Landmannalaugar - upphaf Laugavegarins!

Miðvikudagurinn 9. júlí 2014

Í dag er skemmtilegur dagur því í hádeginu í dag var ég kominn upp í Landmannalaugar ásamt vöskum hópi fólks. Næstu fjóra daga er ætlunin að ganga "Laugaveginn" margfræga, sennilega vinsælustu gönguleið landsins sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki að fara þessa leið í fyrsta skipti. Sjöunda árið í röð hef ég tekið að mér að fara sem fararstjóri með einn hóp þessa skemmtilegu leið fyrir Ferðafélag Íslands. Vegna forfalla á síðstustu stundu urðum við aðeins 16 í ferðinni en venjulega er hefur ferðin alltaf verið full - 20 manns ásamt fararstjórunum mér og Ingimar, tengdapabba.

Leiðin sem við förum er hefðbundin Laugavegsleið. Við erum fjóra daga á göngu og tökum svo fimmtadginn fyrir göngu inn í Þórsmörk þar sem ferðin endar og heimferð. Hópurinn fór með rútu að morgni úr Reykjavík og eftir stutt stopp í Landmannahelli vorum við komin í hádeginu í Landmannalaugar. Þar lentum við reyndar í smá ævintýri þar sem rútan okkar bilaði aðeins 4 km frá endastöðinni, en góðhjartaður rútubílstjóri sem var stattur í Landmannalaugum kom og sótti okkur þannig að engin röksun varð á ferðinni. Eftir gott stopp í Landmannalaugum þar sem sumir skelltu sér í sund var gengið yfir í Hrafntinnusker þar sem við vorum komin um kvöldmatarleitið eftir viðkomu á Brennisteinsöldu og fleiri skemmtilegum stöðum. Seinni hluta leiðarinnar gengum við hins vegar í blindaþoku þannig að þegar lokið var við snæða kvöldverð var slegið upp heljarinnar kvöldvöku í skálanum áður en gengið var til náða. Þar sem farangurinn okkar er fluttur milli skálanna (trússaður) þurfum við ekki að burðast með allt á bakinu og getum leyft okkur góðan viðgjörning í mat og drykk.

Landmannalaugar 

Mynd dagsins er tekin í Landmannalaugum í dag þar sem ég er að leggja af stað í göngu um Laugaveginn sem fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands, sjöunda árið í röð. Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt (bara ein ferð á ári) enda leiðin mjög fjölbreytt og falleg og gaman að kynnast nýju fólki. Ég valdi þessa mynd þar sem mér finnst alltaf jafn gaman að tjaldstæðinu í Landmannalaugum þar sem tjöldin eru á hrjóstrugum berangri og bera þarf grjót á tjöldin svo þau fjúki ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband