7.7.2009 | 00:41
Tönn fyrir tannálfinn
Mánudagurinn 6. júlí 2009
Magnúsi Árna gekk mjög illa að sofna í gærkvöldi. Ástæðan var sú að nú er báðar stóru framtennurnar í eftri góm lausar. Eftir mikið fjaðrafok og aðgerðir, losnaði loks lausari tönnin. Venju samkvæmt í fjöslkyldunni var tönnin sett undir koddan og tannálfurinn kallaður til. Hann kom svo í nótt og sett samviskusamlega pening undir koddan í tanngjald. Aldrei þessu vant skildi tannálfurinn samt tönnina eftir og vild að Magnús Árni myndi eiga tönnina sjálfur - skrýtið!?!
Mynd dagsins er af tannlausa piltinum Magnús Árna sem er nú orðin aðeins "smámæltur" eftir að vera kominn með þetta skemmtilega skarð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2009 | 23:53
Vöfflukaffi í helgarlokin
Sunnudagur 5. júlí 2009
Við fjölskyldan dvöldum hjá mömmu og pabba á Skaganum í nótt (sjá nánar í bloggfærslu gærdagsins) en um helgina fór þar fram hátíðin "Írskir dagar". Þegar allir fjölskyldumeðlimir voru vaknaðir, var skundað í Skógræktina þar sem lokadagskrárliðir hátíðarinnar fóru fram; hoppukastalar fyrir börnin, Brúðubíllinn o.fl. Við fórum svo á Bjarkargrundina í vöfflukaffi áður en haldið var til baka í Mosó. Við karlanir á heimilinu skelltum okkur þá í sund til að þvo af okkur ryk þessarar skemmtilegu helgar áður en haldið er inn í nýja viku.
Mynd dagsins er tekin í dag í vöfflukaffi á Bjarkargrundinni hjá mömmu og pabba. Sorrý, dálítið dökk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2009 | 13:28
Brekkusöngur og Lopapeysuball á írskum dögum
Laugardagur 4. júlí 2009
Í dag fórum við fjölskyldan upp á Akranes og tókum þátt í bæjarhátíðinni "Írskir dagar" sem stendur yfir þessa helgina. Eftir að hafa skoðað risastórt markaðssvæði og drengirnir höfðu farið hamförum í litlu ferðatívolíi, var grillað á Bjakargrundinni hjá mömmu og pabba í ljómandi fínu veðri þó ekki væri mikil sól. Um kvöldið fórum við svo á Brekkusöng á íþróttavellinum þar sem Eyjólfur Kristjánsson stjórnaði fjöldasöng. Þessi dagskrárliður var samvinnuverkefni milli Lopapeysuballsins og nokkurra sprelligosa úr vinahóp mínum, Club'71 (sjá færslu 23. maí) og haldið í fyrsta skipti í ár. Við renndum því alveg blint í sjóinn hvað kæmu margir og hvernig til tækist. Þetta fór þó allt á besta veg; ég hafði verið plataður til að vera kynnir og þegar ég kynnti Eyjólf til leiks voru mörg hundruð manns mættir. Áður en yfir lauk, rétt fyrir miðnættið, voru komnir vel yfir þúsund manns. Eyfi náði upp miklu stuði og þetta framtak heppnaðist gríðarleg vel. Á eftir fórum við Inga svo á hið fræga Lopapeysuball þar sem yfir 3000 manns voru og við hittum fjöldan allan af gömlum vinum og kunningjum. Við tjúttuðum svo fram á nótt við undirleik Bubba og EGO, og svo Sálarinnar hans Jóns míns sem hætti ekki að spila fyrr en rétt fyrir fjögur. Þá var nú líka kominn tími fyrir okkur skötuhjúin að halda heim eftir skemmtilegan dag og frábært kvöld (og nótt)
Mynd dagsins er frá brekkusöngnum í kvöld. Eyjólfur er í rauðri úlpu lengst til hægri og eins og sjá má var dágóður fjöldi á svæðinu, um 1200 manns - og mikið gaman að sjálfsögðu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2009 | 13:08
Barist um bikarinn
Föstudagur 3. júlí 2009
Dagurinn í dag var einn hlýasti dagur ársins. Alveg brakandi blíða þó það væri ekki stöðug sól. Eftir hádegið tók ég (tengt vinnu minni) þátt í árlegri púttkeppni milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og heimilisfólks Hrafnistu í Hafnarfirði. Við Hrafnistu í Hafnarfirði er staðsettur 18-holu púttvöllur sem er eitt vinsælasta tómstundagaman heimilsfólks yfir sumartímann. Í keppninni er keppt um farandbikar og svo eru líka verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokkum. Í fyrra var bæjarstjórnin tekin alveg í bakaríið í mótinu og Hrafnista hirti öll verðlaunin, þannig að undanfarna daga hefur ríkt mikil spenna um hvað bæjarstjórinn og hans fólk gæti gert til að rétt sinn hlut. Mótið tókst mjög vel og var hið skemmtilegasta í blíðunni. Hafnfirskir bæjarstjórnarmenn náðu nú aðeins að blanda sér í baráttuna um verðlaunsætin þetta árið en á endanum náði Hrafnistufólkið að verja bikarinn
Mynd dagsins er af mér og Lúðvíki bæjarstjóra í Hafnarfirði að togast á um pútt-bikarinn. Skömmu síðar var tilkynnt að hann hefði lent í höndum Hrafnistu í Hafnarfriði. Mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2009 | 00:10
Ljúffeng lambalæri
Fimmtudagur 2. júlí 2009
Í kvöld buðum við fjölskyldan allra nánustu ættingjum og nágrönnum í grillveislu í tilefni af 13 ára afmæli Ágústar Loga í síðustu viku. Við höfum ekki haft tíma til að halda þetta fyrr en nú en það var ekkert verra fyrir því. Hægt var vera úti á palli og boðið var upp á lambalæri, grillaðar kartöflur, grillaðar sætar kartöflur og sallat og sósur af ýmsu tagi. Með kaffinu var svo dísæt frönsk súkkulaði kaka með jarðaberjum, rjóma og ís. Átveislan heppnaðist bara vel og allir fóru saddir og sælir heim
Mynd dagsins er úr veislunni í kvöld. Herbergi afmælisdrengsins laðaði krakkana að meðan þeir fullorðnu ræddu landsins gagn og nauðsynjar inni í stofu. Þessi mynd sýnir flesta krakkanna sem voru í veislunni í kvöld. Frá vinstri: Ástmar, Magnús Árni, Kristinn Þór, Anna Dagbjört, Þorsteinn og Guðmar. Ágúst Logi er í forgrunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2009 | 00:12
Tjaldað úti í garði
Miðvikudagurinn 1. júlí 2009
Í dag var fínasta veður hér í Mosó. Ágúst Logi var settur í að slá garðinn og eftir það fékk hann að sækja bróður sinn snemma á leiksskólann. Þeir bræður ætluðu að tjalda úti í garði sem þeir og gerðu. Mikið sport og stuð á drengjunum við þetta. Dýnur, bækur og fleira dót var komið inn í tjaldið þegar við foreldrarnir komum heim seinni partinn - mjög skemmtilegt
Mynd dagsins er af Magnús Árna og Elísabetu vinkonu hans að leika í tjaldinu úti í garði í dag - brjálað stuð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2009 | 23:57
Eggjabóndinn Ágúst Logi
Þriðjudagur 30. júní 2009
Í gönguferðinni góðu um Rauðasand og Látrabjarg (sjá síðustu 3 færslur) komst Ágúst Logi heldur betur í feitt þegar honum áskotnuðust egg sem týnd voru í Látrabjargi. Hann tók slatta með sér heim og í dag var hann að bardúsa við að skoða þau og blása. Eggin eru frá álkum, ritu, mávum og etv. fleiri fuglum.
Mynd dagsins er af Ágústi Loga eggjabónda þar sem hann er mættur með eggin i Mosfellsbæinn, til frekari úrvinnslu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 23:38
Látrabjarg eftir miðnætti
Mánudagurinn 29. júní 2009
Dagurinn í dag hófst upp á Látrabjargi en við fjölskyldan (án Magnúsar Árna) erum í gönguferð um Rauðsand og Látrarbjarg með 40 félögum í göngu- og gleðihópnum Hvatberum. Gærdagurinn endar þar sem þessi dagur hefst, á 10 km gönguferð eftir Látrabjargi. Á miðnætti áttum við eftir u.þ.b. 90 min göngu að Látrabjargsvitanum. Veðrið var hreint stórglæsilegt. Þó ekki væri alveg heiðskýrt var gott skyggni til allra átta og hlýtt. Alveg ógleymanlegt kvöld. Við vorum komin í tjaldbúðirnar okkur upp úr kl. 2 og flestir fóru þá að sofa þó einhverjir hafi kveikt á grilli til að svala hungrinu og ekki farið í svefnpokan alveg strax. Upp úr hádegi fóru svo Hvatberar að tínast heim eftir hreint frábæra ferð. Við fjölskyldan vorum komin í Mosó upp úr kl. 19, sólbrún og þreytt eftir frábæra ferð.
Mynd dagsins er tekinn upp á Látrabjargi um miðnættið og sýnir hluta hópsins. Rauðisandur sést í fjarska
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 23:15
Costa del Rauðasandur
Sunnudagur 28. júní 2009
Hvatberar fengu að sofa út í dag í Rauðsands/Látrabjargsferðinni. Það var glampandi sól og blíða og um kl. 11 þegar fór að flæða að yfir sandinn skelltu flestir úr hópnum sér út í sjóinn enda er Rauðasandur ein glæsilegasta baðströnd landsins. Hægt er að vaða gríðarlega langt út án dýpkunar og þegar sólin hefur hitað upp sandinn áður en byrjar að flæða að verður sjórinn nánast ylvoglur. Þetta nýttu Hvatberar sér í dag til baðferða áður en haldið var í ferð dagsins sem lá yfir í Sauðlauksdal og síðan var flug- og minjasafnið að Hnjóti skoðað. Að loknu grilli að Hvarlátrum var haldið í 10 km miðnæturgöngu eftir Látrabjargi sem líður okkur seint úr minni.
Mynd dagsins er á sundgörpum á Rauðasandi í morgun. Alveg hreint frábært að vera þarna í blíðunni. Við fjölskyldan erum fyrir miðri mynd.
Bloggar | Breytt 3.7.2009 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2009 | 22:59
Surtarbrandsnámurnar í Stálfjalli
Laugardagur 27. júní 2009
Í gærkvöldi, eftir afmælisveislu ömmu, brunuðum við fjölskyldan á Rauðasand á sunnanverðum Vestfjörðum (skildum reyndar Magnús Árna eftir heima). Þar hittum við fyrir göngu- og gleðihópinn Hvatbera sem við erum félagar í, en um 40 manns voru mættir í tjaldbúðir hópsins á Rauðasandi. Hvatberarnir fara einu sinni á ári í gönguferð og að þessu sinni voru Rauðisandur, Látrabjarg og nágrenni á dagskránni. Við misstum reyndar af tveimur fyrstu dögum ferðarinnar, m.a. siglingu fyrir Látrabjarg með tilheyrandi eggjaáti. Í dag gekk hópurinn yfir á hið sögufræga eyðibíli Sjöundaá, skoðuðum vitann í Skor og gengum hinar hættulegu Geirlaugarskriður yfir að Surtarbrandsnámunum í Stálfjalli. Það er nú allt of langt mál á lýsa þessum frábæra degi hér en hluti hópsins var ferjaður til og frá milli Skorar og námanna af öryggisástæðum. Veðrið var hreint frábært og þegar komið var í tjaldbúðir um 22:30 um kvöldið var slegið um dúndur grillveislu og sungið, drukkið og spjallað til tæplega 3 um nóttina. Meiriháttar dagur!!!
Það er úr mjög mörgum skemmtilegum myndum að velja í dag en ég held að það óvenjulegasta hafi verið að ganga um surtarbrandsnámurnar í Stálfjalli. Þetta eru námur sem gerðar voru á árunum 1913-15. Námurnar eru um 5 metra breið göng (2 metrar á hæð) neðst í fjallinu, þar sem brúnkol (surtarbrandur) voru unnin en þau voru notuð til kolagerðar. Göngin eru nokkrir rangalar en hrunið er fyrir einn gangamunnan og bara lítið gat ennþá á öðrum munna til að komast inn um. Mjög merkilegt að koma þarna en mæli ekki með að þarna sé farið nema með kunnugum. Mynd dagsins er af mér inn í námunni, en þar er auðvitað alveg kolniðamyrkur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)