Happdrætti DAS 60 ára!

Fimmtudagurinn 3. júlí 2014

Í dag var ég viðstaddur skemmtilegan atburð en þá átti Happdrætti DAS 60 ára afmæli. Í tilefni dagsins var sérstakur hátíðarútdráttur þar sem meðal annars var skýrskotað var til sögunnar og dreginn út heil íbúð í vinning að verðmæti 30 milljónir.

Happdrætti DAS var stofnað fyrir 60 árum og var tilgangurinn þá (og er enn í dag) að afla fjár til uppbyggingar Hrafnistuheimilanna, þar sem ég einmitt starfa. Fleiri öldrunarheimili hafa einnig notið góðs af, því um áratugaskeið fór hluti hagnaðarins í Byggingarsjóð aldraðra sem notaður var til að byggja upp dvalarheimili um allt land. Skemmtileg sérstaða happdrættisins eru bíla- og íbúðavinningar sem fylgt hafa happdrættinu öll þessi ár þó í dag séu nær allir vinningar beinharðir peningar.

Fyrsti útdráttur Happdrættisins fór fram 3. júlí 1954. Þá voru í vinning sex bifreiðar af þeim níu sem flytja mátti inn til landins á þessum skömmtunartímum sem þá ríktu hér á landi. Síðar voru íbúðir í vinning, einbýlishús, ýmis húsbúnaður og margt fleira. Á þessu afmælisári eru þrjár íbúðir í aðalvinning að upphæð 30 milljónir hver. Reyndar er rétt að geta þess að vinningshafinn getur alltaf fengið peninginn frekar, kjósi hann svo.

Á þessum 60 árum sem Happdrætti DAS hefur starfað, hefur það greitt um 4 milljarða króna í uppbyggingu öldrunarheimilia á Íslandi. Auk þess hafa um 15 milljarðar verið greiddir út í vinninga á sama tíma. Ekki amarlegt framlag til samfélagsins sem kemur frá Happdrætti DAS!

happdrætti DAS

Mynd dagsins er tekin við 60 ára afmælisútdrátt í Happdrætti DAS nú seinni partinn í dag. Þar fékk ég að vera viðstaddur þegar dregið var. Þetta er allt samkvæmt kúnstarinnar reglum og tveir fulltrúar ríkisins stýra athöfninni þannig að allt sé löglegt og engin brögð séu í tafli. Ég fékk að aðstoða aðeins með því að snúa forláta tæki sem dregur tölur, sem síðan eru slegnar inn í tölvu sem á handhófskenndan hátt velur svo öll vinningsnúmerin. Með mér á myndinni eru Guðmundur Hallvarðsson stjórnarformaður Happdrættis DAS, Sigurður Ágúst Sigurðsson forstjóri Happdrættisins og tveir eftirlitsmenn auk starfsfólks frá Happdrættinu. Það var mjög gaman að fá að vera viðstaddur þennan sögulega útdrátt en kannski það leiðinlegasta var að 30 milljón króna íbúðavinningurinn kom á miða þar sem miðaeigandinn hafði ekki endurnýjað miðan sinn þessi mánaðrmótin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband