24.7.2014 | 16:56
Loksins kom sólin!
Þriðjudagur 22. júlí 2014
Í dag er fjórði og síðasti dagurinn í Laugavegsferð gönguhópsins Hvatbera 2014. Við Inga og Magnús Árni erum að ganga, ásamt tæplega 40 öðrum í vina-gönguhóp okkar, og nú er komið að síðasta göngudeginum. Það er leiðin úr Emstrum yfir í Þórsmörk (Langadal) þar sem við endum ferðina.
Eftir að hafa fengið misgott veður hina dagana er nú loksins komin sól á okkur. Alltaf gaman að enda svona ferðir í sól. Dagurinn var því bara tekin rólega og sólin sleikt. Þegar í Þórsmörk var komið fór öll hersingin í sturtu (reyndar ekki saman) og boðið var upp á veislukvöldverð þar sem í boði var grillað lambaprime, ásamt ný-uppteknum kartöflum úr Þykkvabænum og öllu öðru tilheyrandi. Ekki skal gleymt að minnast á grilluðu súkkulaðikökuna sem var í desert en eftir að Hvatberabera höfðu gert þessu góð skil hófst alvöru-kvöldvaka að hætti Hvatbera með söng, leikjum og ræðum sem lauk þó formlega á slaginu miðnætti, þó ekki hafi allir farið að sofa strax.
Mynd dagsins er tekin i einn af kaffipásunum í sólinni í dag. Þarna erum við Inga ásamt Ingimar tengdapabba og Magnúsi Árna að sleikja sólina á leiðinni milli Emstra og Þórsmerkur.
Aukamyndir dagsins eru aðeins til að fanga andrúmsloft ferðarinnar betur og að þessu sinni tengjast þær tveimur ám á leiðinni. Sú fyrir sýnir okkur að klögrast yfir gilið sem liggur yfir Fremri-Emstru-ánna en þarna er djúpt og þröngt gil með lítill göngubrú yfir, sem gaman er að fara. Hin myndin sýnir okkur í lok dagsins en þá þarf að vaða ánna Þröngá áður en gengið er inn í Langadal þar sem við gistum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.