Vísiterað með veðurguðinum

Þriðjudagur 19. maí 2009

Í dag var nokkuð óvenjulegur dagur hjá mér í vinnunni. Þó starf mitt gangi að stórum hluta út á að hitta fólk og sitja á fundum, var starfið nokkuð óhefðbundið meiri hluta dagsins. Undanfarið hefur verið í gangi heilmikið reykleysis-átak hjá starfsfólki Hrafnistuheimilanna, vinnustað mínum. Reynt hefur verið að hvetja starfsfólk til dáða með jákvæðri örvun og náði þessi hvatning hámarki sínu í dag. Starfsfólki gafst kostur á að kvitta undir yfirlýsingu um að vera reyklaust á vinnutíma og setja um leið nafn sitt í pott þar sem dregnir yrðu út glæsilegir ferðavinningar. Í dag var svo dregið um hverjir vinningshafarnir eru. Þar sem Hrafnistuheimilin eru fjögur var sérstakur "pottur" á hverju heimili og var mjög góð þátttaka á öllum stöðum. Stór hluti dagsins hjá mér í dag fór í að ferðast á milli Hrafnistuheimilanna, minna á reykleysisátakið og draga út vinningshafa. Með mér í för voru Lucia mannauðsstjóri og poppstjarnan Ingó sem er forsprakki hljómsveitarinnar Ingó og veðurguðirnir. Á hverju heimilanna héldum við Lucia stutt ávörp en Ingó dró í getrauninni og spilaði fjörug sumarlög á gítarinn sinn fyrir viðstadda. Það var ekki amarlegt að hafa forsprakka veðurguðanna með sér í þeirri sumarblíðu sem var í dag.

IMG_0492[1]
 

Mynd dagsins er af okkur Ingó að draga í ferðahappadrættinu á Hrafnistu í Reykjavík. Þar voru tæplega 100 manns viðstaddir og mikið stuð þegar Ingó tók lagið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband