Landmannalaugar - upphaf Laugavegarins!

Miðvikudagurinn 9. júlí 2014

Í dag er skemmtilegur dagur því í hádeginu í dag var ég kominn upp í Landmannalaugar ásamt vöskum hópi fólks. Næstu fjóra daga er ætlunin að ganga "Laugaveginn" margfræga, sennilega vinsælustu gönguleið landsins sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki að fara þessa leið í fyrsta skipti. Sjöunda árið í röð hef ég tekið að mér að fara sem fararstjóri með einn hóp þessa skemmtilegu leið fyrir Ferðafélag Íslands. Vegna forfalla á síðstustu stundu urðum við aðeins 16 í ferðinni en venjulega er hefur ferðin alltaf verið full - 20 manns ásamt fararstjórunum mér og Ingimar, tengdapabba.

Leiðin sem við förum er hefðbundin Laugavegsleið. Við erum fjóra daga á göngu og tökum svo fimmtadginn fyrir göngu inn í Þórsmörk þar sem ferðin endar og heimferð. Hópurinn fór með rútu að morgni úr Reykjavík og eftir stutt stopp í Landmannahelli vorum við komin í hádeginu í Landmannalaugar. Þar lentum við reyndar í smá ævintýri þar sem rútan okkar bilaði aðeins 4 km frá endastöðinni, en góðhjartaður rútubílstjóri sem var stattur í Landmannalaugum kom og sótti okkur þannig að engin röksun varð á ferðinni. Eftir gott stopp í Landmannalaugum þar sem sumir skelltu sér í sund var gengið yfir í Hrafntinnusker þar sem við vorum komin um kvöldmatarleitið eftir viðkomu á Brennisteinsöldu og fleiri skemmtilegum stöðum. Seinni hluta leiðarinnar gengum við hins vegar í blindaþoku þannig að þegar lokið var við snæða kvöldverð var slegið upp heljarinnar kvöldvöku í skálanum áður en gengið var til náða. Þar sem farangurinn okkar er fluttur milli skálanna (trússaður) þurfum við ekki að burðast með allt á bakinu og getum leyft okkur góðan viðgjörning í mat og drykk.

Landmannalaugar 

Mynd dagsins er tekin í Landmannalaugum í dag þar sem ég er að leggja af stað í göngu um Laugaveginn sem fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands, sjöunda árið í röð. Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt (bara ein ferð á ári) enda leiðin mjög fjölbreytt og falleg og gaman að kynnast nýju fólki. Ég valdi þessa mynd þar sem mér finnst alltaf jafn gaman að tjaldstæðinu í Landmannalaugum þar sem tjöldin eru á hrjóstrugum berangri og bera þarf grjót á tjöldin svo þau fjúki ekki. 


Fótboltavalkvíðinn mikli!

Þriðjudagur 8. júlí 2014

Í kvöld var ég með mikinn valkvíða sem snérist um hvað ég ætti að gera af mér milli kl 20 og 22 í kvöld. Þar sem ég er mikill fótboltaáhugamaður stóð ég frammi fyrir miklum vanda. Á þessum tíma fór fram, eins og frægt er orðið, undanúrslitaleikur Brasilíu og Þýskalands á HM í fótbolta en nákvæmlega á sama tíma datt einhverjum í hug að hafa toppslag í 2. deild karla í fótbolta hér á Varmárvelli í Mosfellsbæ þar sem Afturelding fékk Seltirningana í Gróttu í heimsókn.

Eftir að hafa hugsað málið nokkuð ákvað ég að velja íslenska náttúru framyfir sjónvarpið og byrjaði á Varmárvelli og sjá til í hálfleik - að minnsta kosti gæti ég farið heim í hálfleik og náð framlengingu og vítaspyrnukeppni á HM ef hún yrði. Varmárvöllur bauð upp á bestu skilyrði til knattspyrnuiðkunar með léttblautu grasi, logni og fínum hita. Hins vegar voru greinilega ekki margir sem völdu sama knattspyrnuvöll og ég. Ég held ég hafi aldrei séð færri áhorfendur á leik á Varmárvelli, amk ekki í 2. deilld karla. Leikurinn á Varmárvellli var hins vegar mun meira spennandi en sá í Brasilíu þó mínir menn hafi að lokum tapað 1-2.

HM vandræði 

Mynd dagsins er tekin á Varmárvelli í Mosfellsbænum í kvöld þar sem ég ásamt örfáum öðrum valdi að horfa á knattspyrnuleik þar í stað þess að kúra í sófanum og horfa á stórlið heimsknattspyrnunnar, Brasilíu, kjöldregið á heimavelli sínum. En ljómandi fín kvöldstund á Varmárvelli í kvöld þó úrslitin hefðu mátt vera betri og áhorfendur hefðu mátt vera aðeins fleiri. Fámennt og góðmennt eins og sjá má á myndinni - en kannski ekki furðulegt þar sem stórleikur HM fór fram á nákvæmlega sama tíma Smile


Sundferð í sólinni!

Mánudagurinn 7. júlí 2014

Undur og stórmerki gerðust í dag. Seinni partinn lét bara blessuð sólin sjá sig en það er nú eitthvað sem við hér á Suðvesturhorninu höfum nú ekki fengið of mikið af undanfarið.

Við ákváðum því að fara í sundferð í blíðunni og fyrir valinu var sundlaugin á heimavelli okkar, Lágafellslaug hér í Mosfellsbænum. Þetta er ljómandi fín sundlaug með rennibrautum fyrir allan aldur svo hægt er að dunda sér þar tímunum saman sem við og gerðum.

Svandís í sundi

Mynd dagsins er af Svandísi Erlu og er tekin í Lágafellslaug í sólinni í dag þar sem við áttum góðar stundir. Því var reyndar laumað að mér af sundlaugarstarfsmanni að það væri bannað að taka myndir í sundlaugum á Íslandi en ég vona samt að mér verði fyrirgefið að hafa tekið þessa mynd af Svandísi sem er þarna kampakát í rennibrautinni Cool


Vitinn á Breiðinni!

Sunnudagur 6. júlí 2014

Þessari helgi hefur verið varið á bæjarhátíðinni Írskum dögum á Akranesi. Eitt af því skemmtilega sem gert var í dag var að heimsækja vitann á Breiðinni þar sem bæði er hægt að njóta útsýnisins yfir Akranes og nágrenni og skoða nýopnaða myndlistasýningu listamannsins Bjarna Þórs.

Vitinn (eða vitarnir) á Breiðinni á Akranesi (nánar tiltekið við Suðurflös) eru að verða eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á Akranesi í dag. Sá hærri, sem er opin ferðamönnum er um 20 metra hár og var byggður 1944. Fyrir aðeins tveimur árum var ákveðið að opna vitann sem ferðamannastað og fór þar fremstur í flokki hinn kraftmikli Skagamaður Hilmar Sigvaldason. Inn í vitanum er nokkrar hæðir og er þar búið að safna saman ýmsum skemmtilegum upplýsingum um vitann. Þar er líka að finna flottar ljósmyndir frá félögum í Ljósmyndaklúbbi Akranes og ljóð sem Skaga-skáldið Sigurbjörg Þrastardóttir hefur þýtt. Síðasta fimmtudag var svo mikið húllumhæ í vitanum þegar listamaðurinn Bjarni Þór opnaði sýningu í vitanum og hana skoðuðum við í dag. Hljómburður í vitanum þykir einstaklega góður og á opnunina á sýningu Bjarna Þór mættu hvorki meira né minna en karlakórinn Fjallabræður til að syngja. Fjölmargir tónleikar hafa verið haldinir í vitanum og ýmsar aðrar uppákomur.

Vitinn er þó ekki fyrir mjög góður staður fyrir lofthrædda eða lítil börn en fyrir alla aðra ætti að vera mjög gaman að koma þarna og njóta útsýnisins að innan sem utan. Annar viti, sem er bæði lægri og eldri, er þarna skammt frá og er einnig gaman að ganga að honum ef maður er á annað borð kominn á svæðið.

Vitinn 

Mynd dagsins er tekinn i Vitanum á Breiðinni í dag. Þarna erum við Magnús Árni komnir upp á topp með Akranes og Akrafjall í baksýn. Flott útsýni og gaman að heimasækja vitann og skoða sýningu listamannsins Bjarna Þórs Smile 


Brekkusöngur Írskra daga!

Laugardagurinn 5. júlí 2014

Þessa helgina eru við á Akranesi, uppeldisbæ mínum, en þar fer fram bæjarhátíðin Írskir dagar í 15 sinn. Síðustu ár höfum við alltaf reynt að kíkja eitthvað á hátíðina enda mjög gaman að koma á Skagann og hitta gamla vini og kunningja.

Vinahópur minn stendur svo fyrir einum fjölmennasta viðburði hátíðarinnar, Brekkusöng, sem fram fór í kvöld. Þetta var í sjötta skiptið sem Brekkusöngurinn  og venjulega mæta kringum 2.000 manns til að syngja saman. Þrátt fyrir kalsaveður og vítaspyrnukeppni í leik Hollands og Kosta ríka á HM, var ljómandi fín mæting í Brekkusöng kvöldsins. Tæplega 2.000 manns mættu og tóku hressilega undir með veðurguðinum Ingó, Ingólfi Þórarinssyni, sem stýrði söngnum þetta árið. Ingó tók hvern stórslagarann á fætur og endaði á að taka "Ég er kominn heim" og "Kátir voru karlar". Eftir sönginn var svo fjöllmennt á eitt stærsta ball landsins, Lopapeysuna, þar sem dansinn dunaði fram á nótt á tveimur sviðum.

árgangur71 

Mynd dagsins er tekin eftir Brekkusöng Írskra daga í kvöld. Þarna eru nokkrar af helstu sprautunum  í Árgangi71 (Club71) samankomnir ásamt Ingó Veðurguð, til að fagna eftir velheppnaðan Brekkusöng (það vantar samt nokkra). Þessi hópur stendur fyrir Brekkusöngnum ár hvert í samvinnu við Lopapeysuna og þetta verður bara skemmtilegra með hverju árinu Smile 

Til gamans kemur hér aukamynd frá brekkusöngnum í kvöld til að veita innsýn í kvöldið. Hér sjáum við söngstjórann Ingó í forgrunni og gott sýnishorn af sönguelskum Skagamönnum í brekkunni.

Brekkusöngur 


Dr. Jójó og co.

Föstudagurinn 4. júlí 2014

Í hádeginu í dag lögðum við Inga leið okkar í Bæjarleikhúsið hér í Mosfellbænum. Þar vorum við að fara á spennandi leiksýningu þar sem Magnús Árni kom heldur betur við sögu.

Magnús Árni hefur undanfarnar tvær vikur verið á leiklistarnámskeiði í Bæjarleikhúsinu sem ber nafnið Leikgleði. Eins og nafnið gefur til kynna er búin að vera mikið fjör og mikil gleði. Í lok námskeiðisins settu krakkarnir upp stutt, frumsamin leikrit. Leikritið sem Magnús Árni tók þátt í bar nafnið Dr. Jójó og co. Magnús lék þar brjálað vísindamann (Dr. Jójó) sem hafði illar fyrirætlanir en eins og í flestum góðum ævintýrum náðist að stöðva hann á síðstu stundu og allt fór vel.

 IMG_1015

Mynd dagsins er tekin á leiksýningu krakkanna á "leikgleði" námskeiðinu í dag sem fram fór í bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Þarna er Magnús í hlutverki hins brjálaða Dr. Jójó í atriði með Elísabetu vinkonu sinni. Gleði og gaman í bæjarleikhúsinu í dag Smile


Happdrætti DAS 60 ára!

Fimmtudagurinn 3. júlí 2014

Í dag var ég viðstaddur skemmtilegan atburð en þá átti Happdrætti DAS 60 ára afmæli. Í tilefni dagsins var sérstakur hátíðarútdráttur þar sem meðal annars var skýrskotað var til sögunnar og dreginn út heil íbúð í vinning að verðmæti 30 milljónir.

Happdrætti DAS var stofnað fyrir 60 árum og var tilgangurinn þá (og er enn í dag) að afla fjár til uppbyggingar Hrafnistuheimilanna, þar sem ég einmitt starfa. Fleiri öldrunarheimili hafa einnig notið góðs af, því um áratugaskeið fór hluti hagnaðarins í Byggingarsjóð aldraðra sem notaður var til að byggja upp dvalarheimili um allt land. Skemmtileg sérstaða happdrættisins eru bíla- og íbúðavinningar sem fylgt hafa happdrættinu öll þessi ár þó í dag séu nær allir vinningar beinharðir peningar.

Fyrsti útdráttur Happdrættisins fór fram 3. júlí 1954. Þá voru í vinning sex bifreiðar af þeim níu sem flytja mátti inn til landins á þessum skömmtunartímum sem þá ríktu hér á landi. Síðar voru íbúðir í vinning, einbýlishús, ýmis húsbúnaður og margt fleira. Á þessu afmælisári eru þrjár íbúðir í aðalvinning að upphæð 30 milljónir hver. Reyndar er rétt að geta þess að vinningshafinn getur alltaf fengið peninginn frekar, kjósi hann svo.

Á þessum 60 árum sem Happdrætti DAS hefur starfað, hefur það greitt um 4 milljarða króna í uppbyggingu öldrunarheimilia á Íslandi. Auk þess hafa um 15 milljarðar verið greiddir út í vinninga á sama tíma. Ekki amarlegt framlag til samfélagsins sem kemur frá Happdrætti DAS!

happdrætti DAS

Mynd dagsins er tekin við 60 ára afmælisútdrátt í Happdrætti DAS nú seinni partinn í dag. Þar fékk ég að vera viðstaddur þegar dregið var. Þetta er allt samkvæmt kúnstarinnar reglum og tveir fulltrúar ríkisins stýra athöfninni þannig að allt sé löglegt og engin brögð séu í tafli. Ég fékk að aðstoða aðeins með því að snúa forláta tæki sem dregur tölur, sem síðan eru slegnar inn í tölvu sem á handhófskenndan hátt velur svo öll vinningsnúmerin. Með mér á myndinni eru Guðmundur Hallvarðsson stjórnarformaður Happdrættis DAS, Sigurður Ágúst Sigurðsson forstjóri Happdrættisins og tveir eftirlitsmenn auk starfsfólks frá Happdrættinu. Það var mjög gaman að fá að vera viðstaddur þennan sögulega útdrátt en kannski það leiðinlegasta var að 30 milljón króna íbúðavinningurinn kom á miða þar sem miðaeigandinn hafði ekki endurnýjað miðan sinn þessi mánaðrmótin.


Hvítagull!

Miðvikudagurinn 2. júlí 2014

Mynd dagsins er ekki tekin í fjallgöngu einhvers staðar á hálendinu eins og kannski mætti halda við fyrstu sýn. Síðustu daga hefur allur minn tími verið í garðinum við að laga eitt og annað. Eitt af því sem mikill tími hefur farið í er ganga frá svæði sem liggur milli grindverks við lóðina og götunnar. Þar ætlum við að sleppa öllum gróðri og setja hvíta möl til að fegra umhverfið. Við Magnús Árni fórum á stúfana í dag til að finna heppilegt efni til að framkvæma þetta. Fjöllin fyrir aftan mig eru því ekki ekki upp í óbyggðum heldur efni í haugum í malbikunarstöðinni Höfða.

 Hvítagull

Mynd dagsins er tekin í malbikunarstöðinni Höfða í dag þar sem við Magnús vorum við efnistöku vegna garðfræmkvæmda. Fyrir áhugasama er þetta er nánar tiltekið efni sem heitir Lysitt sem við Magnús vorum nú á að ætti frekar að heita Hvítagull Smile


Síðasta vikan í leikskólanum!

Þriðjudagur 1. júlí 2014

Það eru tímamót hjá Svandísi Erlu þessa dagana því í þessari viku er daman veru sinni leikskkólanum Höfðabergi hér í Mosfellsbænum. Á föstudag hefst sumarfrí og þegar leikskólinn opnar aftur í haust verða börnin flutt yfir á Huldberg á mismunandi deildir (Höfðaberg er nú útibú frá Huldubergi fyrir yngstu börnin). Núverandi leikskóli verður útibú frá Lágafellsskóla fyrir 5-7 ára börn og því ekki lengur í boði fyrir Svandís Erlu og félaga.

Það eru aðeins meiri breytingar hjá Svandís því hún fer ekki inn á Hulduberg eins og flestir hinir krakkarnir, heldur skiptir hún alveg um leikskóla og fer í Krikaskóla sem er hér nánast beint fyrir utan dyrnar hjá okkur. Krikaskóli er samfelldur skóli fyrir börn frá 2 ára aldri upp í 4. bekk og byggir á nýrri stefnu í skólastarfi.

Svandís sem hóf leikskólagöngu sína í ágúst í fyrra er því að stíga allra síðustu skrefin á Höfðabergi þessa dagana.

Höfðaberg

Mynd dagsins er tekin á leikskólanum Höfðabergi í morgun þar sem Svandís er að setja dótið sitt í hólfið sitt, í eitt allra síðasta skiptið. Hún er samt bara spennt að byrja á nýjum stað eftir sumarfríið.


Að vatna sig upp!

Mánudagur 30. júní 2014

Ég var í nokkrum vafa hvað ég ætti að hafa mynd dagsins í dag því það voru nokkrir möguleikar í boði. Á endanum ákvað ég að hafa það vatnsdrykkju!

Kannski nokkuð skrýtið? Ástæðan er samt sú að þegar við fluttum síðasta vetur (í annað húsnæði hér í Mosó) var ljóst að við þyrftum að fá okkur nýjan ísskáp. Við veltum þessu lengi fyrir okkur en sumir á heimilinu vildu endilega kaupa ísskáp með rennandi vatni og klakavél. Í fyrstu fannst mér það hinn mesti óþarfi en rökin með þessu voru alltaf sú að margir sem eiga svona ísskápa segja að vatnsneyslan á heimilinu aukist við þetta. Hljómar ekkert rosalega vel í byrjun. En á endanum gaf ég mig og keyptur var ísskápur sem gerir klaka og hefur ískalt rennandi vatn stöðugt tilbúið.

Og viti menn! Núna hálfu ári seinna hef ég tekið eftir að bæði vatnsdrykkja mín, sem og annara heimilismanna hefur aukist til muna. Og ekki bara það heldur virðist þetta ekki bara vera "nýjabrum" heldur er þetta ennþá viðvarandi eftir allan þennan tíma. Vatn er auðvitað mjög æskilegur drykkur við allar aðstæður sem flestir hafa bara gott af að drekka mikið og reglulega. Þess utan drekk ég, sem og annað heimilisfólk, nú vatn frekar en ýmislegt annað og það er af hinu góða.

Ég er því að sannfærast þessa dagana að þessi fjárfesting sé að skila sér og vonadi leiðir hún til aðeins heilbrigðari lífshátta hér á heimilinu. 

Vatn

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna við að vatna sig upp í nýja ísskápnum. Umdeild kaup á sínum tíma en þessi ísskápur sem gerir klaka og með ísköldu rennandi vatni virðist vera sanna gildi sitt hjá fjölskyldunni þar sem vatnneysla okkar allra er ennþá töluvert meiri en hún var fyrir kaupin, þó rúmlega hálft ár sé liðið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband