28.5.2009 | 00:21
Kjúklingabitar á karlakvöldi
Miðvikudagur 27. maí 2009
Það er margt sem hefði verið hægt að velja í dag fyrir ljósmyndadagbókina en þar sem kvöldið fór að töluverðu leiti í að horfa á úrslitaleik meistaradeildarinnar í knattspyrnu, verður það fyrir valinu. Það voru stórliðin Barcelóna og Manchester United sem áttust við og sigraði Barcelóna 2-0. Þar sem Inga var á kvöldvakt í kvöld gátum við karlarnir á heimilinu horft á leikinn í friði Afi Magnús (pabbi) kíkti í heimsókn til að horfa á leikinn með okkur og þar sem þetta var úrslitaleikurinn var ákveðið að splæsa í kjúklingabita frá KFC fyrir karlakvöldið okkar.
Mynd kvöldsins er af kjúklingaáti á Karlakvöldinu. Mjög góður matur með boltanum á svona karlakvöldi - sló alveg í gegn hjá okkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2009 | 01:07
Út að hlaupa á afmælisdaginn hans Ástþórs
Þriðjudagur 26. maí 2009
Dagurinn í dag var nokkuð annasamur í vinnunni þar sem ég var í orðsins fyllstu merkingu að hlaupa milli funda. Þegar heim var komið hjálpaði ég Ágústi Loga að læra fyrir dönskupróf en um 10 leitið skellti ég mér út að hlaupa enda frábært útivistarverður. Svo átti ég gott spjall við Ástþór vin minn, sem á afmæli í dag, áður en sest var við tölvuna að sinna ýmsum vinnutengdum erindum.
Mynd dagsins er af afmælisbarninu Ástþóri, einum besta vini mínum en hann varð 38 ára í dag blessaður karlinn. Ekki var um neina afmælisveislu að ræða í kvöld þar sem hann þurfti að vinna frameftir en úr því verður bætt um helgina. Þessa mynd af Ástþóri tók ég síðasta laugardag þegar við félagarnir vorum í sjóstangaveiði. Ansi hreint skemmtileg og ekki hægt að segja annað en Ástþór hafi verið hrifinn af aflanum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2009 | 23:50
Hrói Höttur fyrir svefninn
Mánudagur 25. maí 2009
Magnús Árni fór á bókasafnið í dag með mömmu sinni og kom heim með hrúgu af skemmtilegum bókum. Það var því mikið úrval í boði þegar lesa átti kappan í svefn nú í kvöld. Fyrir valinu var hin klassíska saga af Hróa Hetti í 30 ára gamalli útgáfu (eða svo) a.m.k. var þessi bók ein af mínum uppáhaldsbókum þegar ég var strákur.
Mynd dagsins tók Inga af okkur Magnús Árna - komnir upp í rúm að lesa Hróa Hött
Bloggar | Breytt 26.5.2009 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2009 | 23:36
Skrímslin sigruðu geimverurnar!
Sunnudagur 24. maí 2009
Þó Inga hafi dregið mig út að hlaupa nettan 14 km hring í Mosfellsbænum ætla ég að tengja daginn í dag við bíóferð fjölskyldunnar. Í dag fórum við fjölskyldan í Kringlubíó og sáum stórmyndina Skrímslin gegn geimverunum (Monsters vs. Aliens). Fyrir áhugasama þá er söguþráðurinn á þá leið að geimverur vilja taka yfir jörðina. Þegar hefðbundinn herafli og vopn vinna ekki á geimverunum er farið í leyndasta fangelsi heimsins sem geymir skrímsli sem jörðin hefur alið af sér (sem eru ægilega góð inn við beinið). Samið er við skrímslin um að sigri þau geimverurnar fái þau frelsi - og að sjálfsögðu endar þetta vel og allir verða vinir - spennandi!!!
Mynd dagsins er að Ágústi og Magnúsi að græja sig í bíóið. Þar sem myndin er í þrívídd (3D) fengu allir bíógestir forláta gleraugu til að njóta myndarinnar - bara til öryggis skal tekið fram að Magnús borðaði ekki allt þetta popp einn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2009 | 19:23
Óvissuferð: sjóstöng og Sálarball!
