19.8.2014 | 00:13
Þjóðleg þjóðbúningamessa
Sunnudagurinn 17. ágúst 2014.
Aðeins einu sinni á hverju ári er blásið til messu í Tungufellskirkju í Hrunamannahreppi og sú stund var einmitt í dag. Tungufellskrikja er með minnstu og elstu kirkjum landsins. Í fyrra var byrjað á þeim skemmtilega sið að hvetja kirkjugesti til að mæta í þjóðbúningum og fjölmargir taka þeirri áskorun þó ekki nærri allir mæti í þjóðbúningi.
Þar sem ég á ættir að rekja í Tungufell (Helga móðuramma mín var alin þar upp) reyni ég stundum að kíkja þegar messurnar eru og hitta á hóp af ættingjum í leiðinni. Það er jafnan glatt á hjalla og gaman að spjalla við frændfólkið og aðra gesti enda er kirkjukaffi á eftir, helst úti ef veður leyfir.
Tungufellskirkja er nú í eigu Þjóðminjasafnsins. Þessi kirkja er frekar lítil og tekur svona 35 gesti ef vel er troðið inn. Hún var reist 1856 og er um 22 fermetrar. Annars er talið að kirkja hafi verið í Tungufelli frá því um árið 1200 og kirkjuklukkurnar tvær í kirkjunni er álitnar næstum svo gamlar. Í dag var skein sólin skært og kirkjan var vel full út úr dyrum og einhverjir stóðu fyrir utan. Fjöldi fólks mætti í þjóðbúningi og setti það mjög skemmtilegan svip á messuna.
Mynd dagsins er tekin í Hrunamannahreppi í dag þar sem ég mætti í þjóðbúningamessu í einni minnstu kirkju landsins, Tungufellskrikju. Þarna var mikið af ættingjum mínum en fjöldi gesta mætti í þjóðbúningum. Þeir sem það gerðu stilltu sér upp í myndatöku ásamt prestinum og þá smellti ég að þessari mjög svo þjóðlegu mynd. Áhugasamir geta skoðað fleiri myndir úr messunni á facebook-síðu minni. Sannarlega skemmtilegur dagur í Tungufelli í dag
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.