk hafði ég nú bara mjög gaman af henni. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér að ég hitti Vigdísi í aðdraganda forsetakostninganna 1980 en þá var ég 9 ára gamall. Ég man vel eftir þegar ég hitti hana en hún var á sólríkum degi í kosningaferðalagi um Akranes. Mamma tók að sér að keyra hana hluta dagsins og ég fékk að sitja í bílnum milli tveggja eða þriggja staða. Ég man að ég var alveg sannfærður um að þessi kona yrði forseti þó hún hafi nú ekki verið neitt sérlega forsetaleg - heldur bara meira venjuleg kona í venjulegum fötum Smile

Vigdis-175x249
 

Mynd dagsins er fengin af láni af vefsíðu Forlagsins og sýnir bókarkápu Vigdísar-bókarinnar sem ég lauk við að lesa nú í kvöld! Merkileg bók um lífshlaup Vigdísar forseta.


Spila- og átveisla á Akranesi

Sunnudagur 3. janúar 2010

Við fjölskyldan áttum mjög skemmtilegan dag í dag. Upp úr hádegi fórum við upp á Akranes og heimsóttum þar vinafólk okkar Sævar og Hafdísi ásamt börnum þeirra Arnari, Katrínu og Helenu. Einnig voru með okkur góðir vinir, Ástþór og Sigrún ásamt Ástrósu dóttur sinni. Við vorum nokkurn veginn að borða allan daginn og meðan krakkarnir léku sér við að mála, spila og fara í heita pottinn voru við fullorðnu að spila (ásamt átinu) hið skemmtilega spil ALIANS sem var mjög vinsælt í jólapökkunum nú um jólin. Spilið Alians gengur út á að lýsa tilteknum orðum fyrir spilafélögunum sem þeir eiga að reyna að finna út án þess að notað sé í lýsingunni það orð sem finna á; nokkurs konar andstæða við það að leika látbragðsleik (ferkar flókin útskýring Smile). Þetta er mjög skemmtilegt spil sem ég mæli með!

IMG_6779[1]

Mynd dagsins er tekin í spila- og átveislunni á Skaganum í dag. Í tilefni dagsins bakaði Ástþór tvær "hnallþórur" sem við gæddum okkur á en áður en við fengum það kveikti kappin á blysum í tilefni af nýja árinu. Mjög ánægjulegur dagur hjá okkur fjölskyldunni á Skaganum í dag!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband