23.8.2009 | 11:38
Komist í mark á Menningarnótt!
Laugardagur 22. ágúst 2009.
Ég vaknaði eldsnemma í morgun enda stór dagur framundan. Markmið dagsins var að uppfylla gamlan draum og hlauga 21 km hálfmaraþonhlaup í Reykjavíkurmaraþoni en það hef ég aldrei gert. Ég var reyndar ekki búinn að æfa neitt mjög markvisst fyrir þetta. Hef reyndar alltaf reynt að halda mér í ágætis formi og núna í sumar var farið einstaka sinnum út að hlaupa, mjög ómarkvisst þó. Kl. 8:40 hófst hlaupið og ég var bara í góðum gír. Fyrri hluta hlaupsins var ég að hlaupa mun hraðar en ég er vanur og fékk aðeins að finna fyrir því síðustu 6-7 km þegar ég þurfti að hægja nokkuð á mér. Hlaupið gekk þó gríðarlega vel og ég allra náði bjartsýnasta markmiði mínu, var undir 1 klst og 45 min sem þýðir að ég var að hlaupa hvern km á rétt tæplega 5 min. Inga og strákarnir hlupu svo saman 3 km skemmtiskokk þannig að öll fjölskyldan kom heim með verðlaunapening. Ég var ekki mikið til stórræðanna eftir hádegi en skellti mér í heitan pott og horfði á litla fótboltaliðið í Mosó, Hvíta riddarann, keppa og vinna spennadi leik í 3. deildinni en sigurinn tryggði liðinu sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Mamma og pabbi komu í kvöldmat og svo héldum við fjölskyldan niður í miðbæ til að taka þátt í Menningarnóttinni. Eftir flugeldasýninguna var haldið heim á leið eftir skemmtilegan dag og kvöld!
Mynd dagsins tók Inga af mér að koma í mark í hálfmaraþoninu. Alltaf gaman að ná markmiðum og sérstaklega þegar það verður í samræmi við björtustu vonir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.