"Týndi" sonurinn kominn heim!

Fimmtudagurinn 21. ágúst 2014

Í blíðunni í kvöld héldum við mikla grillveislu hér á heimilinu. Tilefnið var ekki bara það að Guðrún mágkona var í heimsókn, heldur var líka von á Ingimar tengdapabba í mat og ekki síður Rúnari Inga (syni Jónu mágkonu) og Örnu kærustunni hans, en Rúnar er nú fluttur í höfuðborgina til að hefja nám í Háskóla Íslands. Rúsínan í pylsuendanum var svo heimkoma frumburðarins á heimilinu, Ágústar Loga, sem nánast flutti að heiman í sumar þar sem hann var að vinna út á landi.

Í dag var semsagt síðasti vinnudagur Ágústar í sumarvinnunni en hann hefur starfað í sumar í blómarækunarstöðinni Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum. Espiflöt er ein af stærstu (ef ekki sú stærsta) blómaræktunarstöðvum landsins. Vegna þessa hefur Ágúst búið hjá Ingimar afa sínum í sumar en hann býr einmitt í Reyholti. Sambúðin hefur gengið mjög vel að sögn þeirra beggja en þó hefur Ágúst verið duglegur að koma heim um helgar og einstaka kvöld til að hitta fjölskyldu og vini.

Eins og sönnum herramanni sæmir færði Ágúst Logi mömmu sinni auðvitað blómvönd við heimkomuna og það var glatt á hjalla í grillveislu kvöldsins. Skólinn hefst svo hjá dregnum strax í fyrramálið.

blómadrengur

Mynd dagins er af blómadreng heimilisins nú í kvöld með blómvöndinn sem hann færði mömmu sinni. Vegna vinnu sinnar í blómræktunarstöðinni Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum, þurfti Ágúst Logi nánast að flytja að heiman í sumar. Í dag var síðast vinnudagurinn og skólinn byrjar á morgun. Dregurinn flutti því heim aftur í dag og því var fagnað með flottri grillveislu og góðum gestum Cool

 


Stjörnuskinið ekki nógu skært

Miðvikudagurinn 20. ágúst 2014

Í kvöld var stór dagur í knattspyrnusögu okkar Íslendinga þegar stórlið Inter Mílanó mætti á Laugardagsvöll til að etja kappi við lið Stjörnunar úr Garðabæ. Þar sem ég er nú mikill áhugamaður um knattspyrnu var ég nokkuð spenntur að fara á þenna leik en þar sem uppselt varð á leikinn á stuttum tíma varð ekkert af því. Í staðinn fór ég með Magnúsi Árna á sport-barinn hér í Mosfellsbænum, Hvíta riddarann. Þar var fullt út úr dyrum eins og oftast er þegar stórleikir í knattspyrnu fara fram því þarna er hægt að horfa á leiki á breiðtjöldum í öllum hornum og borða og/eða drekka eitthvað gott með.

Eins og við var að búast var leikurinn mjög erfiður fyrir Garðbæingana sem hreinlega mættu þarna ofjörlum sínum á knattspyrnusviðinu. Það er svo sem enginn skömm, því Inter Milan er eitt að stærstu liðum í Evrópu og ætti að hafa heimsklassa leikmenn í hverri stöðu. Þrátt fyrir 0-3 tap stóð Stjarnan sig vel í leiknum og er aldeilis búin að standa sig vel í Evrópuleikja-törnininni sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Til hamingju með flottan árangur Stjörnumenn!

Það er ekki oft sem stórlið knattspyrnunnar koma til Íslands. Við þennan leik rifjast upp mjög eftirminnilegur leikur Skagamanna gegn hollenska liðinu Feyenord sem fram fór á Laugardagsvellinum 1993. Þá stóðu Skagamennirnir heldur betur í Hollensku snillingunum og voru bara betri í leiknum ef eitthvað var. Það fór líka svo að okkar menn sigruðu 1-0 með eftirminnilegu marki frá jaxlinum Óla Þórðar. Eftir þennan sigur greip um sig mikið æði og hátt í 1.000 Íslendingar mætti á seinni leikinn í Hollandi. Sjálfur fór ég í eftirminnilega sólahringsferð á leikinn þar sem flugvél var fyllt af íslenskum fótboltaáhugamönnum sem flugu til Hollands snemma að morgni, áttu gott bæjarrölt yfir daginn, fóru á leikinn um kvöldið og svo var flogið heim upp úr miðnætti. Því miður áttu okkar menn lítinn séns í seinni leiknum og töpuðu. En stemningin í ferðinni og vellinum var engu lík. Mér er til efs að nokkru sinni hafi verið sungið jafn mikið á íslenskum fótboltaleik en á svæðinu sem ég sat á var stór hópur fólks sem söng allan tíman ýmis íslensk lög; rétt eins og maður væri staddur á Brekkusöngnum í Eyjum á Þjóðhátíð. 

Stjarnan

Mynd dagsins er tekin á veitingahúsinu Hvíta riddaranum hér í Mosfellbænum í kvöld þar sem við Magnús Árni fórum og horfðum á merkilegan knattspyrnuleik Stjörnunar úr Garðabæ við stórliðið Inter Milan sem fram fór á Laugardagsvellinum. Mílanóbúarnir voru því miður einhverjum númerum of stórir fyrir Garðbæingana en engu að síður var leikur bara hin ágætasta skemmtun. 


Bloggfærslur 22. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband