Berir að ofan í tölvuleik

Sunnudagur 26. júlí 2009

Eftir að hafa vaknað þriðja daginn í röð kl. 6 með Ágústi Loga vegna fótboltamótsins REY-CUP var kærkomið að geta lagt sig aðeins undir hádegi. Ágúst var reyndar sjálfur mjög ánægður með daginn þar sem hann hafði verið hetja Aftureldingar í leik morgunsins þar sem þeir félagar lögðu Víkiniga í vítaspyrnukeppni. Hann náði að verja lokaspyrnu Víkinga og þar með tryggja sínum mönnum sigur. Eftir hádegið fengum við góða gesti í kaffi; fyrst mikla vinkonu okkar, frú Sigríði kartöfludrottningu frá Akureyri Smile og síðan Styrmi svila minn ásamt Önnu Dagbjörtu dóttur hans. Seinni partinn fóru allir piltarnir á heimilinu í sívinsælan tölvuleik sem heitir EYETOY.  Í honum er myndavél tengd við tölvuna (playstation) og piltarnir keppa í ýmsum þrautum úti á gólfi þar sem reynir á líkamlega þætti, þrótt og atgervi. Þetta er mjög sniðugt enda er þarna búið að sameina heimspeki íþróttaálfsins og tölvuleiki.

IMG_5130[1]

Mynd dagsins er tekin inn í herbergi hjá Ágústi Loga og sýnir Magnús Árna, Kristinn Þór og Ágúst Loga í EYETOY tölvuleiknum. Þar gegnur mikið á og voru drengirnir orðnir rjóðir og sveittir eftir átökin - og sumir komnir úr að ofan.


Fræknir frændur

Laugardagur 25. júlí 2009

Í gær komu tveir frændur í heimsókn til okkar. Það eru þeir Kristinn Þór (8 ára) og Þorsteinn (2 ára) synir Kristínar Erlu, systur Ingu. Þeir bræður ætla að dveljast hjá okkur í heila viku. Það má því búast við að það verði líf í tuskunum hjá okkur næstu daga. Nú undir kvöld fór Ágúst Logi í grillveislu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og ball á Brodway á eftir. Þessi viðburðir eru hluti af skemmtidagsskrá fótboltamótsins REYCUP sem Ágúst Logi er að taka þátt í þessa dagana. Eftir að hafa skutlað Ágústi og nokkrum félögum hans í Fjölskyldugarðinn, fór ég með hina drengina þrjá á menningarsetrið KFC hér í Mosfellsbæ. Það er semsagt kjúklingastaður þar sem stór leikgrind fyrir krakka með rennibrautum. Við fengum okkur í svanginn og dvöldum þar í góða stund þannig að húsfreyjan á heimilinu fékk mjög gott frí frá barnaumstangi Smile

IMG_5126[1]

Mynd dagsins er tekin við leikgrindina á vetingastaðnum KFC nú í kvöld og sýnir frá vinstri Magnús Árna, Kristinn Þór og Þorstein. Það var mikið fjör hjá okkur!


REY-CUP og grillveisla

Föstudagur 24. júlí 2009

Í morgun fór ég á fætur kl. 6 ásamt Ágústi Loga (eldri syninum). Þessa dagana er Ágúst Logi að keppa á fótboltamótinu RAY-CUP, ásamt félögum sínum hjá 4. flokki Aftureldingar. Þetta skemmtilega fótboltamót er haldið í Laugardalnum fyrir lið í 3. og 4. flokki karla og kvenna (=13-16 ára). Ágúst og félagar áttu leik kl. 8 í morgun og því vorum við mættir ásamt Aftureldingarliðinu í "te og rist" á íþróttavellinum kl. 6:30. Ég tók að mér að vera annar tveggja liðsstjóra og því fór dagurinn í að fylgja drengjum eftir milli valla í Laugardalnum í ágætis blíðu þó lofthiti væri ekki mikill. Ekki skal fjölyrt um úrslit dagsins, þeim þarf að gleyma fljótt Cool. Undir kvöld var svo slegið upp grillveislu fyrir alla drengina hjá "ofur-fótbolta-mömmunni" hér í Mosó, Hönnu Sím. Þar voru grillaðir kjúklingar og pylsur, sem dugðu til að sleikja sárin og vel það. Ekki spillti svo gleðinni þegar meistarflokkur karla sigraði svo Víkinga frá Ólafsvík, í hörku kappleik sem flestir fóru að sjá eftir grillið.

grillveisla

Mynd dagins er tekin úti á palli í grillveislunni í kvöld. Á myndinni situr Ágúst Logi ásamt nokkrum félögum sínum. Í baksýn má sjá grillið með góðum hóp af glorhungruðum úlfum í kring, enda eru strákarnir 35 talsins og alltaf svangir Smile


Hvað er WASGIJ?

Fimmtudagur 23. júlí 2009

Síðustu ár hefur verið ein af föstu hefðunum við jólin hjá okkur í fjölskyldunni að púsla saman eitt risastórt fjölskyldupúsl. Hugmyndin er að hafa það á stofuborðinu og fjölskyldumeðlimir og gestir geti gripið í þegar púsllöngunin grípur. Síðustu ár hefur Magnús Árni verið mjög duglegur í þessu fjölskylduverkefni og núna, þegar allir eru saman heima í fríi (eins og á jólunum) fannst honum viðeigandi að ráðist yrði í sameiginlegt fjölskyldupúsl. Fyrir valinu varð eitt af hinum skemmtilegu WASGIJ? púslum. Þetta er hollenskt (skýrir nafnið Smile) og eru þau sem til eru á heimilinu 1000 bita. Það sem gerir þessi púsl sérstök - og um leið skemmtileg - er að púslararnir vita ekki hvaða mynd þeir eru að púsla. Myndin framan á kassanum sýnir jafnan hóp af mjög undrandi fólki í ýmsum aðstæðum. Púslið gengur svo út á að finna út á hvað þetta ágæta, undrandi fólk er að horfa og þar með hvað gerir fólkið svona hissa eða undrandi. Á mánudaginn byrjaði Magnús að púsla og í morgun kláraðist verkið, reyndar með dyggri hjálp foreldranna.

IMG_5123[1]

Mynd dagsins er að Magnúsi Árna með WASGIJ? púslið. Fremst á myndinni er kassinn með vísbendingarmynd um hvað púslarinn á að fara á púsla og svo kemur meistaraverkið sjálft. Við byrjuðum fljótlega á að hafa púslin á pappaspjaldi þannig að mjög fljótlegt er fjarlægja púslið af stofuborðinu, án skemmda, ef nota þarf borðið í öðrum tilgangi meðan púsl-vertíð stendur yfir. Þetta er þrælskemmtilegt Smile


Sjónvarpsgláp undir sæng

Miðvikudagur 22. júlí 2009

Eftir hádegi í gær fór ég að finna fyrir miklum slappleika og seinni partinn lagðist ég í rúmið. Það var komið stöðugt rennsli úr nefinu á mér og hiti sem fylgdi ágætis hausverkur. Ekki var ástandið betra þegar ég vaknaði í morgun og því var sú ákvörðun tekin að ég yrði í bælinu í dag þrátt fyrir frábært veður úti fyrir. Það er hreint óþolandi að vera veikur á svona degi en maður verður stundum að láta skyndsemina ráða. Það varð því úr að meðan Inga púlaði í garðinum lá ég uppi í rúmi og lagði mig milli þess sem ég horfði á DVD-myndir.

Taken
 

Þar sem þessi dagbók á að fjalla um amk einn ánægjulegan hlut á hverjum degi get ég nú sagt að ég horfði á tvær fínar bíómyndir í dag. Inga leigði fyrir mig myndina TAKEN sem er hörkuspennandi hasarmynd og svo fylgdi með gömul mynd, DaVince Code, sem er orðin fínasta klassík. Maður er nú ekki mjög glæsilegur þegar maður er veikur þannig að mynd dagsins er bara tekin af netinu sem auglýsing fyrir hina ágætu kvikmynd, TAKEN. Sem sagt, þrátt fyrir veru undir sæng í blíðunni gerðist þó eitthvað ánægjulegt í dag Smile


Leirvogurinn ljúfi

Þriðjudagur 21. júlí 2009

Æðislegt verður í dag. Fyrir hádegi tók ég mig til og fór út að skokka. Fyrir valinu varð stígurinn meðfram Leirvoginum hér í Mosó en hann liggur m.a. meðfram golfvelli bæjarins og mjög fjölskrúðugu fuglalífi. Stundum geta kríurnar verið mjög æstar en núna var allt við Leirvoginn með ljúfasta móti enda fallegur dagur. Í morgun var nánast háfjara þegar ég var á ferðinni og þá er nánst hægt að ganga yfir voginn - enda heitir hann ekki Leirvogur af hreinni tilviljunSmile

IMG_5116[1]
 

Mynd dagsins sýnir Leirvoginn við Mosfellsbæ á fjöru. Í baksýn er Esja.

 


Sólin sleikt í Lágafellslaug

Mánudagur 20. júlí 2009

Sumarfrí fjölskyldunnar er byrjað en við Inga erum nú bæði komin í frí. Það er búið að vera alveg ótrúlega heitt í dag. Fyrri hluta dagsins var alveg hreint glampandi sól og við fjölskyldan skelltum okkur í sund þar sem við sleiktum sólina framundir kaffi. Við fórum í Lágafellslaug hér í Mosfellsbænum en þetta er alveg frábær fjölskyldusundlaug sem við sækjum oft, alveg í göngufæri við húsið okkar.

IMG_5112[1]

Mynd dagsins er af Ágústi, Magnúsi og Ingu að sleikja sólina í Lágafellslaug í dag CoolCoolCool


Ættarganga Tungufellsættarinnar

Sunnudagur 19. júlí 2009

Dagurinn í dag fór að mestu leiti í að koma sér heim úr Þórsmörk eftir Laugavegsgöngu síðustu daga. Hópurinn okkar tók rútu til Reykjavíkur eftir hádegið en áður höfðu flestir gengið á Valahnjúk þar sem gott útsýni er yfir Þórsmerkursvæðið. Þegar við komum til Reykjavíkur brunuðum við Ágúst Logi strax austur að Gullfossi og Geysi en á Hótel Gullfossi var sameignlegur kvöldverður eftir Ættargöngu Tungufellsættarinnar sem við tilheyrum. Síðustu 9 ár hefur sú skapast sú skemmtilega hefð að afkomendur Jóns Árnasonar og Sigríðar Árnadóttur (langafi og langamma mín í móðurætt) hafa hist einn dag á sumri og gengið saman skemmtilega dagleið um slóðir forfeðranna. Á eftir hefur svo verið sameignleg kvöldverðarveisla. Jón og Sigríður hófu búskap í Tungufelli í Hrunamannahreppi í byrjun síðustu aldar og áttu 11 börn, 10 þeirra komust til fullorðinsára. Ennþá eru ábúendur í Tungufelli í ættinni. Í dag var sem sagt ættargangan þetta árið. Inga og Magnús Árni fóru í gönguna en við Ágúst náðum í kvöldverðinn á eftir.

IMG_5108[1]

Mynd dagsins er úr kvöldverðarveislunni á Hótel Gullfossi eftir ættargöngu Tungufellsættarinnar í dag. Tæplega 50 manns voru í kvöldverðinum en ekki allir voru með í göngunni. Myndin sýnir okkar fjölskyldu og réttsælis við borðið sitja Ágúst Logi, Mamma, Inga, Magnús Árni, Sigga (móðursystir), Steen (eiginmaður Siggu) og pabbi.


Laugavegur 4: Emstrur - Þórsmörk

Laugardagur 18. júlí 2009

Að vanda lögðu Laugavegsfarar af stað kl. 10 en í dag var síðasti áfangi leiðarinnar á dagskrá, um 15 km ganga inn í Langadal í Þórsmörk. Um hádegibilið gerði á okkur smá skúri en að öðru leiti var veðrið fínt í dag. Það sem gerði þó göngu dagsins óvenjulega var að í dag fór fram Laugavegshlaupið en um 350 hlauparar hlupu þá Laugaveginn í einni bunu. Tæplega kl. 13 geystist fyrsti hlauparinn framhjá okkur en rúmlega 30 mín síðar kom sá næsti og síðan komu þeir hver á fætur öðrum. Hlaupið setti skemmtilegan svip á daginn og við reyndum að hvetja hlauparana sem mest. Rétt áður en komið er að Þórsmörk þarf að fara yfir bratta hæð sem heitir Kápa en margir hlauparana kalla hana "geðveikina". Þá eru aðeins 5 km eftir að hinum 55 km langa Laugavegi. Margir eru þá orðnir mjög þreyttir og að fara upp og niður þessa bröttu hæð tekur vel í. Það sem vakti nú mesta undrun okkar var, að þegar við komum upp á "Kápuna" var búið að lenda þar flugvél. Við nutum svo góðs af hlaupinu við að vaða yfir Þröngá þar sem búið var að strengja band yfir ánna til að hjálpa hlaupurunum en yfir þessa kraftmiklu jökulá þarf að fara yfir með mikill varúð. Þegar við komum inn í Þórsmörk var komin rjómablíða. Flestir smelltu sér í sturtu og hrein föt áður en skellt var upp heljarinnar grillveislu til að fagna farsælum leiðarlokum ferðar okkar. Auðvitað var extra-löng kvöldvaka með leikjum og miklum söng en Ingimar var að sjálfsögðu með nikkuna uppivið öll kvöldin svo göngugarpar gætu sungið í sig kraft.

IMG_5102[1]

Mynd dagsins er að Skagfjörðsskála í Langadal í Þórsmörk þar sem ferð okkar endaði. Alltaf jafn ótrúlega fallegt í Þórsmörk, sérstaklega í góðu veðri Smile 


Laugavegur 3: Álftavatn - Emstrur

Föstudagur 17. júlí 2009

Í dag hófu göngugarpar leikinn um kl. 10 er farið var úr Álftavatni yfir í Emstur en skálinn þar heitir reyndar Botnar. Í dag er gönguleiðin um 16 km en mestur hluti leiðarinnar liggur um flata en gróðurlitla sanda. Fyrri hluta leiðarinnar þarf að vaða tvær ár, Bratthálskvísl og Bláfjallakvísl en þær eru þó hvorugar mjög stórar. Bláfjallkvísl er þó mun stærri og er fræg fyrir að vera alltaf alveg ísköld. Hún stóð alveg undir þeim væntingum í dag. Eftir að hafa tekið góða kaffipásu í Hvanngili, sem er skáli eftir 4-5 km frá Álftavatni, tók að þykkna í lofti og síðustu tvær klukkustundir dagsins fengu regnföt göngugarpa að spreyta sig í fyrsta skipti í ferðinni þegar við fengum á okkur netta skúri. Við vorum komin kl. rúmlega fjögur í skálann í Emstrum og um kvöldið fóru allir flestir í mislanga göngutúra að Markarfljótsgljúfrum sem eru rétt við Emstruskálan - í fínu veðri. Kvöldvakan í kvöld var höfð í styttra lagi enda erfiður lokadagur framundan.

IMG_5099[1]

Mynd dagins er af Ágústi Loga að vaða yfir ánna Bratthálskvísl. Ágúst var í sérstökum vaðsokkum úr svipuðu efni og blautbúningar, þannig að það var ekki mikið mál fyrir hann að skoppa yfir árnar í dag Cool 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband