30.7.2014 | 13:31
Ísinn á Erpsstöðum!
Þriðjudagur 29. júlí 2014
Í dag erum við fjölskyldan á heimleið eftir að hafa verið síðustu daga í heimsókn í Dölunum, í góðu yfirlæti. Við skoðuðum ýmislegt á leiðinni og meðal annars var stoppað á búinu Erpsstöðum í Dölum. Erpstaðir, hafa á síðustu árum getið sér gott orð fyrir ísgerð.
Það var því ekki annað hægt en að koma við og fá aðeins að smakka. Svandís Erla fékk sér vaniluís en Magnús Árni með piparmyntu meðan við foreldranir nörtuðum í osta. Gaman að koma þarna.
Mynd dagins er tekin á býlinu Erpsstöðum í Dalasýslu. Þarna er mikil ísgerð og hægt að stoppa til að smakka á framleiðslunni, skoða dýrin og ýmsilegt fleira.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2014 | 13:26
Sjósund í kvöldsólinni!
Mánudagurinn 28. júlí 2014
Rétt eins og í gær, erum við fjölskyldan stödd við Hvammsfjörð í Dalasýslu, þar sem við erum í heimsókn hjá Jóhönnu og Elvari, vinafólki okkar.
Dagurinn í dag var alveg frábær og ýmislegt brallað. Eftir góðan bíltúr og flotta gönguferð um svæðið, var undir kvöld heilum hellingi af kjöti skellt á grillið. Svo var smávægileg brenna sett í gang. Þar sem kvöldsólin var falleg og landið skartaði sínu fegursta, var ákveðið að krakkarnir fengju að sigla aðeins og busla í sjónum. Sjórinn var alveg merkilega heitur (eða öllu heldur lítið kaldur) svo þetta var bara gaman. Nokkuð er af sel á svæðinu og einn þeirra hafði sérstakan áhuga á tilþrifum okkar mannanna. Eftir að ég hafði tekið nokkur sundtök var haft á orði að hægt væri að sjá bæði hval og sel á sama tíma, hvað sem það á nú að þýða
Mynd dagsins er tekin nú í kvöldsólinni þar sem horft er yfir Hvammsfjörð og Breiðafjörð. Sumir stóðust ekki mátið og skelltu sér í siglingu á gúmíbátum en aðrir syntu í Hvammsfirðinum. Magnús Árni, Ástmar og Heiðmar voru einstaklega duglegir við sundið en á myndinni sjáumst við Magnús Árni ásamt Heiðmari sem er á sundi í björgunarvestinu fremst á myndinni. Eins og geta má, að var mjög gaman í kvöld og til gamans kemur ein aukamynd af strákunum að leika sér við varðeld kvöldsins enda kvöldið rosalega fallegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2014 | 13:13
Krækiberin komin!
Sunnudagurinn 27. júlí 2014
Í dag er við fjölskyldan komin í Dalasýsluna. Þar erum við, nánar frá sagt, stödd á Harastöðum við Hvammsfjörð þar sem við erum að heimsækja Elvar og Jóhönnu vinafólk okkar.
Harastaðir, er staðsettir á Fellströnd með glæsilegt útsýni yfir Breiðafjörðinn. Tíðin hefur verið mjög góð og veðrið fínt í sumar. Þarna er nú allt krökkt af krækiberjum og því var vel við hæfi að farið væri í smá berjamó.
Mynd dagins er tekin eftir berjaferð dagsins við Hvammsfjörð í Dölum, þar sem við erum í heimsókn hjá Jóhönnu og Elvari vinafólki okkar. Þarna eru Magnús Árni og Svandís Erla, ásamt bræðrunum Ástmari og Heiðmari, öll heldur betur kampakát með afrakstur af krækiberjatýnslu dagsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2014 | 09:47
Að hitta goðin sín!
Laugardagurinn 26. júlí 2014
Í dag var kærkominn sólardagur hér á Suðvestur-horninu og af því tilefni ákváðum við fjölskyldan að verja deginum í húsdýragarðinum. Fyrir utan hefðbundna húsdýraskoðun og leiktækjaprófun, var ekki verra að Skoppa og Skrítla voru mættar í garðinn þar sem þær héldu upp á 10 ára afmæli sitt með glæsilegri afmælissýningu, þar sem meðal annars Elisabet Tinna, vinkona okkar, var að dansa.
Skoppa og Skrítla er annars góðkunningjar á heimilinu. Þær stöllur eru í miklu uppáhaldi hjá Svandísi Erlu sem velur oftar en ekki að fá að horfa á þær þegar sjónvarps-/tölvuhorf er í boði, enda nokkrar mismunandi þáttaraðir með þeim til hér á heimilinu.
Eins ótrúlega og það kann að hljóma, virtist það koma starfsfólki húsdýragarðsins í opna skjöldu að fólk myndi fjölmenna í garðinn vegna afmælissýningarinnar og góða veðursins. Við mættum tímanlega og þurftum bara að bíða í 15 miní röð til að komast inn í garðinn en á meðan streymdi fólk að svo sýningu Skoppu og Skrítlu var frestað um 45 min meðan greitt var úr stíflunni. Þetta kom þó ekki að sök þar sem við áttum góða stund í sólinni á meðan.
Afmælissýningin var flott og skemmtileg þó Svandís hafi verið smá stund að átta sig á að Skoppa og Skrítla hafi verið mættar þarna í eigin persónu, en ekki bara sýndar á tjaldi. Eftir sýninguna gat Svandís svo hitt átrúnaðargoðin sín og það var nú ekki leiðinlegt - frekar en að prófa leiktækin og kíkja á dýrin.
Mynd dagsins er tekin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag þar sem Svandís Erla hitti þær Skoppu og Skrítlu sem eru í miklu uppáhaldi hjá henni. Það var mjög gaman í garðinum í dag því fyrir utan glæsilegt veður fór fram skemmtileg afmælissýning hjá Skoppu, Skrítlu og vinum þeirra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2014 | 19:28
Góða gesti ber að garði!
Föstudagur 25. júlí 2014.
Í kvöld vorum við með góða gesti í heimsókn en það er vinafólk okkar frá Akureyri, Gulli og Stína. Við áttum flott kvöld saman þar sem var grillað, borðað, spjallað og hlegið.
Mynd dagsins er tekin nú í kvöld þegar Gulli og Stína, vinafólk okkar frá Akureyri, kíktu í heimsókn og áttu með okkur flotta og notarlega kvöldstund!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2014 | 19:24
Þegar aparnir tóku völdin!
Fimmtudagur 24. júlí 2014
Í gær, dag og næstu daga er Kristinn Þór frændi (systursonur Ingu) í heimsókn hjá okkur. Það er því nóg að gera á heimilinu. Eitt af því sem átti eftir að gera síðan í síðustu heimsókn Kristins til okkar (fórst fyrir síðast) var að fara í bíó. Fyrir valinu var myndin Apaplánetan sem ég, Magnús og Kristinn fórum að sjá í dag.
Ein af mínum fyrstu minningum um bíó er gömul mynd sem bar þetta nafn, Apaplánetan, þar sem gamla stórstjarnan Charlton Heston fór með aðalhlutverkið. Myndin, sem er frá 1968, segir frá geimförum sem lenda geimskipi sínu á ónefndri plánetu þar sem talandi apar er sú lífvera sem stýrir öllu en fólk er haft sem þrælar og vinnudýr hjá þeim. Í lok myndarinnar kemur svo í ljós að þetta er jörðin sjálf sem hafði breyst svona meðan þeir voru út í geimnum. Þessari mynd fylgdu svo 3-4 framhaldsmyndir og einhverjir sjónvarpsþættir, sem ég sá svo sem aldrei. En þessi fyrsta Apaplánetumynd situr vel í minningunni enda líklega fyrsta myndin sem ég sá ungur að árum, sem er ekki beinlínis ætluð ungum börnum. Reyndar voru gerðar nútímaútgáfur af Apaplánetumyndunum 2001 og 2011 en þær hef ég ekki séð.
Mér fannst því bara gaman að fara með frændunum Magnúsi og Kristni í bíó í dag og rifja upp gömul kynni af veröldinni undir stjórn apa. Í þessari mynd er forsagan reyndar aðeins önnur og snýst um að mannkynið nær nánast að útrýma sér þegar mjög bannvænn veirusjúkdómur kemst óvart út í umhverfið. Um leið sleppa apar (og fleiri dýr) út af rannsóknastofum. Aparnir ná að búa sér til samfélag en lenda í ýmsum ævintýrum þegar í ljós kemur að einhverjir menn hafa lifað af og eru að reyna að byggja samfélagið upp á nýtt.
Mynd dagsins sýnir frændurna Magnús Árna og Kristinn Þór þar sem þeir bregða á leik eftir bíósýningu dagsins þar sem við fórum saman og sáum Apaplánetuna. Verð nú bara að játa að þessi mynd kom bara skemmtilega á óvart og var bara hin ágætasta skemmtun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2014 | 17:29
Hellarnir í Þórsmörk!
Miðvikudagur 23. júlí 2014
Í dag er heimferðardagur úr Þórsmörk eftir 4 daga gönguferð gönguhópsins Hvatbera um Laugaveginn. Eftir gönguna síðustu daga og veislu gærkvöldsins voru göngumenn mishressir í morgunsárið.
Flestir skelltu sér þó í hressilega morgungöngu sem gekk út á hellaskoðun. Á leiðinni milli Langadals og Húsadals í Þórsmörk eru nefnilega nokkrir skemmtilegir hellar eins og flestir vita sem farið hafa um þetta svæðið. Þekktastir eru án efa hellirinn Skuggi sem allir geta gengið inn í og stendur hann rétt við göngustíginn á miðri leið. Annar áhugaverður er hellirinn Snorraríki sem er þó mun flóknari til inngöngu. Opið í Snorraríki er í um tæplega 5 metra hæð og þarf að klífa nánast sléttan klettavegg til að komast þangað. Þó er búið að sverfa í klettinn nokkur "tök" svo liprir klifrarar sem ekki eru lofthræddir geta kíkt í hellinn. Sagan segir að þarna hafi klifið fyrstur sauðaþjófur að nafni Snorri sem hafi farið þarna upp á fllótta undan bændum. Þarna er auðvelt að verjast og að lokum tókst Snorra að halda lífi með því bíða í hellinum og leika á bændurna. Það verður að segjast eins og er að það eru komin mörg ár (og kíló) síðan ég gat klifrað þarna upp síðast en fulltrúar beggja kynja úr hópnum fóru þó í heimsókn í hellinn í dag.
Skemmtilegasti hellirinn á svæðinu er þó án efa Sönghellir sem er í um 10 min göngufjarlægð frá Húsadal, undir klettinum Össu. Þar geta allir sæmilega á sig komnir klöngrast upp í skemmtilegan og stóran helli sem hefur mjög góðan hljómburð. Það er því til siðs að taka lagið inn í hellinum sem er mjög gaman og var það einmitt gert í dag og jafnvel sungið í röddum. Oftar en ekki hefur Ingimar tengdapabbi tekið nikkuna með sér í hellinn, á ferðum okkar gegnum árin. Í miðjum hellinum er svo yfirleitt lítill foss sem minnir á sturtu og oft eiga göngumenn það til að fara þar í nátturulega sturtu (í eða án klæða) og voru nokkrir sem nýttu sér það (allir samt í fötum í þetta skiptið).
Efti sönghellinn var svo skemmtilegur hringur kláraður með því að ganga á topp Valahnjúks og þegar komið var til baka í Skagfjörðsskála í Langadal var kominn tími til að halda heim eftir frábæra Laugavegsgöngu hjá vina-gönguhópi okkar - Hvatberum!
Mynd dagsins er úr hellaferð Hvatbera í Þórsmörk í dag. Þarna er Anna Bára vinkona okkar að vippa sér upp í hellinn Snorraríki sem er um miðja vegu á göngustígnum milli Langadals og Húsadals í Þórsmörk. Það er ekki á allra færi að klífa í hellinn sem er í tæplega 5 metra hæð en bæði kynin sendu nú fulltrúa sína þarna upp í dag
Aukamyndir dagsins eru svo af Magnúsi Árna að vakna síðasta morgun Hvatberaferðarinnar 2014 en þarna er hann nokkuð glaður enda hlaðinn verðlaunum eftir lokakvöldvöku Hvatbera í gær, þar sem hann var meðal annars í sigurliðinu í spurningakeppninni og fleira. Hin myndin er svo tekin í Sönghelli þar sem Ásta vinkona okkar var ein af þeim sem prófaði náttúrulega sturtu sem þar er að finna, en þetta er eftir að Hvatberakórinn hafði haldið stutta tónleika í Sönghelli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2014 | 16:56
Loksins kom sólin!
Þriðjudagur 22. júlí 2014
Í dag er fjórði og síðasti dagurinn í Laugavegsferð gönguhópsins Hvatbera 2014. Við Inga og Magnús Árni erum að ganga, ásamt tæplega 40 öðrum í vina-gönguhóp okkar, og nú er komið að síðasta göngudeginum. Það er leiðin úr Emstrum yfir í Þórsmörk (Langadal) þar sem við endum ferðina.
Eftir að hafa fengið misgott veður hina dagana er nú loksins komin sól á okkur. Alltaf gaman að enda svona ferðir í sól. Dagurinn var því bara tekin rólega og sólin sleikt. Þegar í Þórsmörk var komið fór öll hersingin í sturtu (reyndar ekki saman) og boðið var upp á veislukvöldverð þar sem í boði var grillað lambaprime, ásamt ný-uppteknum kartöflum úr Þykkvabænum og öllu öðru tilheyrandi. Ekki skal gleymt að minnast á grilluðu súkkulaðikökuna sem var í desert en eftir að Hvatberabera höfðu gert þessu góð skil hófst alvöru-kvöldvaka að hætti Hvatbera með söng, leikjum og ræðum sem lauk þó formlega á slaginu miðnætti, þó ekki hafi allir farið að sofa strax.
Mynd dagsins er tekin i einn af kaffipásunum í sólinni í dag. Þarna erum við Inga ásamt Ingimar tengdapabba og Magnúsi Árna að sleikja sólina á leiðinni milli Emstra og Þórsmerkur.
Aukamyndir dagsins eru aðeins til að fanga andrúmsloft ferðarinnar betur og að þessu sinni tengjast þær tveimur ám á leiðinni. Sú fyrir sýnir okkur að klögrast yfir gilið sem liggur yfir Fremri-Emstru-ánna en þarna er djúpt og þröngt gil með lítill göngubrú yfir, sem gaman er að fara. Hin myndin sýnir okkur í lok dagsins en þá þarf að vaða ánna Þröngá áður en gengið er inn í Langadal þar sem við gistum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2014 | 16:45
Mögnuð Markarfljótsgljúfur!
Mánudagurinn 21. júlí 2014
Í dag er þriðji dagurinn í Laugavegsgöngu Hvatbera. Gengin verður leiðin milli Álftavatns og yfir í Emstrur (Botna). Eftir þokuverður meirihluta dagsins í gær var veðrið töluvert betra í dag og gekk þetta allt saman mjög vel.
Inga tók sig reyndar til og hvíldi gönguskóna í dag. Í stað þess reimaði hún á sig hlaupaskóna og skokkaði gönguleið dagsins á tæpum tveimur tímum. Þó aðallega hafi þetta verið gert henni til gamans var þetta ákaflega praktískt fyrir hópinn því þá hafði Inga góðan tíma til undirbúa kvöldverðin sem var kjötsúpa samkvæmt leynilegri uppskrift Kvenfélags Héðinsfjarðar og tekur marga klukkutíma að skera grænmeti, kjöt og annað gúmmulaði sem fer í þessa kraftmiklu kjösúpu fyrir 40 manns.
Eftir flottan göngudag fór flestir Hvatberarnir í góða aukaferð meðfram barmi Markarfljótsgljúfurs sem er hvað dýpst rétt við skálan í Emstrum (Botnar) þar sem við gistum. Markarfljótsglúfrin eru alveg mögnuð og segja margir að skoðun á þeim sé það flottasta við Laugaveginn (af mörgu fallegu). Gljúfrin eru með dýpstu gljúfrum á Íslandi, um 180 metrar þar sem þau eru dýpst.
Um kvöldið var svo Hvatberum boðið upp á ljómandi ljúffenga kjötsúpu og ostatertur með miklum rjóma, áður en kvöldvaka tók við. Flestir voru þó sofnaðir um miðnætti eftir langan en skemmtilega dag.
Mynd dagsins er tekin við Álftavatn áður en lagt var í göngu dagsins en þarna er að finna hópmynd af göngugörpum i Hvatberaferðinni 2014.
Aukamyndir dagsins koma úr Markarfljótsglúfrum sem eru hreint alveg mögnuð upplifnum og síðan kemur ein mynd af yngstu göngugörpum ferðarinnar, þeim Magnúsi Árna (11 ára) og Degi Inga (7 ára) sem fóru bara létt með að klára þessa ferð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2014 | 16:30
Klámbrekkur!
Sunnudagurinn 20. júlí 2014
Í dag erum við Inga og Magnús Árni á öðrum degi í Hvatberaferðinni 2014 sem er þetta árið ganga um Laugaveginn fræga. Fyrri hluta dagsins gengum við í þykkri þoku þannig að því miður sáu göngugarparnir tæplega 40, nær ekkert af glæsilegu umhverfi Hrafntinnuskers þar sem fyrri hluti dagsins fór fram.
Leið dagsins liggur að Álftavatni þar sem skálinn fyrir nóttina bíður okkar. Þegar við nálguðumst tók þokunni að létta og við fengum flottan seinni part og fallegt kvöld við vatnið.
Nokkur okkar fóru í aukaferð og gengum við á svokallaðan Brattháls sem er sunnan-megin við Álftavatnið sjálft. Fyrir utan frábært útsýni og flott landslag á hálsinum sjálfum er þar að finna eitt af skemmtilegri örnefnum okkar Íslendinga: Klámbrekkur. Ég verð að hryggja fólk með því að þessar brekkur eru ekki staður þar sem göngumenn fara saman að skoða (eða iðka) klám né heldur að smalamenn til forna af þarna svalað girndum sínum. Opinbera skýringin er sú að hér áður fyrr þýddi orðið "klám" eitthvað mjög gróft, hrjóstrugt eða hrikalegt yfirferðar og umræddar brekkur eru nánast ófærar með öllu. Svæðið er hins vegar mjög glæsilegt. Þarna hafa vindurinn og tíminn sorfið ýmsar kynjaverur, andlit og hella í bergið, þannig að margir vilja meina að þarna sé maður kominn í undraveröld sem minnir á landslag í Hringadróttinssögu. Útsýnið þarna uppi er líka glæsilegt til allra átta og má þarna á einum punkti sjá stóran hluta Laugavegarins.
Mynd dagsins er tekin af okkur Ingu efst í Klámbrekkum eða Bratthálsi, við Álftavatn þar sem við gistum annað kvöld Hvatberaferðarinnar 2014. Eftir mikla þoku fyrri hluta dags fengum við frábært verður við vatnið.
Aukamyndir dagsins eru þrjár. Sú fyrsta er af Ingu á toppi Brattháls og í baksýn er Álftavatn (skálinn sést efst við vatnið til hægri) og þar fyrir aftan eru Kaldaklofsfjöllin þar sem göngumenn koma niður frá Hrafntinnuskeri. Í veislu kvöldsins voru í aðalrétt nauta-ribeye borgarar með ýmsu tilheyrarndi og á annari myndinni má sjá okkur Ingu að hesthúsa þá. Síðasta myndin sýnir svo jóga-æfingar nokkura Hvatbera en í miklum fjallgöngum er nauðsynlegt að liðka sig og rækta innri huga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)