17.6.2009 | 23:43
Afmælisplokkfiskur
Þriðjudagurinn 16. júní 2009
Í dag á Sævar, einn besti vinur minn afmæli. Í tilefni þess fórum við nokkrir félagar út að borða í hádeginu í dag. Þetta var ákveðið með litlum fyrirvara en það þarf ekkert að vera neitt verra. Fyrir valinu var veitingastaðurinn Þrír frakkar og var uppáhaldsréttur okkar flestra á borðum - plokkfiskur. Hann er ótrúlega góður hjá Úlfari veitingamanni og félögum á Þremur frökkum. Að sjálfsögðu var margt spjallað og skeggrætt undir borðum eins og vera ber - mikið stuð
Mynd dagsins er úr hádeginu í dag - plokkfiskur á borðum í afmælinu. Á myndinni eru frá vinstri. Hannes, ég, Rúnar, Valli, Jón G., Kiddi og Sævar afmælisdrengur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2009 | 22:25
Ættleiðing álfadrengsins Árna Hrafnars
Mánudagurinn 15. júní 2009
Fyrir nokkru tók ég að mér að ættleiða álfadrenginn Árna Hrafnar. Árni er reyndar álfa-dúkka en ættleðing hans er liður og endapunktur í mjög skemmtilegu álfa-ættleiðingarverkefni sem framkvæmt var eftir hygmynd sem komin er frá Jóhönnu Jakobsdóttur, verkstjóra vinnustofu á Hrafnistu í Hafnarfirði. Alls gerðu Jóhanna og hópur heimilismanna í Hafnarfirði í sameiningu, 10 skemmtileg álfabörn sem boðin voru ábyrgum foreldrum til ættleiðingar (greinilegt að Jóhanna þekkir mig ekki vel ;-). Öll álfabörnin fengu nöfn í höfuðið á skapara sínum úr vinnuhópnum og svo ættarnafn eftir Hrafnistu. Eins og við ættleiðingar mannabarna þurftu tilvonandi fósturforeldrar að punga út nokkurri upphæð til ættleiðingarinnar en þeir fjármunur munu renna óskiptir til Barnaspítala Hringsins. Síðasta föstudag var fjallað um þetta verkefni í heilsíðu grein í Morgunblaðinu, fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur. Í dag fékk ég minn álfadreng afhentan við virðulega athöfn - nú er bara að standa sig í foreldrahlutverkinu
Mynd dagsins er af mér að taka við álfadrengum Árna Hrafnari. Með mér á myndinni eru Jóhanna og Ósk, tveir af aðalsköpurum Árna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2009 | 22:11
Áfram Ísland!
Sunnudagur 14. júní 2009
Í dag fórum við feðgar ásamt Rúnari Inga frænda, frá Akureyri, á handboltalandsleik í Laugardalshöll. Þar fór fram leikur Íslands og Noregs í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Austurríki árið 2010. Laugardalshöllin var troðfull og mikið fjör. Ísland hafði undirtökin í leiknum nær allan tíman en Normenn náðu að koma í restina og jafna leikinn sem endaði 34-34. Strákarnir skemmtu sér mjög vel á leiknum þó Magnús Árni hafi verið orðinn dáldið þreyttur á hávaðanum undir lokin.
Mynd dagsins er af landsleiknum í Laugardalshöllinni. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur þó úrslitin hefðu mátt vera betri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2009 | 23:22
Tónleikar í Borgarnesi
Laugardagur 13. júní 2009
Í morgun tók ég þátt 17 km fjallahlaupi hér í Mosfellsbænum. Það var mjög gaman og gekk merkilega vel. Eftir hádegið fórum við fjölskyldan upp í Borgarnes. Ágúst og Magnús skelltu sér í sundlaugina ásamt Rúnari Inga frænda sínum og fengu sér ís á eftir. Á meðan fórum við Inga, ásamt Jónu systur hennar, á tónleika í Borgarneskirkju en þar fer nú fram tónlistarhátíðin ÍsNord. Það verður nú að viðurkennast að aðal ástæða fyrir veru okkar á tónleikunum var að Guðrún, systir Ingu, var að syngja á tónleikunum. Guðrún býr í Stuttgart þar sem hún starfar sem söngkona, en hún kom í stutta ferð til Íslands vegna tónleikanna. Það er alltaf gaman að fá Guðrúnu í heimsókn til landsins og heyra hana syngja. Eftir tónleikana fórum við öll til baka í Mosó og grilluðum hrúgur af lambakjöti. Alveg mjög skemmtilegur dagur
Mynd dagsins er frá tónleikunum í Borgarneskirkju. Guðrún mágkona mín að syngja en Jónína Arnardóttir situr við flygilinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2009 | 22:48
3 systur og strákasúpa
Föstudagur 12. júní 2009
Það var fjölmenni við matarborðið hjá okkur í Hrafnshöfðanum nú í kvöld. Kristín Erla systir Ingu , sem býr á Flúðum, var í bænum ásamt börnum og Jóna systir Ingu, sem býr á Akureyri var einnig í kaupstaðarferð ásamt Rúnari syni sínum. Við hittumst öll og borðuðum saman, að undanskilinni Önnu Dagbjörtu, dóttur Kristínar, sem fór frekar í Kringluna með ömmu sinni. Eins og gefur að skilja var mikið fjör í kvöldmatnum þegar systurnar þrjár komu saman ásamt 6 strákum (ég talinn með) - mjög gaman
Mynd dagsins er af kvöldverðarborðinu í Hrafnshöfðaunum í kvöld. Á myndinni eru frá vinstri: Inga, Þorsteinn litli, Ágúst Logi, Magnús Árni og Rúnar Ingi. Næst á myndinni eru Kristinn Þór, Kristín Erla og Jóna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2009 | 23:47
Púttað í sólinni
Fimmtudagurinn 11. júní 2009
Seinni partinn í dag tók ég þátt í púttmóti hjá golfklúbbi starfsmannafélaganna á vinnustað mínum, Hrafnistu. Meðal starfsmanna er starfandi öflugur golfklúbbur sem stendur fyrir kennslu og nokkrum golfmótum á hverju ári. Við Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði er staðsettir 18 holu pútt-vellir sem eru mjög vinsælir meðal heimilisfólks og starfsfólks. Í dag var semsagt starfsmannamót á vellinum í Hafnarfirði. Það var fín þátttaka og blíðskapar veður meðan mótið fór fram. Ég er nú mjög lítill golfari en mér gekk bara ágætlega
Mynd dagsins er frá púttvellinum við Hrafnistu í Hafnarfirði og sýnir púttmót starfsmannafélagsins í fullum gangi. Það var glampandi sól meðan mótið fór fram og mjög gaman
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2009 | 23:30
Gullmolinn Garðskagaviti
Miðvikudagur 10. júní 2009
Seinni partinn í dag var ég staddur við Garðskagavita sem er út á Reykjanestá, rétt við þorpið Garðinn. Úti var glampandi sól og nánast logn. Svæðið við vitanna hefur verið tekið í gegn á síðustu árum og er nú orðið mjög skemmtilegur ferðamannastaður t.d. komin áhugaverð upplýsingakort um svæðið. Þarna er falleg sand-strandlegja með mjög miklu fuglalífi. Jafnframt er aðgenig að gamla vitanum orðið mjög gott og skemmtilegt og mikið útsýni í góðu veðri. Við vitanna er svo listagallerý og byggðasafn. Mæli með þessum stað sem fínasta sunnudagsbíltúr - sannarlega gullmoli þar sem hægt er að eiga fínan dag.
Mynd dagsins er af Garðskagavita í dag. Reyndar eru vitarnir tveir, sá sem er nær var byggður upp úr 1940 en sá sem er fjær var byggður fyrir árið 1900. Myndin er tekin af svölunum á safninu við vitanna en á 2. hæð safnsins er staðsett kaffihús þar sem var æðislegt að sitja í sólinni í dag, horfa út á sjóinn og njóta lífsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2009 | 00:02
Sumarfríið byrjað á sýklaheimsókn
Þriðjudagurinn 9. júní 2009
Sumarfríið hans Ágústar Loga byrjaði formlega í gær. Það byrjaði nú kannski ekki nógu skemmtilega þar sem undir kvöld var kappinn komin undir sæng strax eftir kvöldmat með hausverk og flökurleika. Þetta versnaði frameftir kvöldi en undir miðnætti tókst honum að loks að sofna. Í dag tók Ágúst Logi rólega og hafði það bara nokkuð gott undir sænginni - las bækur, spilaði PlayStation o.fl. Hann var allur að braggast seinni partinn og alveg til í að vera á ljósmynd dagsins.
Mynd dagsins er því af sumarleyfisdrengnum Ágústi Loga undir sæng að láta sér batna. Þó sumarfríið hafi ekki byrjað vel var hann nú allur að braggast nú undir kvöld, búinn að fá Halla vin sinn í heimsókn og verður klár í slaginn á morgun til að byrja sumarfríið með stæl!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2009 | 23:46
Félaginn mikli, hún Feisbúkk
Mánudagurinn 8. júní 2009
Ég held að ég verði að hafa einn dag í ljósmyndadagbókinni minni tengdan vefsíðunni facebook.com. Ég hef verið skráður notandi þar síðan í byrjun febrúar á þessu ári. Feisbúkk er alveg magnað fyrirbæri þar sem maður getur ræktað vini og vandamenn um allan heim. Ég ætla svo sem ekki að vera lýsa þessu tengslaneti eitthvað frekar hér. Hins vegar get ég sagt að þetta er mjög skemmtilegt og maður getur fylgst með og haft samband fjölda aðila sem maður hefur kynnst á lífsleiðinni. Suma af "vinum" mínum hafði ég ekki heyrt eða séð jafnvel í áratugi. Feistbúkkina þarf þó að nota varlega, hún getur verið alger tímaþjófur en mjög sniðug ef maður heldur sig innan skynsamlegra marka.
Mynd dagsins er af mér við töluvuna að feisbúkkast. Feisbúkkinn er merkilegt fyrirbæri sem getur verið mjög skemmtilegt ef það er notað í hófi!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2009 | 21:17
Minningaöldur Sjómannadagsins
Sunnudagur 7. júní 2009
Í dag var Sjómannadagurinn og þá er í mörg horn að líta í tengslum við vinnu mína. Ég byrjaði daginn í minningarathöfn um drukknaða sjómenn sem haldin er við "Minningaröldurnar" við Fossvogskirkjugarð. Svo var ég mættur í Sjómannamessu í Dómkirkjunni áður en haldið var í ferð með Ingu minni milli hátíðarhalda á Hrafnistuheimilunum en þar er jafnan mikið um dýrðir á þessum degi.
Mynd dagsins tók ég við Minningaröldurnar við Fossvogskirkjugarð en á þetta minnismerki eru letruð nöfn allra sjómanna sem drukknað hafa síðustu áratugi. Á sjómannadaginn er árlega haldin stutt minningarathöfn og lagður blómsveigur hinum látnum sjógörpum til heiðurs. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar standa heiðursvörð við athöfnina ásamt dómsmálaráðherra en þau voru að þessu sinni aðstoðuð af sjóliðum af norsku herskipi. Þetta var mjög tignarleg og falleg athöfn. Myndin sýnir Einar Jónsson trompetleikara leika við athöfnina við minningaröldurnar og í baksýn er heiðursvöðurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)