1.8.2014 | 00:12
Hreppslaug, hin eina sanna
Fimmtudagur 31. júlí 2014
Það er sjaldgæft að allir í fjölskyldunni sofi fram að hádegi á sama deginum en það gerðist í dag. Við erum á Hvanneyri í Borgarfirði, í fjölskylduútilegu með saumaklúbbnum hennar Ingu. Það fór víst enginn snemma að sofa í gær og því var bara ljómandi fínt að allir gátu sofið út í dag.
Eftir hádegið hélt öll hersingin (nánast) á merkan stað sem ég hef ekki komið á í tæp 20 ár. En það er hin eina sanna Hreppslaug sem staðsett er í Skorradal, skammt frá Hvanneyri. Hreppslaug er meira en lítið sögufræg en hún var steypt 1928 og er að mér skilst fyrsta 25 m laugin sem steypt var á Íslandi. Þarna er nægt heitt vatn sem rennur í laugina og var staðarvalið sjálfsagt tilkomið vegna þess. Þetta var mikil og vinsæl sundlaug á sínum tíma en síðustu ár hefur reksturinn verið erfiður enda samkeppnin við nýrri laugar erfið. Hreppslaug er friðuð og er henni haldið opinni um helgar yfir sumartímann.
Það er mjög gaman fyrir okkur Ingu að koma í laugina þar sem Inga var að vinna þarna í tvö sumur sem unglingur, einmitt á sama tima og við vorum að byrja að kynnast. Maður fór því ófáar ferðirnar í þessa sundlaug á sínum tíma. Einhverra hluta vegna höfum við ekki komið þarna við árum saman og því var mjög gaman að kíkja í laugina.
Mynd dagins er tekin í Hrepplaug í Borgarfirði í dag. Við erum þar í fjölskylduútilegu með saumaklúbbnum hennar Ingu og flestir þáttakendur brugðu sér í sund. Gaman að rifja upp kynni við þessa sögufrægu sundlaug og það í mjög skemmtilegum félagsskap
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.