20.7.2009 | 15:16
Laugarvegur 2: Hrafntinnusker - Álftavatn
Fimmtudagur 16. júlí 2009
Í dag hélt Laugavegsgangan áfram. Við lögðum í hann frá Höskuldsskála í Hraftinnuskeri áleiðis að Álftavatni um kl. 10. Þessi dagleið er um 12 km en þrátt fyrir að fyrri hluti dags sé nokkuð mikið upp og niður er heildarlækkun á gönguleið dagsins 450-500 m. Á miðri leið brá hluti hópsins sér upp á topp á fjallinu Háskerðingi sem er eitt hæsta fjallið á svæðinu milli skálanna tveggja. Þetta er um 2 klst krókur á leiðinni. Uppi á Háskerðingi er geggjað útsýni til allra átta enda var léttskýjað í dag. Við vorum svo komin í skálann við Álftavatn upp úr kl. 16. Um kvöldið fóru flestir í kvöldgöngu. Annað hvort í styttri ferðina yfir í helli við Álftaskarð eða í lengri ferð upp og niður eftir Bratthálsi sem er við Álftavatnið. Um kvöldið var svo slegið upp dúndur kvöldvöku sem stóð þó ekki of lengi fram á nótt
Mynd dagins er tekin fyrri hluta dags þegar gengið er af stað frá skálanum í Hrafntinnuskeri áleiðis upp á Jökultungur. Á myndinni má sjá fjallið Háskerðing (hæsta fjallið á myndinni) en utan um það liggur Kaldaklofsjökull. Minni fjöllin á myndinni eru kölluð Kaldaklofsfjöll.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2009 | 15:01
Laugavegur 1: Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Miðvikudagur 15. júlí 2009
Í dag var ég mættur um kl 8 í Mörkina, við höfuðstöðvar Ferðarfélags Íslands. Þar er að fara vaskur hópur á vegum Ferðafélagsins í Laugavegsgöngu, sem tekin verður á fjórum dögum. Ég er fararstjóri í ferðinni ásamt Ingimar tengdapabba. Hópurinn fór með rútu frá Mörkinni og vorum komin í Landmannalaugar um kl. 12. Þá var gefinn frjáls tími sem sumir nýttu m.a. til að baða sig og fleira. Kl. 13:30 hófst svo gangan í Hrafntinnusker í ágætis veðri. Þessi dagleið er 10-12 km og er upphækkun alls tæpir 500 m. Á leiðinni brugðum við okkur upp á fjallið Brennisteinsöldu þar sem mjög gott útsýni var yfir svæðið. Við vorum komin um kl. 18 í Hrafntinnusker og um kvöldið gat fólk valið um stuttan göngutúr upp á fjallið Söðul eða lengri ferð að jaðri íshella hinum megin í Hrafntinnuskerinu. Mjög fínn dagur.
Mynd dagsins er af gönguhóp Ferðarfélagsins við Landmannalaugar áður en lagt var af stað. Í hópnum eru 20 manns auk fararstjóranna mín og Ingimars og aðstoðarfararstjórans, Ágústar Loga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2009 | 00:31
Laugavegsganga undirbúin
Þriðjudagur 14. júlí 2009
Í kvöld stendur yfir undirbúningur fyrir göngu um "Laugaveginn" sem ég er að fara í á morgun. Um er að ræða alls 5 daga ferð með Ferðafélagi Íslands þar sem ég verð fararstjóri ásamt Ingimar tengdapabba. Löngu er uppselt í ferðina en alls eru 20 pláss í boði. Ferðin er eignilega Delux útgáfa. Við göngum í fjóra daga, 4-6 tíma á dag og á kvöldin eru svo í boði valferðir fyrir ferðalangana; bæði löng og stutt ferð. Farangurinn verður fluttur á milli skála fyrir fólk en gististaðir eru hefðbundnir; Hrafntinnusker, Álftavatn, Emstrur og Þórsmörk. Á laugardaginn munum við koma inn í Þórsmörk og þá verður skellt upp grillveislu. Harmonikkan verður með í för og á kvöldin verða kvöldvökur með söng og glensi veðurspáin þokkaleg og annað eins og best verður kosið!
Mynd dagsins var tekin nú í kvöld og sýnir Ingimar tengdapabba og Ágústi Loga við undirbúning fyrir ferðina. Þeir eru að brjóta saman söngtextana sem eru nauðsynlegir í svona ferð og í baksýn grillir í bakpoka og fleira dót sem verið er að pakka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2009 | 00:20
Síðasta vikan í leikskólanum!
Mánudagur 13. júlí 2009
Í dag er stór dagur hjá Magnús Árna því þetta er síðasta vikan sem hann er í leiksskólanum. Á fimmtudaginn fer hann í sumarfrí og kemur ekki aftur í leiksskólann því í ágúst byrjar kappinn í 6 ára bekk!!! Aldeilis spennandi tími að vera orðinn svona stór. Magnús hefur í vetur verið í 5 ára deildinni í Lágafellsskóla en það er ágætis undirbúningur fyrir alvöru skólann.
Í tilefni af þessum merku tímamótum smellti ég nokkrum myndum af kappanum í morgun í leiksskólanum. Það eru reyndar mjög fá börn orðin eftir, flestir eru komnir í sumarfrí. Mynd dagsins er af Magnús Árna á síðustu dögum leiksskólans. Hér er hann að gangi inn í leiksskólann í eitt síðasta skiptið sem lítið leikskólabarn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2009 | 00:05
Bragðgóður hákarl í Bjarnarhöfn
Sunnudagur 12. júlí 2009
Í dag vöknuðum við fjölskyldan í hrauninu við Snæfellsjökul í blíðskaparveðri en við fórum við gær í stutta ferð á Snæfellsnes (sjá færslu gærdagsins). Eftir að hafa dundað okkur fram undir hádegi skoðuðum við Lóndranga og Þúfubjarg. Svo var farið að dóla af stað í átt að höfuðborginni en á leiðinni var ákveðið að stoppa í Bjarnahöfn sem er án efa frægasti hákarlaverkunarstaður landsins. Það er mjög gaman að koma í Bjarnarhöfn en staðurinn hefur veriði mikill hákarlaveiði og -verkunarstaður gegnum aldirnar. Þar er í dag skemmtilegt safn um hákarlaútgerðina og lífið á bænum og fengum við fjölskyldan góða fræðslu frá heimafólki um þessi mál. Rúsínan í pylsuendanum er svo að fá að skoða hákarlaverkunina en í dag er mikið magn af hákarli verkað þarna. Auðvitað verða svo allir að fá að smakka - og hákarlinn þarna er ótrúlega bragðgóður!
Mynd dagsins er af mér að bragða á "uppskerunni" í hákarlaverkunarstöðinni Bjarnarhöfn. Alveg hreint gríðarlega gómsætur hákarl
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2009 | 22:41
Skarðsvík - líklegasta flottasta baðströnd landsins
Laugardagur 11. júlí 2009
Skarðsvík, yst á Snæfellsnesi, er einn af uppáhaldsstöðum fjölskyldunnar. Þarna er að finna gullna og hreina sandströnd án steina og sjávargróðurs, inn á milli dökkra og glæsilegra kletta. Í blíðunni í dag ákváðum við fjölskyldan að skella okkur þangað. Skarðsvík er eitt af best geymdu leyndarmálum Snæfellsness. Tiltölulega fáir vita af þessari glæsilegu baðströnd sem á góðum degi myndi sóma sér mjög vel á Spáni eða í Portúgal. Helst er að heimamenn sæki Skarðsvík og það var einnig svo í dag. Töluvert var af fólki á ströndinni en nóg pláss og engar hrúgur af fólki eins og gerist studum á sólarströndum. Við undum okkur vel við leik í sandinum og busl og sundtök, og meira að segja húsfreyjan sjálf stóðst ekki mátið og skellti sér í sjóinn til kælingar. Eftir sólbaðið fórum við á Djúpalónssand sem skartaði sínu fegursta og gengum yfir í Dritvík. Í dag er Djúpalónssandur sennilega að verða frægastur fyrir aflraunasteinana fjóra sem þar er að finna í fjörunni en þeir voru notaðir á árum áður til að meta hvort menn væru skipstækir til róðra eður ei. Til að fá skipspláss þurfti að geta lyft Hálfdættingi upp á sérstaka sillu. Steinarnir heita Amlóði (ca 25 kg), Hálfdrættingur (ca 50 kg), Hálfsterkur (um 100 kg) og Fullsterkur (155 kg). Fjölskyldan var nokkuð stolt þegar fjölskyldufaðirinn hóf Hálfsterkan á loft en aðalvandmálið við steinatökin er að ná góðu taki. Við fundum okkur svo góðan náttstað í nágrenninu þar sem var grillað og spilað fram á nótt.
Mynd dagsins er tekin í Skarðsvík, yst á Snæfellsnesi. Þarna áttum við fjöskyldan frábæran dag en í góðu veðri er þetta flottasta baðströnd landsins. Hár klettur skagar út í víkina. Það er mjög vinsælt að hlaupa fyrir klettinn og reyna að sleppa við að öldurnar nái manni. Inga tók þessa mynd af okkur feðgum að leika þann leik
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2009 | 11:42
Sól & grill, sól & grill, sól & .....
Föstudagur 10. júlí 2009
Er hægt annað en að slá upp grillveislu í svona veðri? Svarið er nei, svo við bara gerðum það. Í kvöld komu yfir til okkar nágrannarnir Halli og Ólína með börnin sín þrjú, Margeir, Jón Árna og Elísabetu Tinnu. Á grillið var skellt lambakjöti og grís. Þegar á kvöldið leið dró Inga fram ís og fleira gúmmolaði sem féll í góðan jarðveg. Tíminn leið hratt í góðra vina hópi en þegar leið á kvöldið bættust við vinafólk okkar, Jóhanna og Elvar. Áður en við vissum af var klukkan orðin tvö. Eins gott að barnanefndaryfirvöld sjái ekki þessa síðu því allir krakkarnir voru þá ennþá vakandi þó sumir væru orðnir dálítið þreyttir
Mynd dagsins er tekin á pallinum hjá okkur í kvöld, rétt áður en byrjað var að gæða sér á steikunum. Á myndinni eru frá vinstri: Halli, Jón Árni, Elísabet Tinna, Magnús Árni, Ágúst Logi, Inga og Ólína. Á myndina vantar unglinginn Margeir (og mig!). Mjög skemmtilegt kvöld í góðum félagsskap
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2009 | 23:38
Töffarar á rúntinum
Fimmtudagur 9. júlí 2009
Seinni partinn í dag á leiðin niður á knattspyrnusvæðið á Tungubökkum hér í Mosfellsbænum en þar voru Ágúst Logi og félagar í Aftureldingu að fara að keppa við Njarðvík. Suðurnesjamenn sóttu ekki gull í greipar Mosfellinganna því okkar menn unnu leikinn 8-1. Strax eftir leikinn skutlaði ég Ágústi og Arnari vini hans niður í verslun Europris við Korputorg þar sem hópur knattspyrnukrakka í Aftureldingu var að aðstoða við vörutalningu en Ágúst og Arnar eru að safna sér fyrir þátttöku í knattspyrnumótinu ReyCup sem haldið verður í lok mánaðarins. Að vörutalningunni lokinni fórum við feðgar, ég og Ágúst, á rútinn niður í bæ enda aðrir fjölskyldumeðlimir sofnaðir snemma. Við kíktum á Laugarveginn og Austurvöll þar sem var fullt af fólki og víða setið útivið enda kvöldið mjög fallegt. Þó heilmikið væri af Íslendingum á ferli voru þó útlendingar í meiri hluta og gaman var að keyra framhjá Ingólfstorgi þar sem var nú hreinlega ekki þverfótað fyrir flottum mótorhjólum.
Þar sem við feðgar vorum eiginlega ekkert búnir að borða kvöldmat í kvöld stoppuðum við, að töffara sið, á menningarþúfunni "Bæjarins bestu" og fengum okkur sitt hvora með öllu nema hráum. Mynd dagsins er einmitt af Ágústi Loga þar fyrir utan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2009 | 23:36
Gómsætt grill eftir Laugavegsundirbúning
Miðvikudagurinn 8. júlí 2009
Seinni partinn í dag var ég á skemmtilegum fundi í húsnæði Ferðafélags Íslands í Mörkinni. Fundarefnið var 5 daga gönguferð um "Laugaveginn" sem ég mun fara í, í næstu viku. Þar verði ég fararstjóri, ásamt Ingimar tengdapabba. Löngu er orðið uppsellt í ferðina en í hópnum erum 20 manns. Í dag var haldinn stuttur undirbúningsfundur fyrir ferðina þar sem við fórum yfir helstu atriði tengd ferðinni og hvað þarf að hafa í huga við undirbúninginn. Eftir fundinn komu Ingimar og Anna (tengdó) í kvöldmat til okkar og við skelltum ljúffengu lambakjöti á grillið ásamt pylsum, enda var fínasta veður.
Mynd dagsins tók Inga í kvöld úti á palli hjá okkur þar sem grillmeistarinn mikli er á leiðinni inni með kjet og pylsur fyrir kvöldverðinn nú í kvöld. Maður er bara að komast í fínasta gír fyrir Laugavegsferðina í næstu viku og farinn að verða spenntur
Bloggar | Breytt 10.7.2009 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2009 | 23:31
Fallegt sólarlag í Hrafnshöfðanum
Þriðjudagur 7. júlí 2009
Á sumarkvöldum getur sólarlagið oft verið mjög fallegt séð af pallinum okkar í hér Hrafnshöfðanum, en Hrafnshöfði er gatani sem við búum við í Mosfellsbænum. Í kvöld var sólarlagið mjög skemmtilegt. Sjálfsagt á ég langt í að verða ljósmyndaséní en vonandi skilar þessi mynd einhverju af fallegri stemmingu kvöldsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)