Afmælisdagur mömmu!

Mánudagur 1. febrúar 2010

Mamma á afmæli í dag - eins og gefur að skilja er hún nokkru eldri en ég en annars var manni kennt það í æsku að ræða ekki aldur kvenna opinberlega Smile Seinni partinn skruppum við á Skagann í afmælisveislu. Inga var reyndar ekki með þar sem hún lagðist í rúmið í gærkvöldi með hálsbólgu og leiðindi. Held að það sé nú ekki sumarbústaðaferðin sem var svona erfið fyrir hana heldur eitthvað sem er búið að gerjast lengur. Á Skaganum var auðvitað vel tekið á móti okkur feðgum þar sem við áttum góða stund með mömmu og pabba í tilefni afmælisins.

IMG_6880[1]

Mynd dagins er tekin á Skaganum í kvöld í afmælisveislu mömmu. Þarna eru Magnús Árni og Ágúst Logi með mömmu og pabba!


Pottormar í pottinum!

Sunnudagur 31. janúar 2010

Við vöknuðum kát og hress í blíðskaparveðri í bústað Ástþórs og Sigrúnar í Skorradal. Eftir morgunverð skelltu flestir sér í morgunbað í pottinum. Svo snæddum við ljúffengan hádegisverð og gripum aðeins í spil áður en horft var á handbolta þar sem Ísland tryggði sér bronsverðlaun á Evrópumótinu í handbolta með því að leggja Pólverja að velli. Þetta var alveg frábær helgi í góðra vina hópi SmileSmileSmile

IMG_6853[1]

Mynd dagsins er tekin í pottinum við sumarbústað Ástþórs og Sigrúnar í Skorradal. Þarna eru ansi margir pottormar komnir saman og varla hægt að koma fleirum í einu í pottinn!!


Sumarbústaðaferð í Skorradal

Laugardagur 30. janúar 2010

Í hádeginu í dag vorum við fjölskyldan komin upp í Skorradal. Þar á vinafólk okkar, Ástþór og Sigrún, glæsilegan sumarbústað. Þau skötuhjú, ásamt dótturinni Ástrósu, buðu okkur í heimsókn með strákana og auk þess voru með okkur vinafólk okkar Sævar og Hafdís ásamt börnum sínum þremur, þeim Arnari, Katrínu og Helenu. Við byrjuðum á því að horfa á handboltaleik milli Íslands og Frakklands, sem því miður fór ekki nógu vel. Eftir leikinn var skellt í vöfflur fyrir allan hópinn og svo fóru flestir í smá fjallgöngu enda veðrið hreint alveg guðdómlegt. Eftir góða fjallgöngu fóru svo flestir í heita pottinn og svo var töfruð fram þrírétta gómsæt máltíð með hjálp útigrillsins. Við fengum grillaðan humar í forrétt og fylltan lambahrygg í aðalrétt - alveg hreint frábærlega gott en þeir félagar Sævar og Ástþór áttu heiðurinn af máltíðinni. Við sátum svo við spilamennsku til að ganga fjögur um nóttina og var mikið hlegið enda við í frábærum félagsskap.

IMG_6850[1]

Mynd dagsins er tekin í fjallgöngu í Skorradal í dásamlegu veðri í dag. Vatnið er í baksýn og á þessari mynd eru: Efri röð frá vinstri: Sævar, Arnar Freyr, ég og Ágúst. Neðri röð: Sigrún, Ástrós, Katrín, Ástþór og Magnús Árni.


Inga skiptir um deild

Föstudagur 29. janúar 2010

Í kvöld vorum við Inga í skemmtilegu matarboði. Inga hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á Reykjalundi í nokkur ár. Nú um mánaðarmótin er hún að skipta um deild og frá og með fyrsta febrúar ætlar hún að starfa á nýrri deild á Reykjalundi sem verið er að stofna. Deildin er legudeild og kallast Miðgarður. Hjúkrunarfræðingarnir á gömlu deildinni ákváðu að halda matarboð í kveðjuskyni fyrir Ingu og var það haldið heima hjá Rögnu, deildarstjóranum. Við áttum mjög skemmtilegt kvöld. Boðið var upp á þrírétta máltíð og svo spiluðum skemmtilegt spurningaspil saman og fórum í fleiri leiki. Við áttum mjög góða stund fram á nótt.

IMG_6822[1]

Mynd dagsins er úr matarboði kvöldsins sem hjúkrúnarfræðingarnir úr samstarfshóp Ingu á Reykjalundi, héldu henni í kveðjuskyni þar sem hún færir sig yfir á nýja deild nú á mánudaginn. Aldeilis frábært kvöld! Á myndinni eru frá vinstri: Kristján, Nína, Einar, Jóhanna, Ragna, Albert, Gústi, Hafdís og Inga.


Tannlæknirinn tekur tvær tennur!

Fimmtudagur 28. janúar 2010

Í dag fylgdi ég Ágústi Loga syni mínum til tannlæknis. Hann hefur verið hjá sama tannlækni síðan hann var pínulítill en það er hinn mjög svo ágæti Magnús Kristinsson. Í dag var stórt verkefni á dagskrá - fjarlægja þurfti tvær barnatennur. Ástæða þessa inngrips tannlæknisins er víst sú að þessar tvær barnatennur eru ekkert á því að fara að yfirgefa munn piltsins. Það þýðir að fullorðinstennurnar sem eiga vaxa þar í staðinn komast ekki að og eru að byrja vaxa til hliðar - sem er auðvitað ekki gott. Það er ekkert smá flott að fara til tannlæknis í dag. Ágúst valdi sér Simpsons-þátt til að horfa á í sjónvarpsgleraugunum sem hann fær hjá tannlækninum og eru sett á höfuðið meðan á dvölinni stendur. Svo var kappinn deyfður og tennurnar teknar úr fljótt og örugglega. Við Magnús spjölluðum svo mikið á meðan að ég hafði mestar áhyggjur af því að hann myndi gleyma einhverju. Það voru nú óþarfa áhyggjur og Ágúst Logi er tveimur barnatönnum fátækari.

tannlæknir 

Mynd dagins er tekin í tannlæknastólnum í dag. Þarna er Ágúst Logi í tannlæknastólnum og Magnús tannlæknir og aðstoðarkona hann eru að undirbúa verkefni dagsins - að taka tvær barnatennur sem tókst bara vel!

 


Varðskipið Óðinn í hálfa öld

Miðvikudagurinn 27. janúar 2010

Í dag var mér boðið á Sjóminjasafnið Víkina hér í Reykjavík. Þetta er glæsilegt safn úti á Grandagarði og ekki mjög mörg ár síðan það opnaði. Tilefnið var að verið var að halda upp á 50 ára afmæli varðskipsins Óðins sem þjónaði Landhelgisgæslunni á árum áður. Fyrir tveimur árum var skipið fært á safnið og þar stendur það nú við bryggju sem hluti af safninu. Eftir ræður heldra fólks og tilheyrandi góðgæti, gátu gestir skoðað safnið og auðvitað skipið. Ég man ekki eftir að hafa komið í íslenskt varðskip áður og beið því ekki boðanna að skoða skipið þegar tækifæri gafst. Það var mjög gaman og fróðlegt og ekki spillti fyrir að ég naut góðrar leiðsagnar nokkra fyrrverandi skipverja sem sýndu skipið hátt og lágt og sögðu skemmtilegar sögur af lífinu um borð. Mynd dagsins er tekin í varðskiptinu Óðni nú í kvöld. Þarna er ég inn í skýli á dekki skipsins þar sem ein byssan er geymd (veit nú ekki hvort þetta kallast fallbyssa). Mjög gaman að skoða þetta merka skip!

þor

Hamstur kominn á heimilið!

Þriðjudagur 26. janúar 2010

Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið - hamsturinn Skúri. Skúri kom til okkar í gær í afmælisveislu Magnúsar Árna. Magnús hafði frétt af því að í gamla daga hefði ég kunnað að sýna töfrabrögð og því til stuðnings var hann búinn að finna forláta galdratösku mína upp á háalofti. Ég lofaði að reyna að gera eitthvað. Eftir að hafa sýnt piltunum nokkur töfrabrögð voru þeir nú samt á því að það væri ekki hægt að galdra í alvörunni. Eftir nokkrar rökræður við drengina varð úr að ég þyrfti að galdra dýr til að geta sagst vera alvöru galdramaður. Ákveðið var að ég skildi galdra fram annað hvort hamstur eða ljón. Mönnum þótti nú öruggara að það væri hamstur þar sem ég sagðist ekki vera viss um að geta galdrað fram dýr og ég gæti þá örugglega ekki galdrað það til baka aftur. Ekki vildu þeir að við sætum uppi með ljón svo hamstur varð fyrir valinu. Það varð heldur en ekki betur undrun í hópnum þegar ég galdraði fram hamstur. Að sjálfsögðu tókst mér samt ekki að galdra hamsturinn til baka þannig að honum var komið fyrir í fötu og ég sendur út í búð að kaupa mat o.fl. Magnús Árni vildi endilega fá að eiga hamsturinn og eftir að hafa auglýst eftir búri á facebook máttum við nálgast eitt slíkt hjá nágrönnum okkar. Magnús skýrði hamsturinn Skúra og við erum nú búin að fá leiðbeiningar í dýrabúð hvernig á að hugsa um hann því við höfum aldrei átt hamstur áður.

IMG_3766[1]

Mynd dagsins er af nýjasta fjölskyldumeðliminum, hamstrinum Skúra. Hér er hann í ægilega fínu búri sem við fengum hjá nágrönnum okkar og verður framtíðarheimili Skúra!


7 ára afmælisveisla

Mánudagur 25. janúar 2010

Í dag er Magnús Árni, yngri sonur minn, 7 ára. Samkvæmt fjölskylduhefð var hann vakinn í morgunsárið með logandi afmælisköku, söng og pökkum. Hann var hinn ánægðasti með byrjun afmælisdagins og eftir að í skólann var komið var sunginn fyrir hann afmælissöngurinn. Kl 17 hófst svo afmælisveislan þar sem bekkjarbræður Magnúsar úr skólanum mættu. Þar var mikið fjör; borðaðar pizzur, farið í leiki og playstation og auðvitað borðuð afmæliskaka sem var græn fótboltakaka. Afmælið tókst rosalega vel og var bara nokkuð fjörugt eins og við var að búast. Mestu máli skiptir þó að Magnús sofnaði sæll og glaður eftir skemmtilegan afmælisdag.

 

IMG_3729[1]

Mynd dagsins er tekin í afmælisveislu Magnúsar Árna seinni partinn í dag og eins og sjá má var mikið fjör!


Fjölskyldan fagnar afmæli Magnúsar Árna

Sunnudagur 24. janúar 2010

Eins og fram kemur í færslu 21. janúar á yngri sonurinn á heimilinu, Magnús Árni, 7 ára afmæli á morgun. Þá verður heilmikil afmælisveisla fyrir bekkjarfélagana. Í dag hins vegar, héldum við fjölskyldan upp á afmæli kappans með því að fara öll saman í bíó. Magnús valdi auðvitað myndina og fyrir valinu stórmyndin Alvin og íkornarnir númer tvö. Þetta er skemmtileg fjölskyldumynd um íkornan Alvin og bræður hans tvo. Þessir íkornar eru séstakir að því leiti að þeir kunna að tala - og gott betur en það því þeir eru rokkstjórnur því þeir geta líka sungið og dansað. Hetjurnar lentu í ýmsum ævintýrum í myndinni og var Magnús hinn ánægðasti með bíóferðina. Á eftir fórum við fjölskyldan út að borða. Magnús Árni fékk auðvitað að velja stað og hann valdi að fara á American Style í Skipholtinu. Alveg hinN fínasti "for-afmælisdagur".

IMG_6812[1]

Mynd dagsins er tekin nú í kvöld þegar við fjölskyldan fórum út að borða. Þeir bræður fengu  sér hamborgara, samloku og franskar og voru hinir ánægðustu!


Magnað Þorrablót Aftureldingar!

Laugardagur 23. janúar 2010

Í kvöld vorum við Inga aldeilis í góðum félagsskap þar sem við vorum á risa-Þorrablóti Aftureldingar hér í Mosfellsbænum. Risa-þorrablótið var nú haldið í þriðja sinn í núverandi formi en það er haldið til styrktar barna- og unglingastarfi í knattspyrnu- og handknattleiksdeildum Aftureldingar. Auddi og Sveppi voru veislustjórar og hljómsveitin Ingó og verðurguðirnir spiluðu fyrir dans. Yfir 500 manns voru í mat og um 1.000 þátttakendur. Við Inga sátum á borði með Ólínu og Halla, Jóhönnu og Elvar og fleira góðu fólki. Þarna hittum við líka mjög mikið af Mosfellingum sem við þekkjum. Blótið í ár heppnaðist gríðarlega vel og við Inga tjúttuðum til rúmlega þrjú þegar við fórum heim. Þá var húsið ennþá fullt af fólki og hljómsveitin í góðum gír. Gríðarlega skemmtilegt kvöld SmileSmileSmile

þorrablot

Mynd dagsins er tekin á símann minn á Þorrablóti Aftureldingar nú í kvöld (steingleymdi myndavélinni auðvitað). Þarna situm við Inga að snæðingi og myndin nær nú vonandi að skila hinni mögnuðu stemmingu sem ríkti þarna í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband