15.7.2014 | 01:02
Litadýrð Laugavegarins
Fimmtudagur 10. júlí 2014
Í dag er annar dagurinn í fjögurra daga Laugavegsgöngu. Ég er fararstjóri í 16 manna hópi á vegum Ferðafélags Íslands. Eftir góðan nætursvefn í Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri var mál fyrir næsta áfanga. Frá því deginum áður hafði legið þykk þoka yfir svæðinu en upp úr kl 11 fór sólin að skína í gegn og um hádegi skein hún skært.
Þetta góða veður gerði það að verkum að við ákváðum að skipta hópnum í tvennt á göngu okkar yfir í næsta skála sem er við Álftavatn. Helmingur hópsins lagði á sig auka gönguferð í tæpa tvo klukkutíma til að ganga á hæsta tindinn á stóru svæði þarna í kring sem ber nafnið Háskerðingur (1.278 m) og liggur inn í Kaldaklofsjökli. Gangan er ekki löng frá hefðbundinni leið Laugavegsins en nokkuð brött. Þar sem sólin skein í heiði fengum við frábært útsýni af toppnum í allar áttir - alveg stórmagnað. Við vorum svo rétt kominn inn í næsta gististað okkar, skálann við Álftavatn, þegar byrjaði að rigna og hvessa hressilega. Allir voru þó ánægðir með daginn og flestir náðu sér í smá lit.
Mynd dagsins er tekin í Laugavegsgöngunni í dag þar sem við vorum að fara milli Hrafntinuskers og Álftavatns og fengum þetta glæsilega veður. Myndin sýnir vonandi hluta að litadýrðinni sem göngumenn upplifa á leiðinni ef verður er sæmilegt - hrikalega flottur dagur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.