Síkátir sjóarar

Laugardagur 6. júni 2009

Vegna starfa minna fyrir Sjómannadagsráð (eiganda Hrafnistuheimilanna) fórum við Inga nú í kvöld á árlegt Sjómannadashóf. Hófið var að þessu sinni haldið á hótel Nordica Hilton. Þar var boðið upp á glæsilega þriggja rétta sjómannamáltíð. Veislustjórn var í höndum hins eina sanna Gísla Einarssonar fréttamanns, og Örn Árnason leikari og Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir sáu um skemmtiatriðin. Á eftir var dansleikur fram á nótt. Við Inga skemmtum okkur vel í góðum hóp en vorum þó komin snemma heim þar sem framundan er strembinn dagur.

 

IMG_0776

Mynd dagsins er frá Sjómannadagshófinu á hótel Nordica Hilton. Þarna voru sjómenn, makar og ýmsir snillingar. Þrátt fyrir að vita engin deili á þessum köppum valdi ég þessa mynd til að minna mig á að lífið á að vera skemmtilegt. Þessir síkátu sjóarar eru greinilega alveg með það á hreinu en þeir stilltu sér upp í myndatöku með höfðingjanum Bigga Björgvins og eiginkonu hans Grin


5 ára MBA-endurfundir

Föstudagur 5. júní 2009

Í dag eru nákvælega, upp á dag, 5 ár síðan ég útskrifaðist úr MBA námi í Háskóla Reykjavíkur. Ég var þar við nám 2002-2004 en námið miðaðist við að hægt væri að vinna samhliða. Við vorum 28 saman í bekk og var námið með sérstakri áherslu á mannauðsstjórnun. Þetta var rosalega fínn hópur og námið var mjög skemmtilegt þó það hafi tkið gríðarlegan tíma á meðan á því stóð. Í kvöld var ákveðið að halda upp á tímamótin. Ein úr hópnum, Bára Mjöll, bauð okkur heim til sín í Kópavoginn. Á grillið var skellt nautasteik, skötusel og kjúklingi og meðlætið var mjög við hæfi. Við áttum sman frábæra kvöldstund þar sem farið var yfir helstu fréttir af fólkinu, þjóðmálin voru krufin - og ekki síst rifjaðar upp ýmsar skrýtnar og skemmtilegar sögur úr skólanum.

 

IMG_0739

Mynd dagsins er úr MBA-endurfundaboðinu. Við tókum enga sérstaka hópmynd en til að minna mig á þetta skemmtilega boð valdi ég þessa fínu mynd af Ingu og skólasystrum mínum, þeim Hrönn og Sigrúnu Birnu. Í baksýn grillir í veisluborðið.


21 sinni Illgresi

Fimmtudagur 4. júní 2009

Síðustu tvær vikur hef ég tekið þátt í skemmtilegu verkefni í vinnunni. Það fólst í því að heimsækja heimilisfólk á öllum hjúkrunardeildum Hrafnistuheimilanna fjögurra. Með mér í för var Guðmundur Ólafsson leikari sem setti saman 20 mínútna dagskrá upp úr ljóðabókinni Illgresi sem er eftir Magnús Stefánsson sem reyndar notaði skáldanafnið Örn Arnarson. Magnús orti töluvert af þekktum ljóðum, sérstklega meðal eldri kynslóðarinnar. Í dag er "Hafið bláa, hafið" sjálfsagt hans þekktasta ljóð (ljóðið heitir reyndar "Sigling"). Við heimsóttum heimilisfólk á öllum deildum eða 21 heimsókn alls. Hugmyndin var að það myndi skapast heimilisleg stemming inn á hverri deild, ekki síst hjá þeim sem veikastir eru. Ég held að það hafi tekist vel og það var mjög gaman að eiga stund með heimilisfólkinu sem var mjög þakklát fyrir framtakið.

 

IMG_0724

Mynd dagsins er af Guðmundi Ólafssyni leikara að flytja efni úr Ljóðabókinni Illgresi á einni hjúkrunardeild Hrafnistuheimilanna. Mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni með Guðmundi sem gerði þetta gríðarlega vel. 


Borgari á Búllunni

Miðvikudagurinn 3. júní 2009

Í dag fórum við feðgarnir á Dalbrautina og heimsóttum langömmu (= ömmu mína) sem verður hvorki meira né minna en 100 ára síðar í þessum mánuði. Meira um hana síðar þegar stórafmælið verður. Eftir heimsóknina - og þar sem Inga var að vinna fram á kvöld - fórum við feðgar á einn skemmtilegasta veitingastað landsins, Hamborgarabúlluna niður við höfn. Þeir bræður voru að koma þarna í fyrsta skipti en ég hef komið þarna 3-4 sinnum áður gegnum tíðina. Við feðgarnir borðuðum allir "Tilboð aldarinnar" sem er hamborgari að hætti hússins með frönskum og kók - hrikalega gott stundumSmile Það er ótrúlega sérstakt að koma inn á þennan stað, sennilega minnsta veitingastað landsins (í fermetrum). Mjög sérstök stemming þarna inni og hún bara jókst þegar Magnús þurfti á klósettið, þá var okkur hleypt inn fyrir afgreiðsluborðið fram hjá eldsteikjandi kokkunum og inn í smáholu innst í húsinu. Innréttingarnar eru alveg snilld, andrúmsloftið kúl og maturinn fínn. Mæli með að fólk geri sér hreinlega menningarferð inn á þennan stað Smile

IMG_0721

Mynd dagsins er af Magnúsi og Ágústi á Hamborgarabúllunni að snæða "Tilboð aldarinnar". Mjög gaman að koma á þennan veitingastað sem óhætt er að kalla einn óvenjulegasta veitingastað landsins!


Lífspeki Dalai Lama

Þriðjudagur 2. júní 2009

Í dag fórum við Inga í Laugardalshöll að hlýða á fyrirlestur Dalai Lama, trúarleiðtogans frá Tíbet, sem staddur var hér á landi. Uppselt var á viðburðinn og líklegast um 3000-5000 manns. Held að það sé svo sem ekki ástæða til að rekja hér sorglega sögu um yfirgang Kínverja í Tíbet, útlegð Dalai Lama og friðsamlega baráttu hans fyrir þjóð sína. Fyrirlestur eða spjall Dalai Lama var mjög áhugavert og var í stuttu máli um að tileinka sér góðar venjur og atferli í leiðinni að lífshamingjunni. Sannarlega áhugaverður maður og ekki annað hægt en að heillast af lífsspeki þeirri sem maðurinn lifir eftir. Mjög áhugavert. 

laugardalsholl

Þar sem ekki var leyft að taka myndir inni í Laugardalshöll á fyrirlestri Dalai Lama, ákvað ég að velja mynd af röðinni fyrir utan Laugardalshöll sem mynd dagsins. Allt þetta fólk var að bíða eftir að komast inn. Röðin gekk nú bara ótrúlega vel en hún náði nánast út af hringtorginu við Ásmundarsafn þegar lengst var. Ein stærsta röð sem ég hef séð hér á landi en fyrir flesta, líklegast þess virði að bíða.


Gleðilega garðyrkju

Mánudagur 1. júní 2009

Stóran hluta dagsins í dag vorum við Inga að vinna í garðinum. Það þurfti að slá, arfinn byrjaður að spretta víða um héruð og ýmsilegt smálegt sem þarf að sinna. Ágúst fór að keppa seinni partinn og fórum við Magnús Árni að horfa. Þegar heim var komið voru grillaðir kjúklingaleggir sem runnu ofan í mannskapinn.

 

IMG_0717

Mynd dagsins er tekinn í garðinum þar sem sláttustörf standa yfir. Fínn dagur og allt stefnir í að nóg verði um gleðilegar garðyrkjustundir í sumar Cool


Afmælisveisla á Hvanneyri

Sunnudagur 31. maí 2009

Í dag fórum við fjölskyldan upp á Hvanneyri, nánar tiltekið í Fífusund. Þar búa tengdaforeldrarnir Anna og Ingimar en Anna á einmitt afmæli í dag. Okkur var boðið í þetta glæsilega afmælishlaðborð áður en fjölskyldan hélt í ævintýragönguferð kringum Vatnshamravatn sem er við Fífusund. Við vatnið er mikið fuglalíf og sáum við nokkrar tegundir af fuglum, fundum hreiður, sáum litla unga og einhverjir göngugarpanna festust í drullunni (sumir oftar en aðrir). Veðrið var glæsilegt og eftir góða útiveru héldu tengdó á hótel Hamar og fóru út að borða í tilefni dagsins, en við héldum heim á leið með viðkomu á Skaganum. Horfðum reyndar á fína íslenska bíómynd seint um kvöldið, Sveitabrúðkaup. Eiginlega einum of vitlaus en samt þrælfyndin mynd.

IMG_0672[1]

Mynd dagsins er frá afmælisveilsunni á Hvanneyri. Frá vinstri: Ingimar, Anna afmælisbarn, Ágúst Logi, Inga og Magnús Árni.


Tölt að Tröllafossi

Laugardagurinn 30. maí 2009

Við fjölskyldan höfðum "letidag" fyrri hluta dagsins í dag. Hriklega þægilegt stundum og við fórum ekki úr náttfötunum fyrr en eftir hádegi þegar ákveðið var að við myndum skella okkur í gönguferð inn í Mosfellsdal. Nánar tiltekið tókum við okkur til og gengum upp með mjög fallegu gili Leirvogsár sem endar við mjög glæsilegan foss sem heitir Tröllafoss. Veðrið var hið fínasta og á leiðinni sáum við mjög ágenga krumma, nokkur brotin egg sem höfðu orðið fyrir barðinu á þeim og fallegar hvítar rjúpufjaðrir. Eftir að hafa farið ofan í gilið á nokrum stöðum, skoðað fossinn og vaðið í lækjum á leiðinni, var farið í sund og loks gómsætu kjötið skellt á grillið þegar heim var komið. Tröllafoss og gilið við Leirvogsá eru mjög falleg og skemmtileg gönguleið fyrir fjölskylduna, bara steinsnar frá Höfuðborginni.

IMG_0665[1]

Mynd dagsins er af Ágústi Loga og Magnúsi Árna að vaða í einum af lækjunum sem liggja í Leirvogsá, rétt við Tröllafoss. Ótrúlegt hvað það er alltaf vinsælt hjá krökkunum að vaða og sulla - jafnvel þó vatnið sé ískallt!  Mjög skemmtilegur dagur í dag SmileSmileSmile


Fyrsti ísbíltúr sumarsins

Föstudagur 29. maí 2009

Vægast sagt brjálað að gera í vinnunni í dag. Ekkert sérstakt var planað hjá okkur í fjölskyldunni í kvöld svo Inga eldaði pizzu fyrir okkur, sem alltaf er jafnvinsæl og svo var eitthvað var glápt á sjónvarp. Veðrið var það skemmtilegt að við ákváðum að skella okkur í fyrsta ísbíltúr sumarsins.

IMG_0642[1]

Mynd dagsins er að mér og Magnúsi Árna að sleikja ísinn í fyrsta ísbíltúr sumarsins sem að þessu sinni var um nýrri hverfi Mosfellsbæjar. Ísinn var að sjálfsögðu keyptur á Snælandi.


Að halda ekki með þeim gulu á Akranesvelli...

Fimmtudagur 28. maí 2009

Einn af stórleikjum knattspyrnusumarsins (amk fyrir mig) fór fram í kvöld þegar mínir menn í Aftureldingu fóru upp á Akranes og kepptu við mína menn, Skagamenn. Í kvöld fór ég semsagt ásamt Magnúsi Árna, Ágústi og pabba að sjá ofangreindan leik í 1. deild karla. Þar sem ég hef nú síðustu áratugi séð ófáa leiki með þeim gulu á Akranesvellinum var mjög skrýtið að mæta á Skagann í rauða Aftureldingarjakkanum. Sjálfsagt hef ég heldur aldrei fengið eins mikla athygli þegar ég labbaði um stúkuna í rauða jakkanum og ófá skotin flugu á mann frá stuðningsmönnum þeirra gulklæddu. Þetta var fyrsti alvöru leikur félaganna að frátöldum æfingaleikjum. Eftir markalausan fyrri hálfleik en rigningar- og rokmikinn, náðu Skagamenn að setja inn eitt mark við mikinn fögnuð heimamanna enda hefur liðinu gengið afleitlega það sem af er sumri. Fleiri mörk voru ekki skoruð.

IMG_0633[1]

Mynd dagsins er tekin í kvöld á Akranesvelli og sýnir liðin vera búin að stilla sér upp rétt áður en flautað var til leiks. Hrikalega skrýtið að vera á Akranesvelli og halda ekki með gula liðinu. Verður mjög eftirminnilegur dagur, þó knattspyrnulega verði leikurinn ekki skráður í sögubækur fyrir knattspyrnuleg gæði. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband