24.7.2014 | 16:07
Hvatberaferðin 2014
Laugardagurinn 19. júlí 2014
Í dag er stór dagur því í dag er fyrsti dagurinn í Hvatberaferðinni 2014. Hvetberar eru vina-gönguhópur sem við fjölskyldan erum í og hefur hópurinn farið saman í 4-6 daga ferð á hverju sumri í 11 ár. Þetta sumarið er nokkuð óvenjulegt fyrir mig því Hvatberar fara nú "Laugaveginn" undir fararstjórn minni, þannig að ég er að ganga Laugaveginn í annað sinn á rúmri viku.
Í ferðinni að þessu sinni eru tæplega 40 manns. Aldursdreifingin er skemmtilega mikil því tveir strákar eru yngstu garparnir í ferðinni: Magnús Árni okkar (11 ára) og Dagur Ingi (7 ára) en Ingimar tengdapabbi er elstur (að verða 79 ára). Þar sem tengdapabbi er harmonikkuleikari Hvatberahljómsveitarinnar er hann alveg ómissandi í allar ferðir.
Ætlunin er að ganga Laugaveginn á fjórum dögum og taka nokkrar aukaferðir í leiðinni. Veðrið var hins vegar ekkert sérstakt þennan fyrsta dag þar sem þetta gula á himninum lét ekkert sjá sig. Það var hins vegar bara rigning öðru hverju. Dagurinn varð hins vegar mjög skemmtilegur og allir voru í hörkustuði á kvöldvökunni og sofnuð sælir og þreyttir í um 1.100 m hæð í skálanum í Hrafntinnuskeri eftir göngu dagsins.
Mynd dagsins er tekin í skálanum í Hrafntinnuskeri þar sem við gistum fyrstu nóttina. Á hverju kvöldi er mikið lagt upp úr sameignlegum kvöldveislum með mat, drykk, söng (3-4 manna hljómsveit) og leikjum. Í kvöld þurfti maturinn að vera í einfaldari kantinum vegna þess hve skálinn er lítill og afskekktur. Við fengum við því plokkfisk og þrumara í aðalrétt og ljúffenga tertu í eftirrétt. Þarna erum við að sporðrenna plokkfisknum og eins og sjá má var þröngt á þingi, en það er nú oft bara skemmtilegra!
Þar sem það er til mikið af skemmtilegum myndum úr ferðinni ætla ég að hafa 2-3 aukamyndir á hverjum degi. Í dag eru það annars vegar mynd af okkur Magnúsi Árna í sundi í Landmannalaugum og hins vegar flott mynd sem tekin er af toppi fjallsins Brennisteinsöldu í Landmannnalaugum og sýnir upptök Laugahrauns (sem rann úr Brennisteinsöldu árið 1477) og fjallið Bláhnjúk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.