100 ára afmæli ömmu

Föstudagur 26. júní 2009

Í dag á amma, Guðný Maren Oddsdóttir (mamma hans pabba) hvorki meira né minna en 100 ára afmæli. Af þessu tilefni var blásið til afmælisveislu seinni partinn í dag þar sem nánustu ættingjar komu saman og samfögnuðu með afmælisbarninu á Dalbrautinni þar sem hún býr. Þetta var fínasta veisla. Við vorum búin að smala saman myndum tengdu lífshlaupi ömmu og sýndum þær í skjávarpa. Þessar myndir vöktu mikla lukku enda sumar myndanna sem fáir höfðu séð. Amma var hin ánægðasta með daginn.

þjodbuningur 2

Mynd dagsins er af henni ömmu, Guðnýju Maren Oddsdóttur. Myndin er reyndar ekki tekin í dag, Smile heldur fyrir um 80 árum þegar amma var um tvítugt. Mér finnst myndin svo flott að hún á sannarlega heima hér á þessari síðu. 


Doktorsvörn í Háskólanum

Fimmtudagur 25. júní 2009

Eftir hádegi í dag brá ég mér á doktorsvörn í Háskóla Íslands. Það var bekkjarbróðir minn úr lyfjafræðinni, Skúli Skúlason, sem var að verja doktorsritgerð sína, Bioadhesive Drug Delivery Systems in the Treatment of Oral Conditions Including Cold Sores and Aphthous Ulcers. Án þess að fara að lýsa verkefninu nákvæmlega var markmið þessa rannsóknarverkefnis hans að þróa lyfjaform til lyfjagjafar á slímhúðir með áherslu á tvo sjúkdóma, annarsvegar munnangur og hins vegar frunsur. Skúli hefur unnið að þessu verkefni alveg síðan við útskrifuðumst úr lyfjafræðinni árið 1998. Hann hefur ásamt fleirum stofnað fyrirtæki kringum verkefnið og hlotið ýmsar viðurkenningar og styrki. Vonandi á hann eftir að slá í gegn með málið á næstu árum. 

skuliSkula

Mynd dagins er úr doktorsvörninni í dag, og sýnir Skúla sjálfan í ræðustól að kynna meistaraverkið. Vörnin fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands og var mjög flott en hátíðleg athöfn. Gaman að sjá þetta og Skúli stóð sig glæsilega Tounge


Afmæli Ágústar Loga

Miðvikudagurinn 24. júní 2009

Frumburðurinn, Ágústi Logi, er 13 ára í dag. Hann hélt upp á afmælið í gærkvöldi með helstu vinum sínum því seinni partinn í dag fór hann að keppa með Aftureldingu í fótbolta (4. flokki). Knattspyrnan gekk nú aldeilis vel hjá afmælisdrengnum. Hann var varamaður í A-liðinu sem vann HK 11-0 og svo spilaði hann allan leikinn hjá B-liðinu sem vann Kópavogsdrengina bara 12-3. Eftir leikinn fórum við fjöslkyldan út að borða og afmælisdrengurinn valdi veitingastaðinn American Style þar sem við fengum okkur hamborgara. Í næstu viku verður svo haldið upp á afmælið fyrir stórfjölskylduna vegna anna hjá okkur næstu daga.

IMG_1056[1]

Mynd dagsins er af Ágústi Loga, afmælisdreng. Til hamingju með afmælið SmileSmileSmile


Bíómútur

Þriðjudagurinn 23. júní 2009

Í kvöld var Ágúst Logi að halda upp á afmælið sitt og var þessi hluti veislunnar fyrir helstu vinina. Til að leyfa honum að halda þennan hluta veislunar heima í friði, fór ég með Magnús Árna í bíó kl. 18 (sem sagt smá mútur). Magnús Árni fékk sjálfur að velja myndina og fyrir valinu varð "Night at the museum 2". Hann skemmti sér mjög vel þó myndin væri með erlendu tali. Við fórum í Laugarásbíó og vorum svaka heppnir því starfsfólk Hrafnistu fær þar frítt í bíó þessa dagana. Að sjálfsögðu þurfti að fá popp og kók og smá nammi.

IMG_1047[1]

Mynd dagsins tók ég fyrir utan bíóið eftir sýninguna þegar ég tók eftir að svarti sleikjóinn sem Magnús fékk í bíóinu hafði ekki alveg ratað allur ofan í maga. Sést vonandi á myndinni hvar svarti sleikjóinn endaði   SmileGrinSmile


Afmælisveisla undirbúin

Mánudagur 22. júní 2009

Á miðvikudaginn á Ágúst Logi afmæli. Þá verður hann að keppa seinni partinn og mun það taka tímann alveg frá kl. 16-20. Afmælisdagurinn er því ómögulegur til að halda upp á veisluna og verður það því gert aðra daga. Nú er pilturinn að verða unglingur og nú er ekkert hefðbundið afmælisboð. Kappinn býður fjórum helstu vinunum í bíó á morgun en áður en þeir fara í bíóið ætla þeir að hittast hér heima og borða pítsur og afmælisköku. Inga fór því í það í kvöld að græja afmæliskökuna í tæka tíð fyrir fyrsta áfanga afmælisins.

IMG_1044[1]

Mynd dagsins er af Ingu að baka afmæiskökuna. Hún var gerð samkvæmt pöntun afmælisdrengsins - skúffukaka með rauðu kremi og hvítum Arsenal-stöfum sem þau mæðginin möndluðu saman. Nammi, namm Wizard


Fæðingarveisla folaldsins Dulúðar

Sunnudagurinn 21. júní 2009

Í dag dvöldum við fjölskyldan í Unnarholtskoti, rétt við Flúðir. Þar býr Kristín Erla mágkona mín ásamt fjölskyldu sinni. Piltarnir okkar, Ágúst og Magnús, voru hjá þeim um helgina en reyndar er Ágúst búinn að vera hjá þeim í heila viku. Síðast liðna nótt kom fallegasta folald í heiminn hjá þeim í kotinu. Það var búin að ríkja mikil spenna hjá krökkunum fyrir tímamótunum og ekki síður hjá sveitungunum sem flykktust að til að skoða gripinn í dag Tounge Fæðinguna þurfti að halda upp á og sjálfsagt voru yfir 20 manns í kaffi í Unnarholtskoti í dag, þegar mest var. 

IMG_0976[1]
 

Mynd dagsins er af folaldinu Dulúð, sem er hér rúmlega 12 klst gamalt, með mömmu sinni.


Fjórréttað eftir Fimmvörðuháls

Laugardagur 20. júní 2009

Í kvöld mættum við Inga í matarboð í Kópavoginn til Erlings og Heidu vinafólks okkar. Við komum þangað frekar þreytt og glorsoltin en nú í nótt gengum við skötuhjúin saman yfir Fimmvörðuháls. Við fórum af stað frá Skógum um kl 10 í gærkvöldi í blíðskaparveðri og ekki sást skýhnoðri á himni fyrr en seint um nóttina. Veðurblíðan hefur sjálfsagt ýtt vel undir að Fimmvörðuhálsinn var "heitasti" staður landsins þessa nóttina því mjög margir urðu á vegi okkar á leiðinni. Þetta var hreint æðisleg ganga; mjög notalegt hitastig og heiðskýrt alla nóttina. Við komum niður í Bása í Þórsmörk um kl 5 í morgun og ætlunin var að ná morgunrútunni úr Húsadal til baka. Því miður kom smá babb í bátinn þar sem göngubrúin yfir Krossá var stödd upp á þurru landi. Þá voru góð ráð dýr en sem betur fer þurftum við ekki að bíða lengi áður en við náðum að húkka far niður á Hvolsvöll (brjáluð umferð þó það væri komið undir morgun). Á Hvolsvelli beið bíllinn okkar eftir okkur og lögðum við okkur í honum áður en brunað var í bæinn til að sofa.   En aftur að matarboðinu nú í kvöld - Erlingur og Heida buðu upp á fjórréttað veisluborð en auk okkar voru í matarboðinu vinafólk okkar Ástþór og Sigrún, og Sævar og Hafdís. Þetta var mikil veisla eins og við var að búast og eftir hvern snilldarréttinn á fætur öðrum og nokkra "Mojito" var maður saddur og sæll og náði leikandi að vaka til að ganga fjögur CoolCoolCool Alveg frábær dagur Smile

IMG_0967[1]

Mynd dagsins er úr matarboðinu í kvöld. Á myndinni eru frá vinstri: Ástþór, Erlingur, Sævar, Heida, Inga, Sigrún og Hafdís.


Magnús Árni á sundnámskeiði

Föstudagur 19. júní 2009

Í morgun kom ég við í Varmárlaug hér í Mosó en þá var "áhorfendatími" á sundnámskeiði Kobba krókódíls og Hönnu hafmeyju. Þetta er 2ja vikna sundnámskeið fyrir 5 -6 ára krakka þar sem mætt er daglega og farið er yfir hagnýt grunnatriði auk þess sem góður tími er gefinn til að leika sér. Magnús Árni og nær allir krakkarnir á leikskóladeild Lágafellsskóla voru á sundnámskeiðinu og Mosfellsbær var svo flottur á því að bærinn bauð upp á rútuferðir milli leiksskóla og Varmárlaugar.

IMG_2656[1]

Það var mikið fjör þegar ég kíkti við í Varmárlaug og gaman að kíkja á krakkana. Mynd dagsins er af Magnúsi Árna í góðum gír í lauginni.


Fótboltaferð til Akureyrar

Fimmtudagur 18. júní 2009

Seinni partinn í dag brá ég mér í stutta ferð til Akureyrar. Knattspyrnulið Aftureldingar í meistaraflokki karla var að fara að keppa við KA í bikarkeppni KSÍ. Mér bauðst að fara með sem liðsstjóri í forföllum beggja aðal liðstjóranna. Þrátt fyrir sól og blíðu í höfuðborginni var skýað, vindur og skítakuldi á Akureyri í kvöld. Flogið var báðar leiðir með Flugfélagi Íslands og ég var kominn heim upp úr kl 10. Þrátt fyrir að hafa sinnt liðstjóra hlutverkinu af mikilli alúð Tounge dugði það ekki til og heimamenn í KA fóru með sigur af hólmi, 3-1. Engu að síður bara skemmtilegt að fara með í þessa ferð og kíkja aðeins á Akureyri.

 

fotAkureyri

Mynd dagsins er tekin úr liðsstjórasætinu af varmannabekknum á Akureyrarvelli í kvöld. Leikurinn í fullum gangi og í forgrunni er Ólafur þjálfari að gefa skipanir til sinna manna.


Hæ, hó jibbbý jeiii!!!!

Miðvikudagur 17. júní 2009

Fjölskyldan var löt fyrir hádegi á Þjóðhátíðardeginum en kl. 13 vorum við mætt niður á hátíðartorgið í hér í Mosó, þar sem ræður voru fluttar og söngvar sungnir áður en gengið var í hefðbundinni skrúðgöngu að Hlégarði. Á túninu við Hlégarð var hefðbundin mosfellsk skemmtidagskrá og leiktæki. Það var frábært verður og óvenju mikið að fólki. Að loknu sprelli og spjalli við sveitungana fórum við inn í Hlégarð á árlega kaffisölu Knattspyrnudeildar Aftureldingar þar sem við gerðum okkar til að vinna á hlaðborðinu sem var í boði. Rétt að taka fram að Inga lagði fram eina köku á hlaðborðið (eins og alltaf Grin). Þegar heim var komið var horft á spennandi handboltalandsleik í sjónvarpinu. Mamma og pabbi komu í heimsókn og keti var skellt á grillið. Flottur 17. júní!!!

IMG_0854[1]

Mynd dagsins tók Inga af okkur Magnúsi að horfa á skemmtiatriðin á túninu fyrir utan Hlégarð. Margt var um manninn og ég tók Magnús á háhest svo hann sæi upp á sviðið. Ágúst Logi var fjarri góðu gamni en þessa dagana dvelst hann hjá Kristínu mágkonu og fjölskyldu, sem búa við Flúðir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband