Hvatberaferðin 2014

Laugardagurinn 19. júlí 2014

Í dag er stór dagur því í dag er fyrsti dagurinn í Hvatberaferðinni 2014. Hvetberar eru vina-gönguhópur sem við fjölskyldan erum í og hefur hópurinn farið saman í 4-6 daga ferð á hverju sumri í 11 ár. Þetta sumarið er nokkuð óvenjulegt fyrir mig því Hvatberar fara nú "Laugaveginn" undir fararstjórn minni, þannig að ég er að ganga Laugaveginn í annað sinn á rúmri viku.

Í ferðinni að þessu sinni eru tæplega 40 manns. Aldursdreifingin er skemmtilega mikil því tveir strákar eru yngstu garparnir í ferðinni: Magnús Árni okkar (11 ára) og Dagur Ingi (7 ára) en Ingimar tengdapabbi er elstur (að verða 79 ára). Þar sem tengdapabbi er harmonikkuleikari Hvatberahljómsveitarinnar er hann alveg ómissandi í allar ferðir.

Ætlunin er að ganga Laugaveginn á fjórum dögum og taka nokkrar aukaferðir í leiðinni. Veðrið var hins vegar ekkert sérstakt þennan fyrsta dag þar sem þetta gula á himninum lét ekkert sjá sig. Það var hins vegar bara rigning öðru hverju. Dagurinn varð hins vegar mjög skemmtilegur og allir voru í hörkustuði á kvöldvökunni og sofnuð sælir og þreyttir í um 1.100 m hæð í skálanum í Hrafntinnuskeri eftir göngu dagsins.

Hrafntinnusker

Mynd dagsins er tekin í skálanum í Hrafntinnuskeri þar sem við gistum fyrstu nóttina. Á hverju kvöldi er mikið lagt upp úr sameignlegum kvöldveislum með mat, drykk, söng (3-4 manna hljómsveit) og leikjum. Í kvöld þurfti maturinn að vera í einfaldari kantinum vegna þess hve skálinn er lítill og afskekktur. Við fengum við því plokkfisk og þrumara í aðalrétt og ljúffenga tertu í eftirrétt. Þarna erum við að sporðrenna plokkfisknum og eins og sjá má var þröngt á þingi, en það er nú oft bara skemmtilegra!

Þar sem það er til mikið af skemmtilegum myndum úr ferðinni ætla ég að hafa 2-3 aukamyndir á hverjum degi. Í dag eru það annars vegar mynd af okkur Magnúsi Árna í sundi í Landmannalaugum og hins vegar flott mynd sem tekin er af toppi fjallsins Brennisteinsöldu í Landmannnalaugum og sýnir upptök Laugahrauns (sem rann úr Brennisteinsöldu árið 1477) og fjallið Bláhnjúk.

sund

 

Af Brennisteinsöldu

Valtað yfir vigtina!

Föstudagur 18. júlí 2014

Í dag var mikill ánægjudagur hjá mér. Fyrir nokkru fór ég í nammibindindi (sjá færslu  23. júní) til að bæta aðeins lífsstíllinn og ekki síst til að létta mig um nokkur kíló fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst þar sem ég ætla að hlaupa hálft maraþon.

Samkvæmt plani ætlaði ég í vigtun dagsins að vera kominn niður fyrir þriggja stafa tölu, það er minna en 100 kg. Síðustu ár hef ég meira og minna verið að rokka í 103-105 kg svo nú á að koma sér niðurfyrir þetta. Markmiðið var að vera kominn undir 100 kg 18. júlí (í dag) og vera svo á bilinu 95-98 kg þann 23. ágúst - og að halda mér þar að staðaldri í framtíðinni. Held að þetta sé bara fín þyngd fyrir mann sem er 193 cm á  hæð.

Eftir 12 km hlaup í dag var ég spenntur að vita hvort ég væri ekki kominn undir þriggja stafa töluna en tölur undanfarið gáfu til kynna að svo gæti alveg farið.  Ég var svo viðbúinn að fara að ráðum félaga míns og skella mér í gufuna í nokkrar mínútur ef einhver grömm vantaði upp á að ná þessu markmiði. En viti menn, ekki þurfti ég að fara í gufuna því eftir að hafa stigið á vigtina var ég leikandi létt kominn undir 100 kg - vigtaðist 99,00 kg með myndavél í hendinni. Nammibindindið hefur því verið að skila 3-4 kg rýrnum á mér, þessar tæpu 4 vikur sem það hefur staðið yfir, jafnvel þó ég hafi óvart svindlað örlítið einu sinni eða tvisvar. 

Vigtin

Mynd dagsins er af vigtinni í karlaklefanum í Lágafellslaug þar sem ég hreinlega valtaði yfir þyngdarmarkmið dagsins. Samkvæmt plani átti ég að vera minna en 100 kg í vigtuninni í dag og eins og sjá má var ég sléttu kílói léttari en það - 99,00 kg - og það með myndavélina í hendinni! Alltaf gaman þegar maður nær markmiðum sínum Cool 


Sigga sótt á flugvöllinn!

Fimmtudagur 17. júlí 2014

Seinni hluta kvöldsins í kvöld vörðum við Magnús Árni í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þangað fórum við til að sækja Siggu, móðursystur mína. Hún býr í Danmörku og var að koma til landsins í kvöld til um 3 vikna Íslandsdvalar. Maðurinn hennar, Steen, átti ekki heimangengt strax en hann kemur til landsins eftir helgina.

Það var reyndar klukkustundarseinkun á vél Icelandair frá Kaupmannahöfn í gærkvöldi þar sem einhver sem tékkaði sig inn í flugið mætti ekki út í vél. Það þurfti því að taka allar töskurnar út úr vélinni og hver farþegi að finna sínar töskur áður en skýrðist hvaða töskur í vélinni áttu ekki eiganda um borð. Að öðru leiti gekk flugið bara vel og það var gaman að hitta Siggu. 

Sigga P flugvöllur

Mynd dagsins er tekin í Leifsstöð nú í kvöld þar sem við Magnús Árni tókum á móti Siggu, móðursytur minni sem komin er til landins til góðrar dvalar með ættingjum og vinum Smile


Snjókoma í júlí!

Miðvikudagurinn 16. júlí 2014

Í kvöld átti ég leið á íþróttasvæðið hér á Varmá í Mosfellsbænum. Það væri svo sem ekki frásögur færandi nema að á tímabili vissi ég ekki hvort ég væri staddur í snjókomu um hávetur eða inn í bílaþvottastöð.

Ástæðan er að verða klassísk á þessum árstíma - á svæðum þar sem mikið er af öspum getur allt hreinlega orðið hvítt en öspin notar hálfgerða bómull til að dreifa fræum sínum. Þetta er akkúrart að gerast þessa dagana á höfuðborgarsvæðinu eins og fjölmiðlar hafa verið duglegir að sýna með flottum myndum síðust daga. Mosó verður því líka að eiga sínar myndir af þessum skemmtilegu náttúruverkum.

snjókoma

Mynd dagsins er tekin á íþróttasvæðinu við Varmá í kvöld. Þar var allt orðið hvítt eins og snjókoma hefði gengið yfir en eins og flestir eru farnir að þekkja eru það aspirnar sem dreifa fræjum sínum með þessum hætti sem vissulega setur skemmtilegan svip á umhverfið í nokkra daga.


Maturinn hennar mömmu!

Þriðjudagur 15. júlí 2014

Í kvöld kíktum við Magnús Árni í heimsókn til foreldra minna á Skagann. Þetta er nú bara 25 min keyrsla úr Mosfellsbænum þannig að við kíkjum stundum til þeirra í stuttar heimsóknir.

Í kvöld var stórleikur á Skaganum þegar heimamenn fengu KA í heimsókn í 1. deild karla í fótbolta. Það var því mjög fín blanda að kíkja á mat til mömmu og fara svo með pabba á leikinn, sem við og gerðum. Á vellinum hittum við margar gamlar knattspyrnukempur úr sögu Akranes og auðvitað ýmsa aðra. Úrslitin voru hins vegar ekkert til að tala ferkar um en að öðru leiti vorum við feðgar ánægðir með ferðina á völlinn. Þegar heim var komið var mamma svo búin að föndra fram ljúffenga eplaköku þannig að smá kuldi af vellinum og einhver smá vonbrigði með úrslitin gleymdust fljótt. 

 Maturinn hennar mömmu

Mynd dagsins er tekin á heimili foreldra minna, á Bjarkargrundinni á Akranesi. Þarna eru pabbi og Magnús Árni kominir inn eftir að hafa verið að horfa á leika á knattspyrnuvellinum. Fyrir ferðina á völlinn fengum við æðislegan fiskrétt að hætti mömmu og þegar til baka kom, beið okkar glæsilegur eftirréttur. Það er alltaf eitthvað ljómandi ljúffengt við að koma í matinn hennar mömmu Cool


Keilukvöld í kvöld!

Mánudagurinn 14. júlí 2014.

Seinni partinn í dag fórum við fjölskyldan í keilu, reyndar þó án frumburðarins sem var að vinna. Við reynum að gera þetta einstaka sinnum enda mjög skemmtilegt fjölskyldusport þar sem allir geta tekið þátt. Við fórum í Egilshöllina og áttum þar frábæra stund. Úrslita verður kannski ekki getið hér en Svandís Erla stóð sig samt örugglega best miðað við aldur. Hún fékk reyndar að hafa grindur upp svo kúlan fór aldrei út af brautinni og svo er til þessar flottu græjur til að hjálpa yngsta fólkinu við að koma kúlunni af stað (veit ekki hvað þær græjur heita), sjá mynd.

keilukvöld 

Mynd dagsins er tekin í keiluferð fjölskyldunnar í dag. Alltaf gaman þegar fjölskyldan gerir eitthvað saman og keila er skemmtileg fyrir fjölskylduna Smile


Grillað í lok HM

Sunnudagur 13. júlí 2014

Í dag endaði fimm daga ferð mín um Laugaveginn en ég gær komum við í Þórsmörk þar sem gist var að lokinni í göngunni. Þó ekki væri sól í Þórsmörk var flott veður; hlýtt og logn. Við fengum okkur því góðan göngutúr úr Langadal í Húsadal og komið var við í Sönghelli þar sem hópurinn tók nokkur lög við undirleik Ingimars tengdapabba á harmonikkuna.

Við vorum svo komin heim í Mosfellsbæinn seinni partinn. Þá var gott að komast í gott bað og heitan pott áður en við grilluðum stæður af steikum fyrir úrslitaleikinn á HM - leik Þýskalands og Argentínu. Það var því gott að vera nýbaðaður og úttroðinn að grillkjöti þegar leikurinn hófst. Ég var svo steinsofnaður fljótlega eftir að leiknum lauk.

HM úrslit 

Mynd dagsins sýnir okkur fjölskylduna (nema Ingu sem tók myndina) vera búna að koma okkur vel fyrir til að horfa á úrslitaleik HM nú í kvöld. Eftir mikið grillkjötsát var ís í eftirrétt (ekki samt fyrir mig vegna nammibindindis sem ég er í) og rann hann vel ofan í krakkana yfir leiknum.


Laugavegshlaupið

Laugardagur 12. júlí 2014

Í dag gekk ég síðasta áfangan í fjögurra daga Laugavegsgöngu minni. Leiðin lá úr skálanum í Emstrum yfir í Langadal í Þórsmörk. Skemmtilegt krydd í fallega göngu dagsins var Laugavegshlaupið, þar sem um 350 ofur-hlauparar hlupu hinn 55 km langa Laugaveg, á nokkrum klukkutímum.

Veðrið í dag var mjög fínt. Upp úr hádeginu kom fyrsti hlauparinn brunandi fram úr okkur en þá átti hann tæpa 10 km eftir. Það liðu svo alveg 40 min þar til næsti hlaupari kom, en eftir það komu þeir hver á fætur öðrum þar sem eftir var ferðarinnar. Það kom svo í ljós að þessi fyrsti, Norðfirðingurinn Þorbergur Jónsson, bætti heimsmetið í Laugavegshlaupi og kom í mark á tímanum 4 klst og 7 min. Það er hreint ótrúlegur tími fyrir þá sem þekkja þessa leið - en flott hjá honum enda þekkjum við vel til fjölskyldu hans svo þar á bæ geta allir verið stoltir af pilti!

Okkar hópur kom svo í Langadal í Þórsmörk seinni partinn. Eftir góða sturtu skelltum við upp grillveislu þar sem við grilluðum lambalæri með öllu tilheyrandi ofan í hópinn okkar og síðan tók við hátíðarkvöldvaka áður en allir sofnuðu þreyttir og sælir eftir flottan dag.

laugavegshlaup 

Mynd dagins er tekin í Laugavegsgöngu dagsins. Þarna er ég staddur nálgæt Bjórgili og smellti mynd af einum ofur-hlauparanum sem kom brunandi fram úr okkur. Laugavegshlaupið var mjög skemmtilegt krydd í gönguáfanga dagsins hjá okkur sem lauk svo í Þórsmörk. Frábær dagur og frábært kvöld í skemmtilegum hópi Cool 


Óveður í Álftavatni!

Föstudagurinn 11. júlí 2014

Þessa dagana er ég að ganga hina vinsælu gönguleið Laugaveginn. Dagurinn í dag hófst á mjög eftirminnilegan hátt því seinni partinn í gær fór að rigna og hvessa all hressilega. Upp úr kl 22 í gærkvöldi skall á óveður og það átti aldeilis eftir að raksa ró okkar.

