3.8.2009 | 23:31
Gobbiddígobb...
Sunnudagur 2. ágúst 2009
Eins og í gær, erum við fjölskyldan stödd í Unnarholtskoti við Flúðir í dag. Sumir voru lengur á fætur en aðrir. Sólin skein skært og við Magnús Árni tókum okkur góðan tíma í að klappa fimm litlum hvolpum sem nýlega komu í heiminn í kotinu. Um hádegisbil lögðu flestir í göngutúr á Miðfell sem er fjall við Flúðir. Það er stutt og skemmtileg ganga. Nú er búið að merkja hringveg eftir fjallinu en á því miðju er stöðuvatn, þokkalega stórt. Þar vörðum við dágóðum tíma í að vaða og bursla áður en undirritaður og húsfreyjan í Unnarholtskoti, Kristín Erla, tókum af skarið og fengum okkur góðan sundsprett í vatninu. Um kaffileitið bætust Ingimar og Anna, tengdaforeldrar mínir í fjöskyluhópinn í Unnarholtskoti. Þá var haldið í golfskálann við Flúðir, Kaffi-Sel, þar sem við sporðrenndum pizzum í gríð og erg. Undir kvöld fórum við karlanir í fjölskyldunni í frábæran reiðtúr um nágrennið en yngri kynslóðin hafði gert það fyrr um daginn.
Mynd dagins er af okkur Styrmi svila mínum (og húsbónda í Unnarholtskoti) nú í kvöld á leiðinni í reiðtúr. Styrmir hefur verið sveittur síðustu vikur að klára nýtt hesthús sem verið er að taka í notkun þessa dagana. Veðrið var frábært í allan dag en reiðtúrinn í kvöld var nú samt hápunktur dagins fyrir mig, ótrúlega gaman
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.