Færsluflokkur: Bloggar
21.3.2010 | 16:54
Hugað að heilsuklasa
Fimmtudagur 4. mars 2010
Í kvöld fór ég á mjög forvitnilegan fund hér í Mosfellsbænum þar sem kynntar voru hugmyndir um heilsuklasa í Mosfellsbæ. Á fundinum voru um 60 manns og var umfjöllunaratriði fundarins að kanna hvort áhugi væri í bænum að koma á samstarfsvettfangi á sviði heilsutengdrar þjónustu. Nokkur áhugaverð erindi um málið voru haldin. Þar kom meðal annars fram að markmið Mosfellsbæjar með uppbyggingu á sviði heislutengdrar þjónustu er að tvöfalda fjölda starfa í heilsugeiranum á hverjum fimm ára tímabili og að Mosfellsbær verði leiðandi á sviði heilsueflingar og endurhæfingar á landinu. Frekari upplýsingar um umfjöllunarefni fundarins er að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar (m.a. glærur allra framsögumanna). Eitt bitastæðast verkefnið hér í bænum er án efa opnun heilsþjónustufyrirtækisins PrimaCare sem stefnir á að byggja í vænum stórt einkareikið liðskiptasjúkrahús og hótel því tengdu. Þar hefur stefnan verið sett á að fyrsta aðgerðin fari fram 12.12 árið 2012. Sannarlega gaman að vera á þessum spennandi fundi nú í kvöld
Mynd dagsins er fengin að láni frá Mosfellsbæ og sýnir flesta þátttakendur á fundinum í kvöld um heilsuklasa þar sem mjög áhugaverð umræða fór fram. Ég sit þarna fyrir miðri mynd ef vel er leitað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2010 | 11:18
Hvor er sú rétta?
Miðvikudagur 3. mars 2010
Árið 1971 áttu afi minn og amma 40 ára brúðkaupsafmæli. Þau eru bæði ættuð frá Vestfjörðum og tengjast bæði rækilega m.a. inn í Arnarfjörð. Þar er að finna bæinn Hrafnabjörg í Lokinhamradal sem forfaðir þeirra beggja byggði snemma á síðustu öld. Amma var m.a. vinnukona þarna um tíma. Í tilefni brúðkaupsafmælisins ákváðu pabbi og systur hans að gefa ömmu og afa fallegt málverk af svæðinu í afmælisgjöf sem þau fengu listmálarann Eggert til að mála. Málverkið var málað eftir ljósmynd sem pabbi hafði tekið nokkru áður þegar hann var á ferðalagi um svæðið. Auðvitað var mikil ánægja með þetta glæsilega málfverk. Amma (og einhverjir fleiri) voru að mér skilst, samt aldrei alveg sátt við málverkið - eitthvað var við myndina sem kom ekki heim og saman. Ekki veit ég hver það var sem leysti gátuna en upp komst að málverkið var spegilmynd af ljósmyndinni sem tekin var. Ljósmyndin var nefnilega slide-mynd og hafði listamaðurinn snúið myndinni öfugt þegar hann málaði myndina Það voru því góð ráð dýr og málarinn snaraði fram nýju málverki þar sem allt var á sínum stað. Pabbi fékk að eiga spegilverkið og hangir það á vegg á æskuheimili mínu heima hjá mömmu og pabba. Í dag ákváðum við, til gamans, að láta málverkin hittast og taka mynd af þeim hlið við hlið
Mynd dagsins er ljósmynd sem ég tók þegar við mátuðum saman bæði málverk Eggerts af Hrafnabjörgum. Málverkin eru spegilmynd hvort af öðru og hafa líklega aldrei "hist" áður. Pabbi, Ágúst Logi og Magnús Árni stilltu sér upp við málverkin. Nú er bara spurning hvort er það rétta??? Fyrir mjög forvitna skal það upplýst að myndin til hægri er sú rétta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2010 | 11:18
Jákvætt hópefli
Þriðjudagur 2. mars 2010
Í vinnunni í dag hlustaði ég á mjög skemmtilegan fyrirlestur frá Gunnari E. Steingrímssyni djákna í Gravarvogskirkjku. Umfjöllunarefnið var hópefli, sem hann skilgreinir sem jákvæða upplifun sem hópur fólks á saman og skilur eftir sig góðar minningar sem fólk getur nærst á í einhvern tíma á eftir. Hópefli má nota til að þjappa fólki saman, t.d. á vinnustöðum og búa til góða liðsheild, auka samheldni, efla traust og styrkja samskiptin. Jákvæðni gegnir lykil hlutverki í góðu hópefli enda undirstaða þess að hópeflið gangi vel, verði gaman og þjóni tilgangi sínum. Þetta var mjög gott spjall hjá Gunnari til að minna okkur á að bestu hlutirnir í lífnu þurfa ekki að vera flóknir eða dýrir.
Mynd dagins er af Gunnar E. Steingrímssyni að spjalla um jákvætt hópefli í mjög skemmtilegu erindi sem ég hlustaði á í dag. Auk þess lét Gunnar okkur gera nokkrar skemmtilega hópeflisæfingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2010 | 11:14
Bleika hásinin
Mánudagur 1. mars 2010
Í lok janúar náði ég að slasa mig á hásin við fótboltaiðkun. Ekki er nú um að ræða að hásin hafi slitnað en eitthvað hefur teygst á henni og ég er mjög aumur og bólgin. Nú síðasta mánuðinn hef ég verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara 2-3svar í viku. Það er Eiríkur, sjúkraþjálfari í Orkuhúsinu sem hefur verið að hamast við að koma mér í lag aftur. Meðferðin gengur vel - hægt en ágætlega. Eiríkur hefur sett mig í styrktaræfinar á hásininni en ég hef lítið sem ekkert mátt hlaupa. Ég er því ekkert á leið í fótbolta aftur fyrr en eftir páska í fyrsta lagi.
Mynd dagsins er af hásininni á mér sem er nú í víðtækri endurhæfingarmeðferð hjá Eiríki sjúkraþjálfara eftir fótboltaslys í janúar. Eitt af því sem Eiríkur hefur verið að prófa er að setja á mig sérstakt styrktarlímband (teip) til að aðstoða hásinina við að mæta álagi. Það vill svo skemmtilega til að teipið er bleikt á lit þannig að út úr þessu verður hið mesta listaverk - nú er bara að vona að meðferðin gangi vel og bleika hásinin komist í lag sem fyrst!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2010 | 22:47
Komdu út að leika!
Sunnudagur 28. febrúar 2010
Loksins er kominn snjór hér sunnan heiða. Þetta er alveg frábært. Þar sem við fjölskyldan voru frekar upptekin í gær var ákveðið fara út í snjóinn að leika í dag. Ágúst Logi þurfti reyndar að vera inni vegna hálskirtlatökunnar (sjá færslu fimmtudagsins) en Magnús Árni fékk þá að njóta sín til fulls úti í snjónum með foreldrunum. Fyrst var búinn til snjókarl en svo gerðum við tvö snjóvirki með nokkra metra millibili. Þá var hægt að fara í æsispennandi fjölskyldusnjókast milli virkja sem var mjög skemmtilegt. Það er gaman að fara út að leika!
Mynd dagins er tekin út í snjónum hér í Hrafnshöfðanum í dag. Þarna er Magnús Árni með snjókarli fjölskyldunnar. Það er ekki oft sem við sjáum mikinn snjó hérna í Mosfellsbænum þannig að það er um að gera að nota helgina til að leika sér
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2010 | 22:47
Heida heldur afmæli!
Laugardagur 27. febrúar 2010
Í kvöld fórum við Inga í skemmtilegt afmæli. Það er Heida vinkona okkar, sem hélt upp á fertugsafmæli sitt með miklum stæl í Rafveitusalnum við Elliðaárnar. Heida er unnusta Erlings, æskuvinar míns af Skaganum. Það var mikið um dýrðir í afmælinu. Boðið var upp á glæsilegt veisluhlaðborð og drykki af ýmsum gerðum eins og hver gat í sig látið. Í einu horninu var búið að útbúa myndasýningu með fjölda mynda úr lífshlaupi Heidu þessi fyrstu 40 ár. Þegar við Inga héldum heim á leið um kl. 1 var ennþá verið að dansa á fullu. Mjög skemmtilegt afmæli og góðar veitingar
Mynd dagsins er tekin í 40 ára afmæli Heidu nú í kvöld. Þarna er afmælisstúlkan sjálf ásamt unnustanum Erlingi. Flott kvöld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 21:35
Sofið á video-kvöldi fjölskyldunnar
Föstudagur 26. febrúar 2010
Vegna aðgerðar eldri sonarins (sjá færslu gærdagsins) var ákveðið að fjölskyldan skylda taka það rólega saman í kvöld. Strákarnir fengu að velja sér DVD-myndir sem við leigðum og eina mynd reyndum við að horfa á saman. Ég segi reyndum því fljótlega eftir að allir voru búnir að koma sér þægilega fyrir og myndin var komin í gang, steinsofnaði ég og dottaði svo meira og minna allt kvöldið. Ég náði því ekki að halda söguþræðinum en á það til góða að horfa síðar á hina skemmtilegu mynd Upp sem yngri sonurinn, Magnús Árni, hafði valið fyrir okkur. Það er samt bara hrikalega gott að fara sofa snemma á föstudagskvöldi, svona til tilbreytingar
Mynd dagsins er auglýsingamynd vegna kvikmyndarinnar "Upp" sem við fjölskyldan ætluðum að horfa á saman í kvöld. Ég sofnaði fljótlega og missti því að þessari ágætu skemmtun en það var svakalega gott að sofa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 21:34
Hálskirtlarnir fjúka!
Fimmtudagur 25. febrúar 2010
Í morgun fór eldri sonurinn á heimilinu, Ágúst Logi, í hálskirtlatöku. Þennan veturinn hefur hann verið að fá síendurteknar sýkingar í hálsinn og oftar en ekki verið að þurfa að fara á sýklalyfjakúra. Eftir skoðanir lækna er niðurstaðan að best sé fyrir piltinn að fá fjarlægða hálskirtlana. Í dag var semsagt stóra stundin runnin upp og var aðgerðin framkvæmd á handlæknastöðinni í Glæsibæ. Aðgerðin sjálf tók ekki nema 20 mínútur en kappinn var svæfður á meðan. Um hálftíma eftir aðgerðina vaknaði Ágúst og fékk ís að sjálfsögðu en svo lagði hann sig dágóða stund áður en hann var tilbúinn að fara heim á leið. Í kvöld hefur drengurinn svo hakkað í sig ís í gríð og erg enda er það nánast það eina sem hann getur borðað þessa stundina. Verkir eru aðeins byrjaðir að gera vart við sig en að öðru leiti er Ágúst hinn sprækasti. Ágúst Logi fær frí í skólanum í heila viku en fær ekki að stunda íþróttir í tvær vikur. Þetta er auðvitað dálítið erfitt að lifa við en tíminn núna fyrir aðgerðina er einmitt valinn með knattspyrnusumarið í huga - betra er að missa úr æfingar núna heldur en í vor eða sumar.
Mynd dagins af Ágúst Loga og er tekin á handlæknastöðinni í Glæsibæ í dag. Þarna er hann rétt orðinn hálskirtlalaus og er að vakna eftir aðgerðina. Hann fékk ís til hressingar og nú er bara að harka af sér í 1-2 vikur. Vonandi er hann svo laus við síendurteknar sýkingar í hálsi til frambúðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 21:32
Fundað um knattspyrnustefnu
Miðvikudagur 24. febrúar 2010
Í kvöld fór ég á skemmtilegan fund um stefnumótun Knattspyrnudeildar Aftureldingar í Mosfellsbæ. Þessi fundur er sá síðasti í þriggja funda röð um stefnu deildarinnar sem haldin hefur verið síðustu vikur. Eins og komið hefur fram áður í þónokkrum færslum, var ég um skeið í forystusveit knattspyrnudeildarinnar. Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessum fundum enda nauðsynlegt að deildin fari í naflaskoðun á störfum sínum með reglubundnum hætti. Ekki er ástæða til að rekja frekar efni fundanna hér en starf knattspyrnudeildarinnar er merkt og mikilvægt fyrir bæjarfélagið. Gaman er að taka þátt í því og leggja sitt af mörkum.
Mynd dagsins er fengin af láni úr gamalli ársskýrslu Knattspyrnudeildar Aftureldingar en í kvöld var ég með góðu fólki á skemmtilegum fundi um stefnumótun í knattspyrnunni hér í Mosfellsbænum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 10:56
Spaghettí!!!
Þriðjudagur 23. febrúar 2010
Í kvöld bauð húsfreyjan á heimilinu upp á hakk og spaghettí í kvöldmatinn. Þetta er mjög vinsæll réttur hjá öllum heimilismönnum og auðvitað skófluðum við í okkur af bestu lyst. Magnús Árni (7 ára) tók vel á því og í lok matartímans var ljós að ekki hafði allur maturinn farið á rétta staði. Hann féllst þó ekki á að leyfa miklar myndatökur en þessi er sú besta sem við náðum að taka
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)