Við áttum pantaða gistingu í stóra skálanum í Álftavatni og héldum okkar fínu kvöldvöku í friði og ró í gærkvöldi, amk framan af. Kvöldvakan varð þó heldur endansleppt því eftir því sem á leið á kvöldið byrjuðu hraktir tjaldbúar úr nágrenninu að streyma inn í Skálann. Um kl 23 vorum við hressustu í hópnum komnir út í björgunarstörf enda voru þá tjöld byrjuð að rifna út um allar trissur og búnaður og dót úr tjöldunum farið að fjúka í allar áttir. Sjálfsagt voru hátt í 100 manns sem ætluðu að gista í tjöldum þarna þessa nótt en um kl 23 var tekin ákvörðun að allir tjaldbúar skyldu fluttir inn í skála. Þar komu þeir í misjöfnu ástandi, hraktir og blautir og með rifin tjöld og brotnar tjaldsúlur.

Allt gekk þó vel og engum varð meint af. Um miðnættið var hins vegar orðið ljóst að inn í skálanum voru allt of margir og ástandið farið að minna á sardínudós. Öll rúm voru upppöntuð og aðrir stóðu á miðju gólfi. Það var því gripið til þess ráð að fá rútu sem var á staðnum til að flytja 50-60 mest hrökktustu ferðalanganna í burtu af svæðinu og fengu þeir inni í félagsheimili í fljótshlíðinni. Þrátt fyrir þetta sváfu um 20-30 manns í flatsæng um allan skála (fyrir utan þá sem í rúmum voru) og sváfu margir þeirra sjálfsagt ekki vel. Flestir tjaldbúanna voru útlendingar sem voru hálf-skelkaðir yfir þessu íslenska sumarveðri.

Fljótlega eftir að við vöknuðum varð veðrið orðið ágætt og ferð dagsins yfir í skálan í Emstrum gekk vel, þrátt fyrir smá rok sem við fengum aðallaga í bakið. Eftir kvöldmatinn þar fór hópurinn í skemmtilega kvöldgöngu í Markarfljótsglúfur áður en slegið var upp kvöldvöku og söng að hætti hússins. Hér sváfu held ég allir mun betur en nóttina áður í Álftavatni.

Óveður álftavatn 

Mynd dagsins er tekin í nótt í skálanum í Álftavatni. Þarna eru hraktir tjaldbúar af svæðinu komnir inn eftir að óverður hafði rifið mörg tjöld, brotið tjaldsúlur og gert ýmsan óskunda. Held þó að engum hafi orðið meint af þó sumir hafi lítð sofið um nóttina og þröngt hafi verið á þingi Smile


Litadýrð Laugavegarins

Fimmtudagur 10. júlí 2014

Í dag er annar dagurinn í fjögurra daga Laugavegsgöngu. Ég er fararstjóri í 16 manna hópi á vegum Ferðafélags Íslands. Eftir góðan nætursvefn í Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri var mál fyrir næsta áfanga. Frá því deginum áður hafði legið þykk þoka yfir svæðinu en upp úr kl 11 fór sólin að skína í gegn og um hádegi skein hún skært.

Þetta góða veður gerði það að verkum að við ákváðum að skipta hópnum í tvennt á göngu okkar yfir í næsta skála sem er við Álftavatn. Helmingur hópsins lagði á sig auka gönguferð í tæpa tvo klukkutíma til að ganga á hæsta tindinn á stóru svæði þarna í kring sem ber nafnið Háskerðingur (1.278 m) og liggur inn í Kaldaklofsjökli. Gangan er ekki löng frá hefðbundinni leið Laugavegsins en nokkuð brött. Þar sem sólin skein í heiði fengum við frábært útsýni af toppnum í allar áttir - alveg stórmagnað. Við vorum svo rétt kominn inn í næsta gististað okkar, skálann við Álftavatn, þegar byrjaði að rigna og hvessa hressilega. Allir voru þó ánægðir með daginn og flestir náðu sér í smá lit.

Laugavegur - litadýrð 

Mynd dagsins er tekin í Laugavegsgöngunni í dag þar sem við vorum að fara milli Hrafntinuskers og Álftavatns og fengum þetta glæsilega veður. Myndin sýnir vonandi hluta að litadýrðinni sem göngumenn upplifa á leiðinni ef verður er sæmilegt - hrikalega flottur dagur! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband