Loksins komið trampólín!

Sunnudagur 29. júní 2014

Rétt eins og í gær, var blíðviðrisdagurinn í dag notaður í ýmis útiverk (ásamt því að horfa á HM). Það er nóg að verkefnum í boði fyrir alla. Eitt af því sem setið hefur á hakanum í allt vor og sumar er að setja upp trampólín fjölskyldunnar sem er mjög vinsælt leiktæki hjá öllum í fjölskyldunni. Bæði Svandís og Magnús hafa verið að ýta á eftir að fá þetta í lag en einhverra hluta vegna ekki gefist tími í það.

Systkinin fór því sjálf á stúfanna í dag og settu upp trampólínið (nokkurn veginn í sameiningu) þannig að undir kvöld voru allir orðnir hoppandi af gleði.

Trampólín

Mynd dagins er frá útiverkum dagsins þar sem Ágúst tóks sig til, með aðstoð systkina sinna og dreif í að setja upp trampólín fjölskyldunnar, öllum til mikillar gleði Smile 


Grillandi gaman

Laugardagurinn 28. júní 2014

Þar sem veðurspá fyrir helgina er óvenjugóð (miðað við rigningadagana undanfarið) var ákveðið að fjölskyldan yrði heima um helgina við að mála, dytta að og fleira, en hér á heimilinu bíða ansi mörg verkefni úrlausnar.

Við áttum flottan dag þar sem ýmis mál komust áfram. Þar sem við vorum því öll orðin glorhungruð um kvöldið var ákveðið að skella í smá grillveislu. Í heimsókn komu feðgarnir Halli, Margreir og Jón Árni og var hraustlega tekið á því í áti (og aðeins í drykk) þannig að úr var ljómandi skemmtileg kvöldstund í fallegu sumarkvöldinu.

IMG_1010

Mynd dagsins er tekin í grillveislu kvöldsins þar sem feðgarnir Halli, Margeir og Jón Árni kíktu í heimsókn og áttu með okkur ljómandi fína kvöldstund Cool


Hinn íslenski Krókódíla-Dundee

Föstudagurinn 27. júní 2014

Það er alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk og sérstaklega finnst mér gaman að hitta fólk sem er óhrætt við að fara ótroðnar slóðir í lífinu. Í dag hitti ég hóp af fólki sem ég hef ekki mikið hitt af áður. Af mörgum áhugaverðum í þeim hópi langar mig nú samt að geta hjónanna Árna og Völu.

Þau hjónin hafa sannarlega farið ótroðnar slóðir í lífinu. Flestir sem stunda veiðar hér á landi hafa heyrt talað um Árna Baldursson, sem af sumum er kallaður hinn íslenski Krókódíla-Dundee. Þau hjónin hafa um árabil gefið sig á hönd veiðiástríðu sinni og sameinað áhugamál og vinnu. Þau hafa um árabil rekið veiðifyrirtæki sem bíður upp á veiðar á ýmsum dýratengundum víðsvegar um heiminn. Laxveiðar hér á Íslandi eru kjarninn í starfseminni en síðan eru nánanst óendanlegir möguleikar í veiðiskap í boði í ýmsum heimsálfum. Sjálf fara þau einnig í ævintýralega veiðiferðir þar sem hlébarðar, gíraffar, fílar, antílópur, sauðnaut og fjöldi dýratengunda sem hafa ekki íslensk nöfn, hafa orðið á vegi þeirra.

Það var hreint ævintýri að fá að koma inn á heimili þeirra þar sem er að finna marga tugi uppstoppaðra dýra, hauskúpur og fleira tengt veiðiferðum þeirra hjóna. Þetta er sjálfsagt með stærstu náttúrugripasöfnum landsins. Ástríðan fyrir þessum ævintýrum er líka mikil því veiðisögurnar koma á færibandi frá þeim, hver annari skemmtilegri.

Eins og áður segir finnst mér allt mjög gaman að hitta fólk sem hefur hugrekki til að fara ótroðnar slóðir, láta ástríðuna teyma sig áfram í lífinu og láta slag standa til að fylgja draumum sínum. Það þarf oft mikið hugrekki til að gera svona, ábyggilega þykkan skráp líka því gagnrýni og úrtöluraddir eru sjálfsagt margar. Hins vegar er ég fylgjandi því að maður á að lifa sínu eins og mann langar helst til (auðvitað innan skynsamlegra marka) en ekki eins og maður heldur að aðri vilji að maður sé. Og það er alveg ótrúlega oft hægt að láta drauma sína rætast ef maður trúir því bara nógu mikið og vill það nógu mikið.

krókadíladundee

Mynd dagsins er fengin að láni af vef mbl.is og sýnir Árna, hinn íslenska Krókudíla-Dundee, við veiðar. Hreint magnað að hitta hann og Völu konu hans og kynnast þeim heimi sem ástríða þeirra fyrir veiðiskap af ýmsu tagi hefur náð að skapa.


Útsala!

Fimmtudagurinn 26. júní 2014

Ég er nú ekki mjög hrifinn af því að fara í verslunarleiðangra og reyni að forðast það eins og ég get. En auðvitað verður maður stundum að láta sig hafa það og velja á sig föt og annað sem maður þarfnast. Þetta geri ég yfirleitt ekki mikið oftar en tvisvar á ári og fer þá yfirleitt á stúfana þegar útsölur eru í gangi enda oft hægt að gera mjög góð kaup.

Í dag voru að hefjast bæði útsölur í Smáralind og Kringlunnni og því fórum við Inga með Svandísi litlu í verslunarleiðangur nú seinni partinn þar sem síðarnefnda verslunarmiðstöðin varð fyrir valinu. Þetta er nú svo sem allt í lagi í nokkurn tíma en svo brestur mig þolinmæði. Náði þó að versla einhverjar flíkur á mig. Mestur tíminn fór þó að leika við Svandísi víðsvegar um Kringluna meðan Inga fór íbúðir og mátaði (og verslaði) og þannig áttum við feðgini saman hina bestu stund.

útsala 

Mynd dagsins er af Svandís Erlu í verslunarferð fjölskyldunnar í Kringlunni, seinni partinn í dag. Við náðum að gera fín kaup og auk þess áttum við Svandís hinar fínustu stundir í Kringlunni að prófa ýmis leiktæki sem þar er að finna og máta hina mislitu sófa sem þar eru í boði fyrir þreytta gesti.

 


Í hringiðu sex daga stríðsins

Miðvikudagur 25. júní 2014

Í dag hitt ég merkilegan hóp en þar voru að koma saman nokkrir Íslendingar sem lentu í hringiðu sex daga stríðsins í júní árið 1967, þar á meðal foreldrar mínir.

Sex daga stríðið var stríð milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Stríðið stóð yfir dagana 5.-10. júní árið 1967 eða fyrir 47 árum. Um þetta leiti fór um 20 manna hópur frá Íslandi saman í mikla ævintýraferð til Grikklands, Líbanon, Eygptalands og Jórdaníu. Hópurinn var einmitt staddur í Jórdaníu, í lokaáfanga ferðarinnar, þegar stríðið hófst. Þau voru þá að skoða Jerúsalem, en Austur-Jerúsalem tilheyrði þá Jórdaníu. Eftir að stríðið braust út var talið ráðlegt að koma hópnum úr landi sem allra fyrst. Hópurinn var fluttur í rútu ásamt hópi annara borgara vestrænna þjóða til flugvallarins í Amman, höfuðborgar Jórdaníu, þar sem þau áttu að fljúga burt. Rétt fyrir komuna á flugvöllinn (líklega 10-15 min aksturfjarlægð) birtust allt í einu ísraelskar herþotur yfir höfðum þeirra og vörpuðu sprengjum á flugvöllinn þannig að allar flugbrautir eyðilögðust. Okkar fólk fór í skjól á meðan undir nálægu klettabelti. Það var því lítið flogið þann daginn en rútan keyrði í loftköstum til Amman þar sem þau voru lokuð inn á hóteli og máttu ekkert hreyfa sig. Hópurinn þurfti að vera stöðugt viðbúinn að yfirgefa hótelið í skyndi.  Eftir bið í 6 daga komu nokkrar amerískar Herkúlesflutningavélar á vegum Sameinuðu þjóðanna og amreríska Rauða krossins, sérstaka ferð til Amman til að sækja vestræna ríkisborgara og flugu með hópinn til Teheran í Íran sem var þá öruggasti staðurinn í Araþarlöndum (ólíkt því sem það er í dag). Þar tók Bandaríska sendiráðið á móti hópnum og bauð í hamborgaraveislu áður en fólk komst síðan áfram til síns heima, en okkar fólk komst frá Teheran eftir bið í tvo daga og flaug þá til London.

Endalok þessa stutta stríðs voru þau að Ísraelsmenn náðu yfirráðum yfir Sínaí-skaga, Gasasvæðinu, Vesturbakka Jórdanár, Austur-Jerúsalem og Gólanhæðum en þarna hefur síðan verið mikill órói allar götur síðan eins og flestir þekkja. Talið er að yfir tuttugu þúsund manns hafi látið lífið í stríðinu og mun fleiri særst, flestir úr liðum Arabalandanna.

Hópurinn sem hittist í dag minntist þessarar ævintýraferðar og skoðaði myndir. Eðlilega eru nokkrir ferðalanganna fallnir frá og einhverjir komust ekki, en mjög gaman og fróðlegt var að hitta þetta fólk og heyra sögu þeirra.

T04 

Mynd dagsins er ekki tekin í dag heldur fengin að láni úr myndasýningu dagsins. Þarna er nokkrir úr íslenska hópnum á flugvellinum í Teheran að koma út úr amerískri Herkúles-herflutningavél sem flutti hópinn (ásamt fleirum) frá flugvellinum í Amman, höfuðborg Jórdaníu. Pabbi tók þessa mynd og er mamma auðvitað í forgrunni. Það var ánægjulegt að hitta suma ferðalangana í dag þegar hópurinn kom saman og rifjaði upp þessa miklu ævintýraferð.


Frumburðurinn fulltíða!

Þriðjudagurinn 24. júní 2014

Í dag á frumburðurinn á heimilinu, Ágúst Logi, 18 ára afmæli.

Sjálfsagt eins og flestum foreldrum finnst manni ótrúlegt að hann sé orðinn þetta gamall en tíminn líður greinilega hratt. Mér finnst ekkert mjög langt síðan hann fæddist og ég man það vel. Þennan dag (1996) var ég að vinna sem lyfjafræðinemi í Mosfellsapóteki, sem þá var til. Rétt fyrir lokun kom hringing frá Ingu sem þá var stödd á sjúkrahúsinu á Akranesi. Hún hafði skroppið í heimsókn til foreldra sinna á Hvanneyri og fór að skyndilega að fá verki. Mamma hennar brunaði með hana út á Akranes þar sem hún var kyrrsett. Ég tók auðvitað Hvalfjörðinn nokkuð snögglega (göngin ekki komin þarna) og náði að vera mættur í tæka tíð fyrir fæðinguna sem gekk vel og unginn var kominn í heiminn um korter fyrir níu um kvöldið. Ágúst Logi kom í heiminn tveimur vikum fyrir tímann og átti í raun bara að fæðast í rólegheitum á Landspítalanum. Á þessum tíma var ekki aðstaða fyrir feður að gista á spítalanum þannig að ég fór bara heim aftur um nóttina - man að ég kom við einhvers staðar og keypti mér pizzu sem ég borðaði upp til agna þarna um nóttina þegar heim var komið enda ekki látið neitt ofan í mig síðan í hádeginu.

Inga og Ágúst dvöldust svo á Akranesi í nokkra daga og komu heim á laugardegi - rétt þeim sama og forsetakosningar stóðu yfir á og Ólafur Ragnar var kjörinn í fyrsta skipti.

ágúst 18 ára 

Mynd dagins er af fjölskyldunni samankominni á 18 ára afmælisdegi frumburðarins, Ágústar Loga. Í tilefni dagsins var drengum boðið út að borða. Nú duga ekki lengur einhverjir hamborgarastaðir heldur valdi hann að fara á alvöru steikhús sem var látið eftir honum. Afmælisdrengurinn lét sig ekki muna um að sporðrenna 400 gr steik, kartöflum, meðlæti og ýmsu öðru. Gaman að fagna þessum afmælisdegi saman Smile


Nammibindindi - í tvo mánuði!

Mánudagur 23. júní 2014.

Í dag er nokkuð sögulegur dagur því að ég hef öðru hverju allan daginn verið að dæla í mig nammi. Ástæðan er sú að ég ætla nú að fara í tveggja mánaða sælgætisbindindi eða til 23. ágúst.

Þeir sem þekkja mig vel hafa ábyggilega mjög litla trú á að þetta takist þar sem ég hef örugglega lagt mikið að mörkum við að draga upp meðalneyslu landsmanna á sælgæti. Í þessu fellst að ég ætla ekki að drekka gos eða borða sælgæti (snakk innifalið) á bindindistímanum. Þetta mun gilda fram að Reykjavíkurmaraþoni (23. águst) þar sem ég ætla reyna komast hálft-maraþon og þarf ég aðeins að létta mig fyrir það svo mér gangi nú örugglega vel.

nammibann

Mynd dagsins er auðvtiað af gómsætri sælgætishillu en í dag borðaði ég síðasta nammið (vonandi) í tvo mánuði eða til 23. ágúst, þar sem ég ætla að vera í nammibindindi þetta tímabil. Púff - gangi mér vel Grin 


Ýmir og Ýma sigruð!

Sunnudagur 22. júní 2014

 

Rétt eins og í gær, eru við Inga í gönguferð í Tindfjöllum í dag. Við erum átta saman og verkefni dagsins er að ganga á hæstu tinda svæðisins - Ými og Ýmu. Í gær var blinda þoka mest allan tíman en um hádegi í dag var þokunni létt og sólin tók að skína skært.

Við vorum því í æðislegu veðri að ganga á Ými og Ýmu sem eru í Tindfjallajöklinum. Vel fært var upp á báða tindana og fínasta útsýni til allra átta - yfir hluta Fjallbaksleiðar og "Laugavegarins", Þórsmörk, Eyjafjallajökul og víðar. Þetta var reyndar langur dagur, því eftir að hafa sigrað Ými og Ýmu fórum við líka á tvo aðra tinda á svæðinu, þá Saxa og Haka. Um kvöldið kvöddum við Inga hópinn, sem ætlar að taka 2-3 tinda í viðbót á morgun, og brokkuðum niður í Fljótshlíð (Fljótsdal) þar sem bíllinn beið okkar. Við vorum því rúma 12 tíma á göngu í dag og komum seint heim en dagurinn var alveg æðislegur.

 Ýmir

Mynd dagsins er af okkur Ingu á tindi Ýmis, hæsta tindsins í Tindfjöllum (1462 m). Í baksýn er hinn tindurinn, Ýma (1448 m), sem einnig var sigruð. Frábær ferð í frábærum félagsskap enda lék veðrið við okkur í dag. Til gamans fylgir hér aukamynd sem ég tók af ferðafélögunum kampakátum sem þarna eru að koma niður af Ýmu.

Tindfjöll - lína 


Tjaldað í Tindfjöllum

Laugardagurinn 21. júní 2014

Þessa helgina verðum við Inga í Tindfjöllum.  Þar ætlum við að dvelja og ganga á helstu tinda á svæðinu en hápunktur ferðarinnar verður tilraun við tvo hæstu tinda tindfjalla - Ými og Ýmu. Við erum átta saman í hópi.

Tindfjöll eru fjallaröð með mörgum tindum og eru staðsett fyrir ofan Fljótshlíð, gróflega séð mitt á milli Heklu og Eyjafjallajökuls. Þar er líka lítill jökull, Tindfjallajökull.  Þetta er vinsælt svæði á veturna meðal vélsleðamanna og fyrir göngufólk er svæðið að verða vinsælla enda mjög skemmtilegt og mikið útsýni ef skyggni er gott.

Dagurinn í dag var hins vegar ekki góður þar sem mikil þoka var allan daginn. Við ætluðum að fara á fjóra tinda í dag en vegna veðursins urðu þeir bara tveir: Búri og Hornklofi. Þetta var samt ljómandi fínn dagur.

Tjaldað í tindfjöllum

Mynd dagsins er úr Tindfjöllum og sýnir Ingu við tjaldsvæðið okkar í grösugum dal við lygnan læk í sumarblíðu. Kannski ekki alveg en við fundum mjúkan sand til að tjalda í og fínan læk þar sem við sváfum vel enda fór mikil orka í að puða í þokunni í Tindfjöllum í dag.  


Magnús temur drekann!

Föstudagur 20. júní 2014

 

Fyrir nokkuð löngu var ég búinn að lofa Magnúsi Árna bíóferð. Það var ákveðið að uppfylla það loforð seinni partinn í dag þegar við fórum og sáum kvikmyndina "Að temja drekann sinn 2".

Eins og nafnið gefur til kynna er þetta framhaldsmynd af fyrri mynd með sama nafni. Myndin fjallar um unglinga sem búa í víkingaþorpi á eyju en þorpsbúum hefur tekist (sbr fyrri myndina) að temja dreka og nota þá sem mikilvæg gæludýr sem og þarfasta þjóninn. Það er líf og fjör í myndinni en við Magnús vorum nú sammála um að mynd nr 1 væri töluvert skemmtilegri. 

Dreki

Mynd dagsins er af Magnús Árna að fara í bíó núna seinni partinn. Kominn með popp og kók og stillti hann sér upp við auglýsingaspjald fyrir myndina "Að temja drekann sinn 2" sem við feðgar sáum í dag. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband