2.1.2010 | 22:06
Gleðileg jól!
Fimmtudagur 24. desember 2009
Við Inga vorum bæði í fríi í vinnunni í dag þannig að við gátum átt afslappaðan aðfangadag. Alveg síðan við fluttum í Mosfellsbæ, árið 1999 höfum við náð að halda þeim skemmtilega jólasið að fá einhvern jólasveinna í heimsókn á þessum degi. Sú venja brást ekki í dag en upp úr kl. 10 var útidyrahurðinni hrundið upp og Kertasníkir sjálfur stóð inni á miðju gólfi. Synirnir báðir lágu þá ennþá upp í rúmi en voru ekki seinir að spretta fram úr rúmunum þegar þeir urðu varir við gestinn. Kertasníkir dró upp forláta jólagjafir handa þeim og meira að segja færði mér eina Eftir að hafa kannað kertastöðu heimilisins og þukklað aðeins á pökkunum undir jólatrénu hélt Kertasníkir leið sína enda í mörg horn að líta hjá kappanum á þessum mikla degi. Um hádegið fórum við Magnús Árni í árlegan jólaleiðangur okkar sem fer fram á þessum degi ár hvert, en rétt eins og í gær var Ágúst Logi heimavið. Kl. 18 var svo fjölskyldan mætt í Lágafellskirkju en við höfum jafnan haft þann sið að hefja jólin á því að fara í messu með alla fjölskylduna. Að lokinni messu var borinn fram hefðbundinn jólamatur - hamborgarahryggur með öllu tilheyrandi eftir laxatvennuforrétt að hætti Ingu. Guðrún mágkona slóst í hópinn með okkur í jólamáltíðinni og þegar LOKSINS kom að opnun pakkanna var Jóna mágkona mætt á svæðið ásamt Rúnari Inga syni sínum en þau höfðu borðað jólamáltíðina í Borgarnesi hjá tengdaforeldrum mínum (en komu til okkar að opna pakkana). Þetta var mjög ánægjulegt aðfangadagskvöld sem við fjölskyldan áttum. Allir sofnuðu með sælubros á vör þegar gengið var til hvílu nokkru eftir miðnættið að lokinni jólakorta- og pakkaopnun, símtölum og tilheyrandi jólaspjalli.
Mynd dagins er tekin að morgni aðfangadags þegar Kertasníkir sjálfur heimsótti fjölskylduna. Þó mikið hafi verið að gera hjá kappanum í dag gat hann nú samt gefið sér tíma til að stilla sér upp við jólatréð með sonunum. Þetta var sannarlega skemmtileg byrjun á gleðilegum aðfangadegi!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.