15.7.2014 | 01:31
Laugavegshlaupið
Laugardagur 12. júlí 2014
Í dag gekk ég síðasta áfangan í fjögurra daga Laugavegsgöngu minni. Leiðin lá úr skálanum í Emstrum yfir í Langadal í Þórsmörk. Skemmtilegt krydd í fallega göngu dagsins var Laugavegshlaupið, þar sem um 350 ofur-hlauparar hlupu hinn 55 km langa Laugaveg, á nokkrum klukkutímum.
Veðrið í dag var mjög fínt. Upp úr hádeginu kom fyrsti hlauparinn brunandi fram úr okkur en þá átti hann tæpa 10 km eftir. Það liðu svo alveg 40 min þar til næsti hlaupari kom, en eftir það komu þeir hver á fætur öðrum þar sem eftir var ferðarinnar. Það kom svo í ljós að þessi fyrsti, Norðfirðingurinn Þorbergur Jónsson, bætti heimsmetið í Laugavegshlaupi og kom í mark á tímanum 4 klst og 7 min. Það er hreint ótrúlegur tími fyrir þá sem þekkja þessa leið - en flott hjá honum enda þekkjum við vel til fjölskyldu hans svo þar á bæ geta allir verið stoltir af pilti!
Okkar hópur kom svo í Langadal í Þórsmörk seinni partinn. Eftir góða sturtu skelltum við upp grillveislu þar sem við grilluðum lambalæri með öllu tilheyrandi ofan í hópinn okkar og síðan tók við hátíðarkvöldvaka áður en allir sofnuðu þreyttir og sælir eftir flottan dag.
Mynd dagins er tekin í Laugavegsgöngu dagsins. Þarna er ég staddur nálgæt Bjórgili og smellti mynd af einum ofur-hlauparanum sem kom brunandi fram úr okkur. Laugavegshlaupið var mjög skemmtilegt krydd í gönguáfanga dagsins hjá okkur sem lauk svo í Þórsmörk. Frábær dagur og frábært kvöld í skemmtilegum hópi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.