16.9.2009 | 19:12
Vinna, vinna, vinna...
Mánudagur 14. september 2009
Þessa dagana er frekar mikið að gera hjá mér í vinnunni. Dagurinn í dag var nokkuð strembinn og þegar ég kom heim undir kvöldmat var margt óleyst. Ég sat því við tölvuna fram á nótt. Svona er lífið stundum en sem betur fer er ég í mjög skemmtilegri vinnu!
Mynd dagsins er tekin nú í kvöld. Þarna er ég kominn heim og sit við fartölvuna. Í fyrra gaf Inga mér forláta púða með spjaldi á annari hliðinni en þessi púði er sérhannaður undir fartölvur og nýtist vel því stundum þarf maður að vinna í tölvunni á kvöldin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2009 | 00:32
Flutt úr Fífusundinu
Sunnudagur 13. september 2009
Alla helgina (fyrir utan gærkvöldið, sjá færslu gærdagsins) höfum við fjölskyldan staðið í ströngu upp á Hvanneyri. Þar búa tengdaforeldrar mínir, Anna og Ingimar, en nú um helgina vorum við að aðstoða þau við að flytja. Síðstu 36 ár eða svo, hafa þau skötuhjú búið í Fífusundi við Hvanneyri en nú liggur leiðin í Borgarnes. Reyndar eiga þau líka íbúð í Reykholti í Biskupstungum svo með sanni má segja að þegar einar dyr lokast, opnist nýjar annars staðar. Flutningarnir hafa átt sér nokkurn aðdraganda enda er gríðarlegt magn af dóti sem þarf að fara í gegnum eftir svona langan búskap. Þetta gekk þó allt saman vel og í gær fluttum við þann hluta búslóðarinnar sem átti að fara í Borgarnes á sinn stað. Í dag var svo lokafrágangur og farið með drasl á tilheyrandi stað. Svo fórum við Ingimar, ásamt Magnús Árna, með hluta búslóðarinnar austur í Reykholt. Á meðan voru Inga og systur hennar Kristín Erla og Jóna ásamt Rögnu systur Önnu, á fullu við að taka upp úr kössum og raða húsgögnum í íbúðinni í Borgarnesi sem stefnir bara í að verða hin glæsilegasta.
Mynd dagsins er tekin fyrir utan Fífusund. Hún er nokkuð táknræn fyrir flutningana um helgina en hún sýnir Fífusund og flutningabíl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2009 | 00:10
Harry, ég var að spugulera...!!!
Laugardagur 12. september 2009
Í kvöld var leikhúsferð hjá fjölskyldunni. Leikhús er munaður sem maður getur ekki leyft sér of oft en í kvöld fórum við öll fjölskyldan í Borgarleikhúsið og sáum frumsýningu á leikritinu "Harry og Heimir". Þetta leikrit byggir á útvarpsþáttum sem fluttir voru á útvarpsstöðinni Bylgjunni fyrir 20-25 árum en höfuðpaurarnir í ævintýrinu er Spaugstofumennirnir Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason sem leika öll hlutverkin sjálfir. Útvarpsþættirnir eru vægast sagt í léttari kantinum og þarna skapast vettfangur þar sem fimm-aura brandararnir bókstaflega flæða eins og stórfljót. Þar sem strákarnir okkar hafa hlustað nokkuð á þættina og við Inga þekkjum þá frá fornu fari, voru líklega allir í fjölskyldunni jafnspenntir að sjá leikritið. Og það olli sannarlega ekki vonbrigðum...! Allt var í stíl við útvarpsþættina og ef manni finnst þeir skemmtilegir er leikritið æðislegt. Flestir í leikhúsinu veltust um af hlátri alla sýninguna (þar með talin við). Greinlegt var þó að ekki allir voru með rétta húmorinn fyrir þetta þar sem við urðum nú vör við að ekki allir áhorfendur skiluðu sér til baka eftir hlé. En fyrir okkur fjölskylduna var þetta alveg frábær sýning!!!
Mynd dagsins er tekin í Borgarleikhúsinu í kvöld á frumsýningu leikritisins "Harry og Heimir". Ágúst Logi og Magnús Árni stilltu sér upp við auglýsingaskilti og fóru að "spugulera" en það er vísun í eina frægust setningu sem tengist Harry og Heimi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2009 | 23:50
Síðbúið afmæli...
Föstudagur 11. september 2009
Í kvöld fórum við Inga út að borða. Tilefnið var að halda upp á afmæli hennar sem reyndar var hinn 30. ágúst en okkur hefur ekki gefist tími til almennilegra hátíðarhalda fyrr en nú. Fyrir valinu var hinn skemmtilegi staður Caruso, á Laugaveginum. Caruso hefur síðustu ár verið meðal vinsælustu veitingastaða landsins en þar er ítölsk matargerð höfð í hávegum og tekist mjög vel til.
Mynd dagsins er tekin í kvöld á veitingastaðnum Caruso á Laugaveginum. Myndin er tekin á farsímann þannig að gæðin urðu ekkert spes, en engu að síður mjög ángæjulegt og skemmtilegt kvöld!
Bloggar | Breytt 14.9.2009 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2009 | 23:44
Bragðgott bakarí
Fimmtudagur 10. september 2009
Við hér í Mosfellsbænum eigum ægilega fínt bakarí, Mosfellsbakarí. Það er nú reyndar ekkert sniðugt að fara þangað of oft svo maður verði ekki kúlulaga í laginu. En einstaka sinnum fellur maður fyrir freistingunum. Í gær og dag var Ágúst Logi hálfslappur þannig að seinni partinn í dag fór ég út í bakarí og keypti eitthvað gott til að hressa hann við (og líka fleiri fjölskyldumeðlimi).
Mynd dagins er úr Mosfellsbakaríi og gefur vonandi innsýn í allt það ljúffenga og bragðgóða sem þar er á boðstólnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2009 | 23:17
Þar sem lýsið lekur af lyfjafræðingum...
Miðvikudagur 9. september 2009.
Undanfarin 10 ár eða svo hef ég mætt flest miðvikudagskvöld í íþróttahúsið hér að Varmá og spilað fótbolta. Í yfir 20 ár hafa karlkyns lyfjafræðingar (sem eru í minnihluta í stéttinni) hist einu sinni í viku yfir veturinn og spriklað í fótbolta. Við erum á öllum aldri og höfum bara mjög gaman af þessum sið. Venjulega mætum við 8-12 í hvern tíma og spilum í eina klukkustund (sem er alveg nóg). Svo fylgja auðvitað með helstu sögur sem ganga í bransanum og farið yfir þjóðfélagsmálin.
Mynd dagsins er tekin í lyfjafræðingafótboltanum í kvöld en mér fannst alveg tilvalið að hafa eina fótboltamynd hérna í viðbót þar sem þær hafa verið áberandi síðustu daga. Myndir sýnir þá sem mættu í kvöld og eins og sjá má var vel tekið á því og lýsið rann af mönnum. Á myndinni eru frá vinstri: Efri röð Haukur, Rikki og Ari. Neðri röð Maggi, Eggert, Finnbogi, ég og Sverrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2009 | 23:09
Kylfurnar kítlaðar í Kiðabergi
Þriðjudagur 8. september 2009
Seinni partinn í dag plötuðu nokkrir vinnufélagar mig með sér í að spila golf. Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður er ég ekki mikill golfari. Hef reyndar ekkert spilað golf síðan ég var krakki. Ég fékk lánað kylfusett en mætti í gallabuxum og strigaskóm sem er víst alls ekki vel séð í golfheiminum. Við fórum á völlinn Kiðaberg í Grímsnesinu sem kunningir segja með flottari golfvöllum landsins. Þrátt fyrir að í byrjun hafi komið kröftugur rigningarskúr var veðrið að öðrum leiti alveg frábært. Frammistaða mín var nú bara þokkaleg miðað við fyrstu kynni við golfkylfur í áratugi og það fór eins og ég óttaðist: þetta var hrikalega gaman. Mig hefur nefnilega lengi grunað að ég fengi algera golfdellu ef ég færi að prófa golfið og því hef ég forðast það. Þetta hlýtur nú samt að vera í lagi svona í lok sumars! Eftir golfhringinn bauð einn félaginn okkur í bústað sinn í nágrenninu þar sem við grilluðum og áttum við þar góða stund.
Mynd dagsins er tekin í kvöld, í blíðunni á Kiðabergsvelli. Í baksýn er Hvítá en á myndinni eru þeir Biggi og Samúel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2009 | 22:38
Núlla!
Mánudagur 7. september 2009
Þó það hafi verið brjálað að gera hjá mér í allan dag tókst mér að finna smá smugu nú undir kvöld til að grípa í spil með Magnúsi Árna. Við spiluðum hið merka spil "núlla" sem þeir bræður eru nýbúnir að kenna mér en þessu spili kynntist ég nú ekki í minni æsku. Skemmtilegt og fjörugt spil og mikið gaman.
Mynd dagsins er af Magnúsi Árna við spilamennskuna. "Núllan" alveg stórskemmtilegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2009 | 21:19
3.-4. sæti er frábær árangur!
Sunnudagur 6. september 2009
Í dag var ég á Akureyri (sjá færslu gærdagsins). Eftir að hafa verið boðinn í morgunkaffi hjá vinafólki, þeim Siggu og Svansa, fylgdist ég með síðasta leik Aftureldingar í úrslitakepninni. Að þessu sinni voru það heimamenn í Þór sem urðu fyrir barðinu á Aftureldingarstrákunum en leikurinn endaði 4-1 fyrir Aftureldingu. Í liði Þórs spilar Bergvin, sonur áðurnefndra hjóna, þannig að við fórum saman á völlinn. Það urðu þó engin slagsmál á áhorfendabekkjunum Aftureldingarstrákarnir biðu svo með öndina í hálsinum eftir úrslitum úr leik KA og Fylkis, en sigur Fylkis myndi þíða að okkar strákar væru komnir í úrslitaleikinn. Fylkismenn voru yfir í hálfleik en rétt fyrir leikslok jafnaði KA þannig að Ágúst Logi og Aftureldingarstrákarnir misstu af úrslitaleiknum og þar með Íslandsmeistaratitilinum. Engu að síður lentu þeir í 3.-4. sæti sem er nú alveg frábær árangur hjá þeim. Á leiðinni heim kom ég við á Hvanneyri og sótti Ingu og Magnús Árna sem þar voru um helgina og þáði ljúffengan kvöldmat sem Anna tengdamamma töfraði fram.
Mynd dagsins er af strákunum í 4. flokki Aftureldingar sem urðu í 3.-4. sæti í Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 2009. Frábært hjá þeim!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2009 | 22:20
15 ára greifi!
Laugardagur 5. september 2009
Ég vaknaði eldsnemma í morgun til að bruna til Akureyrar til að fylgjast með Aftureldingarstrákunum í 4. flokki keppa í úrslitakeppni Íslandsmótsins (sjá færslu 2. september 2009). Inga og Magnús Árni fóru hins vegar upp á Hvanneyri til tengdaforeldra minna að hjálpa til við stórtiltekt sem þar fer fram um helgina. Ég var kominn til Akureyrar rétt fyrir hádegið en leikur dagsins hjá drengjunum hófst kl. 12. Þar unni þeir Fylki 4-1 en höfðu í gær tapað mjög óheppilega 0-1 fyrir KA. Eftir leikinn fórum við Ágúst Logi til Jónu mágkonu en Rúnar Ingi (sonur hennar) á 15 ára afmæli í dag og var boðið upp á kökur o.fl. Við fórum svo fjögur út að borða í kvöld í tilefni afmælisins. Afmælisdrengurinn valdi veitingastaðinn Greifann þar sem víð áttum góða stund áður en við skiluðum Ágúst Loga aftur til félaga sinna í Aftureldingarliðinu.
Mynd dagins er tekin á veitingastaðnum Greifanum á Akureyri nú í kvöld þar sem 15 ára afmæli Rúnars Inga var fagnað
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)