7.6.2009 | 21:51
21 sinni Illgresi
Fimmtudagur 4. júní 2009
Síðustu tvær vikur hef ég tekið þátt í skemmtilegu verkefni í vinnunni. Það fólst í því að heimsækja heimilisfólk á öllum hjúkrunardeildum Hrafnistuheimilanna fjögurra. Með mér í för var Guðmundur Ólafsson leikari sem setti saman 20 mínútna dagskrá upp úr ljóðabókinni Illgresi sem er eftir Magnús Stefánsson sem reyndar notaði skáldanafnið Örn Arnarson. Magnús orti töluvert af þekktum ljóðum, sérstklega meðal eldri kynslóðarinnar. Í dag er "Hafið bláa, hafið" sjálfsagt hans þekktasta ljóð (ljóðið heitir reyndar "Sigling"). Við heimsóttum heimilisfólk á öllum deildum eða 21 heimsókn alls. Hugmyndin var að það myndi skapast heimilisleg stemming inn á hverri deild, ekki síst hjá þeim sem veikastir eru. Ég held að það hafi tekist vel og það var mjög gaman að eiga stund með heimilisfólkinu sem var mjög þakklát fyrir framtakið.
Mynd dagsins er af Guðmundi Ólafssyni leikara að flytja efni úr Ljóðabókinni Illgresi á einni hjúkrunardeild Hrafnistuheimilanna. Mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni með Guðmundi sem gerði þetta gríðarlega vel.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.