1.11.2009 | 21:36
Undir bláhimni skemmta Hvatberar sér!
Laugardagur 31. október 2009
Í dag erum við Inga ásamt Ágústi Loga, stödd á ferðaþjónustubýlinu Steinstöðum í Skagafirði. Þar er gönguhópur okkar, sem heitir "Hvatberar", að hittast á sínu árlega mynda- og skemmtikvöldi sem stendur nú reyndar yfir allan daginn og fram á næsta dag. Magnús Árni fór hins vegar í heimsókn til ömmu og afa á Akranesi þar sem hann er ennþá of ungur til að vera með okkur í gönguferðunum. 36 Hvatberar voru mættir í gærkvöldi en þá var engin formleg dagskrá. Eftir morgunverð nú í morgun var farið í skoðunarferð um nágrennið og kíkt við á safninu í Glaumbæ. Þar var mættur heimamaður, Sigurður Hansen, sem jós úr viskubrunni sínum ýmsum góðum sögum af svæðinu. Seinni partinn fóru flestir í sund en á Steinstöðum er fín sundlaug og heitur pottur. Maður var vel soðinn eftir rúmlega klukkustundar setu í pottinum en í góðum hóp líður tíminn hratt. Myndakvöldið, sem reyndar er ein samfeld risaveisla, hófst svo stundvíslega klukkan 19:30. Borin var fram þrírétta máltið undir þemanu íslensk náttúra en Sigríður Bergvinsdóttir, vinkona okkar, sem hefur verið í nokkrum færslum hér áður, var yfirmatselja ásamt því að skipuleggja helgina og í rauninn flest allt það sem Hvatberar gera. Milli rétta var svo fjöldi skemmtiatriða þar sem ýmsir stigu á stokk endag fjöldi hæfileikafólks í hópnum. Einnig var líka sungið hátt og mikið þar sem tveir öflugir hljóðfæraleikarar eru í hópnum. Auðvitað var svo myndasýning frá ferðinni okkar sem farin var s.l. sumar á Rauðsand (sjá færslur 26.-28. júní 2009). Myndasýninginn var í minni umsjón en nokkrir úr hópnum höfðu sent mér góðar myndir úr ferðinni og gat ég því valið um fjölda góðra mynda á hverjum göngudegi. Eftir að ferð næsta árs, Norðurstrandir, hafði verið kynnt og samþykkt með lófaklappi, var formlegri dagskrá slitð um kl. 23:30. Þá tók við fjöldasöngur, dans og spjall fram á rauða nótt. Þeir síðustu fóru að sofa rúmlega fjögur. Þetta var alveg frábær stund í frábærum hóp
Mynd dagsins er tekin um miðnættið og sýnir veisluna okkar í algleymi. Þarna er verið að dansa "kokkinn" sem er auðvitað mikið fjör. Í baksýn má sjá grilla í hljóðfæraleikaranna okkar, þá Gulla gítarleikara og Ingimar tengdapabba með harmonikkuna. Aldeilis rosalega skemmtilegur dagur og vel heppnað kvöld
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.