Að láta koma sér á óvart...

Miðvikudagurinn 6. ágúst 2014

Í kvöld ákváðum við Magnús Árni að horfa á eina bíómynd saman. Magnús valdi fyrir okkur mynd sem ég man nú ekki eftir að hafa heyrt um áður en myndin heitir "Now you see me" og skartar ýmsum stórleikurum. Hún frumsýnd fyrir um ári síðan.

Í stuttu máli gengur söguþráðurinn út á að hópur ofursnjallra töframanna notar hæfni sína til að ræna banka og fleira, og eltingaleik lögreglunnar við að hafa hendur í hári þeirra. Handritið er kannski ekkert voðalega gott en fyrir unnendur góðra töfrabragða er myndin mjög áhugaverð. Við Magnús Árni erum báðir miklir áhugamenn um töfrabrögð og því var þessi mynd bara þrælskemmtileg. Fyrirfram bjóst ég ekki við neinu og því kom myndin skemmtilega á óvart og úr varð hin besta skemmtun.

Töfrasýningar hafa verið að komast nokkuð í tísku aftur hin síðustu ár, sérstaklega eftir nokkur frábær atriði í sjónvarpsþáttum eins og "America's got talent" og "Britain's got talent". Ég hef alltaf haft gaman að því þegar mér er komið á óvart. Það gerist gjarnan þegar maður sér gott töfraatriði og botnar ekkert í því hvernig maður plataður upp úr skónum.

Töfrasýningar og myndin sjálf, varpa svo alltaf upp áhugaverðum spurningum um mannlegt eðli og mannshugann. Þá á ég við hvernig hægt er að blekkja augað og fá fólk til að trúa, jafnvel þó það viti betur. Stórleikarinn Woody Harrelson, sem fyrst varð frægur í sjónvarpsþáttunum Staupasteini, leikur til dæmis ansi slunginn hugsanalesara. Handritshöfundarnir hafa greinilegt lagt nokkra vinnu í þessa persónu þar sem skýrt kemur fram í myndinni að hann les auðvitað ekki hugsanir fólks, heldur er gæddur afburðahæfni að lesa úr viðbrögðum fólks við því sem hann segir. Um þetta fyrirbæri í mannlegum samskiptum gæti ég svo skrifað langan pistil en læt hér staðar numið Smile

nowyouseeme

Mynd dagsins fengin af láni af veraldarvefnum og er kynningarmynd fyrir kvikmyndina "Now you see me" sem við Magnús Árni horfðum á saman nú í kvöld. Alltaf gaman þegar manni er komið á óvart og þrátt fyrir ýmsa galla kom þessi mynd mér skemmtilega á óvart svo úr varð hin besta kvöldskemmtun! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband