5.5.2009 | 00:28
Gustaði vel á göngugarpa
Sunnudagurinn 3. maí 2009
Í dag var stóri dagurinn - Hvannadalshnjúksganga á dagskrá! Í stað þess að fara sofa um miðnætti eins og maður gerir venjulega, fór gönguhópurinn út í rútu frá gistiheimlinu Hvoli og keyrði að Sandfelli þar sem gangan á Hvanndalshnjúk hófst um kl. 1:30. Þrátt fyrir myrkur í upphaf ferðar var skemmtileg upplifun að sjá halarófu göngugarpa liðast um í myrkrinu, allir með höfuðljós. Veðrið var fínt í byrjun og töluvert var um aðra gönguhópa - líklega um 100-200 aðrir að klífa tindinn á þessum morgni í 4-5 misstórum hópum. Við vorum komin á jökulinn sjálfan um kl 7. Þá festum við okkur í línum og lögðum í brekkuna löngu. Mjög fljótlega fór þó að hvessa mjög hraustlega og við gengum í þoku og kófi. Eftir um 2 klst datt farastjórinn í línunni okkar 2-3 metra niður í sprungu. Honum varð þó ekki meint af þó hann tapaði GPS tækinu sem við vorum að ganga eftir. Hann var vasklega hífður upp og ferðinni haldið áfram. Eftir um 3 tíma brölt í þessar óspennandi veðuraðstæður vorum við komin í um 1800 metra hæð. Þá var ákveðið að láta gott heita og snúa niður aftur. Flestir hinir hóparnir á fjallinu höfðu gert það sama enda töluvert algengt að veðrið trufli göngugarpa í efsta hluta tindsins.
Mynd dagsins er að sjálfsögðu tekin á Hvannadalshnjúk. Þarna erum við í um 1500 m hæð. Í efri hluta tindsins var lítið um myndatökur vegna kulda og vinds en ég gat þó ekki annað en dregið upp myndavélina þegar 10 austurískir skíðamenn birtust skyndilega út úr kófinu og renndu sér fagmannlega niður jökulinn. Þó að toppnum hafi ekki verið náð í þetta skiptið var ferðin öll hin skemmtilegasta!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.