29.5.2009 | 00:23
Að halda ekki með þeim gulu á Akranesvelli...
Fimmtudagur 28. maí 2009
Einn af stórleikjum knattspyrnusumarsins (amk fyrir mig) fór fram í kvöld þegar mínir menn í Aftureldingu fóru upp á Akranes og kepptu við mína menn, Skagamenn. Í kvöld fór ég semsagt ásamt Magnúsi Árna, Ágústi og pabba að sjá ofangreindan leik í 1. deild karla. Þar sem ég hef nú síðustu áratugi séð ófáa leiki með þeim gulu á Akranesvellinum var mjög skrýtið að mæta á Skagann í rauða Aftureldingarjakkanum. Sjálfsagt hef ég heldur aldrei fengið eins mikla athygli þegar ég labbaði um stúkuna í rauða jakkanum og ófá skotin flugu á mann frá stuðningsmönnum þeirra gulklæddu. Þetta var fyrsti alvöru leikur félaganna að frátöldum æfingaleikjum. Eftir markalausan fyrri hálfleik en rigningar- og rokmikinn, náðu Skagamenn að setja inn eitt mark við mikinn fögnuð heimamanna enda hefur liðinu gengið afleitlega það sem af er sumri. Fleiri mörk voru ekki skoruð.
Mynd dagsins er tekin í kvöld á Akranesvelli og sýnir liðin vera búin að stilla sér upp rétt áður en flautað var til leiks. Hrikalega skrýtið að vera á Akranesvelli og halda ekki með gula liðinu. Verður mjög eftirminnilegur dagur, þó knattspyrnulega verði leikurinn ekki skráður í sögubækur fyrir knattspyrnuleg gæði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.