Laugardagurinn 23. maí 2009
Aldeilis annasamur dagur í dag. Eftir að hafa verið dómari í fótboltamóti hjá Ágúst Loga frá kl 9-14:30 fór ég beint í óvissuferð með hópi æskufélaga af Skaganum, en hópurinn kallar sig Club'71. Við spilum saman fótbolta einu sinni í viku yfir vetrartímann og hittumst auk þess 2-3 á ári og gerum eitthvað skemmtilegt. Í dag var semsagt óvissuferð á dagskrá sem skemmtinefnd klúbbsins hafði skipulagt. Við byrjuðum á að fara upp á Akranes og skelltum okkur í sjóstangaveiði. Þegar í land var komið var farið með mannskapinn í sund og borðuðum svo fínustu nautasteik þegar leið á kvöldið ásamt glæsilegum desert. Um miðnætti fóru flestir upp í rútu og hópurinn skellti sér í Mosfellsbæinn þar sem rúmlega 700 manns voru á dansleik í íþróttahúsinu með hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns. Þetta var hrikalega skemmtilegur dagur sem heppnaðist glæsilega!
Mynd dagsins er af hópnum að gæða sér á nautasteik. Að þessu sinni voru í hópnum (frá vinstri): Maggi, ég, Þorvaldur, Valli, Höddi Svavars, Jón Sigurðs (gestur), Siggi Sig, Auðunn, Jón Bjarni, Sævar, Jón Eiríkur, Svenni, Elvar og Doddi. Á myndina vantar Hannes og Rúnar og Ástþór og Gurra sem kíktu líka aðeins á okkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2009 | 16:32
Fótboltavertíðin er hafin
Föstudagur 22. maí 2009
Ég var fríi í vinnunni og átti náðugan dag heimafyrir. Hápunktur dagsins verður nú að teljast þegar við feðgarnir fórum á Varmárvöll og sáum fyrsta heimaleik karlaliðs Aftureldingar á þessari fótboltavertíð. Andstæðingarnir voru lið Hauka að þessu sinni og endaði leikurinn 1-1. Afturelding voru einum færri í seinni hálfleik þannig að það var nú bara alveg ágætt að ná jafnteflinu. Það er yfirleitt mjög gaman að fara á leiki, sjá fótbolta og hitta skemmtilegt fólk. Þar sem ég er fyrrverandi formaður Knattspyrnudeildar Aftureldngar reyni ég nú að sjá flesta heimaleiki hjá meistaraflokkum Aftureldingar og aðstoða stundum við leikina. Í þessum leik var mér falið það hlutverk að taka á móti heiðursgestum leiksins, þeim Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra Mosfellsbæjar og Karli Tómasyni forseta bæjarstjórnar, og fylgja þeim inn á völlinn í upphafi leiks til að heilsa upp á leikmenn.
Mynd dagsins er frá leiknum á Varmárvelli í kvöld og var tekin af blaðamanni frá fotbolti.net. Þarna er ég með Haraldi bæjarstjóra og Karli forseta bæjarstjórnar sem eru að heilsa upp á Berta fyrirliða Aftureldingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2009 | 10:38
Pallurinn pússaður
Fimmtudagur 21. maí 2009
Nágrönnum okkar til mikillar ánægju vorum við Inga mætt út á pall í morgun kl. 8:15 stundvíslega. Markmiðið var að pússa "gólfið" á pallinum sem er við húsið okkar (um 70 fermetrar) og mála. Er þetta gert með græjum sem gefa frá sér tilheyrandi hávaða. Það er heilmikil vinna að eiga svona pall sértaklega þar sem við ákváðum í fyrra að skipta um lit á honum. Í fyrra sumar fóru ófáar vinnustundir í að pússa handriðið á pallinum. Í rauninni svo margar að við náðum ekki að klára gólfið. Nú er hins vegar komið að því að klára þetta eilífðar verkefni. Pússun á pallinum gekk vel í blíðnunni í dag og upp úr kaffi var hægt að byrja mála gólfið. Við getum svo klárað að pússa restar, mála handrið og gólf á næstu 2-3 vikum. Þá ætti fara að sjá fyrir endann á þessu risaverkefni.
Mynd dagsins er af okkur Ingu í fullri aksjón við að pússa gólfið á pallinum. Mikið hrikalega er gott að vera búinn að ljúka þessu af
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2009 | 10:24
Fundahöld á Fjörukránni
Miðvikudagur 20. maí 2009
Lunganum af deginum í dag (og reyndar kvöldinu líka) varði ég inni á Fjörukránni í Hafnarfirði. Þar var ég á vorfundi Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu (FSÍÖ). Um 80 þátttakendur voru á fundinum sem heppnaðist mjög vel í þessu annars óvenjulega fundaumhverfi. Í lok fundar var farið í móttöku til bæjarstjórans í Hafnarfirði í Bungalowið, sem er nýuppgert, sögufrægt hús í Firðinum. Að móttöku lokinni var haldið aftur á Fjörukránna þar sem okkur var boðið upp á ljómandi fínan kvöldverð og víkingasöng.
Mér fannst vel við hæfi að mynd dagsins væri af Fjörukránni. Aldeilis mjög vel heppnað fyrirbæri í ferðamennskunni hér á landi. Mjög gaman að koma þarna og gaman að sjá metnaðinn í öllum smáatriðum í starfseminni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2009 | 00:16
Vísiterað með veðurguðinum
Þriðjudagur 19. maí 2009
Í dag var nokkuð óvenjulegur dagur hjá mér í vinnunni. Þó starf mitt gangi að stórum hluta út á að hitta fólk og sitja á fundum, var starfið nokkuð óhefðbundið meiri hluta dagsins. Undanfarið hefur verið í gangi heilmikið reykleysis-átak hjá starfsfólki Hrafnistuheimilanna, vinnustað mínum. Reynt hefur verið að hvetja starfsfólk til dáða með jákvæðri örvun og náði þessi hvatning hámarki sínu í dag. Starfsfólki gafst kostur á að kvitta undir yfirlýsingu um að vera reyklaust á vinnutíma og setja um leið nafn sitt í pott þar sem dregnir yrðu út glæsilegir ferðavinningar. Í dag var svo dregið um hverjir vinningshafarnir eru. Þar sem Hrafnistuheimilin eru fjögur var sérstakur "pottur" á hverju heimili og var mjög góð þátttaka á öllum stöðum. Stór hluti dagsins hjá mér í dag fór í að ferðast á milli Hrafnistuheimilanna, minna á reykleysisátakið og draga út vinningshafa. Með mér í för voru Lucia mannauðsstjóri og poppstjarnan Ingó sem er forsprakki hljómsveitarinnar Ingó og veðurguðirnir. Á hverju heimilanna héldum við Lucia stutt ávörp en Ingó dró í getrauninni og spilaði fjörug sumarlög á gítarinn sinn fyrir viðstadda. Það var ekki amarlegt að hafa forsprakka veðurguðanna með sér í þeirri sumarblíðu sem var í dag.
Mynd dagsins er af okkur Ingó að draga í ferðahappadrættinu á Hrafnistu í Reykjavík. Þar voru tæplega 100 manns viðstaddir og mikið stuð þegar Ingó tók lagið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2009 | 00:17
Smjattað á poppi með Englum og djöflum
Mánudagur 18. maí 2009
Í kvöld skelltum við Inga okkur í bíó og sáum myndina Englar og djöflar. Myndin er byggð á samnefndri bók rithöfundarins Dan Browns sem einnig samdi bókina DaVinci-lykillinn sem er ein vinsælasta bók síðari ára. Það er töluvert síðan ég las bókina Englar og djöflar og hafði gaman af, jafnvel fannst mér sú bók betri en DaVinci-lykillinn. Sagan gerist á einni kvöldstund í Vatíkaninu og á strætum Rómarborgar, án þess að ég vilji upplýsa söguþráðinnn um of. Myndin var bara hin mesta skemmtun og mæli ég með henni fyrir þá sem höfðu gaman að DaVinci-lyklinum. Ekki spillir að hafa nóg af poppi og kóki með.
Mynd dagsins er af mér við auglýsingaskilti fyrir myndina Engla og djöfla til að minna mig á bíóferðina. Mjög skemmtileg kvikmynd og við Tom Hanks (aðalleikari myndarinnar) tökum okkur bara vel út
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)