3.1.2010 | 20:47
Síðustu metrarnir af 2009...
Fimmtudagur 31. desember 2009
Jæja, þá er komið að síðasta degi ársins. Í morgun þurfti ég að kíkja í vinnuna en var kominn heim á hádegi. Stundvísilega kl. 13:14 var ég svo kominn yfir götuna, nánar tiltekið í Hrafnshöfða 2, hér í Mosfellsbænum. Þar var að hefjast árlegt gamlársdagspartý okkar karlanna í götunni. Þar er jafnan boðið upp á graflax, nýbakað rúgbrauð, ákavíti og fleira góðgæti. Alltaf er ætlunin að boðið sé búið um kl. 15:30 en það hefur nú ekki alltaf tekist að reka endahnútinn þá Ég var þó kominn heim upp úr klukkan fjögur eftir skemmtilegar stundir með nágrönnunum og var mikið hlegið eins og vera ber. Það var tæplega 6 kílóa kalkúnn í gamlársdagsmatinn en hjá okkur fjölskyldunni var Guðrún mágkona í mat. Fyrir skaupið höfðu mamma og pabbi bæst í hópinn og rétt fyrir miðnættið kom svo Bryndís frænka í heimsókn. Það var algert blíðskaparveður rétt fyrir miðnættið þegar við fjölskyldan hófum okkar hluta af stærstu flugeldasýningu í heimi. Nágrannarnir voru einnig nokkuð öflugir og um miðnættið höfðu systurnar Guðrún og Inga hellt kampavín í glös og fært okkur "skotmönnum" fjölskyldunnar. Við skáluðum því fyrir nýju ári úti á götu með fjölskyldunni og nágrönnunm sem var skemmtileg upplifun. Hið mjög svo fína og flotta ár 2009 var liðið en hið spennandi ár 2010 tekið við!
Mynd dagins er tekin nú rétt fyrir miðnættið. Þar sem veðrið var svo gott fögnuðum við fjölskyldan nýju ári útifyrir. Systurnar Inga og Guðrún mættu með kampavínið út á götu en hér eru þær ásamt Bryndís frænku á leiðinni út úr húsinu með áramótadrykkinn góða! Flott ár liðið og ennþá betra ár framundan!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.